Málsnúmer 1901030

Vakta málsnúmer

Hafnarstjórn - 3. fundur - 23.01.2019

Rætt var um opnun tilboða í sjófyllingu, fyrsta áfanga lengingar Norðurgarðs Grundarfjarðarhafnar, sem fram fór í gær, 22. janúar 2019.
Eitt tilboð barst, frá Björgun, og Vegagerðin yfirfer nú tilboðsgögn.
Málið kemur til afgreiðslu hjá hafnarstjórn þegar niðurstöður liggja fyrir.


Hafnarstjórn - 4. fundur - 28.02.2019

Fulltrúar í bæjarráði sitja fundinn undir þessum lið.
Til umræðu er staðan í hafnarframkvæmdum, en í janúar var boðinn út áfangi við dælingu efnis í púða undir lengingu Norðurgarðs. Eitt tilboð barst, frá Björgun ehf. Vegagerðin hefur fyrir hönd hafnarinnar átt í viðræðum við bjóðandann á grundvelli frávikstilboðs. Hafnarstjóri gerði grein fyrir stöðunni eftir samningaviðræður Vegagerðarinnar við Björgun.
Farið var yfir áætlun fyrir framkvæmdina í heild, sem lá fyrir við gerð fjárhagsáætlunar sl. haust. Jafnframt rætt um stöðu hafnarinnar.
Hafnarstjórn samþykkir samhljóða að samið verði á grundvelli fyrirliggjandi tilboðsskrár, sem hafnarstjóri kynnti og er í samræmi við fjárhagsáætlun ársins.

Gestir

  • Heiður Björk Fossberg Óladóttir formaður bæjarráðs - mæting: 16:15
  • Hinrik Konráðsson bæjarráðsfulltrúi - mæting: 16:15
  • Bjarni Sigurbjörnsson bæjarráðsfulltrúi - mæting: 16:15
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri - mæting: 16:15

Bæjarráð - 525. fundur - 28.02.2019

Farið yfir fyrirhugaðar hafnarframkvæmdir í framhaldi af fundi hafnarstjórnar, sem fundarmenn sátu á undan fundi bæjarráðs.

Hafnarstjórn bókaði eftirfarandi:
Til umræðu er staðan í hafnarframkvæmdum, en í janúar var boðinn út áfangi við dælingu efnis í púða undir lengingu Norðurgarðs. Eitt tilboð barst, frá Björgun ehf. Vegagerðin hefur fyrir hönd hafnarinnar átt í viðræðum við bjóðandann á grundvelli frávikstilboðs. Hafnarstjóri gerði grein fyrir stöðunni eftir samningaviðræður Vegagerðarinnar við Björgun. Farið var yfir áætlun fyrir framkvæmdina í heild, sem lá fyrir við gerð fjárhagsáætlunar sl. haust. Jafnframt rætt um stöðu hafnarinnar. Hafnarstjórn samþykkir samhljóða að samið verði á grundvelli fyrirliggjandi tilboðsskrár, sem hafnarstjóri kynnti og er í samræmi við fjárhagsáætlun ársins.

Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti að gengið verði til samninga við Björgun ehf. í samræmi við bókun fundar hafnarstjórnar.

Hafnarstjórn - 5. fundur - 24.05.2019

Staða hafnargerðar. Ýmislegt.
Staða hafnarframkvæmdar og næstu skref eru áætluð þessi:
Í lok maí verður stálþil boðið út og áætlað að í september verði það komið til landsins.
Í lok maí verða gerðar prufur á námasvæði í Lambakróarholti.
Í fyrstu viku ágúst verður dæling seinni áfanga fyllingar undir lengdan hafnargarð.

Hafnarstjórn - 6. fundur - 10.09.2019

Farið yfir stöðu hafnarframkvæmda.

Farið var yfir drög að útboðsgögnum um rekstur stálþils vegna lengingar Grundarfjarðarhafnar. Ætlunin er að útboð verði auglýst síðar í þessari viku.

Helstu verkþættir eru:
- Gerð á 90 m löngum bermugarði.
- Rekstur 122 stálþilsplatna, akkerisplötur steyptar, uppsetning staga og festinga.
- Jarðvinna aftan við stálþil.
- Kantbitar steyptir með pollum, uppsetning á stigum og fríholtum.

Einnig lagt fram til kynningar bréf sem sent var tilteknum húseigendum vegna efnisflutninga og fyrirhugaðra framkvæmda.

Hafnarstjórn samþykkir fyrirliggjandi útboðsgögn með ábendingum eftir yfirferð sína, og að útboð verði auglýst í kjölfarið.

Hafnarstjórn samþykkir jafnframt að fela Eflu, verkfræðistofu, að ljúka hönnun á þekju og rafmagni vegna lengingar Norðurgarðs.

Hafnarstjórn óskar eftir því að kostnaðaráætlun verði ekki lögð fram í tilboðsferlinu, fyrr en af hálfu Vegagerðarinnar við tilboðsopnunina sjálfa.

Ofangreindir liðir samþykktir samhljóða.

Hafnarstjórn - 9. fundur - 06.04.2020

Hafnarstjóri fór yfir stöðu framkvæmda og rætt var um næstu áfanga.

