208. fundur 01. nóvember 2017 kl. 16:30 - 19:42 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
 • Eyþór Garðarsson (EG) forseti bæjarstjórnar
 • Berghildur Pálmadóttir (BP)
 • Bjarni Georg Einarsson (BGE)
 • Elsa Bergþóra Björnsdóttir (EBB)
 • Hinrik Konráðsson (HK)
 • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
 • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
Starfsmenn
 • Þorsteinn Steinsson (ÞS) bæjarstjóri
 • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti setti fund.

Bæjarstjórn fagnar nýjum Grundfirðingum:
Stúlka fædd 22. september 2017. Foreldrar hennar eru Justyna Poplawska og Piotr Wojciechowski.
Stúlka fædd 21. október 2017. Foreldrar hennar eru Sigurbjörg Sandra Pétursdóttir og Grímur Sveinn Pétursson.

Fundarmenn fögnuðu með lófaklappi.

Bæjarstjórn fagnar frumkvæði bæjarbúa varðandi menningarviðburði, sbr. hrekkjavökuviðburð í dag.

Gengið var til dagskrár.

1.Bæjarráð - 504

Málsnúmer 1710001FVakta málsnúmer

 • 1.1 1501066 Lausafjárstaða
  Bæjarráð - 504 Lagt fram til kynningar yfirlit yfir lausafjárstöðu.
 • 1.2 1709041 Launaáætlun 2017
  Bæjarráð - 504 Lögð fram launaáætlun miðað við raunlaun fyrstu níu mánuði ársins. Heildarlaunagreiðslur eru um 6,1 millj. kr. lægri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, sem er um 1,6% lægra.
 • Bæjarráð - 504 Lagt fram bréf bæjarstjóra til forstöðumanna, vegna gerðar fjárhagsáætlunar. Ræddar verðlagsforsendur vegna gerðar fjárhagsáætlunar 2018. Yfirlit úr þjóðhagsspá lagt fram sem sýnir áætlaðar verðlagsbreytingar milli ára. Áætlað er að vísitala neysluverðs breytist um 2,7% frá fyrra ári og launavísitala um 6,5%.

  Ráðgerðir eru tveir vinnufundir með bæjarráði fyrir fyrri umræðu í bæjarstjórn.
 • Bæjarráð - 504 Lögð fram og kynnt bráðabirgðaálagning fasteignagjalda fyrir árið 2018. Skv. henni hækka fasteignagjöld í heild sinni um 6,6% milli áranna 2017 og 2018.

  Bæjarráð samþykkir samhljóða að leggja til við bæjarstjórn að álagning fasteignagjalda verði óbreytt milli áranna 2017 og 2018.
 • 1.5 1710017 Gjaldskrár 2018
  Bæjarráð - 504 Lagt fram yfirlit yfir þjónustugjaldskrár helstu stofnana bæjarins. Rætt um tillögugerð fyrir gjaldskrárbreytingar milli áranna 2017 og 2018.

  Áframhaldandi vinnu við gjaldskrár vísað til næsta fundar bæjarráðs.
 • Bæjarráð - 504 Lögð fram tillaga að álagningarprósentu útsvars árið 2018.

  Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að álagningarprósenta útsvars verði óbreytt frá fyrra ári eða 14,52%.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 504 Lagt fram bréf atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins frá 11. sept. sl., varðandi auglýsingu um byggðakvóta fiskveiðiársins 2017/2018 á grundvelli 10. gr. laga nr. 116/2006 með síðari breytingum. Umsóknarfrestur um byggðakvóta fiskveiðiársins er til 15. okt. 2017.

  Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að sækja um byggðakvóta ársins 2017/2018.
 • 1.8 1701005 Ísland ljóstengt
  Bæjarráð - 504 Farið yfir stöðu mála við lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu og hugmyndir um fyrirkomulag fjármála.
 • Bæjarráð - 504 Lagt fram erindi Ungmennafélags Grundarfjarðar (UMFG) þar sem óskað er eftir samvinnu við Grundarfjarðarbæ um uppbyggingu á íþróttaaðstöðu í bænum. Í erindinu kemur m.a. fram hugmynd um kaup á tilteknu húsnæði sem stórbæta myndi íþróttaaðstöðu í bænum.

  Bæjarráð leggur til að skipaður verði starfshópur sem skoða muni möguleika og kostnað við slíka uppbyggingu. Í starfshópnum verði einn fulltrúi frá UMFG og tveir fulltrúar bæjarráðs, ásamt bæjarstjóra.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 504 Lögð fram auglýsing um utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Þar kemur fram að ekki er mögulegt að kjósa utan kjörfundar í Grundarfirði annað árið í röð. Jafnframt gerð grein fyrir samskiptum bæjarstjóra við Sýslumanninn á Vesturlandi þar sem mótmælt er að ekki sé mögulegt að kjósa utan kjörfundar í Grundarfirði. Í framhaldi af þeim samskiptum hefur Embætti sýslumanns ákveðið að sett verði upp aðstaða fyrir slíkar kosningar í Grundarfirði. Endanlegt fyrirkomulag mun skýrast næstu daga.

