160. fundur 07. febrúar 2022 kl. 17:00 - 18:50 á fjarfundi
Nefndarmenn
  • Garðar Svansson (GS) formaður
  • Ragnar Smári Guðmundsson (RSG)
  • Loftur Árni Björgvinsson (LÁB)
  • Valdís Ásgeirsdóttir (VÁ)
  • Hólmfríður Hildimundardóttir (HH)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.
Fundurinn er fjarfundur og eru allir fundarmenn á Teams.
Hólmfríður var boðin velkomin á sinn fyrsta skólanefndarfund á kjörtímabilinu.

Ragnar Smári Guðmundsson var kjörinn varaformaður nefndarinnar í stað Freydísar Bjarnadóttur, sem situr ekki lengur í nefndinni.
Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri grunnskólans sat fundinn undir fyrstu þremur liðum dagskrárinnar. Einnig Halla Karen Gunnarsdóttir fulltrúi úr Foreldrafélagi grunnskólans.

1.Málefni grunnskólans

Málsnúmer 1808034Vakta málsnúmer

Sigurður Gísli fór yfir skólastarfið og helstu viðburði.
- Hann sagði frá samstarfi við Landvernd um Grænfánaverkefni grunnskólans, en þann 6. janúar sl. fékk skólinn viðurkenningu sem grænfánaskóli.
- Grænfánateymi skólans er m.a. skipað sjö nemendum og hafa þau látið til sín taka í vinnunni.
- Hafinn er undirbúningur fyrir næsta skólaár og eru starfsmannasamtöl í gangi.​
- Samræmd próf​ verða í mars nk.
- Skólinn leggur aukna áherslu á átthagafræði og að vinna með nærumhverfið. Kennsluefni SFS er m.a. notað og hefur verið unnið með umhverfi Íslandsmiða​.
- Stærsta verkefni skólans hefur verið Erasmus-verkefni sem lýkur í vor​. Það er Evrópuverkefni, þar sem unnið er með fjórum öðrum löndum, þ.e. Spáni, Írlandi, Póllandi og Noregi. Í nóvember sl. fóru fulltrúar skólans til Póllands og í mars nk. er von á gestum frá hinum löndunum í heimsókn til okkar. Verkefnið snýst um sjálfbærni og hefur nýst vel inní fjölbreytt skólastarf grunnskólans. Nemendur í 2.-7. bekk eru þátttakendur, en unglingastigið mun taka þátt á næstunni.
- Skólinn varð 60 ára 6. janúar sl. Stefnt er að því að halda afmælishátíð í vor. Gunnar Kristjánsson er að taka saman söguefni um skólann, viðbót við samantekt sem hann gerði þegar skólinn varð 40 ára.
- Vinnueftirlitið hefur óskað eftir fundi/úttekt, en unnið er að áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. ​Einnig hjá leikskólanum.
- Sjálfsmat (innra mat) grunnskólans kemur út á vef skólans fljótlega, en það er tilbúið til yfirlestrar og verður sent menntamálaráðuneytinu. Nýjungar í matinu eru kaflar um niðurstöður lesfimiprófa​, verkefnisins milli mála​, samræmdra prófa​ og hvar við stöndum í vinnu eftir eineltisáætlun. Stutt úrbótaáætlun fylgir innra matinu.​
Skólastjóri hvetur skólanefndarfulltrúa til að skoða sjálfsmatið vel.
- Skólastjóri sagði frá breytingum í hópi starfsfólks í vetur.

- Covid; Mat skólastjóra er að heilt yfir séu íbúar ábyrgir, fari að fyrirmælum og gæti sóttvarna. Nokkur smit hafa komið upp í skólanum, meðal starfsfólks og nemenda, einkum í nóvember sl. og nú eftir jólafrí. ​Þreytu sé farið að gæta í starfsmannahópnum og hjá stjórnendum.
- Nú er búið að einfalda mikið og stytta sóttkví.​
- Í skólanum er sjaldan farið upp fyrir 50 manna fjöldatakmarkanir, nema á matmálstíma. Með síðustu afléttingum taldist mötuneyti undir sameiginleg rými, þar sem ekki þurfti lengur að viðhafa fjöldamörk og einfaldaði það framkvæmd matmálstíma, að mati skólastjóra.​
- Eins metra regla er tryggð (í öllum nema yngstu bekkjum) í skólahúsnæðinu.

Skólastjóri og bæjarstjóri fóru yfir helstu framkvæmdir og viðhaldsverk, í húsnæði grunnskólans og lóð:

- Á síðasta hausti var farið í miklar umbætur eftir vatnstjón sem varð í hluta skólahúsnæðis. Skipt var um gólfdúk á stórum hluta, neðri hluti veggja voru endurnýjaðir þar sem bleyta hafði legið, málað, skipt um karma og fleira.
- Múrviðgerðir voru unnar utanhúss. Á komandi sumri verður málað utanhúss, í framhaldi af þeim viðgerðum.
- Skipt verður um glugga í hluta skólahúsnæðis - gluggaskipti eru hafin.
- Flekaveggur (veggeiningar) verða settar upp í hornstofunni niðri á næstu vikum, skv. pöntun í nóvember sl.
- Endurbættar verða vatnslagnir sem farnar eru að rýrna.
- Skipt verður um þak á tengibyggingu yfir í íþróttahús og gengið frá umbúnaði við neyðarútgang sem liggur úr grunnskóla og út á það þak.
- Skipt verður um stóran glugga sem snýr til norðurs.
- Gerðar verða umbætur í anddyrinu niðri (nyrðri endi).
- Auk þess eru fjármunir til að kaupa tvenn bekkjarsett (stólar og borð).

