209. fundur 14. desember 2017 kl. 16:30 - 22:38 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
 • Eyþór Garðarsson (EG) forseti bæjarstjórnar
 • Berghildur Pálmadóttir (BP)
 • Bjarni Georg Einarsson (BGE)
 • Elsa Bergþóra Björnsdóttir (EBB)
 • Hinrik Konráðsson (HK)
 • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
 • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
Starfsmenn
 • Þorsteinn Steinsson (ÞS) bæjarstjóri
 • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Björg Ágústsdóttir, sérfræðingur hjá Alta, sat fundinn undir lið 7.

Forseti setti fund.

Bæjarstjórn fagnar nýjum Grundfirðingum:
Stúlka fædd 9. nóvember 2017. Foreldrar hennar eru Björg Björgvinsdóttir og Friðfinnur Kristjánsson.
Drengur fæddur 4. desember 2017. Foreldrar hans eru Rut Rúnarsdóttir og Hafsteinn Már Sigurbjörnsson.

Fundarmenn fögnuðu með lófataki.

Gengið var til dagskrár.

1.Bæjarráð - 507

Málsnúmer 1711001FVakta málsnúmer

 • 1.1 1501066 Lausafjárstaða
  Bæjarráð - 507 Lagt fram til kynningar yfirlit yfir lausafjárstöðu.
 • Bæjarráð - 507 Lagt fram til kynningar yfirlit yfir greitt útsvar jan.-okt. 2017. Skv. yfirlitinu hafa útsvarstekjur bæjarins aukist um 2,5% milli ára.
 • Bæjarráð - 507 Lagðar fram umsóknir um styrki vegna ársins 2018, sem bæjarstjórn vísaði til endanlegrar tillögugerðar í bæjarráði á fundi sínum 1. nóv. sl.
  Farið var yfir styrkumsóknir og gerðar nokkrar breytingar.
  Bæjarráð vísar tillögu um afgreiðslu styrkja með áorðnum breytingum til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.
 • Bæjarráð - 507 Lögð fram gögn um samskipti Grundarfjarðarbæjar við Íbúðalánasjóð varðandi íbúðamál og hugsanleg kaup bæjarins á þremur íbúðum. Farið yfir tilboð bæjarins og gagntilboð Íbúðalánasjóðs.
  Lagt til að fela bæjarstjóra að gera gagntilboð til samræmis við umræður á fundinum með fyrirvara um fjármögnun. Tilboðið taki mið af því að gengið verði frá kaupsamningum á nýju ári, þegar fjárhagsáætlun ársins 2018 hefur tekið gildi.
  Samþykkt samhljóða
 • 1.5 1605035 Gistirými, reglur
  Bæjarráð - 507 Lagt fram bréf til lögfræðistofunnar Pacta frá 3. nóv. sl., þar sem leitað er leiðsagnar stofunnar á því hvernig best og réttast er að standa að eftirfylgni samþykktar bæjarstjórnar Grundarfjarðar frá 1. nóv. sl., um að rekstur gistirýma í íbúðabyggð fari ekki yfir 5% af fjölda íbúða í þéttbýli.
  Jafnframt lagt fram svar Lögmannsstofunnar Pacta, varðandi málið.
  Bæjarstjóra falið að vinna áfram að málinu í samráði við lögmann bæjarins.
 • Bæjarráð - 507 Lögð fram bréf Skipulagsstofnunar frá 2. okt og 9. nóv sl., varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir við lengingu Norðurgarðs og efnisnámur tengdar framkvæmdinni. Jafnframt lögð fram kynning á fyrirhuguðum framkvæmdum við lengingu Norðurgarðs og efnisnámur tengdar framkvæmdinnni. Kynningin er unnin af Vegagerðinni og dags. í okt. 2017.
  Í bréfi Skipulagsstofnunar frá 9. nóv. sl. er óskað umsagnar Grundarfjarðarbæjar um það hvort og á hvaða forsendum ofangreind framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka í lögum nr. 106/2000.

  Grundarfjarðarbær hefur yfirfarið kynningarskýrslu Grundarfjarðarhafnar og Vegagerðarinnar um fyrirhugaða efnistöku vegna lengingar á Norðurgarði í Grundarfirði á vegum Grundarfjarðarhafnar.

  Grundarfjarðarbær telur að með tilliti til 2. viðauka í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé í skýrslunni gerð nægjanleg grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun. Framkvæmdin mun ekki hafa áhrif á verndarsvæði, náttúruminjar, sérstæðar jarðmyndanir eða lífríki sem nýtur verndar. Helstu áhrif hennar á umhverfið verða vegna hávaða, ryks og ónæðis vegna sprenginga og efnisflutninga. Því er mikilvægt að samráð verði við skipulags- og byggingafulltrúa Grundarfjarðar um tímasetningu framkvæmda og frágang framkvæmdasvæðis eins og kemur fram í kafla 6 í skýrslu Grundarfjarðarhafnar og Vegagerðarinnar.