Framkvæmdir við lengingu Norðurgarðs; keyrsla á görðum hefur gengið mjög vel, en rekstur stálþils hefur gengið erfiðlega vegna óhagstæðs veðurfars síðustu vikurnar.

Framkvæmdir við gerð sjóvarnar á hafnarsvæði, austan við Nesveg, sem einnig er í gangi, hefur gengið vel.

Ofangreindir áfangar halda áfram, í samræmi við gerða verksamninga.
Næsti áfangi er þekja, lagnir og raforkuvirki á lengdum Norðurgarði; áætlaður tími útboðs er í maí nk.

Vegna eðlis hafnarframkvæmdanna er lítið svigrúm til að breyta verkhraða, m.t.t. tekna og ástands í samfélaginu, sbr. m.a. lið nr. 3 á dagskrá fundarins.

Hafnarstjórn - 10. fundur - 23.06.2020

Hafnarstjóri gerir grein fyrir stöðu verksins.
Hafnarstjóri fór yfir stöðu framkvæmda við lengingu Norðurgarðs.

Verkáfangi um rekstur stálþils og sjóvörn:
Keyrsla á görðum er nánast lokið, en niðurrekstur stálþils hefur gengið erfiðlega, m.a. vegna tíðarfars í vetur. Verkið er á eftir áætlun.

Dæluskip er væntanlegt í byrjun júlí, til að dýpka meðfram nýja hluta Norðurgarðs. Dýpkunarefninu verður dælt inní landfyllinguna austanvert við Nesveg. Sjá lið nr. 2 á dagskrá.

Næsti áfangi er "Norðurgarður; þekja, lagnir og raforkuvirki". Þann 26. maí sl. voru opnuð tilboð í útboði þess áfanga og átti Almenna umhverfisþjónustan ehf. lægsta tilboð, 83.990.350 kr. Hafnarstjórn hafði áður veitt hafnarstjóra umboð til að ganga til samninga við lægstbjóðanda, í samræmi við tillögu Vegagerðarinnar þar að lútandi, eftir yfirferð tilboða.

Helstu verkþættir felast í að steypa upp rafbúnaðarhús, stöpla undir ljósamöstur og brunna, að leggja ídráttarrör fyrir rafmagn og leggja vatnslögn, ennfremur jarðvegsvinna og steypt þekja, auk raforkuvirkis.

Þessi verkáfangi er háður framgangi stálþilsrekstursins og er áætlað að framkvæmdir við hann geti hafist í ágústmánuði nk.

Verkið er tvískipt, annarsvegar verkáfangi sem unninn verður fram á komandi haust, en síðari verkáfangi verður unninn vorið 2021 og er með verklok 1. júní 2021.


Hafnarstjórn - 12. fundur - 30.10.2020

Farið yfir stöðu hafnarframkvæmda.
Hafnarstjóri fór yfir stöðu hafnarframkvæmda.

Lenging Norðurgarðs;
Borgarverk hefur lokið vinnu við sína verkhluta, að öðru leyti en því að undirverktakar á þeirra vegum vinna nú að því að steypa kant, setja niður þybbur og stiga og keyra efni í hæð. Ætlunin er að þessu ljúki nú í nóvember.
Eftir er kafaravinna við að koma fyrir annóðum, til varnar tæringu stálþilsins.

Þekja, lagnir og raforkuvirki á Norðurgarði;
Búið er að taka grunn fyrir rafmagns- og vatnshúsi á Norðurgarði og er gert ráð fyrir að það verði uppsteypt í vetur.
Framkvæmdir við að steypa þekju munu hefjast með vorinu.
Áætluð verklok í júní 2021.

Viðgerðir á þekju á eldri hluta Norðurgarðs;
Lokið er um 50% þeirra viðgerða sem ráðast þarf í, á þekju á eldri hluta Norðurgarðs.

Landfylling;
Vinna við fyrirstöðugarð í landfyllingu og dælingu efnis í fyllinguna er langt komin.

Hafnarstjórn - 15. fundur - 22.03.2021

Hafnarstjóri fór yfir stöðu framkvæmda.
Borgarverk hefur nú lokið við sitt tilboðsverk við lengingu Norðugarðs. Almenna umhverfisþjónustan hefur lokið við frágang á kanttré á garðinum og Vélsmiðja Grundarfjarðar smíðaði stiga, sem settir hafa verið upp.
Tilboðsverk Borgarverks stóðst fjárhagsáætlun. Hafnarstjórn lýsir ánægju sinni með verkið.

Ennfremur hefur Borgarverk lokið vinnu við fyrirstöðugarð og landfyllingu og samhliða færslu ræsis, austan Nesvegar.

Vinna við frágang námu er í gangi.

Nú er unnið að því að leggja lagnir undir þekju á Norðurgarði og Almenna umhverfisþjónustan hefur unnið að uppsteypu á rafmagns- og vatnshúsi. Búið er að steypa undirstöður fyrir hús og fyrir tvö ný ljósamöstur á garðinum. Áætlað er að þekja verði steypt í lok apríl nk.
Verklok tilboðsverks Almennu umhverfisþjónustunnar eru síðla sumars.