53. fundur 20. nóvember 2025 kl. 15:00 - 17:00 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Marta Magnúsdóttir (MM) formaður
  • Rakel Birgisdóttir (RB)
Starfsmenn
  • Pálmi Jóhannsson (PJ) starfsmaður
Fundargerð ritaði: Pálmi Jóhannsson forstöðumaður menningar- og markaðsmála
Dagskrá
Formaður setti fund, gengið var til dagskrár.

Hjalti Allan boðaði forföll.

1.Snæfellsnes Adventure ehf - Gerum það núna - Sögumiðstöð

Málsnúmer 2501014Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi Gerum það núna ehf. frá 9. október sl. þar sem óskað var eftir fundi með forstöðumanni menningar- og markaðsmála "til að ræða möguleg afnot af sögumiðstöðinni sumarið 2026 eða a dögum sem skemmtiferðaskip koma til hafnar."



Föstudaginn 17. október sl. var haldinn fundur varðandi málið. Fundinn sat Pálmi Jóhannsson forstöðumaður menningar- og markaðsmála, Einar Sveinn Ólafsson og Daniel Firica frá Gerum það núna ehf. Lagðir eru fram minnispunktar PJ af þeim fundi.



Óskað er eftir umsögn menningarnefndar, sem er bæjarstjórn til ráðgjafar m.a. um samkomuhús og Sögumiðstöðina.



Í erindinu kemur fram að markmiðið sé að "skapa vettvang til að skapa og byggja upp fjölþætta starfsemi sem tengist byggðarlaginu. Vera vettvangur nysköpunar i ferðaþjonustu þar sem lyft er undir nysköpun og miðlun þekkingar. Virkja þekkingu og færni þeirra sem flutt hafa til okkar."
Í minnispunktum um fund aðila þann 17. okt. kemur fram að hugsun Gerum það núna ehf. sé að nýta miðrými Sögumiðstöðvarinnar og Bæringsstofu fyrir upplifunarþjónustu fyrir viðskiptavini fyrirtækisins.

Menningarnefnd þakkar fyrir erindið.

Fyrir sitt leyti telur nefndin að Sögumiðstöðin eigi fyrst og fremst að þjóna sem miðstöð menningar og sem samkomustaður ("samfélagshús") fyrir íbúa Grundarfjarðar. Nefndin telur leiguafnot einstakra fyrirtækja á þessu opinbera rými til lengri tíma, ekki samræmast þeim sjónarmiðum um meginhlutverk hússins. Á móti bendir nefndin þó á, að í gildi er gjaldskrá fyrir útleigu hússins og skilmálar um útleigu í samræmi við gjaldskrá og bókunarstöðu húss, og hvetur nefndin fyrirtæki til að skoða þann valmöguleika.
https://www.grundarfjordur.is/is/stjornsysla/fjarmal/gjaldskrar

Hinsvegar telur nefndin hugmynd um vettvang fyrir nýsköpun og miðlun þekkingar, sbr. orðalag erindis, geta samræmst markmiðum um samfélagsleg not almenningseigna eins og Sögumiðstöðvar, nái sá vettvangur til margra þjónustuaðila innanbæjar, sem njóti góðs af samstarfi og nýtingu rýmisins.

Nefndin telur að leggja eigi kapp á að byggja upp öfluga samfélagsmiðstöð með starfsemi allt árið um kring.

Að öðru leyti vísar menningarnefnd afgreiðslu áfram til bæjarstjórnar til frekari umfjöllunar.

2.Jólaundirbúningur 2025

Málsnúmer 2511016Vakta málsnúmer

Farið yfir undirbúning viðburða tengdum jólum og áramótum.



Aðventudagatal: Menningarnefnd felur forstöðumanni menningar- og markaðsmála að undirbúa aðventudagatal og auglýsa það.

Jólagluggar - Ratleikur:
Menningarnefnd ákveður að halda breyttu sniði á jólagluggum og hafa ratleik eins og í fyrra. Menningarnefnd felur forstöðumanni menningar- og markaðsmála að hafa samband við fyrirtæki og stofnanir í bænum og auglýsa eftir gluggum til þátttöku. Eins felur nefndin honum að sjá um utanumhald og auglýsingu jólagluggaratleiks.

Tendrun jólaljósa í Grundarfirði:
Menningarnefnd felur forstöðumanni menningar- og markaðsmála að sjá um skipulagningu á viðburðinum, í samráði við Lionsklúbb Grundarfjarðar. Nefndin nýtir einnig tækifærið til að færa félögum Lionsklúbbsins þakkir fyrir sitt framlag, við uppsetningu jólatrés í miðbæ, nú sem í fjölmörg fyrri ár.

Þrettándinn:
Menningarnefnd felur forstöðumanni menningar- og markaðsmála umsjón með Þrettándagleði í Grundarfirði.

Áramótakveðja 2025:
Menningarnefnd felur forstöðumanni menningar- og markaðsmála að taka umræddar hugmyndir um áramótakveðju áfram.

3.Rökkurdagar 2025

Málsnúmer 2508005Vakta málsnúmer

Yfirferð yfir Rökkurdaga 2025.



Rætt var um framkvæmd Rökkurdaga sem stóðu yfir dagana 18. október til 5. nóvember 2025.
https://www.grundarfjordur.is/is/frettir-og-tilkynningar/rokkurdagar-2027

Menningarnefnd lýsir yfir ánægju með framkvæmd Rökkurdaga 2025 og þá sérstaklega framlag íbúa í skipulagningu viðburða. Menningarnefnd var með viðveru í Kjörbúðinni 24. september síðastliðinn og komu íbúar þá með hugmyndir að viðburðum sem þeir höfðu áhuga á að halda.

Nefndin færir þakkir til þeirra fjölmörgu sem skipulögðu og héldu viðburði, sem og til þeirra sem sóttu og nutu viðburða.

4.Verkefni menningarnefndar 2022-2026

Málsnúmer 2207019Vakta málsnúmer

Rætt um málefni almenningsbókasafnsins.



Bæjarstjóri tók þátt í þessum dagskrárlið að hluta.

Forstöðumaður menningar- og markaðsmála fór yfir stöðu mála á bókasafninu, aukningu gesta og breytingu á áherslum.

Menningarnefnd lýsir almennri ánægju með störf bókasafnsins, en telur að gaman væri að sjá fleiri viðburði á vegum þess. Ræddar voru mögulegar leiðir til þess að koma því í kring.

Menningarnefnd lýsir sig reiðubúna til að efna til eða stofna hóp sem ber vinnuheitið "Vinir bókasafnsins". Hópurinn samanstandi af sjálfboðaliðum sem hafi áhuga á að gera bókasafninu, læsi og menningu hærra undir höfði. Rætt um útfærslur.
Menningarnefnd felur forstöðumanni menningar- og markaðsmála að útbúa minnispunkta til bæjarstjórnar/bæjarráðs, með nánari lýsingu eða útlistun á hlutverki hópsins og stuðningi nefndarinnar.

Gestir

  • Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri - mæting: 16:40
Gengið frá fundargerð í framhaldi af fundi og rafræns samþykkis fundarmanna aflað.

Fundi slitið - kl. 17:00.