Málsnúmer 1808034

Vakta málsnúmer

Skólanefnd - 144. fundur - 11.09.2018

Á fundinn mættu Sigurður Gísli Guðjónsson, skólastjóri og Anna Kristín Magnúsdóttir, fulltrúi kennara. Formaður bauð þau velkomin.
Skólastjóri óskaði nýrri nefnd velfarnaðar í starfi sínu og sagðist hlakka til samstarfsins.
Skólastjóri fór yfir skýrslu sína um skólastarf grunnskóla. Í grunnskólanum eru 97 nemendur í upphafi skólaárs. Sigurður Gísli sagði frá nýjum kjarasamningum sem breyttu vinnutímaskilgreiningu kennara, frá breytingum sem gerðar voru innanhúss fyrir unglingastigið þar sem búin var til ein stofa úr tveimur. Hann minntist á ný persónuverndarlög sem taka þarf tillit til í skólastarfinu.
Sigurður fór yfir gögn sem fyrir lágu; umbótaáætlun vegna ytra mats, vinnuskipan 2018-2019 og dagskipulag fyrir 2018-2019.

Anna Kristín vék af fundi í lok þessa liðar.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri Grunnskólans
  • Anna Kristín Magnúsdóttir fulltrúi kennara

Skólanefnd - 146. fundur - 04.02.2019

Fyrir fundinum lágu gögn frá skólastjóra grunnskólans.

Rætt um ýmis mál, m.a. út frá upplýsingum skólastjóra.

Skólanefnd - 147. fundur - 18.03.2019

Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri grunnskólans sat fundinn undir þessum lið. Auk hans sat fundinn Anna Kristín Magnúsdóttir fulltrúi kennara.
Skólastjóri gerði grein fyrir málefnum grunnskólans. Hann fór yfir niðurstöður úr Skólapúlsinum, könnun sem gerð er tvisvar á ári meðal nemenda og einu sinni á ári meðal foreldra og starfsfólks grunnskóla. Könnunin er hluti af innra mati grunnskólans og endurspeglar sýn svarenda á ýmsa þætti í skólastarfinu, s.s. virkni nemenda í skólanum, líðan og heilsu (í og utan skóla), skóla- og bekkjaranda, heimastuðning, foreldrasamstarf, aðstöðu og þjónustu og opin svör.

Nefndin telur æskilegt að íþrótta- og æskulýðsnefnd skoði þá þætti í könnuninni sem snúa að hreyfingu og heilsu.

Rætt var um ýmis atriði sem fram koma í könnuninni. Auk þess rætt um málefni og aðstöðu heilsdagsskóla.

Rætt var um reglur Grundarfjarðarbæjar um námsleyfi (grunnnám), sbr. lið nr. 4 á dagskránni, en skólanefnd hefur verið falið að gera tillögu að endurskoðun reglnanna. Grunnskólinn er með sérstakar reglur um stuðning við kennara í framhaldsnámi. Nefndin mun taka þær reglur og sameina við reglurnar um námsleyfi.

Skólanefnd - 148. fundur - 13.05.2019

Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri grunnskóla og Anna Kristín Magnúsdóttir sátu fundinn undir þessum lið.

Skólastjóri gerði grein fyrir starfseminni.
- Rætt var um fyrirliggjandi drög að skóladagatali grunnskóla, sem er í vinnslu.
- Guðmundur Björgvin Sigurbjörnsson aðstoðarskólastjóri verður í námsleyfi á næsta skólaári. Anna Kristín Magnúsdóttir verður aðstoðarskólastjóri í fjarveru hans.
- Rætt um viðgerðir á skólahúsnæði, sem fyrirhugaðar eru á árinu.
- Rætt um heilsueflandi skóla.
- Skólastjóri velti upp hugmynd um lausn á húsnæðisþörf heilsdagsskóla. Til frekari skoðunar.

Skólanefnd - 149. fundur - 29.05.2019

Lagt var fram endurskoðað skóladagatal grunnskólans, í framhaldi af umræðu síðasta fundar.
Skóladagatal 2019-2020 samþykkt samhljóða.


