617. fundur 28. febrúar 2024 kl. 08:30 - 11:54 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Sigurður Gísli Guðjónsson (SGG) formaður
  • Ágústa Einarsdóttir (ÁE)
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Skíðadeild UMFG - Þjónustuhús fyrir tjaldsvæði og skíðasvæði

Málsnúmer 2211011Vakta málsnúmer

Lögð fram gögn skíðadeildar UMFG með hugmynd að þjónustuhúsi.

Rut Rúnarsdóttir og Jón Pétur Pétursson frá skíðadeildinni sátu fundinn undir þessum lið, ásamt Sigurði Val Ásbjarnarsyni og Ólafi Ólafssyni.

Jón Pétur og Rut gerðu grein fyrir hugmynd að uppsetningu þjónustuhúss og uppbyggingu skíðasvæðisins.

Rætt um möguleika á að samnýta þjónustuhúsið með þjónustu bæjarins.

Einnig rætt um bókun skipulags- og umhverfisnefndar varðandi það að losa jarðvegsefni til uppfyllingar á skíðasvæði til hagsbóta fyrir svæðið.

Bæjarráð tekur vel í hugmynd um nýtt þjónustuhús á svæðinu og felur skipulagsfulltrúa og íþrótta- og tómstundafulltrúa að vinna með fulltrúum skíðadeildar að nánari tillögu um bæði framangreind efni sem bæjarráð mun taka til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða.

Gestunum var þakkað fyrir komuna á fundinn.

Gestir

  • Jón Pétur Pétursson - mæting: 08:30
  • Rut Rúnarsdóttir - mæting: 08:30
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi - mæting: 08:30
  • Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi - mæting: 08:30

2.Lausafjárstaða 2024

Málsnúmer 2401026Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.



3.Greitt útsvar 2024

Málsnúmer 2402013Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar í janúar 2024.

Janúar mánuður er í raun ómarktækur milli ára þar sem í þeim mánuði fer fram uppgjör fyrra árs.

4.Framkvæmdir 2024

Málsnúmer 2401018Vakta málsnúmer

Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi, og Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi, sátu fundinn undir þessum lið.

Farið yfir framgang nokkurra stórra verkefna;

Glugga- og hurðaskipti í íþróttahúsi/sundlaug. Fengin hafa verið tilboð í hurðir, glugga- og gluggaskipti, sem þurfa að fara fram á sama tíma og framkvæmdir vegna uppsetningar á varmadælum, svo ekki þurfi að loka sundlaug tvisvar. Varmadæluverkefnið verður unnið samhliða og gert er ráð fyrir að orkuskipti fari fram í júní nk.
Þakviðgerð - viðgerð á þaki yfir anddyri er í undirbúningi, en ekki tókst að fá viðgerð á því á síðasta ári. Þak grunnskólabyggingar hefur lekið við tónlistarskóla, en verður lagfært strax og veður leyfir.
Sögumiðstöð - framkvæmdir ársins eru í undirbúningi
Leiktæki/leikvellir - undirbúningar er í gangi við kaup á leiktækjum og öðrum tilheyrandi framkvæmdum.

Skipulagsfulltrúi hefur rætt við iðnaðarmenn bæjarins og fór með þeim yfir fyrirhuguð verkefni, til að tryggja að verkefni verði unnin innan þeirra tímamarka sem sett eru.

Gestir

  • Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi - mæting: 09:30
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi - mæting: 09:30

5.Reglur vegna úthlutunar íbúða fyrir eldri borgara

Málsnúmer 2402026Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga um uppfærðar reglur um úthlutun íbúða til eldri borgara. Helstu breytingar felast í tilvísunum í reglugerð, þar sem eldri reglugerð er fallin úr gildi.

Bæjarráð samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög og leggur til að bæjarstjórn samþykki uppfærðar reglur.

