Lögð fram fyrirspurn bæjarstjóra til Samgöngustofu, dags. 13. febrúar 2025 og svar Samgöngustofu, 19. febrúar 2025.
Enn ræðir bæjarstjórn um samgöngumál og ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar, þar sem ástandið hefur aldrei verið verra. Á það ekki síst við í næsta nágrenni Grundarfjarðar, á Snæfellsnesi og langleiðina suður í Borgarnes.
Bæjarstjórn hefur margsinnis gert athugasemdir við hættulegt ástand þjóðvegarins og er nú svo komið að bæjarstjórn telur ákveðna vegarkafla í svo slæmu ástandi að flokka megi það undir neyðarástand. Í samræmi við það sendu sveitarfélögin á Vesturlandi erindi til forsætisráðherra um að gripið verði til ráðstafana vegna neyðarástands vega. Á fundi sem fulltrúar sveitarfélaganna áttu með forsætisráðherra og innviðaráðherra 10. mars sl. í forsætisráðuneytinu var áréttuð sú ósk að aukið fjármagn verði sett í bráðaviðgerðir strax á þessu ári. Auk þess var ítrekuð sú krafa Vestlendinga, að við gerð samgönguáætlunar síðar á árinu verði hlutur Vesturlands aukinn verulega frá þeirri tillögu sem áður hafði verið kynnt.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar skorar á samgönguráðherra og fjárlaganefnd Alþingis að tryggja fjármagn til nauðsynlegs viðhalds á þjóðvegi 54, Snæfellsnesvegi og þjóðvegi 56 um Vatnaleið.
Ástand þjóðvegar 54, frá Borgarnesi, um Mýrar og vestur eftir Snæfellsnesi, er mjög bágborið. Sig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og vestan Vegamóta er vegurinn of mjór. Á kafla vestan þéttbýlis Grundarfjarðar eru vegkantar einnig lélegir og þarfnast styrkingar. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál. Sama á við um þjóðveg 56 um Vatnaleið.
Verulega aukin umferð á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til Vegagerðarinnar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og öryggi vegfarenda sé tryggt.
Samþykkt samhljóða.