Skólanefnd - 150. fundur - 09.10.2019

Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri grunn- og tónlistarskóla var mættur á fundinn.
Í upphafi skólaárs voru 93 nemendur skráðir í Grunnskóla Grundarfjarðar.
Starfið hefur farið vel af stað í haust. Skólinn tók þátt í fjölmenningarverkefni með Snæfellsbæ og fyrirhugað er opið hús í næstu viku.
Skólinn hefur verið að festa teymiskennslu í sessi eins og kostur er. Yngsta stig er fremur fjölmennt en færri á mið- og unglingastigi og tekur teymiskennslan mið af því. Nýlega fékk skólinn Erasmus-plús styrk, unnið í samvinnu við fjögur lönd. Verkefnið fjallar um sjávarbyggðir á mismunandi stöðum og þau lönd sem taka þátt í verkefninu eru Pólland, Noregur, Spánn og Írland.
Í smíðastofunni er nú komin upp aðstaða fyrir snillismiðju. Til að byrja með verða nemendur á miðstigi með fasta tíma þar en stefnt er að því að flestir ef ekki allir muni fá afnot af stofunni.
Skólinn mun halda áfram samstarfi við aðra skóla á Snæfellsnesi um ýmsa viðburði. Má þar nefna List fyrir alla, fyrirlestra, skákkennslu og fleira. Einnig munu nemendur heimsækja tæknimessu á Akranesi.

Unnið var að viðhaldi í sumar, m.a. múrverk við glugga og endurbætur á þakkanti, málaðar stofur uppi, skipt um lausafög og komist var fyrir leka í gluggum þar sem slíkt var vandamál, skipt var um glugga í elsta hluta skólans (Eldhamradeild) og til stendur að klæða þann vegg, sem snýr út í sundlaugargarð. Verulegar endurbætur voru gerðar á verknámshúsi og gert við þak þess, veggur fjarlægður og skipt um gólfefni að hluta. Nú standa yfir múrviðgerðir utandyra og fleira.

Bæjarstjóri sagði frá framkvæmdum sem eru farnar af stað við að bæta aðstöðu fyrir gangandi umferð í nágrenni grunnskólans. Göngustígur verður lagður í gegnum Paimpol-garð, með gúmmígrindum sem undirlag, auk þess sem verið er að bæta umhverfi við gangbraut á Borgarbraut.

Skólanefnd - 152. fundur - 09.01.2020

Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri grunnskólans sat fundinn undir þessum lið.
Fulltrúi kennara hafði boðað forföll.

Sigurður fór yfir fyrirliggjandi gögn sem send höfðu verið nefndarfólki.

Eftirfarandi kom m.a. fram:

Innra mat á skólastarfi:

Innra mat er liður í lögbundnu eftirlitsstarfi skóla og skólayfirvalda sem hefur þann tilgang að tryggja réttindi nemenda og stuðla að skólaumbótum. Skólinn sjálfur sér um innra mat, en á nokkurra ára fresti lætur menntamálaráðuneytið fara fram ytra mat á skólastarfinu.
Markmið innra mats og eftirlits er einkum þríþætt. Í fyrsta lagi að fylgjast með að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskráa. Í öðru lagi að auka gæði skólastarfsins og stuðla að umbótum, tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum. Í þriðja lagi að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.

Innra mat byggir m.a. á viðhorfskönnunum nemenda, kennara og foreldra, t.d. gegnum Skólapúlsinn og smærri kannanir, foreldaviðtöl, starfsmannaviðtöl og nemendaviðtöl, sem eru nýtt til innra mats eins og kostur er hverju sinni.
Sigurður fór yfir niðurstöður úr Skólapúlsinum, könnun meðal nemenda sem gerð var síðasta haust. Niðurstöður verða kynntar á vef skólans, auk þess sem þær eru nýttar við þróun og umbætur í skólastarfi.

Úttekt ytra mats grunnskólans lauk 2019 og fengu bæjarstjóri, skólaráð og skólinn staðfestingu þess efnis.


Almennt um skólastarfið

Skólastarf hefur gengið vel undanfarið.
Unnið hefur verið að endurskoðun á vinnureglum um Mentor og er litið til annarra sveitarfélaga í þeirri vinnu, m.a. vegna persónuverndarlöggjafar.

Í nóvember fór skólastjóri ásamt tveimur kennurum í skólaheimsókn til Kinvara á Írlandi. Er þetta þáttur í KA2 Erasmus verkefni sem skólinn tekur þátt í með skólum á Írlandi, Spáni, Póllandi og Noregi. Heimsóttir voru nokkrir skólar og unnið að verkefnum er snúa að sjálfbærni. Í mars er stefnan tekin á Spán og í tökum við á móti kennurum frá þátttökulöndunum. Mikil vinna fer í þetta verkefni, nemendur vinna verkefni og deila með nemendum frá hinum þátttökulöndunum.