6.Hrannarstígur 18 - íbúð 103 - úthlutun

Málsnúmer 2402016Vakta málsnúmer

Afgreiðsla vegna úthlutunar hlutaréttar-/leiguíbúðar að Hrannarstíg 18, íbúð 103.

Tvær umsóknir bárust um íbúðina.





SG vék af fundi undir þessum lið.

Skrifstofustjóri hefur undirbúið málið og gerði grein fyrir því. Farið yfir niðurstöður greiningar á matsviðmiðum vegna úthlutunar hlutaréttaríbúða eldri borgara.

Lagt til að íbúð nr. 103 að Hrannarstíg 18 verði úthlutað til Ernu Njálsdóttur. Skrifstofustjóra falið að ganga frá samningi um íbúðina.

Samþykkt samhljóða.

SG tók aftur sæti sitt á fundinum.

7.Íbúðir við Hrannarstíg 18 og 28-40

Málsnúmer 2201007Vakta málsnúmer

Lögð fram samantekt Deloitte um kostnað við rekstur 15 íbúða fyrir eldri borgara að Hrannarstíg 18 og að Hrannarstíg 28-40 ásamt samanburði við fjórar íbúðir Snæfellsbæjar vegna ársins 2022.



Um er að ræða deild sem fellur undir B-hluta bæjarsjóðs, sem eru deildir sem hafa sjálfstæðar tekjur og eiga að standa undir sér. Tap hefur verið á rekstri íbúðanna síðustu ár.

Bæjarráð fór yfir gögnin. Miðað er við að leggja fram frekari gögn vegna ársins 2023 á næsta fundi bæjarráðs.

Vísað til næsta fundar bæjarráðs.

8.Ályktun um viðhald þjóðvega á Snæfellsnesi

Málsnúmer 2009014Vakta málsnúmer

Umræða um viðhald þjóðvega, fjárveitingar og fl. í framhaldi af samskonar umfjöllun og bókunum bæjarstjórnar um málið á liðnum árum.

Rætt um ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar og fleiri vega, en ástand þessara vega hefur versnað enn frekar á þessum vetri og koma vegirnir afar illa undan vetri.

Bæjarstjóri sagði frá samtali sínu við fulltrúa Vegagerðarinnar á Vestursvæði í síðustu viku. Ekki lítur út fyrir að fjárveitingar 2024 verði neitt hærri en undanfarin ár og því er útséð um að varanlegar bætur verði gerðar á ástandi þjóðveganna, eins og bæjarstjórn hefur margoft kallað eftir.

Bæjarráð lýsir verulegum áhyggjum af þessari stöðu, sem er algjörlega óviðunandi. Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirbúa bókun fyrir fund bæjarstjórnar í þar næstu viku. Í bókuninni komi fram sterkt orðalag um áhyggjur bæjarráðs/bæjarstjórnar af bráðri slysahættu vegna ástands umræddra vega.

Samþykkt samhljóða.

9.Óbyggðanefnd - Þjóðlendumál, eyjar og sker

Málsnúmer 2402015Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar tölvubréf Óbyggðanefndar frá 12. febrúar sl.



Þar er lýst þjóðlendukröfum fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins á svæði 12, sem eru eyjar og sker innan landhelgi Íslands en utan meginlandsins, að undanskildum nokkrum tilgreindum eyjum.



Óbyggðanefnd kallar eftir kröfum þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta og skal kröfum lýst skriflega í síðasta lagi 15. maí 2024. Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu svæðanna mun óbyggðanefnd úrskurða um framkomnar kröfur.



Bæjarstjóri tók þátt í fundi sem Samband íslenskra sveitarfélaga boðaði til, sl. mánudag 26. febrúar, að beiðni sveitarfélaga sem kröfugerð nær til.



Lagt til að umboð verði veitt til bæjarstjóra að taka þátt í samstarfi sveitarfélaga um erindi til fjármálaráðherra um kröfugerðina.



Bæjarráð veitir bæjarstjóra umboð til að taka þátt í samstarfi sveitarfélaga um viðbrögð/kröfugerð sveitarfélaga vegna málsins.