  Bæjarráð lýsir óánægju sinni með að í upphaflegri auglýsingu um utankjörfundaratkvæðagreiðslu hafi ekki verið gert ráð fyrir aðstöðu í Grundarfirði. Lagt er til að í framtíðinni verði séð til þess að slíkur möguleiki sé ávallt til staðar í tengslum við kosningar.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 504 Lagt fram bréf Sýslumannsins á Vesturlandi frá 4. apríl sl. varðandi umsögn um rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki IV vegna Hótel Framness, Nesvegi 5. Ekki var unnt að afgreiða erindið fyrr vegna skorts á gögnum.

  Fyrirliggjandi eru jákvæðar umsagnir annarra umsagnaraðila. Grundarfjarðarbær sér því ekkert því til fyrirstöðu að umbeðið rekstrarleyfi verði veitt.

  Samþykkt samhjóða.
 • Bæjarráð - 504 Tekið fyrir að nýju erindi Sýslumannsins á Vesturlandi frá 15. mars sl. þar sem óskað er umsagnar Grundarfjarðarbæjar á umsókn Eyrarsveitar ehf. til að reka gististað í flokki II að Sæbóli 46.
  Ekki var unnt að afgreiða erindið fyrr vegna skorts á gögnum.

  Fyrirliggjandi eru jákvæðar umsagnir annarra umsagnaraðila. Grundarfjarðarbær sér því ekkert því til fyrirstöðu að umbeðið rekstrarleyfi verði veitt.

  Samþykkt samhjóða.
 • Bæjarráð - 504 Lagt fram yfirlit yfir útgefin rekstrarleyfi fyrir veitinga- og gististaði í Grundarfirði miðað við 29. sept. 2017.

  Bæjarráð lýsir áhyggjum sínum yfir fjölda íbúðarhúsa sem nýtt eru undir gistiheimili í bænum og telur mikilvægt að mótaðar verði skýrar reglur um veitingu slíkra leyfa í bæjarfélaginu.

  Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að rekstur gistirýma í íbúabyggð fari ekki yfir 5% af fjölda íbúða í þéttbýli. Skipulags- og byggingafulltrúa falið að fara nákvæmlega yfir fjölda gistirýma og að vinna drög að vinnureglum. Meðan sú vinna er í gangi verða ekki afgreiddar umsagnir vegna rekstrarleyfisumsókna.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 504 Lagt fram bréf Svansskála ehf. frá 28. sept. sl. vegna reksturs Kaffi Emils í húsnæði Sögumiðstöðvar, þar sem kallað er eftir úrbótum á tilteknum atriðum í húsnæðinu og óskað eftir viðræðum um þau mál. Jafnframt lagður fram samningur bæjarins við Svansskála ehf. um aðstöðuna.

  Bæjarstjóra og menningar- og markaðsfulltrúa falið að ræða við bréfritara.

  Samþykkt samhljóða.
  Bókun fundar Til máls tóku EG, RG og ÞS.
 • 1.15 1710009 Skotfélagið, erindi
  Bæjarráð - 504 Lagt fram bréf Skotfélagsins frá 21. sept. sl. varðandi aðstöðu fyrir Skotfélagið og merkingar o.fl.

  Bæjarstjóra falið að ræða við bréfritara.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 504 Lagt fram bréf bæjarstjóra til Íbúðalánasjóðs frá 26. sept. sl. varðandi tilteknar húseignir í Grundarfirði, sem tilboð hafa verið gerð í.

  Bæjarstjóra falið að vinna áfram í málinu.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 504 Lagt fram bréf frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) frá 11. sept. sl. þar sem stjórnendur HVE eru á einu máli að gera sitt besta til að fá sjúkraþjálfara til að nýta aðstöðu sem til staðar er á heilsugæslustöðinni í Grundarfirði.

  Bæjarstjóra falið að eiga fund með forstjóra HVE og kanna hvort ekki sé unnt að fá sjúkraþjálfara sem starfa á vegum stofnunarinnar í Stykkishólmi til þess að vinna í Grundarfirði tiltekna daga.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 504 Lagt fram bréf Dísarbyggðar ehf. frá 15. sept. sl. þar sem óskað er eftir að tillit verði tekið til ákveðinna þátta við endurskoðun aðalskipulags.

  Bæjarráð vísar erindinu til skipulags- og umhverfisnefndar og felur skipulags- og byggingafulltrúa að koma tillögunum á framfæri við hönnuði aðalskipulags.

  Samþykkt samhljóða.
 • 1.19 1610011 Framkvæmdir 2017
  Bæjarráð - 504 Farið yfir stöðu helstu framkvæmda hjá Grundarfjarðarbæ.
 • 1.20 1709043 SSKS, ársfundur
  Bæjarráð - 504 Lagt fram fundarboð Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum en ársfundur verður haldinn föstudaginn 6. okt. nk. í Reykjavík.
 • Bæjarráð - 504 Lagt fram bréf Samgöngu- og sveitarstjórnarráðneytisins þar sem boðað er til ársfundar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem haldinn verður 4 okt. nk. í Reykjavík.
 • Bæjarráð - 504 Lagðir fram minnispunktar bæjarstjóra vegna fundar með fjármálaráðherra 27. sept. sl.
 • Bæjarráð - 504 Lagt fram bréf Sambands ísl. sveitarfélaga frá 29. sept. sl. varðandi úthlutun úr Námsgagnasjóði 2017.