Haldið var Menningarmót þann 18. október sl. undir handleiðslu Kristínar Vilhjálmsdóttur en Menningarmót er haldið til að vekja athygli á mismunandi menningu; matarmenningu, íþróttamenningu, trúarbrögðum o.s.frv. Mikil vinna var lögð í þetta verkefni og ljóst er að það er komið til að vera.

Forseti Íslands kom í opinbera heimsókn í lok október og skoðaði grunnskóla og Eldhamra, en nemendur sýndu honum í máli og myndum afrakstur Menningarmótsins, skólann sinn og fleira.

Einn kennari hefur fengið vilyrði frá Námsleyfasjóði um launað námsleyfi fyrir komandi skólaár 2020-2021.

Bæjarstjóri og skólastjóri fóru yfir þær viðhaldsframkvæmdir sem fram fóru á síðasta ári og það sem fyrirhugað er á þessu ári.
Skólastjóri lýsti ánægju með framkvæmdirnar sem fram fóru á síðasta ári.

Skólanefnd - 153. fundur - 25.05.2020

Gestir fundarins undir þessum lið voru Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri og Karítas Eiðsdóttir sem fulltrúi kennara grunnskóla.

Fyrir fundinum lágu ýmis gögn frá skólastjóra, m.a. drög að skóladagatali komandi skólaárs.

Skólastjóri fór yfir skólastarfið síðustu mánuðina.
Anna Kristín Magnúsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarskólastjóri, en Guðmundur Björgvin Sigurbjörnsson mun láta af störfum í sumar.
Sigrún Hilmarsdóttir fer í námsleyfi á komandi vetri.
Gréta Sigurðardóttir kennaranemi er ráðin í kennslu á komandi vetri.

Starfsmannakönnun var gerð á vorönn og kemur vel út í heildina. Skólastjóri fór yfir úrvinnslu úr henni og það sem gefur tilefni til úrbóta.

Bæjarstjóri og skólastjóri fóru yfir þær verklegu framkvæmdir sem eru á dagskrá þessa árs, í grunnskólanum. Gert verður við leka í norðausturhornstofu og stofan nýtt undir starfsemi á komandi vetri. Ennfremur verður farið í múrviðgerðir, viðgerðir á gluggum, málun utanhúss og klæðningu á suðurvegg elsta grunnskólahúss.

Skóladagatal var afgreitt með fyrirvara, skv. beiðni skólastjóra.

Skólastjórnendum og starfsfólki var þakkað fyrir gott starf á krefjandi tímum á liðnum vetri. Þeim var jafnframt þökkuð koman.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson, skólastjóri
  • Karítas Eiðsdóttir, fulltrúi kennara

Skólanefnd - 154. fundur - 21.09.2020

Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri situr fundinn undir þessum lið í fjarfundi og gerir grein fyrir starfseminni.
Eydís Lúðvíksdóttir er nýr fulltrúi kennara og situr fundinn undir þessum lið í fjarfundi.

Skólastjóri mun auglýsa eftir fulltrúum foreldra, sem vilja taka að sér að sitja skólanefndarfundi í samræmi við heimildir grunnskólalaga.

Skólastjóri fór yfir minnispunkta sína. Þar kom eftirfarandi fram:

Í Grunnskóla Grundarfjarðar voru innritaðir 104 nemendur á skólasetningu. Kennarar og stjórnendur eru 15 í 14,3 stöðuhlutfalli.
Aðrir starfsmenn eru 8 í 6,08 stöðugildum. Hluti þeirra starfsmanna starfa einnig á Eldhömrum við þrif og afleysingar. Hluti þessara starfsmanna er jafnframt í afleysingum á Eldhömrum en einnig eru kallaðir út starfsmenn ef þarf.
Inn í þessari tölu eru einnig starfsmenn Heilsdagsskóla sem er lengd viðvera fimm daga vikunnar.

Við skólann í vetur verða fjórir leiðbeinendur. Allir eru þeir langt komnir með að klára kennsluréttindi.
Einn nemandi/ leiðbeinandi er ráðinn eftir nýjum lögum og klárar sitt síðasta ár sem kennari við Grunnskóla Grundarfjarðar undir handleiðslu kennara.

