637. fundur 28. maí 2025 kl. 08:30 - 12:32 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Sigurður Gísli Guðjónsson (SGG) varaformaður
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
  • Davíð Magnússon (DM)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Varaformaður setti fund og gengið var til dagskrár. Fundur hófst með heimsókn í Sögumiðstöðina, Grundargötu 35.

1.Framkvæmdir 2025

Málsnúmer 2501025Vakta málsnúmer

Gestir fundarins undir þessum lið eru Sigurður Valur Ásbjarnarson, tæknifræðingur, og Nanna Vilborg Harðardóttir, verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála.

Sigurður Valur fór yfir helstu verklegar framkvæmdir.

- Sögumiðstöðin

Farið var í Sögumiðstöðina í fylgd Sigurðar Vals og húsnæðið skoðað. Þegar framkvæmdir hófust fyrir ca. 2 vikum, þá kom í ljós enn verra ástand í veggjum og þaki í viðbyggingu hússins. Farið yfir stöðuna og næstu skref.

Unnið er að áætlun um heildarviðgerðir hússins í ljósi þessarar nýju stöðu. Lagt til að unnið verði að minni háttar viðgerðum í steypta hluta hússins, þannig að miðrými, eldhús, bókasafn og snyrtingar bókasafnsmegin verði komið í eðlilegt horf til notkunar í haust. Svæði viðbyggingar verði lokað af í vetur, fyrir utan eldhúshlutann.

Samþykkt samhljóða.

- Viðgerðir/klæðning íþróttahúss og tengigangs

Miðað við þær fjárveitingar sem ætlaðar eru í verkið, þá verður erfitt að skipta verkinu upp í framkvæmdir til útboðs til 2ja ára.
Í ár eru áætlaðar 25 millj. kr. í klæðningu/þakviðgerð íþróttahúss og 3 millj kr. í utanhússviðgerðir (m.a. klæðningu) tengigangsins milli íþróttahúss og grunnskóla. Við tengigang þarf einnig að fara í jarðvinnu og tengja lagnir.

Lagt er til að í ár verði eftirfarandi gert:

- Verðkönnun verði gerð fyrir það verk að klæða tengigang og lagfæra við glugga. Búið er að fá verktaka í að ganga frá þakrennum/lögnum/tengingu og setja niður sandgryfju.
- Verðkönnun/útboð verði gert fyrir þakviðgerð og málun.
- Lokið við smálegar viðgerðir við glugga/hurðir.
- Sett ný hurð/hurðafrontur í kjallara íþróttahúss (líkamsræktarhluti).
- Útboð fari fram seint í haust, fyrir heildarverkið við klæðningu húss, gluggaskipti og mögulega smíði þakkants.

Samþykkt samhljóða.

- Viðbygging hafnarhúss

Byggingin fékk öryggisúttekt 22. maí sl. og lokaúttekt fer fram innan tíðar. Byggingin var tekin í notkun laugardaginn 24. maí sl., en þá var stórt skemmtiferðaskip í höfn.

Sigurður Valur vék af fundi og var þakkað fyrir komuna.

Nanna kom inn á fundinn og fór yfir stöðu verkefna.

- Gatnagerð/gangstéttir
Nanna fór yfir verkefnalista vegna verkefna við gatnagerð og gangstéttir.

- Leiksvæði grunn- og leikskóla, Þríhyrningur o.fl.

Nanna fór yfir fyrirhugaðar endurbætur í lóð leik- og grunnskóla. Einnig sagði hún frá framkvæmdum í Þríhyrningi þar sem verið er að hlaða eldstæði og leiksvið.

Nanna vék af fundi og var þakkað fyrir komuna.

- Kirkjufellsfoss-göngustígar

Bæjarstjóri sagði frá því að eitt tilboð hafi borist í verðkönnun um gerð göngustígs og palla, við áningarstað við Kirkjufellsfoss. Samið er við bjóðanda. Verkís sá um burðarþolshönnun og sér um verkeftirlit.

Gestir

  • Nanna Vilborg Harðardóttir, verkefnastjóri - mæting: 10:29
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson, tæknifræðingur - mæting: 08:30

2.Lausafjárstaða 2025

Málsnúmer 2501016Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.

3.Greitt útsvar 2025

Málsnúmer 2502020Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-apríl 2025.
Skv. yfirlitinu hefur greitt útsvar í Grundarfirði hækkað um 10,6% miðað við sama tímabil í fyrra.

4.Tíu ára yfirlit 2015-2024

Málsnúmer 2505020Vakta málsnúmer

Lagt fram tíu ára fjárhagsyfirlit Grundarfjarðarbæjar, A- og B-hluta, með upplýsingum úr ársreikningum og lykiltölum áranna 2015-2024.

5.Launaáætlun 2025

Málsnúmer 2505019Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir raunlaun og áætlun fyrir tímabilið janúar-apríl 2025.

Raunlaun eru undir áætlun ársins með viðaukum.

6.Rekstraryfirlit 2025

Málsnúmer 2505021Vakta málsnúmer

Lagt fram rekstraryfirlit janúar-mars 2025.

7.Fjárhagsáætlun 2025

Málsnúmer 2409008Vakta málsnúmer

Farið yfir helstu breytingar á fjárhagsáætlun, m.t.t. gerðar viðauka sem bæjarstjórn mun ganga frá á júnífundi.



Lagt fram tilboð frá Terra í húseiningar, þ.e. WC-einingu og litla geymslu fyrir íþróttavöll.

