Málsnúmer 1604018

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 482. fundur - 07.04.2016

Lagt fram yfirlit yfir fyrirhugaðar framkvæmdir á árinu 2016.
Gerð grein fyrir stöðu einstakra verkefna og rætt um verkáætlun.

Sérstaklega var tekin fyrir framkvæmd við sundlaugina og lögð fram gögn frá skipulags- og byggingafulltrúa um kostnað við frágang á umhverfi sundlaugarinnar miðað við nokkra valkosti.

Bæjarráð er sammála því að nauðsynlegt sé að ganga frá yfirborði laugarinnar og samþykkir að verkið verði unnið á grundvelli framlagðra gagna og felur skipulags- og byggingafulltrúa að gera endanlega tillögu um efnisval.

Jafnframt óskar bæjarráð eftir því að skipulags- og byggingafulltrúi, verkstjóri áhaldahúss og umsjónarmaður fasteigna skili tímasettri verkáætlun fyrir framkvæmdir sumarsins fyrir næsta bæjarráðsfund.

Málsmeðferð þessi samþykkt samhljóða.

Bæjarráð - 483. fundur - 19.04.2016

Undir þessum lið voru mættir Gunnar Ragnarsson, bygginga-og skipulagsfulltrúi og Valgeir Magnússon, verkstjóri áhaldahúss. Lagt var fram minnisblað bæjarstjóra varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir á árinu 2016. Farið var yfir helstu hugmyndir um framkvæmdir, tímasetningu og kostnaðarhugmyndir.
Jafnframt voru lögð fram gögn vegna hugmynda um malbiksframkvæmdir ársins 2016. Gunnar og Valgeir fóru yfir þessar hugmyndir og mögulegar útfærslur við framkvæmd malbikunar og gerðu grein fyir hugmyndum sínum um forgangsröðun malbikunarverkefna.
Lagt var til að kalla eftir endanlegum verðhugmyndum í malbikun á Borgarbraut, botnlöngum við Sæból og nýmalbikun við Fellasneið og verð á sérstöku malbiki fyrir atrennnubraut á íþróttavelli. Miðað verði við að unnt verði að ráðast í þessar framkvæmdir eigi síðar en í júní nk.
Ennfremur samþykkir bæjarráð að láta mynda fráveitulagnir í Sæbóli,sem nauðsynlegt er að hafa í lagi áður en ráðist verður í malbikunarframkvæmdir þar.
Málsmeðferð þessi var samþykkt samhljóða.

Sérstaklega var farið yfir hugmyndir bygginafulltrúa varðandi frágang yfirborðs við sundlaugina, skv. uppdráttum, sem hann lagði fram og kynnti.
Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti að unnið verði eftir fyrirliggjandi hugmyndum byggingafulltrúa að frágangi umhverfis sundlaugina.

Að öðru leyti var samþykkt að vinna að öðrum framkvæmdum til samræmis við framlögð gögn og umræður á fundinum.

Bæjarráð - 484. fundur - 27.05.2016

Lagðar fram og kynntar niðurstöður verðkannana í malbikslögn í Grundarfjarðarbæ.

Tilboð komu frá tveimur aðilum:
1) Kraftfagi ehf. að fjárhæð 15.001.000 kr.
2) Malbikunarstöðinni Hlaðbæ Colas að fjárhæð 10.165.483 kr.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við lægstbjóðanda.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 197. fundur - 09.06.2016

Farið yfir stöðu helstu framkvæmda, sem unnið er að í sveitarfélaginu, ss. viðgerðir á þaki grunnskólans, vinnu við sundlaug, potta og lóð, fimm ára deild, tjaldsvæði, þríhyrning og endurskoðun aðalskipulags.

Farið yfir verðtilboð í malbiksframkvæmdir sem áætlaðar eru í júní mánuði.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu bæjarráðs að ganga til samninga við Hlaðbæ Colas um malbiksframkvæmdir.

Bæjarráð - 487. fundur - 14.07.2016

Gerð grein fyrir stöðu helstu framkvæmda á vegum bæjarins, m.a. nýloknum malbikun þeirra gatna sem malbika átti á árinu. Í því sambandi hafa komið upp vangaveltur um hraðahindranir og umferðamerki í bænum.

Bæjarráð samþykkir samhljóða að fela skipulags- og umhverfisnefnd að gera tillögu að lagningu hraðahindrana og úrbótum í umferðamerkingum. Slíkar tillögur verði síðan lagðar fram til kynningar og samþykktar í bæjarráði.

Í fjárhagsáætlun ársins er ráðgert að ráðast í viðgerðir á þaki íbúða fyrir eldri borgara að Hrannarstíg 18.

Bæjarráð samþykkir að fela skipulags- og byggingafulltrúa umsjón með gerð útboðsgagna til að bjóða út þakviðgerðir íbúða fyrir eldri borgara að Hrannarstíg 18.

Bæjarráð - 488. fundur - 23.08.2016

Gerð grein fyrir helstu framkvæmdum sem unnið hefur verið að og hvað framundan er í þeim málum.

Gerð var grein fyrir óskum um smíði á fjárrétt í Kolgrafafirði, sem talið er nauðsynlegt að byggja. Fyrir fundinum lá áætlaður kostnaður við efniskaup fyrir framkvæmdina, sem er um 1 m. kr.

Bæjarráð samþykkir að ráðist verði í framkvæmdina í samráði við fulltrúa bænda (Búnaðarfélags Eyrarsveitar).