Teymiskennsla verður áfram mikil en skólinn samanstendur af fjölmennu yngsta stigi og fámennu mið- og unglingastigi.
Skólinn er í Erasmus verkefni en það hefur verið sett á ís í eitt ár vegna erfiðleika með ferðalög. Eins og staðan er núna eru mjög erfiðar takmarkanir í þeim löndum sem við vinnum með eins og t.d í Baskalandi.

Í smíðastofunni er glæsileg aðstaða fyrir snillivinnu og er það opinbert markmið skólans að nýta þá flottu stofu sem mest.

Áfram mun skólinn í samstarfi við hina skólana (og fleiri) á Snæfellsnesi fá gesti til að auka þekkingu nemenda. Skólinn fékk styrk til að styðja við forritunarkennslu frá Forriturum framtíðarinnar.

Í ár verður sérstakur dagur á dagatali sem tileinkaður er gróðursetningu en áherslur skólans þennan veturinn verða heilsuefling, grænfáni og fjölbreyttar kennsluaðferðir í stærðfræði.

Stærðfræðikennarar á yngsta- og miðstigi munu í vetur sækja námskeiðið Stærðfræðileiðtoginn - lærdómssamfélag, sem kennt er á vegum HÍ.

Útikennslunámskeiði, Stærðfræði undir berum himni, sem halda átti sameiginlega á Snæfellsnesi nú í haust var frestað vegna aðstæðna í þjóðfélaginu er verður vonandi síðar á árinu.

Skólinn fékk styrk til námskeiðs í útikennslu og mun fá leiðbeinanda til að halda námskeið á vorönn.

Í Grundarfirði er núna verið að taka upp sjónvarpsþætti og verður skólinn einn af tökustöðum innan sem utan.

Viðhaldsframkvæmdir voru miklar í sumar. Farið var í glugga og efri hæð skólans ásamt kennaraaðstöðu var máluð. Múrviðgerðir utanhúss og steiningu austan megin, ásamt því að gera upp hornstofuna NA-megin, sem nú er nýtt fyrir heilsdagsskólann. Á döfinni er að ljúka klæðningu suðurhliðar á elsta hluta skólans (Eldhamradeild).

---
Skólastjóri óskar eftir breytingu á skóladagatali grunnskóla, þannig að starfsdegi 4. janúar verði breytt í kennsludag og sá starfsdagur færist til föstudagsins 22.janúar, til að samræma starfsdaga með Eldhömrum og Sólvöllum. Sjá meðf. skóladagatöl fyrir og eftir.

Samþykkt samhljóða.

---

Gestir

  • Eydís Lúðvíksdóttir ftr. kennara
  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri

Skólanefnd - 156. fundur - 19.04.2021

Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri og Eydís Lúðvíksdóttir fulltrúi kennara sátu fundinn undir þessum lið.
Sigurður fór yfir starfsemi grunnskólans.
Skólastjóri sagði meðal annars frá eftirfarandi:

* Árshátíð grunnskólans var haldin 24. mars sl., sama dag og "generalprufa". Árshátíðin var tekin upp og birt á vef skólans, þar sem ekki mátti halda hana þann dag sem til stóð, vegna samkomutakmarkana. * Grunnskólinn verður 60 ára í janúar á næsta ári. Skólinn mun minnast þeirra tímamóta og hefur hafið undirbúning að því.
* Skólasund hefst í næstu viku.
* Danskennsla verður í þar næstu viku, fyrir alla bekki grunnskólans og Eldhamradeildina.
* Grænfánaverkefni grunnskólans er komið aftur í gang og byggist á þemum sem skólinn vinnur að. Í vetur hefur verið unnið með hnattrænt jafnrétti og náttúruvernd, ásamt mörgu öðru. Á döfinni eru m.a. gróðursetning og hreinsunardagur.
* Heilsdagsskólinn er á nýju svæði, í hornstofunni nyrst á neðri hæð, sem og í náttúrufræðistofunni sem er samliggjandi. Gert var við hornstofuna, skipt um það og hún tekin í gegn á síðasta ári. Starfsemin kemur vel út á nýja staðnum.
* Útskrift 10. bekkinga og skólalok grunnskóla verða 3. júní nk.
* Undirbúningur er hafinn fyrir komandi skólaár. Starfsmannaviðtöl eru að klárast núna, þau eru árleg. Í framhaldi af þeim verður unnið skipulag komandi skólaárs.
* Auglýst hefur verið eftir deildarstjóra/kennara í grunnskóla, í stað Maríu Óskar, sem hættir í vor.
* Starfsmannakönnun Grundarfjarðarbæjar var gerð seint á síðasta ári og kom vel út. Niðurstöður lágu fyrir í janúar sl. og starfsmenn skólans hafa í framhaldi af því unnið tillögur að reglubundnum umbótaverkefnum, í nokkrum hópum.
* Sameiginlegur starfsdagur verður fyrir kennara, stuðningsfulltrúa, skólaliða og annað starfsfólk grunnskóla á Snæfellsnesi, 18. ágúst nk. Yfirskrift dagsins er "Nám við hæfi! Getum við gert enn betur?" og er skipulagt af Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, með sex erindum og vinnustofum.

