Málsnúmer 2508011

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 270. fundur - 20.08.2025

Lögð fram til kynningar og umræðu tillaga að nálgun við gerð blágræns ofanvatnsskipulags, sem verði gert að rammahluta aðalskipulags.

Verkefnið er framhald stefnumótunar bæjarins í aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar um endurnýjun ofanvatnskerfis bæjarins með innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna og er kostað að hluta af fjárstyrk bæjarins til ICEWATER-verkefnisins.



Með þessu blágræna ofanvatnsskipulagi er verið að móta stefnu um tilhögun fráveitu og meðferðar ofanvatns í allri byggðinni. Á grunni þess verði tryggð markviss innleiðing og uppbygging blágrænna innviða og almenningsrýma í Grundarfjarðarbæ, samhliða endurnýjun ofanvatnskerfisins.

Halldóra Hreggviðsdóttir skipulagsráðgjafi hjá Alta var gestur fundarins undir þessum lið gegnum fjarfund.

Halldóra fór yfir verkefnistillöguna. Viðfangsefnin eru m.a. að fá yfirlit yfir rennsli/rennslisleiðir ofanvatns frá upplandi bæjarins og í gegnum bæinn, með skiptingu í vatnasvið og áætlun um magn ofanvatns og marka á þeim grunni örugga meðferð ofanvatns í almenningsrýmum og innan lóða. Finna þarf leiðir við skipulag blágrænna innviða til að samnýta almenningsrými fyrir meðferð ofanvatns og önnur not, s.s. græn svæði og göturými. Markmiðið er m.a. að bærinn verði grænni og seigla hans aukin gagnvart loftslagsbreytingum.

Skipulags- og matslýsing á grundvelli þessarar verkefnistillögu ætti að verða tilbúin til auglýsingar á næstu vikum.

Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi tók til máls undir þessum lið. Hann sagðist telja að þetta sé sú umgjörð sem þurfi til að halda utan um verkefnið og leggur til að tillagan verði samþykkt. Rammahlutinn muni auðvelda vinnu við deiliskipulagsverkefni og framkvæmdaverkefni í almenningsrýmum almennt.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir tillöguna fyrir sitt leyti og felur Nönnu Vilborgu, verkefnisstjóra skipulags- og umhverfismála, að vinna áfram að málinu í samráði við skipulagsfulltrúa og aðra starfsmenn bæjarins.

Ennfremur leggur skipulags- og umhverfisnefnd til að sótt verði um mótframlag úr Skipulagssjóði við gerð þessa rammahluta aðalskipulags, þar sem þetta er fyrsta skipulag af þessu tagi sem unnið er fyrir heilt bæjarfélag.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 271. fundur - 09.09.2025

Lögð fram skipulagslýsing fyrir gerð blágræns ofanvatnsskipulags, sem verður rammahluti Aðalskipulags Grundarfjarðar 2019-2039. Um er að ræða stefnumótun í fráveitumálum og um leið stefnu fyrir þróun almenningsrýma (opin svæði) í bænum.



Verkefnið er liður í framfylgd stefnu aðalskipulagsins um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í þéttbýlinu, og hluti af Life-ICEWATER-styrkverkefni bæjarins. Sótt verður um framlag úr Skipulagssjóði þar sem um er að ræða vinnu við rammahluta aðalskipulags með nokkra sérstöðu.

Halldóra Hreggviðsdóttir og Dóra Hrólfsdóttir skipulagsráðgjafar hjá Alta eru gestir fundarins undir þessum lið.

Halldóra rifjaði upp helstu atriði í stefnu um blágrænt fráveituskipulag og fordæmi frá öðrum svæðum.

Dóra fór yfir skipulagslýsingu fyrir skipulagið, sem verður einn af rammahlutum aðalskipulags.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir skipulagslýsinguna fyrir sitt leyti og felur skipulagsfulltrúa að auglýsa hana í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, ráðgjafi Alta, í fjarfundi - mæting: 14:00
  • Dóra Hrólfsdóttir, ráðgjafi Alta, í fjarfundi - mæting: 14:00

Skipulags- og umhverfisnefnd - 272. fundur - 10.11.2025

Skipulagslýsing fyrir nýjan rammahluta aðalskipulags fyrir blágrænar ofanvatnslausnir í Grundarfirði var samþykkt á 271. fundi skipulags- og umhverfisnefndar 9. sept. sl. og á 301. fundi bæjarstjórnar 11. september sl., í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagslýsingin var auglýst 2. til 30. október 2025 sl.



Verkefnið er liður í að framfylgja stefnu aðalskipulagsins um innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í öllu þéttbýlinu og um leið stefnumótun fyrir þróun almenningsrýma í bænum.



Samtals bárust níu umsagnir, allar frá opinberum umsagnaraðilum, og er lögð fram samantekt þessara umsagna.



Halldóra Hrólfsdóttir og Herborg Árnadóttir, skipulagsráðgjafar hjá Alta, eru gestir fundarins í fjarfundi undir þessum lið.

Skipulags- og umhverfisnefnd hefur fjallað um framkomnar umsagnir. Ekki er þörf á viðbrögðum við umsögnum um lýsinguna, en skipulags- og umhverfisnefnd leggur áherslu á að ábendingar verði hafðar til hliðsjónar við áframhaldandi skipulagsvinnu.

Gestir

  • Herborg Árnadóttir, ráðgjafi, Alta, í fjarfundi
  • Halldóra Hrólfsdóttir, skipulagsráðgjafi, Alta, í fjarfundi