- Bæjarstjórn hefur skipað starfshóp sem á að fjalla um grunnskólalóðina, sbr. tillögu skólanefndar og umfjöllun í bæjarráði. Í hópnum verða formaður bæjarráðs og einn fulltrúi skólanefndar, ásamt skólastjóra grunnskólans, fulltrúa foreldra og fulltrúa nemenda skólans. Skólastjóri verður formaður hópsins. Skoða á hönnun skólalóðar og gera áætlun um umbætur og lagfæringar, með tillögu að forgangsröðun.

Skólanefnd samþykkti rafrænt á milli funda að Garðar formaður yrði fulltrúi í hópnum. Er það staðfest af nefndinni hér með.

2.Málefni leikskóladeildarinnar Eldhamra

Málsnúmer 1808036Vakta málsnúmer

Sigurður Gísli fór yfir starfsemi Eldhamra.
Hann sagði frá breytingum á starfsmannahaldi og að nemendur Eldhamra séu einnig þátttakendur í Erasmus-verkefninu.

3.Málefni tónlistarskólans

Málsnúmer 1808035Vakta málsnúmer

Sigurður Gísli fór yfir starfsemi tónlistarskólans.
- Í tónlistarskólanum eru nú 46 nemendur​.
- Starfsmannabreytingar urðu um áramótin, en Valbjörn Snær Lilliendahl var ráðinn í 60% starf gítarkennara. Hann tók við af Bent Marinóssyni og eru honum færðar þakkir fyrir samstarf síðustu ára.
- Vatnstjón varð í tónlistarskóla (og húsnæði þar sem líkamsræktin er) í miklu vatnsveðri þann 17. janúar sl. Lagnir láku og rífa þurfti parket af geymslu og rými í tónlistarskóla.
- Af framkvæmdum ársins er helst að nefna, að skipt verður um og sett eldvarnahurð á milli tónlistarskóla og rýmisins þar sem líkamsræktin er.
- Gjaldfrjálst blásarafornám fyrir nemendur í 2. - 4. bekk​:
Átakið er í gangi á vorönninni. Tilgangurinn er að fjölga nemendum á blásturshljóðfæri og eru undirtektir góðar, því 13 börn eru skráð í dag.
- Við áttum til hljóðfæri sem ekki voru í notkun og kennarar áttu lausan tíma, svo enginn aukakostnaður fylgir.
- Nemendum í 2.-4. bekk grunnskóla er kennt á tré- og málmblásturshljóðfæri í 20 mínútna einkatíma í hverri viku. Þá er einnig hóptími einu sinni í viku í 30 mínútur í senn. Í einkatímanum eru kenndar nótur og grunnatriði á það hljóðfæri sem barnið lærir.
- Nemendur hafa ekki val um hljóðfæri en reynt er að velja vini saman í hljóðfærahópa.
- Nemendur sem taka þátt í blásarafornámi geta valið sér hljóðfæri að eigin vali eftir að blásarafornámi lýkur.

Hér véku Sigurður Gísli og Halla Karen af fundi og var þeim þökkuð koman.

4.Heildarstefna fyrir Grundarfjarðarbæ

Málsnúmer 1903009Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn hefur óskar eftir yfirferð nefndarinnar og sérstaklega þá á framkvæmdaratriðum - þ.e. verkefnum, til að fylgja eftir áherslum.
Fulltrúar fastanefnda bæjarins tóku þátt í mótun heildarstefnu 2019-2020. Vinnan var sett til hliðar tímabundið, en nú hefur stýrihópur afgreitt stefnudrög frá sér.

Bæjarstjórn hefur óskað eftir því að fastanefndir veiti umsögn um drögin, um þau atriði sem snúa að málefnasviði hverrar nefndar. Einkum er óskað eftir tillögum um raunhæf verkefni eða aðgerðir til að vinna að þeim áherslum sem skilgreindar hafa verið í stefnunni.

Bæjarstjóri fór yfir gögnin og vinnu að stefnunni. Rætt var um helstu atriði sem snúa að skólastarfi og samfélagi. Nefndin gerir ekki sérstakar viðbætur við það sem komið er, en mun taka þátt í að útfæra einstök atriði þegar að því kemur.

5.Samþykkt um stjórn Grundarfjarðarbæjar og erindisbréf nefnda

Málsnúmer 2201015Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn hefur óskað eftir því að nefndir bæjarins yfirfari erindisbréf sín og geri tillögu um breytingar ef með þarf.

Nefndir eiga m.a. að hafa hliðsjón af nýjum verkefnum sem þeim hefur verið falið að annast, breytingu á starfsfólki nefnda og nýjum lagaákvæðum eftir atvikum o.fl.
Skólanefnd fór yfir erindisbréf sitt en telur ekki að gera þurfi sérstakar breytingar á því.

6.Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga - Fundargerðir 113. og 114. funda stjórnar

Málsnúmer 2106018Vakta málsnúmer

Fundargerðirnar voru lagðar fram til kynningar.
Rætt var um bréf skólastjórnenda til Félags- og skólaþjónustunnar (FSS) um þjónustu við skóla.
Fyrirhugaður er fundur skólastjórnenda og FSS um samstarf og þjónustu.

7.Samband íslenskra sveitarfélaga - Opnun umsókna í Endurmenntunarsjóð grunnskóla 2022

Málsnúmer 2201037Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Endurmenntunarsjóði grunnskóla þar sem vakin er athygli á því að opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki vegna endurmenntunarverkefna sem koma til framkvæmda á skólaárinu 2022-2023. Frestur er til 1. mars nk. að sækja um.Lokið var við fundargerð eftir fund og rafræns samþykkis aflað frá nefndarmönnum.

Fundi slitið - kl. 18:50.