Rætt var um Mentor-kerfið og virkni þess.

Farið var yfir drög skólastjóra að skóladagatali skólaársins 2021-2022, sem lá fyrir fundinum.
Skóladagar nemenda skulu vera 180 á tímabilinu 20. ágúst til 10. júní. Gert er ráð fyrir skólasetningu mánudaginn 23. ágúst nk. og skólaslitum fimmtudaginn 2. júní 2022.
Gert er ráð fyrir 5 starfsdögum kennara á starfstíma nemenda og 8 starfsdögum utan starfstíma nemenda. Skólastjóri mun leggja skóladagatal undir skólaráð, lögum samkvæmt.
Skólanefnd samþykkir tillögu skólastjóra að skóladagatali.

Sigurður fór yfir niðurstöður úr foreldrakönnun sem gerð er annað hvert ár. Niðurstöðurnar koma mjög vel út í það heila og er það ánægjulegt. Ávallt er unnið með niðurstöðurnar og þær nýttar til reglubundinna umbóta.

Sigurði var þökkuð yfirferðin.
Hér vék Eydís af fundi og var henni þakkað fyrir komuna.

Gestir

  • Eydís Lúðvíksdóttir fulltrúi kennara - mæting: 16:15
  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri - mæting: 16:15

Skólanefnd - 158. fundur - 05.10.2021

Gestir fundarins undir þessum lið voru Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri og Eydís Lúðvíksdóttir fulltrúi kennara.

Skólastjóri fór yfir framlagða minnispunkta sína um skólastarfið. Eftirfarandi kom þar fram:

Í upphafi haustannar voru 94 nemendur skráðir grunnskólann. Síðasta vetur voru 104 nemendur. Kennarar og stjórnendur eru 15 talsins í 14,4 stöðugildum. Annað starfsfólk eru 7 í 6 stöðugildum. Hluti þeirra starfsmanna starfar einnig á leikskóladeildinni Eldhömrum við þrif. Inni í þessari tölu eru einnig starfsmenn heilsdagsskóla sem er lengd viðvera fyrir nemendur yngsta stigs fimm daga vikunnar.
Við skólann í vetur starfa þrír leiðbeinendur en allir stunda þeir nám.
Vinnuskylda er sú sama og í fyrra.
Teymiskennsla verður áfram mikil en í skólanum er yngsta stigið mjög fjölmennt á meðan mið- og unglingastig er frekar fámennt.

Sundkennslu er að ljúka í þessari viku og hefur gengið vel.

Skólinn tekur þátt í Erasmus verkefni en var sett á ís í eitt ár vegna erfiðleika með ferðalög af kunnum ástæðum. Því verkefni lýkur í vetur.

Í ár verður sérstakur dagur á dagatali tileinkaður gróðursetningu, en áherslur skólans þennan veturinn verða heilsuefling, Grænfáni og fjölbreyttar kennsluaðferðir í stærðfræði.

Skólinn fer í úttekt vegna Grænfánaverkefnis og getur þá flaggað Grænfána. Liður í því er að planta trjám. Í ár hafa nemendur skólans plantað tæplega 800 trjám á svæði sem skólinn hefur til gróðursetningar við tjaldsvæðið. Plönturnar fékk skólinn sem afrakstur af fræsöfnun birkifræja í fyrra.

Stærðfræðikennarar á yngsta- og miðstigi munu í vetur sækja námskeiðið "Stærðfræðileiðtoginn" lærdómssamfélag á vegum HÍ.

Grunnskóli Grundarfjarðar verður 60 ára þann 6. janúar nk. og verður haldið upp á það.