2.Bæjarráð - 505

Málsnúmer 1710004FVakta málsnúmer

 • Bæjarráð - 505 Lagður fram viðauki við fjárhagsáætlun 2017, þar sem fært er á milli deilda, vegna launaleiðréttinga og annars. Upphafleg fjárhagsáætlun 2017 gerði ráð fyrir 17.240 þús. kr. hagnaði samstæðu, en í fjárhagsáætlun 2017 með viðaukum er gert ráð fyrir 18.580 þús. kr. hagnaði, sem er 1.340 þús. kr. betri áætlun afkomu.

  Að sama skapi er handbært fé í árslok áætlað 1.340 þús. kr. hærra en í upphaflegri áætlun, eða 68.120 þús. kr.

  Fjárhagsáætlun 2017 með viðaukum samþykkt samhljóða og vísað til bæjarstjórnar.
 • Bæjarráð - 505 Undir þessum lið sátu forstöðumenn stofnana hver í sínu lagi, Sigurður G. Guðjónsson, skólastjóri grunnskóla, tónlistarskóla og Eldhamra, Anna Rafnsdóttir, skólastjóri leikskólans, Sunna Njálsdóttir, forstöðumaður bókasafns, Aðalsteinn Jósepsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja og Gunnar Jóhann Elísson, umsjónarmaður fasteigna.

  Farið yfir tillögur að fjárhagsáætlun 2018 með hverjum forstöðumanni.

  Fyrirliggjandi tillögum vísað til áframhaldandi vinnu við gerð fjárhagsáætlunar 2018.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 505 Lögð fram tillaga að álagningu fasteignagjalda, sundurliðuð niður á álagningarflokka. Tillagan gerir ráð fyrir óbreyttri álagningu fasteignagjalda.

  Vísað er til afgreiðslu 504. fundar bæjarráðs þar sem tillögunni er vísað til bæjarstjórnar.
 • 2.4 1710017 Gjaldskrár 2018
  Bæjarráð - 505 Lagðar fram tillögur að þjónustugjaldskrám.

  Eftir yfirferð á þjónustugjaldskrám eru tillögurnar samþykktar og vísað til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.

  Samþykkt samhljóða.
 • 2.5 1710023 Framkvæmdir 2018
  Bæjarráð - 505 Lagðar fram tillögur um viðhald og nýframkvæmdir á árinu 2018. Farið yfir helstu framkvæmdir sem nauðsynlegt er að ráðast í ásamt búnaðarkaupum.

  Frekari vinnu við fjárfestingaáætlun vísað til næsta fundar bæjarráðs.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 505 Vegna fyrirhugaðs grjótnáms í grjótnámu að Lambakróarholti er þörf á að segja upp leigusamningi frá 15. maí 2002 við Bárð Rafnsson. Bæjarráð vill bjóða Bárði nýjan leigusamning að teknu tilliti til fyrirhugaðs grjótnáms.

  Fyrir fundinum lá uppdráttur af svæðinu.

  Bæjarstjóra falinn frágangur málsins.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 505 Lögð fram tillaga að samþykkt vegna láns sem Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga (FSS) mun taka vegna húsakaupa fyrir Smiðjuna að Ólafsbraut 19, Ólafsvík. Þar er gert ráð fyrir hlutfallslegri ábyrgð aðildarsveitarfélaga FSS á láninu, sem alls er að fjárhæð 20 millj. kr. Lánið er tekið hjá Lánasjóði sveitarfélaga.

  Á fundi bæjarstjórnar þann 13. sept. sl. samþykkti bæjarstjórn umrædda lántöku. Á grundvelli þeirrar samþykktar er bæjarstjóra falið að undirrita nauðsynleg skjöl vegna lántökunnar.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 505 Lögð fram umsókn Eyjólfs B. Eyvindarsonar f.h. Northern Wave kvikmyndahátíðarinnar, um styrk vegna vinnustofu sem haldin verður í Grundarfirði föstudaginn 27. október nk.

  Bæjarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlanagerðar vegna ársins 2018.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 505 Lagt fram bréf Þjóðskrár Íslands frá 29. september sl. um meðferð kjörskrárstofna vegna alþingiskosninga 28. október 2017. Skv. 1. mgr. 26. gr. kosningalaga skulu kjörskrár lagðar fram eigi síðar en miðvikudaginn 18. október 2017. Kjörskrá verður lögð fram á bæjarskrifstofu frá þeim degi.

  Jafnframt lagður fram kjörskrárstofn í Grundarfirði. Á kjörskrá eru 579 manns, 302 karlar og 277 konur.

  Bæjarráð samþykkir samhljóða fyrirliggjandi kjörskrárstofn og felur bæjarstjóra að undirrita hann.
 • Bæjarráð - 505 Lögð fram til kynningar ályktun frá samráðsfundi félags stjórnenda leikskóla sem haldinn var á Flúðum 28. og 29. sept. sl.

