Málsnúmer 2009014

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 241. fundur - 10.09.2020

Til máls tóku JÓK og GS.

Lögð fram eftirfarandi tillaga:

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar skorar á samgönguráðherra og fjárlaganefnd Alþingis að tryggja fjármagn til nauðsynlegs viðhalds á þjóðvegi 54, Snæfellsnesvegi og þjóðvegi 56 um Vatnaleið.

Ástand þjóðvegar 54, frá Borgarnesi, um Mýrar og vestur eftir Snæfellsnesi, er mjög bágborið. Sig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og vestan Vegamóta er vegurinn of mjór. Á kafla vestan þéttbýlis Grundarfjarðar eru vegkantar einnig lélegir og þarfnast styrkingar. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál. Sama á við um þjóðveg 56 um Vatnaleið.

Verulega aukin umferð á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til Vegagerðarinnar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og öryggi vegfarenda sé tryggt.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 259. fundur - 07.04.2022

Fyrir fundinum lágu gögn um ástand þjóðvega og fjárhæðir sem ætlaðar eru til viðhalds þjóðvega á Vesturlandi.
Forseti lagði fram eftirfarandi tillögu að bókun:

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýsir yfir þungum áhyggjum af lélegu og síversnandi ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi, ástandi sem er að stórum hluta til komið vegna skorts á viðhlítandi viðhaldi.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar skorar á innviðaráðherra og fjárlaganefnd Alþingis að tryggja fjármagn til nauðsynlegs viðhalds á þjóðvegum á Vesturlandi, sér í lagi á þjóðvegi 54, Snæfellsnesvegi og þjóðvegi 56 um Vatnaleið.

---

Í ályktun bæjarstjórnar um ástand vegamála frá 10. september 2020 var að finna eftirfarandi lýsingu:

Ástand þjóðvegar 54, frá Borgarnesi, um Mýrar og vestur eftir Snæfellsnesi, er mjög bágborið.
Sig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og vestan Vegamóta er vegurinn of mjór. Á kafla vestan þéttbýlis Grundarfjarðar eru vegkantar einnig lélegir og þarfnast styrkingar. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál. Sama á við um þjóðveg 56 um Vatnaleið.

Verulega aukin umferð á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til Vegagerðarinnar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og öryggi vegfarenda sé tryggt.

---

Framangreind lýsing er því miður enn í fullu gildi og ljóst er að ástand þjóðveganna hefur sjaldan verið eins slæmt og nú.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar eru eftirfarandi fjárhæðir áætlaðar í viðhald þjóðvega á Vesturlandi og Vestfjörðum árið 2022:

I. Viðhald bundin slitlög: 897 m.kr. sem skiptist með eftirfarandi hætti:
- Malbik 145 millj. kr., en í malbik væri nauðsynlegt að setja 300-400 m.kr árlega til þess að halda í horfinu og byrja á nýjum malbiksköflum.
- Klæðingar; yfirlagnir 375 og blettanir 165 millj.kr., en þörfin fyrir yfirlagnir er þó tvöfalt meiri, eða 750-800 m.kr árlega einungis til þess að halda ástandinu í horfinu.
- Aðrar viðgerðir (holur, kantar og hjólför o.fl.) 212 m.kr.

II. Styrkingar og endurbætur: 370 millj.kr.
- Lagfæringar á „hoppum“ og öðrum hættulegum stöðum.
- Endurbætur á vegum sem eru aflagðir
- Styrkingar malarvega
- Fjármagn í „skilavegi“

Samtals 1.267 millj.kr.

Meðal brýnustu og mest aðkallandi verkefnanna í styrkingum og endurbótum sem bíða á Snæfellsnesi eru Snæfellsnesvegur 54, um Kaldármela (150 m.kr), Snæfellsnesvegur 54 um Skjálgarhraun (160 m.kr) og Stykkishólmsvegur 58: festun (310 m.kr). Mörg verkefni á bilinu 60 -200 m.kr er einnig orðið virkilega aðkallandi að ráðast í.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar bendir á að yfirlagnir eru gríðarlega mikilvægar til að viðhalda góðu yfirborði vega og tryggja að yfirborð springi ekki eða aflagist. Þegar ekki næst að halda við yfirborði vega með klæðingu eða malbiki er hætta á að þeir brotni niður og verði það lélegir að frekari aðgerða sé þörf, með styrkingum og endurbótum. Sú er orðin raunin með stóra kafla á framangreindum vegum og er þörf fyrir fjármagn í allra brýnustu verkefnin, til styrkinga og endurbóta, áætluð um 5-6 milljarðar kr. Þær fjárhæðir miðast einungis við verulega aðkallandi viðgerðir, þ.e. á vegaköflum sem eru mjög illa farnir, ónýtir eða jafnvel hættulegir vegfarendum. Fjölmörg slík verkefni bíða og þokast hægt áfram, eins og ganga má út frá þegar fjármagn til styrkinga og endurbóta er einungis um 6% af því sem áætlað er að þurfi í brýnustu verkefnin.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 271. fundur - 13.04.2023