Bæjarstjóri og skólastjóri fóru yfir þær verklegu framkvæmdir sem fram hafa farið á árinu og sem nú eru í undirbúningi.

Viðhaldsframkvæmdir voru miklar í sumar. Unnið var við múrviðgerðir og beðið er eftir nýjum gluggum sem skipta á um á neðri hæð SA-hluta skólahúss. Kennaraaðstaða var máluð í sumar.
Vatnstjón varð í grunnskóla í júlí og hefur verið unnið að miklum endurbótum í kjölfar þess. Dúklagning á efri og neðri hæð er fyrirhuguð seinnipartinn í október í kringum vetrarfrí skólans.

Skólanefnd ræddi um skólalóðina og leggur til við bæjarstjórn að skipaður verði starfshópur til að gera áætlun um endurbætur og mögulega áfangaskiptingu vegna skólalóðar, svipað og gert var fyrir lóð leikskólans.


Skólanefnd - 159. fundur - 13.12.2021

Til stóð að skólanefnd færi í heimsókn í grunnskólann til að skoða framkvæmdir haustsins og aðstæður. Heimsókn er geymd, af sóttvarnarástæðum.



Bæjarstjóri sagði frá því sem til stendur að gera í tengslum við 60 ára afmæli Grunnskólans, þann 6. janúar 2022.

- Skólastjóri hefur upplýst að þann dag verði Grænfánaviðurkenning grunnskólans formlega samþykkt, eftir undirbúningsstarf sem staðið hefur yfir í haust.
- Öll önnin verður lögð undir þemavinnu tengdri afmæli skólans og viðburðum og öðru dreift yfir önnina.
- Gunnar Kristjánsson hefur tekið að sér að skrifa um sögu skólans, þ.e. 20 síðustu ár, til viðbótar við áður gerða samantekt sem hann vann þegar skólinn varð 40 ára árið 2002.
- Stefnt verður að afmælishátíð eða einhvers konar samkomu þegar aðstæður leyfa.

Skólanefnd - 160. fundur - 07.02.2022

Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri grunnskólans sat fundinn undir fyrstu þremur liðum dagskrárinnar. Einnig Halla Karen Gunnarsdóttir fulltrúi úr Foreldrafélagi grunnskólans.
Sigurður Gísli fór yfir skólastarfið og helstu viðburði.
- Hann sagði frá samstarfi við Landvernd um Grænfánaverkefni grunnskólans, en þann 6. janúar sl. fékk skólinn viðurkenningu sem grænfánaskóli.
- Grænfánateymi skólans er m.a. skipað sjö nemendum og hafa þau látið til sín taka í vinnunni.
- Hafinn er undirbúningur fyrir næsta skólaár og eru starfsmannasamtöl í gangi.​
- Samræmd próf​ verða í mars nk.
- Skólinn leggur aukna áherslu á átthagafræði og að vinna með nærumhverfið. Kennsluefni SFS er m.a. notað og hefur verið unnið með umhverfi Íslandsmiða​.
- Stærsta verkefni skólans hefur verið Erasmus-verkefni sem lýkur í vor​. Það er Evrópuverkefni, þar sem unnið er með fjórum öðrum löndum, þ.e. Spáni, Írlandi, Póllandi og Noregi. Í nóvember sl. fóru fulltrúar skólans til Póllands og í mars nk. er von á gestum frá hinum löndunum í heimsókn til okkar. Verkefnið snýst um sjálfbærni og hefur nýst vel inní fjölbreytt skólastarf grunnskólans. Nemendur í 2.-7. bekk eru þátttakendur, en unglingastigið mun taka þátt á næstunni.
- Skólinn varð 60 ára 6. janúar sl. Stefnt er að því að halda afmælishátíð í vor. Gunnar Kristjánsson er að taka saman söguefni um skólann, viðbót við samantekt sem hann gerði þegar skólinn varð 40 ára.
- Vinnueftirlitið hefur óskað eftir fundi/úttekt, en unnið er að áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. ​Einnig hjá leikskólanum.
- Sjálfsmat (innra mat) grunnskólans kemur út á vef skólans fljótlega, en það er tilbúið til yfirlestrar og verður sent menntamálaráðuneytinu. Nýjungar í matinu eru kaflar um niðurstöður lesfimiprófa​, verkefnisins milli mála​, samræmdra prófa​ og hvar við stöndum í vinnu eftir eineltisáætlun. Stutt úrbótaáætlun fylgir innra matinu.​
Skólastjóri hvetur skólanefndarfulltrúa til að skoða sjálfsmatið vel.
- Skólastjóri sagði frá breytingum í hópi starfsfólks í vetur.