  Í kynningarskýrslunni kemur fram að áður en framkvæmdir hefjast þurfi að breyta aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2003-2015. Í henni kemur einnig fram að gert sé ráð fyrir fyrirhugaðri lengingu Norðurgarðs og fyrirhuguðum efnistökustöðum við endurskoðun aðalskipulags sem miðað er við að verði samþykkt vorið 2018.
  Ef Grundarfjarðarbær sér fram á að ekki náist að ljúka aðalskipulagi áður en framkvæmdir þurfa að hefjast, verður farið eftir 9. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012. Þar sem kemur fram að leyfisveitandi geti án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag leyft einstakar framkvæmdir sem um kann að verða sótt, að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar skv. 1. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulagslögum nr. 123/2010.

  Framkvæmdin er háð framkvæmdaleyfi Grundarfjarðarbæjar því afla skal framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.

  Niðurstaða Grundarfjarðarbæjar er að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000.

  Bæjarstjórn Grundarfjarðar samþykkir umsögn þessa samhljóða og vísar henni til kynningar í umhverfis - og skipulagsnefnd.
 • 1.7 1701005 Ísland ljóstengt
  Bæjarráð - 507 Lagðar fram hugmyndir um verðkönnun fyrir blástur og tengingar ljósleiðara í dreifbýli Grundarfjarðar.
  Lagt er til að kallað verði eftir tilboðum hjá fjórum tilteknum verktökum á þessu sviði. Verktakarnir eru: Leiðarinn ehf. Hveragerði, Rafal ehf. Hafnarfirði, Telnet ehf Akranesi og
  TRS ehf. Selfossi.
  Bæjarstjóra og byggingafulltrúa falið að kalla eftir tilboðum frá viðkomandi aðilum til samræmis við fyrirliggjandi gögn. Æskilegt er að verkið geti hafist í desember nk. og eigi síðar en í janúar 2018.

  Jafnframt er samþykkt að senda út reikning til þeirra aðila sem ætla að taka inn tengingu. Stofngjald skal vera 250.000 kr. á hverja heimtaug með vsk.

  Málsmeðferð þessi samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 507 Lagt fram bréf bæjarins til Ungmennafélags Grundarfjarðar frá 16. okt. sl., þar sem tilkynnt er að bæjarráð hafi lagt til að skipaður verði sérstakur starfshópur sem skoða muni möguleika og kostnað við uppbyggingu á íþróttaaðstöðu í bænum m.a. með hugsanlegum kaupum á húsnæði fyrir starfsemina. Í þessu sambandi var sérstaklega nefnd saltgeymsla, sem stendur við Norðurbakka D.
  Gerð grein fyrir því að rætt hefur verið við eigendur skemmunnar um hugsanleg kaup á henni og hvernig unnt væri að nálgast þau mál.
  Ennfremur lagt fram yfirlit yfir fasteignamat og brunabótamat á húsnæðinu. Jafnframt var á fundinum kynnt gróf áætlun yfir framkvæmdakostnað við lagfæringar á húsnæðinu, sem þyrfti að gera til þess að koma því í það ástand að það nýttist vel til iðkunnar af ýmsu tagi.

  Lagt er til að fela starfshópnum að vinna áfram að framgangi málsins.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 507 Lagt fram bréf G.Run, þar sem fyrirtækið óskar eftir því við bæjaryfirvöld að fá heimild til að fara í jarðvegsskipti á fyrirhuguðum byggingarreit fyrirtækisins á lóð norðan við núverandi vinnsluhús fyrirtækisins að Sólvöllum 2.
  Fyrir liggja áætlanir fyrirtækisins um byggingu fiskiðjuvers á lóðinni og hefur verið farið yfir áætlanir þess og tímaplön ásamt teikningum með fulltrúum fyrirtækisins og arkitektum.

  Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um byggingaráform fyrirtækisins samþykkir bæjarráð að fyrirtækinu verið veitt umbeðin heimild fyrir jarðvegsskiptum á lóðinni.

  Byggingafulltrúa falið að ganga frá málinu.

  Jafnframt samþykkir bæjarráð að fela byggingarfulltrúa að undirbúa hönnun á götu milli Nesvegar og Sólvalla, sem áætlað er að vinna að á næsta ári. Nauðsynlegt er að kalla eftir vinnu sérfræðinga í þessu sambandi.

  Málsmeðferð þessi samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 507 Lögð fram til kynningar teikning af fyrirhuguðum frágangi gangstétta við Grundargötu norðanverða, en þar er nú unnið að lagningu rafstrengs sem liggur frá nýju spennuvirki niður að höfn. Við framkvæmdina er ráðgert að bílastæðum við Grundargötuna að norðanverðu verði fækkað, sökum þess að gangstéttin verður breikkuð og ljósastaurar verða færðir að lóðarmörkum.

  Byggingafulltrúa og verkstjóra áhaldahúss falið að kynna væntanlegar framkvæmdir fyrir húsráðendum aðliggjandi húsa og kanna hug þeirra til framkvæmdanna.

  Málinu vísað að öðru leyti til nánari útfærslu í umhverfis- og skipulagsnefnd.