3.Bæjarráð - 506

Málsnúmer 1710006FVakta málsnúmer

 • Bæjarráð - 506 Undir þessum lið sátu Valgeir Magnússon og Hafsteinn Garðarsson, hvor í sínu lagi, og gerðu grein fyrir fjárhagsáætlun sinna deilda. Að því loknu yfirgáfu þeir fundinn.

  Lögð fram drög að fjárhagsáætlun ársins 2018.

  Jafnframt lögð fram drög að þriggja ára áætlun áranna 2019-2021.

  Bæjarráð vísar fjárhagsáætlun 2018 ásamt þriggja ára áætlun áranna 2019-2021 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 506 Lagðar fram umsóknir um styrki vegna ársins 2018.

  Bæjarráð vísar yfirliti með tillögum um styrkveitingar til bæjarstjórnar.

  Samþykkt samhljóða.
 • 3.3 1710023 Framkvæmdir 2018
  Bæjarráð - 506 Lagt fram yfirlit yfir helstu framkvæmdir og fjárfestingar á árinu 2018.

  Áætlun um framkvæmdir og fjárfestingar vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

  Samþykkt samhljóða.
 • 3.4 1710047 Snjómokstur 2017
  Bæjarráð - 506 JÓK vék af fundi undir þessum lið.

  Lögð fram útboðsgögn vegna útboðs á snjómokstri 2017. Tilboðum átti að skila eigi síðar en kl. 11:00 þann 23. október sl. Jafnframt lögð fram fundargerð dags. 23. október sl. vegna opnunar tilboða.

  Eftirtalin tvö tilboð bárust:
  1. Dodds ehf. og Rútuferðir ehf. f.h. óstofnaðs hlutafélags.
  2. J.K. og Co slf.

  Unnið er að mati og yfirreikningi tilboðanna og verður endanleg afgreiðsla tekin að því loknu.

  JÓK tók aftur sæti sitt á fundinum.
 • Bæjarráð - 506 Lagt fram erindi Sýslumannsins á Vesturlandi þar sem óskað er umsagnar á umsókn um gistileyfi í flokki II, frístundahús að Bergi.

  Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við að umbeðið rekstrarleyfi verði veitt, enda liggi fyrir jákvæðar umsagnir annarra umsagnaraðila.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 506 Lagt fram bréf íbúa að Hrannarstíg 18 þar sem óskað er eftir lagfæringum á parketi vegna lekaskemmda.

  Bæjarráð felur umsjónarmanni fasteigna að vinna verkið í samráði við bréfritara.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 506 Lögð fram til kynningar umsókn Grundarfjarðarbæjar frá 12. október sl. um byggðakvóta fiskveiðiársins 2017/2018.
 • 3.8 1710049 Lárkotsnáma
  Bæjarráð - 506 Lögð fram til kynningar beiðni Grundarfjarðarbæjar og Vegagerðarinnar til Ríkiseigna þar sem óskað er eftir heimild fyrir Steypustöð Skagafjarðar til að nýta efnisnámu að Lárkoti. Fyrirtækið vinnur að lagningu jarðstrengs frá Ólafsvík til Grundarfjarðar og mun nýta efni í slóðagerð og fleira í tengslum við verkið. Jafnframt mun fyrirtækið lagfæra veg að Lárkoti fáist leyfi til nýtingar á námunni.

4.Skólanefnd - 139

Málsnúmer 1709005FVakta málsnúmer

 • Skólanefnd - 139 Sigurður G. Guðjónsson sat fundinn undir þessum lið.
  Lögð fram skýrsla skólastjóra við upphaf skólaársins 2017-2018. Alls eru 86 nemendur skráðir í nám í 1. -10. bekk. Kennarar og stjórnendur eru 12 og annað starfsfólk 9 samtals í 6 stg. Meðtalið er starfsfólk á Eldhömrum.
  Einnig lagt fram bréf grunnskólans, sem er svar við eftirfylgni með úttekt á grunnskólanum. Þetta er gert til samræmis við bréf Menntamálaráðuneytisins frá 14. júní 2016.

  Skólanefnd felur skólastjóra að senda svarið til ráðuneytisins.

  Ennfremur lagt fram yfirlit yfir vinnuskipan í skólanum.
 • Skólanefnd - 139 Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri gerði grein fyrir starfseminni.
  Starfið fer vel af stað og ánægja er með starfsemina. Dagskráin er fjölbreytt s.s. smíði,heimilisfræði,tónlistarnám og íþróttir. Einnig er stundum unnið með nemendum í 1.-2. bekk grunnskólans.
  Alls eru 2,7 stöðugildi starfandi á deildinni og börn á Eldhömrum eru alls 15.
 • Skólanefnd - 139 Sigurður G. Guðjónsson sat fundinn undir þessum lið. Gerði hann grein fyrir starfsemi tónlistarskólans en alls eru skráðir 50 nemendur á þessari önn. Í skólanum starfa alls 5 kennarar í 2,9 stöðugildum, auk stundakennara.
 • Skólanefnd - 139 Anna Rafnsdóttir, leikskólastjóri, Hallfríður Guðný Ragnarsdóttir, fulltrúi starfsmanna og Guðbjörg Guðmundsdóttir, fulltrúi foreldraráðs sátu fundinn undir þessum lið.
  Nýr leikskólastjóri Anna Rafnsdóttir var sérstaklega boðin velkomin til starfa.
  Leikskólastjóri fór yfir starfsemi skólans og lagði fram starfsskýrslu. Í leikskólanum eru 44 nemendur á aldrinum 1-5 ára. Á leikskólanum eru 3 deildir; Drekadeild, Músadeild og Bangsadeild.
  Starfsmenn á leikskólanum eru 19 í 15 stöðugildum.
  Gerð var grein fyrir námskeiðum sem starfsfólk skólans er að fara á og öðrum sem eru í undirbúningi.
  Ennfremur var lagt fram bréf leikskólastjóra varðandi beiðni um breytingu á skóladagatali fyrir skólaárið 2017-2018. Óskað var eftir frekari upplýsingum áður en beiðnin verður afgreidd.
  Bókun fundar Til máls tóku EG, RG, ÞS og HK.