- Covid; Mat skólastjóra er að heilt yfir séu íbúar ábyrgir, fari að fyrirmælum og gæti sóttvarna. Nokkur smit hafa komið upp í skólanum, meðal starfsfólks og nemenda, einkum í nóvember sl. og nú eftir jólafrí. ​Þreytu sé farið að gæta í starfsmannahópnum og hjá stjórnendum.
- Nú er búið að einfalda mikið og stytta sóttkví.​
- Í skólanum er sjaldan farið upp fyrir 50 manna fjöldatakmarkanir, nema á matmálstíma. Með síðustu afléttingum taldist mötuneyti undir sameiginleg rými, þar sem ekki þurfti lengur að viðhafa fjöldamörk og einfaldaði það framkvæmd matmálstíma, að mati skólastjóra.​
- Eins metra regla er tryggð (í öllum nema yngstu bekkjum) í skólahúsnæðinu.

Skólastjóri og bæjarstjóri fóru yfir helstu framkvæmdir og viðhaldsverk, í húsnæði grunnskólans og lóð:

- Á síðasta hausti var farið í miklar umbætur eftir vatnstjón sem varð í hluta skólahúsnæðis. Skipt var um gólfdúk á stórum hluta, neðri hluti veggja voru endurnýjaðir þar sem bleyta hafði legið, málað, skipt um karma og fleira.
- Múrviðgerðir voru unnar utanhúss. Á komandi sumri verður málað utanhúss, í framhaldi af þeim viðgerðum.
- Skipt verður um glugga í hluta skólahúsnæðis - gluggaskipti eru hafin.
- Flekaveggur (veggeiningar) verða settar upp í hornstofunni niðri á næstu vikum, skv. pöntun í nóvember sl.
- Endurbættar verða vatnslagnir sem farnar eru að rýrna.
- Skipt verður um þak á tengibyggingu yfir í íþróttahús og gengið frá umbúnaði við neyðarútgang sem liggur úr grunnskóla og út á það þak.
- Skipt verður um stóran glugga sem snýr til norðurs.
- Gerðar verða umbætur í anddyrinu niðri (nyrðri endi).
- Auk þess eru fjármunir til að kaupa tvenn bekkjarsett (stólar og borð).

- Bæjarstjórn hefur skipað starfshóp sem á að fjalla um grunnskólalóðina, sbr. tillögu skólanefndar og umfjöllun í bæjarráði. Í hópnum verða formaður bæjarráðs og einn fulltrúi skólanefndar, ásamt skólastjóra grunnskólans, fulltrúa foreldra og fulltrúa nemenda skólans. Skólastjóri verður formaður hópsins. Skoða á hönnun skólalóðar og gera áætlun um umbætur og lagfæringar, með tillögu að forgangsröðun.

Skólanefnd samþykkti rafrænt á milli funda að Garðar formaður yrði fulltrúi í hópnum. Er það staðfest af nefndinni hér með.

Skólanefnd - 162. fundur - 27.04.2022

Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri Grunnskóla sat fundinn undir þessum lið.
Sigurður lagði fram skóladagatal fyrir komandi skólaár. Rætt og samþykkt að ný skólanefnd afgreiði dagatalið endanlega á fyrsta fundi sínum.

Sigurður fór yfir starfsemi grunnskólans, m.a. ræddi hann starfsmannamál, um Grænfánaúttekt sem var flaggað með virktum þann 6. janúar sl. á afmæli skólans en hann varð 60 ára.

Nemendur náðu að gróðursetja 4-500 birkiplöntur, en Yrkjusjóður átti ekki plöntur fyrir vorið. Plöntur komi aftur í haust.

"Uppbyggingarstefnan" hefur legið niðri í ár, en vonir standa til að byrja upp á nýtt á næsta skólaári.

Hann sagði frá því að nefnd sem bæjarstjórn skipaði til að skoða stöðu og hönnun skólalóðar myndi funda nk. fimmtudag.

Nemendafjöldi í lok vorannar er 99 nemendur í 1. - 10. bekk.


Sigurður sýndi og sagði frá niðurstöðum starfsmannakönnunar (Skólapúlsinn) hjá starfsfólki grunnskólans.