Lagðar fram upplýsingar um fjárveitingar til viðhalds þjóðvega á Vestursvæði (Vesturland og Vestfirðir) á árinu 2023.
Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýsir enn yfir þungum áhyggjum af lélegu og síversnandi ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi, ástandi sem er að stórum hluta til komið vegna skorts á viðhlítandi viðhaldi.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar skorar á innviðaráðherra og fjárlaganefnd Alþingis að tryggja fjármagn til nauðsynlegs viðhalds á þjóðvegum á Vesturlandi, sér í lagi á þjóðvegi 54, Snæfellsnesvegi og þjóðvegi 56 um Vatnaleið.

Í ályktunum bæjarstjórnar um ástand vegamála frá 10. september 2020 og 7. apríl 2022 var að finna eftirfarandi lýsingu:

"Ástand þjóðvegar 54, frá Borgarnesi, um Mýrar og vestur eftir Snæfellsnesi, er mjög bágborið. Sig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og vestan Vegamóta er vegurinn of mjór. Á kafla vestan þéttbýlis Grundarfjarðar eru vegkantar einnig lélegir og þarfnast styrkingar. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál. Sama á við um þjóðveg 56 um Vatnaleið.

Verulega aukin umferð, þar á meðal stórauknir þungaflutningar á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til Vegagerðarinnar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og öryggi vegfarenda sé tryggt."


Framangreind lýsing er því miður enn í fullu gildi og ljóst er að ástand þjóðveganna hefur sjaldan verið eins slæmt og nú, og óviðunandi hætta stafar af ástandinu á stórum köflum.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar eru eftirfarandi fjárhæðir áætlaðar í viðhald þjóðvega á Vestursvæði árið 2023:

I. Viðhald bundinna slitlaga (malbik, yfirlagnir og blettanir, viðgerðir á holum, köntum og hjólförum) samtals 922 m.kr. sem er einungis hækkun um 25 m.kr. frá fyrra ári.
II. Styrkingar og endurbætur 405 m.kr., sem er einungis hækkun um 35 m.kr. frá fyrra ári.

Viðhaldsfé, samtals að fjárhæð 1.327 m.kr., er engan veginn nægilegt til að anna brýnni þörf og sé horft til þróunar verðlags er hér um að ræða raunlækkun fjárveitinga milli ára.


Meðal stærstu og mest aðkallandi verkefnanna í styrkingum og endurbótum sem bíða á Snæfellsnesi eru Snæfellsnesvegur 54 um Kaldármela, Snæfellsnesvegur 54 um Skjálgarhraun, Snæfellsnesvegur 54 frá Hellnafelli við Grundarfjörð út fyrir Kirkjufell og Stykkishólmsvegur 58. Mörg minni verkefni er einnig orðið virkilega aðkallandi að ráðast í, sem framangreindar fjárveitingar duga engan veginn til.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar bendir á að yfirlagnir eru gríðarlega mikilvægar til að viðhalda góðu yfirborði vega og tryggja að yfirborð springi ekki eða aflagist. Þegar ekki næst að halda við yfirborði vega með klæðingu eða malbiki er hætta á að þeir brotni niður og verði það lélegir að frekari aðgerða sé þörf, með styrkingum og endurbótum. Sú er orðin raunin með stóra kafla á framangreindum vegum og er þörf fyrir fjármagn í allra brýnustu verkefnin til styrkinga og endurbóta, sbr. lið II hér framar, áætluð að lágmarki um 6 milljarðar kr. Þær fjárhæðir miðast einungis við verulega aðkallandi viðgerðir, þ.e. á vegaköflum sem eru mjög illa farnir, ónýtir eða jafnvel hættulegir vegfarendum. Fjölmörg slík verkefni bíða og þokast hægt áfram, eins og ganga má út frá þegar fjármagn til styrkinga og endurbóta er einungis um 7% af því sem áætlað er að þurfi í brýnustu verkefnin.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar telur, miðað við framvindu viðhaldsverkefna og framangreinda stöðu, að endurskoða eigi fjárveitingar og flokkun verkefna á framangreindum vegarköflum, þar sem viðhaldsleysi þeirra hefur orsakað þörf fyrir endurbyggingu. Bæjarstjórn telur að stærstu og brýnustu viðhaldsverkefnin eigi að færast úr flokki viðhalds bundinna slitlaga yfir í nýframkvæmdir þar sem nýbyggingu brýnustu vegarkaflanna verði tryggðar sérstakar fjárveitingar í samgönguáætlun. Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar skorar á innviðaráðherra og fjárlaganefnd Alþingis að tryggja að svo verði.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarráð - 617. fundur - 28.02.2024

Umræða um viðhald þjóðvega, fjárveitingar og fl. í framhaldi af samskonar umfjöllun og bókunum bæjarstjórnar um málið á liðnum árum.