  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að Leikskólinn Sólvellir verði lokaður milli jóla og nýjárs í samræmi við óskir leikskólastjóra.

5.Hafnarstjórn - 14

Málsnúmer 1710005FVakta málsnúmer

 • Hafnarstjórn - 14 Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun Grundarfjarðarhafnar fyrir árið 2018, ásamt greinargerð. Til samanburðar er útkomuspá ársins 2017 og raunniðurstaða ársins 2016.

  Hafnarstjóri fór yfir fyrirliggjandi tillögur að fjárhagsáætlun.

  Hafnarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun hafnarinnar fyrir árið 2018 og vísar henni til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.

  Jafnframt leggur hafnarstjórn til að samtals verði settar 15 m.kr. í fjárfestingar annars vegar til undirbúnings og byrjunarframkvæmda við viðbyggingu Norðurgarðs og hins vegar til kaupa á nýjum bíl fyrir höfnina.
 • Hafnarstjórn - 14 Lögð fram tillaga að gjaldskrá Grundarfjarðarhafnar fyrir árið 2018.
  Almennt er lagt til að gjöld samkvæmt gjaldskránni færist upp um almenna áætlaða verðlagsbreytingu. Aflagjöld eru óbreytt milli ára.
  Hafnarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu að gjaldskrá hafnarinnar með áorðnum breytingum og vísar henni til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.
 • Hafnarstjórn - 14 Lögð fram kynning á fyrirhugaðri lengingu á Norðurgarði í Grundarfirði og efnistöku úr námum, sem fyrirhugaðar eru á vegum Grundarfjarðarhafnar. Greinagerðin er unnin af Vegagerðinni og dagsett í september 2017.
  Áður en efnistaka úr námum heldur áfram þarf að kanna matsskyldu framkvæmdarinnar, sækja um framkvæmdaleyfi og breyta aðalskipulagi.

  Jafnframt lögð fram tillaga að fyrirhugaðri viðbyggingu við Norðurgarðinn. Tillagan er unnin af hönnunardeild Vegagerðarinnar merkt tillaga I.
  Hafnarstjóra og formanni stjórnar falið að vinna áfram að undirbúningi framkvæmda með Vegagerðinni.
 • Hafnarstjórn - 14 Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 2. okt sl., varðandi lengingu á Norðurgarði og efnistöku úr námum. Í bréfinu eru gerðar nokkrar athugasemdir við drög að tilkynningu sem send var stofnuninni 19. sept. sl.
  Hafnarstjóra og formanni stjórnar falið í samvinnu við Vegagerðina að svara Skipulagsstofnun.
 • Hafnarstjórn - 14 Lagður fram leigusamningur frá 15. maí 2002 milli Grundarfjarðarbæjar og Bárðar Rafnssonar, þar sem Bárði er leigt tiltekið beitiland úr landi Grafar-Innri. Vegna fyrirhugaðs grjótnáms í Lambakróarholti er nauðynlegt að virkja 5. tl. samningsins og segja samningnum upp, enda þótt reynt verði að hegða grjótnámi þannig að leigutaki geti nýtt svæðið að stærstum hluta áfram. Stefnt er að því að gerður verði nýr samningur, þegar ljóst verður hvernig grjótnáminu verður háttað.
  Hafnarstjórn leggur til að bæjarstjóri gangi frá málinu á þessum grunni.
 • Hafnarstjórn - 14 Lagt fram bréf Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytisins frá 11. sept sl,varðandi auglýsingu um umsóknir vegna byggðakvóta fiskveiðiársins 2017/2018.

  Jafnframt lögð fram umsókn Grundarfajrðarbæjar um byggðakvóta frá 12. okt. sl., þar sem sótt er um byggðakvóta fiskveiðiársins 2017/2018 á grundvelli auglýsingar ráðuneytisins.
 • Hafnarstjórn - 14 Lagðar fram til kynningar fundargerðir Hafnasambands Íslands númer 396 og 397.
 • Hafnarstjórn - 14 Lagt fram afrit af bréfi Vegagerðarinnar til Hafnasambands Íslands frá 19. júní sl.
 • Hafnarstjórn - 14 Lagt fram bréf dags. 13. okt. sl. frá Samtökum ferðaþjónustunnar.
  Hafnarstjóra falið að svara erindinu.

