29. fundur 15. september 2021 kl. 16:30 - 18:30 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Sigurrós Sandra Bergvinsdóttir (SSB) formaður
  • Ólöf Guðrún Guðmundsdóttir (ÓGG)
  • Guðmundur Pálsson (GP)
  • Sigurborg Knarran Ólafsdóttir (SKÓ)
  • Linda María Nielsen (LMN)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Þuríður Gía Jóhannesdóttir (ÞGJ) starfsmaður
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir, Þuríður Gía Jóhannesdóttir
Dagskrá
Fundurinn hófst með skoðunarferð nefndarinnar og starfsmanna í samkomuhúsið og í Sögumiðstöðina.

Undir lið 3 bauð varaformaður nefndarmenn velkomna á fundinn, Guðmund Pálsson sem situr fyrsta fund sem aðalmaður og Lindu Maríu Nielsen sem er varamaður og situr sinn fyrsta fund sem slík.

1.Samkomuhúsið - vatnstjón og endurbætur

Málsnúmer 2109011Vakta málsnúmer

Nefndin fór í samkomuhúsið og skoðaði aðstæður, en vatnstjón varð í húsinu þann 21. júlí sl.
Samkomuhúsið er skilgreint sem menningarhús og starfsemi þess heyrir undir menningarmál, skv. skipuriti bæjarins. Viðhald húss og aðstaða heyrir undir eignaumsjón, en nefndin fylgist með því að starfsemi á hennar sviði hafi fullnægjandi aðstöðu.

Þann 21. júlí sl. varð slæmt vatnstjón í samkomuhúsinu, þegar vatn flæddi úr slöngu frá uppþvottavél úr eldhúsi og yfir báða salina, þann efri sem er teppalagður og þann neðri sem er parketlagður.

Bæjarstjóri fór yfir þær framkvæmdir sem í gangi hafa verið og fyrirhugaðar eru, m.a. með hliðsjón af bótum sem tryggingafélag bæjarins greiðir.

Panta þurfti nýtt parket á neðri salinn og hefur það nú verið lagt á gólfið. Auk þess nýtti bærinn tækifærið og lagði parket á "Smuguna" og var gólfhæð jöfnuð þar á milli.

Lagt verður nýtt teppi á efri salinn, en viður í barborði og skápaeiningu í efri salnum var þurrkaður, strax eftir vatnslekann.

Einnig verður lagður nýr dúkur á eldhús og rýmið baksviðs (milli eldhúss og sviðs), auk þess sem bætur eru greiddar út á skemmd á sökklum og neðri hluta veggjar við WC baksviðs, á dyrakörmum o.fl.

Breyta þarf legu lagna og niðurfalls í eldhúsi.

Bæjarstjóri sagði að ákveðin tímamót væru nú með samkomuhúsið, þegar skipt verður um dúk á eldhúsi og rými baksviðs. Æskilegt er að gera frekari breytingar á uppröðun og skápum, bæði í eldhúsi og rýminu bakatil, fyrst verið er að hreyfa við með þessum endurbótum. Kallað hefur verið á slíkar breytingar, af ýmsum þeim sem nota samkomuhúsið reglulega.

Bæjarráð hefur rætt að freistandi sé að fara í meiri breytingar á eldhúsi og baksviðs, við þetta tækifæri. Hinsvegar eru ekki fjármunir á áætlun í æskilegar breytingar og tekjur bæjarins í ár gefa ekki tilefni til umframkeyrslu í framkvæmdum.

Húsið er gjarnan lánað undir starfsemi sem ekki greiðir fyrir notin, s.s. ýmis menningarstarfsemi, félagsstarf heimafélaga og starf góðgerðarsamtaka.

Menningarnefnd hvetur til þess að skoðað verði hvort félagasamtök eða einstaklingar vilji aðstoða við þægileg, afmörkuð verkefni sem tengjast breytingum vegna þessa óvænta tjóns. Þannig er líklegra að hægt sé að gera meira núna og að húsið verði skemmtilegra og betra, fyrir alla sem það nota, eftir breytingar, og einnig má þannig forðast tvíverknað.

2.Sögumiðstöðin

Málsnúmer 1801048Vakta málsnúmer

Nefndin fór í Sögumiðstöðina og skoðaði framgang framkvæmda í leiðsögn Inga Hans Jónssonar, sem sér um breytingar á húsnæðinu.
Starf eldri borgara og félagsstarf á vegum RKÍ o.fl. hefur nú fært starfsemi sína í Sögumiðstöðina.

Farið var af stað með "hittinga" í sumar, "molakaffi að morgni" á miðvikudögum, einkum ætlað eldri íbúum.

Stólar í Bæringsstofu verða klæddir að nýju og smíðaðir nýir armar á stólana.
Málað verður og skipt um kastara í salnum.

Framkvæmdir við að útbúa salernisaðstöðu bakatil (við eldhús) eru í undirbúningi.

Framkvæmdir á "safnasvæði" eru svo áfangi sem næst verður farið í.

Rætt var um möguleika í rýminu og starfsemi í breyttu húsnæði.

Inga Hans var þakkað fyrir leiðsögnina.

Gestir

  • Ingi Hans Jónsson

3.Erindisbréf ásamt kosningu formanns, varaformanns og ritara

Málsnúmer 1806029Vakta málsnúmer

Fram fór kosning formanns í stað Eyglóar B. Jónsdóttur, sem er flutt úr sveitarfélaginu.

Lagt til að Sigurrós Sandra (Rósa) Bergvinsdóttir, varaformaður, verði formaður nefndarinnar.

Samþykkt samhljóða.

Nefndarmenn færa Eygló þakkir fyrir samstarfið á vettvangi nefndarinnar.

Nýr varaformaður verði kosinn í nefndinni á næsta fundi þegar bæjarstjórn hefur kosið nýjan aðalmann sem nú vantar í nefndina.

4.Rökkurdagar 2021

Málsnúmer 2109012Vakta málsnúmer

Menningarhátíðin Rökkurdagar 2021, undirbúningur.
Nefndin samþykkir að Rökkurdagar verði haldnir dagana 25. til 31. október 2021.

Farið var yfir dagskrá undanfarinna ára og farið yfir þá viðburði sem hafa verið vel heppnaðir.

Verið er að leggja drög að dagskrá og verður auglýst eftir tillögum íbúa á næstunni.

5.Ljósmyndasamkeppni 2021

Málsnúmer 2103026Vakta málsnúmer

Þema ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðarbæjar 2021 er litagleði, eins og ákveðið var á fundi nefndarinnar snemma á árinu.

Íbúar er hvattir til að taka þátt. Hvatning verður birt á bæjarvef á næstu dögum.

6.SSV - Kynningarfundur vegna skýrslu um samstarf safna á Vesturlandi

Málsnúmer 2107005Vakta málsnúmer

Lagðir fram minnispunktar af kynningarfundi í júní sl., teknir saman af Sunnu Njálsdóttur, forstöðumanni almenningsbókasafns.

7.SSV - Skýrsla um aukið samstarf safna á Vesturlandi

Málsnúmer 2109003Vakta málsnúmer

Skýrsla um aukna samvinnu safna á Vesturlandi lögð fram til skoðunar og verður tekin til umræðu á næsta fundi nefndarinnar.
Lokið var við fundargerð eftir fund og rafræns samþykkis aflað frá nefndarmönnum.

Fundi slitið - kl. 18:30.