Rætt um ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar og fleiri vega, en ástand þessara vega hefur versnað enn frekar á þessum vetri og koma vegirnir afar illa undan vetri.

Bæjarstjóri sagði frá samtali sínu við fulltrúa Vegagerðarinnar á Vestursvæði í síðustu viku. Ekki lítur út fyrir að fjárveitingar 2024 verði neitt hærri en undanfarin ár og því er útséð um að varanlegar bætur verði gerðar á ástandi þjóðveganna, eins og bæjarstjórn hefur margoft kallað eftir.

Bæjarráð lýsir verulegum áhyggjum af þessari stöðu, sem er algjörlega óviðunandi. Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirbúa bókun fyrir fund bæjarstjórnar í þar næstu viku. Í bókuninni komi fram sterkt orðalag um áhyggjur bæjarráðs/bæjarstjórnar af bráðri slysahættu vegna ástands umræddra vega.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 283. fundur - 12.03.2024

Umræða um alvarlegt ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar, fjárveitingar 2024 og á næstu árum (eða skort á þeim) og ítrekun á fyrri bókunum bæjarstjórnar.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýsir enn og aftur yfir þungum áhyggjum af síversnandi og hættulegu ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi, ástandi sem er að stórum hluta til komið vegna skorts á viðhlítandi viðhaldi.

Ástand þjóðveganna hefur sjaldan verið eins slæmt og nú. Hættan sem leiðir af ástandi veganna er algjörlega óviðunandi fyrir notendurna. Á það jafnt við um íbúa, gesti, atvinnubílstjóra og neyðarflutninga.

Jarðsig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, slitlag er gróft og bútakennt eftir áralangar holufyllingar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og víða eru vegir of mjóir. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál.

Verulega aukin umferð, þar á meðal stórauknir þungaflutningar á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til vegagerðar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega. Í þeim liggja mikil verðmæti sem fara forgörðum, sé viðhaldi þeirra ekki sinnt.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar fóru árið 2023 um 1.330 millj. kr. í viðhald þjóðvega á Vestursvæði (sem eru bæði Vesturland og Vestfirðir). Líkindi eru fyrir sambærilegri fjárhæð í ár og sé horft til þróunar verðlags þýðir það raunlækkun fjárveitinga milli ára. Fjármagn þetta, til styrkinga og endurbóta, er einungis talið standa undir tæpum 7% af kostnaði við allra brýnustu verkefnin.

Samkvæmt samantekt SSV (september 2023) námu fjárveitingar til nýframkvæmda við stofnvegi á Vesturlandi sl. ellefu ár (2013-2023) um 4,2 milljörðum kr. Í meðförum Alþingis er nú samgönguáætlun áranna 2024-2038. Henni er skipt niður í þrjú 5 ára tímabil. Á fyrsta tímabili, árin 2024-2028, eru áætlaðir 44,4 milljarðar kr. til stofnvega á landsbyggðinni (utan höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness). Af þeim 44,4 milljörðum kr. eru einungis 700 milljónir kr. ætlaðar til framkvæmda á Vesturlandi og segir sig því sjálft að sú fjárhæð er í engu samræmi við brýna framkvæmdaþörf svæðisins. Þessi fjárhæð er um 1,6% fjárveitinga til stofnvega á landsbyggðinni, en á Vesturlandi eru um 14% alls vegakerfis landsins í lengdarmetrum talið. Sé horft til Snæfellsnesvegar, þjóðvegar 54, þá er fjárveiting í endurbyggingu 19,5 km vegarkafla frá Brúarhrauni að Dalsmynni áætluð á þriðja tímabili, eða eftir tíu ár.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar skorar á innviðaráðherra, fjárlaganefnd og Alþingi að tryggja fjármagn til nauðsynlegra endurbóta á Snæfellsnesvegi, þjóðvegi 54, um Snæfellsnes og langleiðina að Borgarnesi.

Samþykkt samhljóða.