Bæjarráð samþykkir kaup á húseiningum fyrir íþróttavöll og að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun ársins.

Samþykkt samhljóða.

8.Grund - kaup á jörð

Málsnúmer 2504023Vakta málsnúmer

Lagður fram kaupsamningur um jörðina Grund, undirritaður af bæjarstjóra 16. maí 2025 f.h. Grundarfjarðarbæjar. Jörðinni fylgja engin hús.



Kaupverð jarðarinnar eru 70 millj. kr., þar af voru 50 millj. kr. greiddar við undirritun kaupsamnings.

Með kaupum á jörðinni Grund gefst m.a. tækifæri til að bæta vatnsvernd. Vatnsból fyrir þéttbýlið í Grundarfirði er við Grundará, undir Grundarfossi. Vatnsverndarsvæði vatnsbólsins hafa verið afmörkuð í samræmi við reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn. Mörk vatnsverndarsvæðanna eru í samræmi vð skýrslu ÍSOR
06197 frá 2006, en um þau gildir skilgreining á brunn-, grann- og
fjarsvæðum í reglugerð um varnir gegn mengun vatns nr. 796/1999 m.s.br.

Í Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019-2039 er sett fram stefna um að brunnsvæði vatnsveitunnar verði stækkað til samræmis við tillögu um breytta legu vatnsverndarsvæða vatnsbóla Vatnsveitu Grundarfjarðar, sem unnin var af Ísor fyrir Orkuveitu Reykjavíkur 2006.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ræða við Veitur ohf. um vatnsverndarmál á svæðinu.

Í ljósi þess að Grundarfjarðarbær eignast jörðina á vordögum og lítill tími er til stefnu, þá vill bæjarráð leitast við að halda umsjón neðangreindra þátta í sömu skorðum og verið hafa undanfarin ár.

Bæjarráð samþykkir að umsjón með slætti á túni í landi jarðarinnar Grundar og umsjón með hagabeit verði sumarið 2025 falin Bárði Rafnssyni og Dóru Aðalsteinsdóttur, með vísan í framlagt erindi þeirra. Þau hafa síðustu árin séð um slátt og hagabeit.

Bæjarstjóra falið að ganga frá samningi við þau Bárð og Dóru fyrir árið 2025.

Efnistaka í landi Grundar:

Bæjarráð felur bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa að afla gagna og leggja fram tillögu um efnistöku í landi Grundar. Ekki liggja fyrir efnistökuleyfi í landi Grundar og leggur bæjarráð til að efnistaka þar verði ekki heimiluð að sinni.

Bæjarráð tekur ekki afstöðu að svo stöddu til veiða í landi Grundar.

Samþykkt samhljóða.

9.Alþingi - Breyting á lögum um veiðigjald

Málsnúmer 2504001Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi nefndasviðs Alþingis þar sem kynnt er frumvarp til breytinga á lögum um veiðigjöld. Jafnframt lögð fram umsögn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga (SSSF), ásamt greiningargögnum KPMG, sem sveitarfélögin fengu send sl. föstudag, 23. maí.

Umsögn Grundarfjarðarbæjar byggir m.a. á umsögn SSSF.

Bæjarstjóri sendir umsögn um frumvarpið til nefndasviðs Alþingis.

Samþykkt samhljóða.

10.Uppbyggingarsjóður íþrótta- og menningarmála

Málsnúmer 2503029Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að reglum um uppbyggingarsjóð íþrótta- og menningarmála ásamt fjárhagsgögnum frá Skotfélagi Snæfellsness, með beiðni um greiðslu styrkveitingar.

Bæjarráð bíður eftir umfjöllun menningarnefndar og íþrótta- og tómstundanefndar um fyrirliggjandi drög að reglum.

Bæjarráð samþykkir útgreiðslu úr sjóðnum til Skotfélags Snæfellsness, í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar um úthlutun úr sjóðnum til félagsins.

Samþykkt samhljóða.

11.Landsbyggðin lifi - Fyrirspurn um samstarf

Málsnúmer 2503002Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn vísaði málinu til skoðunar í bæjarráði.
Bæjarráð óskar eftir frekari upplýsingum um verkefnið og felur bæjarstjóra að afla upplýsinga.

Samþykkt samhljóða.

12.Landsnet Kerfisáætlun 2025-2034

Málsnúmer 2502019Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Landsnets um kerfisáætlun Landsnets 2025-2034, ásamt framkvæmdaáætlun og umhverfismatsskýrslu, og um kynningarfundi sem haldnir voru í apríl-maí.



Kerfisáætlunin er nú í opnu umsagnarferli og má skila inn athugasemdum við áætlunina til 31. maí nk.

Bæjarstjóri hefur verið í sambandi við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi um umsögn um kerfisáætlun.

13.Samtök sjávarútvegssveitarfélaga - Fundargerðir 2025

Málsnúmer 2505002Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga; fundargerð 88. fundar sem haldinn var 15. apríl sl. og fundargerð 89. fundar sem haldinn var 7. maí sl.

Bæjarstjóri sagði frá því að hún hefði sótt fund Samtakanna, 16. maí sl., en til fundarins var boðið þingmönnum og ráðherrum, til umræðu um frumvarp til breytingu á lögum um veiðigjöld.

14.Húsnæðisáætlun 2025

Málsnúmer 2505024Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar og umsagnar húsnæðisáætlun Grundarfjarðarbæjar 2025, en bæjarstjórn samþykkir húsnæðisáætlun ár hvert.

Bæjarráð leggur til að húsnæðisáætlun 2025 verði samþykkt.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 12:32.