Samþykkt samhljóða.

10.Vinabærinn Paimpol - 20 ára afmælisár og ferð til Paimpol

Málsnúmer 2402028Vakta málsnúmer

Lögð fram tölvupóstsamskipti við Grundapol-félagið í Paimpol vegna afmælisfagnaðar sem haldinn verður í Paimpol á október nk. í tilefni af 20 ára vinabæjarsamskiptum bæjanna.



Einnig er vísað í umræður á aðalfundi Grundapol í Grundarfirði og stjórnarfundar fyrr í febrúar.



Ákveða þarf með þátttöku bæjarins í afmælisferð í október og fleira.



Gert er ráð fyrir að menningarnefnd komi að málinu og geri tillögur um viðburði hér heima fyrir á afmælisárinu.

Miðað er við að fulltrúar bæjarstjórnar/bæjarins muni taka þátt. Kannaður verði áhugi bæjarfulltrúa á að fara í ferðina.

Gert er ráð fyrir hátíðarviðburðum á árinu, hér í Grundarfirði og er óskað eftir tillögum menningarnefndar.

11.Golfklúbburinn Vestarr - Bárarvöllur

Málsnúmer 2402017Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni Golfklúbbsins Vestarrs (GVG) dags. 22. febrúar sl. um viðræður við bæjarráð/bæjarstjórn auk fleiri gagna.



Jafnframt lagðir fram til kynningar minnispunktar frá fundum golfklúbbsins og landeiganda, frá fundum 11. október 2023 og 30. janúar sl.



Einnig lagt fram erindi frá Gunnari Kristjánssyni varðandi málefni golfklúbbsins.

Ólafur Ólafsson kom inn á fundinn undir þessum lið.

Lögð fram tillaga um fund með stjórn golfklúbbsins í næstu viku. Skipaðir verða fulltrúar bæjarstjórnar til viðræðnanna fyrir vikulok.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi - mæting: 11:05

12.Creditinfo - Fjölmiðlaskýrsla 2023

Málsnúmer 2401005Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar endurskoðuð fjölmiðlaskýrsla Creditinfo fyrir Grundarfjarðarbæ vegna ársins 2023.

13.Rannís - Styrkjatækifæri bókasafnsjóður umsóknarfrestur 15. mars

Málsnúmer 2402009Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Rannís varðandi styrktækifæri úr bókasafnasjóði.

14.Mennta- og barnamálaráðuneytið - Bréf vegna fyrirhugaðrar úttektar á tónlistarskólum

Málsnúmer 2402008Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf mennta- og barnamálaráðuneytisins dags. 7. febrúar sl. vegna fyrirhugaðrar úttektar á tónlistarskólum.

15.Mennta- og barnamálaráðuneytið - Samhæfð svæðisbundin farsældarráð

Málsnúmer 2402005Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar kynning mennta- og barnamálaráðuneytisins um vinnu spretthóps um samhæfða svæðaskipan farsældarráða.

16.SSV - MIPIM fjárfestingaráðstefna í Cannes

Málsnúmer 2402012Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur SSV um MIPIM fjárfestingaráðstefnu í Cannes 12.-15. mars nk.

17.Ráðherranefnd - Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu

Málsnúmer 2401010Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar kynning Stjórnarráðsins um aðgerðir ráðherranefndar um málefni íslenskrar tungu. Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið og Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið standa að ráðherranefndinni.

18.SSV - Fundur um ráðstöfun dýraleifa

Málsnúmer 2402024Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur SSV varðandi fund sem haldinn var 21. febrúar sl. um ráðstöfun dýraleifa, ásamt upptöku af fundinum.

19.Samtök sveitarfélaga á köldum svæðum - Málþing um orkumál - Er íslensk orka til heimabrúks

Málsnúmer 2402027Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum um málþing um orkumál sem haldið verður 15. mars nk. í Reykjavík, ásamt dagskrá málþingsins.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 11:54.