6.Menningarnefnd - 11

Málsnúmer 1709001FVakta málsnúmer

Ágústa Ósk Guðnadóttir hefur sagt sig úr menningarnefnd vegna flutninga úr sveitarfélaginu.

Lagt til að í hennar stað komi Unnur Birna Þórhallsdóttir.

Samþykkt samhljóða.
 • 6.1 1709028 Kosning formanns
  Menningarnefnd - 11 Bjarni Sigurbjörnsson býður sig fram til formanns og er það samþykkt samhljóða.
  Hrafnhildur Jóna Jónasdóttir býður sig fram til varaformanns og er það samþykkt samhljóða.
 • 6.2 1709026 Rökkurdagar 2017
  Menningarnefnd - 11 Lagt til að Rökkurdagar verði haldnir síðustu vikuna í október. Hugmyndir að dagskrárliðum hátíðarinnar ræddar.
 • Menningarnefnd - 11 Áhugavert og þarft verkefni að auka vægi matarauðs í héraði. Menningar- og markaðsfulltrúa falið að afla frekari upplýsinga um átaksverkefnið Matarauður Vesturlands.
 • Menningarnefnd - 11 Menningar- og markaðsfulltrúi upplýsir fundarmenn um stöðu mála varðandi undirbúning að uppsetningu skilta um bæinn. Mun þeim verða skipt í þemu og unnin í áföngum. Áætlað er að fyrstu fimm skiltin verði komin á sinn stað um miðjan maí árið 2018.
 • Menningarnefnd - 11 Myndir, filmur, videoefni og fleira frá Bæring Cecilssyni, sem er í varðveislu Grundarfjarðarbæjar, er geymt í lítilli skrifstofukompu í Sögumiðstöðinni. Þar er nánast ómögulegt að komast að efninu auk þess sem það fer ekki vel um það.
  Lagt er til að efnið verði fært út úr Sögumiðstöðinni sem fyrst og varðveitt að Grundargötu 30, eða annars staðar þar sem betur fer um það og það er aðgengilegt á öllum tímum.
  Bókun fundar Til máls tóku EG, HK, ÞS og RG.

  Bæjarstjórn tekur undir með nefndinni að myndefninu verði fundinn betri staður.
 • 6.6 1709032 Brana SH
  Menningarnefnd - 11 Ræddar hugmyndir um yfirbyggingu yfir bátinn Brönu SH. Ekkert hefur gerst í þeim málum að undanförnu og því lagt til að fengið verði álit óháðs fagaðila um hvernig Sögumiðstöðin sé best nýtt með fyrrnefnda yfirbyggingu í huga.  Bókun fundar Til máls tóku EG, HK, RG og ÞS.

  Bæjarstjórn tekur undir með nefndinni og leggur til að málið verði skoðað með fulltrúum Brönusjóðs.

  Samþykkt samhljóða.
 • Menningarnefnd - 11 Farið yfir stöðu mála varðandi umgengni í Sögumiðstöð og Samkomuhúsi. Nefndin er sammála um að bæta megi umgengni um menningarhúsin t.d. herbergið á efri hæð Samkomuhúss.

  Menningarnefnd hvetur bæjarstjórn til að taka sem fyrst ákvörðun um framtíð Samkomuhússins. Húsið er menningararfur samfélagsins, reist af sjálfboðaliðum í sveitinni, og telur menningarnefnd það skyldu bæjarins að viðhalda því og betrumbæta svo það megi halda áfram hlutverki sínu sem samkomuhús okkar allra.
  Bókun fundar Til máls tóku EG, ÞS, RG og JÓK.

  Bæjarstjórn tekur undir með nefndinni. Hafist hefur verið handa við undirbúning á lagfæringum í Samkomuhúsi.

  Jafnframt kallar bæjarstjórn eftir stefnumótun menningarnefndar um framtíð og hlutverk menningarhúsa bæjarins.

7.Öldungaráð - 6

Málsnúmer 1710003FVakta málsnúmer

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn telur, með vísan til töluliða fundargerðarinnar nr. 1, 2, 3 og 8, æskilegt að skoðað verði með hvaða hætti unnt sé að bæta sem best þjónustu við aldraða.

Bæjarstjórn tekur vel í það að fundin verði leið til að mæta þörfum eldri borgara hvað þessi mál varðar.

Samþykkt samhljóða.
 • Öldungaráð - 6 Öldungaráð fer fram á að gert verði ráð fyrir því í fjárhagsáætlun ársins 2018 að ráðinn verði starfsmaður til að halda utan um starf eldri borgara í Grundarfirði.
 • Öldungaráð - 6 Fenginn hefur verið starfsmaður til að þrífa húsnæðið að Borgarbraut 2 einu sinni í viku í vetur.
 • Öldungaráð - 6 Öldungaráð leggur til að ráðinn verði starfsmaður til að sjá um líkamsrækt fyrir eldri borgara og öryrkja einu sinni til tvisvar í viku.
 • Öldungaráð - 6 Möguleikar á framtíðarhúsnæði fyrir eldri borgara ræddir. Áhugi er fyrir að athuga hvort hægt sé að fá gamla kaupfélagshúsið við Nesveg 1 fyrir eldri borgara sem framtíðarhúsnæði.
 • 7.5 1710031 Skoðanakönnun
  Öldungaráð - 6 Lagt er til að undirbúin verði viðhorfskönnun um framtíðarsýn eldri borgara í sveitarfélaginu. Menningar- og markaðsfulltrúa falin nánari útfærsla á könnuninni.
 • 7.6 1710032 Minigolf og pútt
  Öldungaráð - 6 Settar fram og ræddar hugmyndir að staðsetningu fyrir púttvöll og mínígolf í bænum.

