182. fundur 16. júní 2025 kl. 16:30 - 18:00 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Loftur Árni Björgvinsson (LÁB) formaður
  • Hólmfríður Hildimundardóttir (HH)
  • Davíð Magnússon (DM)
  • Anna Rafnsdóttir (AR)
  • Guðbrandur Gunnar Garðarsson (GGG)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður setti fund, gengið var til dagskrár.

1.Málefni leikskólans

Málsnúmer 2207006Vakta málsnúmer

Lagðir fram minnispunktar leikskólastjóra fyrir fundinn.

Leikskólastjóri sagði frá starfinu.

Vinna er langt komin við nýja skólanámskrá og felast í henni spennandi breytingar og skýrari áherslur fyrir næsta skólaár.

Helstu áherslur eru m.a. "hæglátt skólastarf", áhersla á læsi og að auka ritmál í skólaumhverfinu, að vera öflugur útikennsluskóli með mikið starf utandyra, öðlast viðurkenningu sem Grænfánaskóli, halda áfram að vera heilsueflandi leikskóli, sérstök heilsustefna og að halda áfram að vinna með "Uppeldi til ábyrgðar".

Einkunnarorð leikskólans Sólvalla hafa verið uppfærð og rædd. Þau eru gleði, virðing, samvinna og náttúra. Þessi orð endurspeglast í starfinu á margvíslegan hátt.

Gæðaráð leikskólans hefur fundað reglulega í vetur og skýrsla um innra mat, fyrir skólaárið, er tilbúin. Á grunni innra mats er síðan útbúin "umbótaáætlun" sem segir í hvaða þáttum leikskólinn vilji sérstaklega vinna, til að gera enn betur.

Í leikskólanum Sólvöllum er unnið með hópstjóra á öllum deildum. Þá er barnahópnum skipt upp í hópa og hver hópstjóri tekur að sér einn barnahóp og ber ábyrgð á starfi hópsins í samvinnu við deildarstjóra. Sólvellir eru fámennur leikskóli og býður það, ásamt stærð húsnæðis, upp á marga möguleika. Þó börnunum sé skipt niður á deildir og í hópa þá er virkt samstarf á milli allra árganga.

Leikskólastjóri kynnti helstu niðurstöður kannana meðal foreldra og starfsfólks, hún fór yfir mönnun fyrir næsta skólaár, en enga starfsmenn vantar eins og staðan er núna. Slík staða getur þó breyst með litlum fyrirvara.

Sjö börn fara af Sólvöllum á fimm ára leikskóladeildina Eldhamra, í ágúst nk., og eitt mun bætast við og verða þau því átta á Eldhömrum. Eins og staðan er núna, þá verða 33 börn í Leikskólanum Sólvöllum í ágúst nk. og er gert ráð fyrir að fjögur 12 mánaða börn bætist við í kringum áramót, eða um 37 börn alls um nk. áramót.

Á næsta skólaári er stefnt að því að endurskoða fyrirkomulag sérkennslu og skoða verkferla enn betur, þegar nýr aðstoðarleikskólastjóri tekur til starfa að fullu. Hún mun m.a. fara á námskeið í TRAS, íslenska þroskalistanum og íslenska smábarnalistanum.

Samstarf við grunnskóla hefur aukist, sem er ánægjulegt.

Í minnispunktum leikskólastjóra er að finna frekari upplýsingar um starfið. Að auki segir í punktum leikskólastjóra:

"Að lokum langar mig að koma því á framfæri að með þeim breytingum sem hafa verið gerðar á leikskólastiginu undanfarið, hefur stöðugleiki aukist mjög mikið í leikskólanum og við náum að hafa starf sem við erum stolt af.
Helsta áskorun okkar núna er skólatungumálið okkar, að hér sér töluð íslenska. Í síðustu viku fóru starfsmenn sem hafa annað tungumál en íslensku sem móðurmál í stöðupróf hjá Símenntun Vesturlands og erum við að fara af stað í verkefni með þeim þar sem starfsfólk mun fá tækifæri til þess að æfa sig og læra íslensku."

Góðar umræður urðu um starfsemi leikskólans og þá góðu áfanga sem náðst hafa með stefnumörkun, vinnu með skólaráðgjöfum og markvissum aðgerðum um breytingar.

Skólanefnd lýsir ánægju með það sem áunnist hefur í starfsemi leikskólans og þakkar leikskólastjóra og starfsfólki fyrir góða vinnu, sem og fyrir góðar upplýsingar á þessum fundi.

Hér viku Heiðdís og Sigurborg af fundi.

Gestir

  • Heiðdís Lind Kristinsdóttir, skólastjóri Leikskólans Sólvalla - mæting: 16:30
  • Sigurborg Knarran Ólafsdóttir, fulltrúi kennara við Sólvelli - mæting: 16:30

2.Málefni grunnskólans

Málsnúmer 2207005Vakta málsnúmer

Lögð fram gögn og minnispunktar frá skólastjóra og aðstoðarskólastjóra vegna grunnskóla og Eldhamra;



- Starfsáætlun 2024-25, metin

- Skýrsla innra mats 2025

- Minnispunktar skólastjórnenda

Anna Kristín fór yfir gögnin og yfir starfsemi grunnskóla og leikskóladeildarinnar Eldhamra.

Rætt um gerð skólanámskrár, en leikskólinn Sólvellir og leikskóladeildin Eldhamrar hafa unnið saman að gerð skólanámskrár, með aðstoð Gunnþórs hjá Ásgarði, skólaráðgjöf.

Nemendafjöldi á Eldhömrum verður átta börn í haust.

Hér vék Anna Kristín af fundi og var henni þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar.

Gestir

  • Anna Kristín Magnúsdóttir, aðstoðarskólastjóri - mæting: 17:15

3.Málefni leikskóladeildarinnar Eldhamra

Málsnúmer 2207008Vakta málsnúmer

Sjá gögn og umræðu undir næsta lið á undan, málefni grunnskóla.

4.Málefni tónlistarskólans

Málsnúmer 2207007Vakta málsnúmer

Á síðasta fundi nefndarinnar var rætt um starf tónlistarskólans og eru því ekki sérstakir punktar á þessum fundi um skólann.
Bæjarstjóri sagði frá því að kennaraskipti yrðu í gítarkennslu á komandi skólaári og er það í vinnslu hjá Lindu Maríu, aðstoðarskólastjóra.
Gengið frá fundargerð að loknum fundi og rafræns samþykkis aflað frá fundarmönnum.

Fundi slitið - kl. 18:00.