Skipulagslýsing fyrir nýjan rammahluta aðalskipulags fyrir blágrænar ofanvatnslausnir í Grundarfirði var samþykkt á 271. fundi skipulags- og umhverfisnefndar 9. sept. sl. og á 301. fundi bæjarstjórnar 11. september sl., í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagslýsingin var auglýst 2. til 30. október 2025 sl.
Verkefnið er liður í að framfylgja stefnu aðalskipulagsins um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í öllu þéttbýlinu og um leið stefnumótun fyrir þróun almenningsrýma í bænum.
Samtals bárust níu umsagnir, allar frá opinberum umsagnaraðilum, og er lögð fram samantekt þessara umsagna.
Gestir
- Herborg Árnadóttir, ráðgjafi, Alta, í fjarfundi
- Halldóra Hrólfsdóttir, skipulagsráðgjafi, Alta, í fjarfundi
Halldóra fór yfir verkefnistillöguna. Viðfangsefnin eru m.a. að fá yfirlit yfir rennsli/rennslisleiðir ofanvatns frá upplandi bæjarins og í gegnum bæinn, með skiptingu í vatnasvið og áætlun um magn ofanvatns og marka á þeim grunni örugga meðferð ofanvatns í almenningsrýmum og innan lóða. Finna þarf leiðir við skipulag blágrænna innviða til að samnýta almenningsrými fyrir meðferð ofanvatns og önnur not, s.s. græn svæði og göturými. Markmiðið er m.a. að bærinn verði grænni og seigla hans aukin gagnvart loftslagsbreytingum.
Skipulags- og matslýsing á grundvelli þessarar verkefnistillögu ætti að verða tilbúin til auglýsingar á næstu vikum.
Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi tók til máls undir þessum lið. Hann sagðist telja að þetta sé sú umgjörð sem þurfi til að halda utan um verkefnið og leggur til að tillagan verði samþykkt. Rammahlutinn muni auðvelda vinnu við deiliskipulagsverkefni og framkvæmdaverkefni í almenningsrýmum almennt.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir tillöguna fyrir sitt leyti og felur Nönnu Vilborgu, verkefnisstjóra skipulags- og umhverfismála, að vinna áfram að málinu í samráði við skipulagsfulltrúa og aðra starfsmenn bæjarins.
Ennfremur leggur skipulags- og umhverfisnefnd til að sótt verði um mótframlag úr Skipulagssjóði við gerð þessa rammahluta aðalskipulags, þar sem þetta er fyrsta skipulag af þessu tagi sem unnið er fyrir heilt bæjarfélag.