Málsnúmer 1605035

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 484. fundur - 27.05.2016

Lögð fram drög að bréfum varðandi fyrirhugaðar breytingar á álagningu fasteignagjalda vegna íbúðarhúsnæðis sem leigt er út sem gistiheimili.
Jafnframt lagður fram listi yfir gistiheimili í bænum.

Bæjarráð samþykkir að bréf af þessum toga verði send út til samræmis við fyrirliggjandi lista og gögn.

Bæjarstjórn - 200. fundur - 08.12.2016

Lögð fram drög að vinnureglum rekstrarleyfisumsókna gististaða í íbúabyggð í Grundarfirði.

Um reglurnar hefur áður verið fjallað og var þá ákveðið að gera breytingar á þeim. Tillaga að nýjum reglum liggja fyrir til yfirferðar og samþykktar.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi vinnureglur og felur skipulags- og byggingafulltrúa að auglýsa þær á heimasíðu bæjarins.

Jafnframt er skipulags- og byggingarfulltrúa falið að senda út bréf til þeirra sem taldir eru vera með gistingu í heimahúsi hvort heldur er um rekstur með leyfi eða án leyfis.

Í bréfinu skal kynnt að húsnæði sem notað er til gistireksturs af þessum toga er atvinnuhúsnæði og verða lögð á það fasteignagjöld miðað við álagningu atvinnuhúsnæðis á árinu 2017.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 205. fundur - 04.05.2017

Lagðar fram vinnureglur Grundarfjarðarbæjar vegna rekstrarleyfisumsókna, sem samþykktar voru í bæjarstjórn 8. des. sl. Jafnframt lagt fram yfirlit yfir fjölda gistirýma í sveitarfélaginu. Ennfremur lögð fram drög að bílastæðagjaldskrá og samþykktum um fjölda bílastæða innan lóða í Grundarfjarðarbæ.

Allir tóku til máls.

Tillaga að samþykkt um fjölda bílastæða við gististaði innan íbúabyggðar í Grundarfjarðarbæ.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn lýsir yfir áhyggjum sínum af því hversu mikill fjöldi íbúða er nýttur undir gistiheimili með rekstrarleyfi, í hverfum sem skipulögð eru fyrir íbúabyggð.

Bæjarráð - 504. fundur - 03.10.2017

Lagt fram yfirlit yfir útgefin rekstrarleyfi fyrir veitinga- og gististaði í Grundarfirði miðað við 29. sept. 2017.

Bæjarráð lýsir áhyggjum sínum yfir fjölda íbúðarhúsa sem nýtt eru undir gistiheimili í bænum og telur mikilvægt að mótaðar verði skýrar reglur um veitingu slíkra leyfa í bæjarfélaginu.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að rekstur gistirýma í íbúabyggð fari ekki yfir 5% af fjölda íbúða í þéttbýli. Skipulags- og byggingafulltrúa falið að fara nákvæmlega yfir fjölda gistirýma og að vinna drög að vinnureglum. Meðan sú vinna er í gangi verða ekki afgreiddar umsagnir vegna rekstrarleyfisumsókna.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 208. fundur - 01.11.2017

Lagt fram yfirlit yfir fjölda íbúða í Grundarfirði þar sem íbúðaeignir hafa verið flokkaðar eftir því hvort þær séu í þéttbýli eða dreifbýli. Jafnframt lagður fram listi yfir gistiheimili með starfsleyfi í Grundarfirði. Í framlögðum gögnum kemur fram að gistiheimili í íbúðahúsnæði í þéttbýli Grundarfjarðar er 4,9% af öllum íbúðum í þéttbýli sveitarfélagsins.

Til máls tóku EG, JÓK, HK, RG og BP.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu bæjarráðs þar sem lagt er til við bæjarstjórn að rekstur gistirýma í íbúðabyggð fari ekki yfir 5% af fjölda íbúða í þéttbýli.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarráð - 507. fundur - 21.11.2017

Lagt fram bréf til lögfræðistofunnar Pacta frá 3. nóv. sl., þar sem leitað er leiðsagnar stofunnar á því hvernig best og réttast er að standa að eftirfylgni samþykktar bæjarstjórnar Grundarfjarðar frá 1. nóv. sl., um að rekstur gistirýma í íbúðabyggð fari ekki yfir 5% af fjölda íbúða í þéttbýli.
Jafnframt lagt fram svar Lögmannsstofunnar Pacta, varðandi málið.
Bæjarstjóra falið að vinna áfram að málinu í samráði við lögmann bæjarins.

Bæjarstjórn - 209. fundur - 14.12.2017

Bæjarstjóri kynnti ráðgjöf Pacta lögmanna vegna bréfs bæjarins frá 23. nóv. sl. til lögmannanna ásamt tillögum Pacta lögmanna að afgreiðslu umsagna vegna gistileyfisumsókna.

Ráðgjöfin kveður á um að ákvarðanir um umsagnir vegna rekstrar- og gistileyfisumsókna í íbúabyggð í þéttbýli Grundarfjarðar skuli taka mið af 2. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 og 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um sama efni.

Jafnframt skuli tekið mið af skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en skv. henni skuli rekstur gistiheimila aðeins fara fram á þeim svæðum sem ráð er gert fyrir verslun og þjónustu.

Ennfremur skuli litið til 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, þar sem kveðið sé á um að óheimilt sé að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu byggingaleyfi skipulags- og byggingafulltrúa sveitarfélagsins. Þessi regla gildir m.a. þegar íbúðahúsnæði er breytt í atvinnuhúsnæði.

Á grundvelli framangreindra atriða telur bæjarstjórn að almennt sé ekki unnt að veita jákvæðar umsagnir vegna nýrra rekstrarleyfisumsókna um gististaði í íbúðabyggð.

Við skoðun málsins kom í ljós að svo virðist sem annmarkar hafi verið á eldri umsögnum sem bærinn hefur þegar veitt um eldri umsóknir. Þetta hafi leitt til þess að jákvæðar umsagnir hafi verið veittar um umsóknir sem ekki áttu að fá jákvæðar umsagnir þegar horft er til framangreindra atriða.

Bæjarstjórn leggur áherslu á að þess verði framvegis gætt að ekki verði veittar jákvæðar umsagnir um umsóknir um rekstrarleyfi til atvinnustarfsemi sem ekki séu í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir. Þetta muni þó ekki hafa áhrif á þegar útgefin rekstrarleyfi.

Samþykkt samhljóða.