  Samþykkt að senda beiðni til skipulags- og byggingarnefndar um að fundin verði og lögð til hentug staðsetning fyrir púttvöll og mínígolf. Lagt er til að fundinn verði staður nærri dvalarheimili aldraðra.
 • Öldungaráð - 6 Öldungaráð kallar eftir því að Alþingi skipi umboðsmann aldraðra líkt og fyrirhugað hefur verið í allnokkurn tíma.

  Öldungaráð hyggst rita bréf til Alþingis máli sínu til áréttingar.
 • 7.8 1710034 Önnur mál
  Öldungaráð - 6 Farið yfir stöðu á sjúkraþjálfunarmálum í bænum.

  Bent er á frétt um fjölþætta heilsueflingu fyrir eldri aldurshópa, yfir 65 ára, í Reykjanesbæ þar sem dr. Janus Guðlaugsson íþrótta- og heilsufræðingur er í forsvari. Áhugi er fyrir að kanna hvort mögulegt sé að fá slíkt verkefni hingað í Grundarfjörð.

8.Skipulags- og umhverfisnefnd - 183

Málsnúmer 1710007FVakta málsnúmer

 • Lagður er fram deiliskipulagsuppdráttur dags.25.10.2017 ásamt greinargerð frá ASK arkitektum dags.09.10.2017 unnin fyrir Guðmund Runólfsson hf. 350 Grundarfirði. Þar sem óskað er eftir samþykki Grundafjarðarbæjar á tillögunni og að hún fari í formlegt kynningar- og staðfestingarferli skv.1.mgr.41.gr. Skipulagslaga. Skipulags- og umhverfisnefnd - 183
  Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framlagt deiliskipulag og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja formlegt kynnigar og staðfestingarfgerli smkv 1. mgr 41. gr. skipulagslaga.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
 • Umsókn dags. 14.08.2017 um leyfi til að grafa skurð meðfram skíðabrekku skíðadeildar UMFG og útbúa mön meðfram skíðabrekkunni.
  Umsókn var áður lögð fyrir fund umhverfis- og skipulagsnefdar nr.181, en var ekki afgreidd.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 183
  Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið.
 • Tilkynning vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Grundafjarðarhöfn.
  Fylgigögn. Bréf til Umhverfis- og skipulagsnefndar ásamt gögnum vegna framkvæmdar.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 183
  Skipulags- og Umhverfisnefnd samþykkir lengingu Norðurgarðs og felur Skipulags-og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdarleyfi.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
 • Zeppelin Arkitektar óska eftir að fá að kynna Deiliskipulagstillögu að 60 - 80 herbergja hótelbyggingu á svæðinu. Þeir óska eftir að vera með kynningu á verkefninu tímabili 8- 13.nóvember. Skipulags- og umhverfisnefnd - 183
  Skipulags- og bygginganefnd tekur vel í erindið og samþykkir að eiga fund með aðilum.
 • 8.5 1710056 Ferðamál, bréf
  Skipulags- og umhverfisnefnd barst fyrirspurn. Skipulags- og umhverfisnefnd - 183 Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að afla frekari gagna.

9.Álagning útsvars 2018

Málsnúmer 1710019Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir tillögu frá 504. fundi bæjarráðs um álagningu útsvars, þar sem lagt er til við bæjarstjórn að álagningarprósenta verði óbreytt frá fyrra ári, eða 14,52%.

Samþykkt samhljóða.

10.Fasteignagjöld 2018

Málsnúmer 1710015Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir tillögu bæjarráðs um að álagningarprósenta fasteignagjalda 2018 verði óbreytt frá fyrra ári.

Samþykkt samhljóða.

11.Gjaldskrár 2018

Málsnúmer 1710017Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit þar sem fram kemur samanburður á helstu þjónustugjaldskrám 2017 milli nokkurra nágrannasveitarfélaga. Um þjónustugjaldskrár næsta árs hefur þegar verið fjallað á fundum bæjarráðs.

Til máls tóku EG og RG.

Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi þjónustugjaldskrár fyrir árið 2018.

Samþykkt samhljóða.

12.Styrkumsóknir og afgreiðsla styrkja 2018

Málsnúmer 1710037Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir næsta árs, sem bæjarráð vísaði til afgreiðslu í bæjarstjórn.

Til máls tóku EG, HK, RG og ÞS.

Eftir umræður felur bæjarstjórn bæjarráði að endurskoða styrkveitingar ársins 2018.

Samþykkt samhljóða.

13.Fjárhagsáætlun 2018

Málsnúmer 1710010Vakta málsnúmer

Lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun ársins 2018 ásamt þriggja ára áætlun áranna 2019-2021, sem innifelur rekstraryfirlit, málaflokka- og deildayfirlit, efnahagsyfirlit og sjóðstreymi. Jafnframt lagt fram yfirlit yfir áætlaðar fjárfestingar ársins 2018.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa fjárhagsáætlun 2018 og þriggja ára áætlun áranna 2019-2021 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

14.Ferðamál, bréf

Málsnúmer 1710056Vakta málsnúmer

EG vék af fundi undir þessum lið og RG tók við stjórn fundarins.

Lagt fram bréf frá 29. október sl. þar sem bréfritarar lýsa yfir áhuga sínum á að stofna ferðaþjónustufyrirtæki í Grundarfirði. Óskað er umsagnar og leiðsagnar bæjarins um erindið.

Bæjarstjórn fagnar erindinu og telur það áhugavert og felur skipulags- og byggingafulltrúa að ræða við bréfritara og vinna að úrvinnslu málsins, sbr. 5. tl. fundargerðar skipulags- og umhverfisnefnar frá 30. október sl.

Samþykkt samhljóða.

EG tók aftur sæti sitt á fundinum og við stjórn hans.

15.Sameining sveitarfélaga, viðræður

Málsnúmer 1606001Vakta málsnúmer

Lögð fram skýrsla KPMG um mögulega sameiningu Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar.

Allir tóku til máls.

Eftir yfirferð skýrslunnar telur bæjarstjórn Grundarfjarðar að ekki sé grundvöllur til sameiningar að svo stöddu.

Samþykkt samhljóða.

16.Snjómokstur 2017

Málsnúmer 1710047Vakta málsnúmer

JÓK vék af fundi undir þessum lið.

Farið yfir gögn vegna útboðs um snjómokstur í Grundarfirði. Lagt fram minnisblað skipulags- og byggingafulltrúa þar sem lagt er til að gengið verið til samninga við lægstbjóðanda.

Bæjarstjórn samþykkir að gengið verði til samninga við Dodds ehf. og Rútuferðir ehf. f.h. óstofnaðs hlutafélags.

Samþykkt samhljóða.

JÓK tók aftur sæti sitt á fundinum.

17.Svæðisskipulag Dalabyggðar, umsögn

Málsnúmer 1710007Vakta málsnúmer

Lagt fram Svæðisskipulag Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar. Óskað er umsagnar Grundarfjarðarbæjar um skipulagið.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við að svæðisskipulagið verði samþykkt. Bæjarstjórn bendir sérstaklega á mikilvægi þess að við nýtingu sjávarauðlinda í Breiðafirði verði lögð áhersla á sjálfbærni þeirra. Ennfremur leggur bæjarstjórn til að vel verði hugað að tengingu Dalabyggðar og Snæfellsness um Skógarstrandaveg til þess að svæðin í heild geti notið ávinnings af bættri vegtengingu.

Samþykkt samhljóða.

18.Leikskólinn, viðhald

Málsnúmer 1710055Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá fulltrúum í Foreldraráði Leikskólans Sólvalla, dags. 29. okt. sl., varðandi ástand húsnæðis leikskólans. Gerð grein fyrir því að haldinn hefur verið fundur með bréfriturum og fulltrúum bæjarins um málið.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn þakkar foreldraráði bréfið og tekur undir mikilvægi þess að húsnæði leikskólans verði lagfært. Í fjárhagsáætlun ársins 2018 er gert ráð fyrir fjárveitingum til verkefnisins.

19.Gistirými í Grundarfirði

Málsnúmer 1605035Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir fjölda íbúða í Grundarfirði þar sem íbúðaeignir hafa verið flokkaðar eftir því hvort þær séu í þéttbýli eða dreifbýli. Jafnframt lagður fram listi yfir gistiheimili með starfsleyfi í Grundarfirði. Í framlögðum gögnum kemur fram að gistiheimili í íbúðahúsnæði í þéttbýli Grundarfjarðar er 4,9% af öllum íbúðum í þéttbýli sveitarfélagsins.

Til máls tóku EG, JÓK, HK, RG og BP.

Bæjarstjórn samþykkir tillögu bæjarráðs þar sem lagt er til við bæjarstjórn að rekstur gistirýma í íbúðabyggð fari ekki yfir 5% af fjölda íbúða í þéttbýli.

Samþykkt samhljóða.

20.Skólaakstur, úrskurður

Málsnúmer 1710050Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar álit Umboðsmanns Alþingis, dags. 2. október sl., er lýtur að reglum um skólaakstur í grunnskólum.

21.Félagsmálanefnd, fundargerð nr. 170

Málsnúmer 1710046Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar fundargerð 170. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga frá 19. september sl.

22.Félagsmálanefnd, fundargerð nr. 171

Málsnúmer 1710045Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar fundargerð 171. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga frá 3. október sl.

23.SSV, stjórnarfundur nr. 133

Málsnúmer 1710057Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 133. stjórnarfundar SSV frá 10. október sl.

24.Umhverfisstofnun, ársfundur og dagskrá

Málsnúmer 1710058Vakta málsnúmer

Lagt fram fundarboð um ársfund Náttúruverndarnefnda Umhverfisstofnunar og forstöðumanna Náttúrustofa sem haldinn verður á Akureyri 9. nóvember nk.

25.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1505019Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri gerði grein fyrir minnispunktum.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 19:42.