  Málsmeðferð þessi samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 507 Lagt fram bréf Hartaverndar, móttekið 13. nóv. sl., þar sem gerð er grein fyrir því að Hjartavernd hefur þróað nýtt verkfæri eða "viðvörunarkerfi" sem skiptir lýðheilsu þjóðarinnar miklu máli að fá í gagnið.
  Hjartavernd kallar eftir stuðningi samtaka og fyrirtækja við verkefnið.
  Ekki er hægt að verða við erindinu.
 • Bæjarráð - 507 Lagt fram til kynningar bréf Þjóðskjalasafns Íslands frá 10. nóv. sl., varðandi eftirlitskönnun með skjalavörslu og skjalastjórn sveitarstjórnarskrifstofa.
 • Bæjarráð - 507 Lagt fram bréf Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands þar sem tilkynnt er um ágóðahlutagreiðslu félagsins árið 2017 til Grundarfjarðarbæjar að fjárhæð kr. 419 þús. kr.
 • Bæjarráð - 507 Lagt fram til kynningar bréf Umhverfisstofnunar frá 6. nóv. sl., varðandi upplýsingagjöf sveitarstjórna við útgáfu og endurskoðun á svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs.
 • Bæjarráð - 507 Lögð fram til kynningar fundargerð samstarfsnefndar um mögulega sameiningu sveitarfélaganna Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar frá 9. nóv. sl.
  Niðurstaða nefndarinnar er sú að ekki verður farið í kosningar um sameiningu sveitarfélaganna að svo stöddu.

2.Skólanefnd - 140

Málsnúmer 1711002FVakta málsnúmer

 • Skólanefnd - 140 Sigurður G. Guðjónsson sat fundinn ásamt áheyrnarfulltrúa kennara Eydísi Lúðvíksdóttur.

  Lögð fram skýrsla Menntamálastofnunar varðandi árangur í samræmdum prófum eftir kjördæmum.

  Kynnt nemendakönnun 6.-10. bekkjar 2017-2018.
  Nemendakönnunin fer fram í u.þ.b. 40 nemenda úrtökum sem dreift er samhverft yfir skólaárið þar sem fjöldi úrtaka fer eftir stærð hvers skóla fyrir sig. Þannig er hægt að skoða þróun einstakra þátta yfir langan tíma. Þátttaka margra skóla víðsvegar að af landinu gefur möguleika á að birta í hverjum skóla feril landsmeðaltals. Með þessu verða gögn hvers skóla samanburðarhæf en það er grunnur þess að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um viðbrögð í einstökum tilvikum.

  Ennfremur farið yfir breytt skóladagatal 2017-2018 þannig að miðvikudagurinn 18. apríl bætist við sem vetrarfrísdagur og skólaslit verða föstudaginn 1. júní nk.
  Skólanefnd hvetur til þess að vetrarfrí í skólum á Snæfellsnesi verði samræmt eins og kostur er.

  Samkvæmt kjarasamningi sveitarfélaga við Kennarasamband Íslands skulu skóladagar nemenda vera 180 á tímabilinu 20.-10. júní og er skóladagatal grunnskóla Grundarfjarðar innan þeirra marka.

  Lögð fram til kynningar umbótaáætlun og lokaskýrsla Grundarfjarðarbæjar, vegna bókunar 1 í kjarasamningi Sambands ísl. sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands, vegna félags Grunnskólakennara, sem send var ráðuneyti Menntamála 1. júní sl.
  Vinna við greiningu og undirbúning umbótaáætlunarinnar var unnin af fulltrúum bæjarins og fulltrúum kennara.
  Kennarar völdu sína fulltrúa, sem voru Anna Kristín Magnúsdóttir, Einar Þór Jóhannsson og Ingibjörg Eyrún Bergvinsdóttir og bæjarstjórn valdi fulltrúa bæjarins , sem voru Sigríður G. Arnardóttir, Sigurður G. Guðjónsson og Þorsteinn Steinsson.
 • Skólanefnd - 140 Sigurður G. Guðjónsson skólastjóri gerði grein fyrir starfseminni og mannahaldi en ráðinn hefur verið starfsmaður í tímabundna ráðningu til stuðnings á Eldhömrum.
 • Skólanefnd - 140 Sigurður G. Guðjónsson sat fundinn undir þessum lið. Gerði hann grein fyrir starfsemi Tónlistarskólans og lítilsháttar breytingu á skóladagatali þ.a. starfsdagur 15. nóv. færist yfir á 19. desember.
  Jólatónleikar Tónlistarskólans verða 6. desember nk. í kirkjunni.
 • Skólanefnd - 140 Ingibjörg Þórarinsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri og Hallfríður Guðný Ragnarsdóttir, fulltrúi starfsmanna sátu fundinn undir þessum lið.
  Aðstoðarleikskólastjóri fór yfir skýrslu leikskólans. Alls eru nemendur 47 í skólanum og 20 starfsmenn í 17 stöðugildum. Ráðið hefur verið í starf matráðs.
  Almennt hefur starfið í skólanum gengið vel og hefur starfsfólkið verið að fá fræðslu af ýmsum toga. Má þar m.a. nefna námskeið með Ingrid Kulmann sem var á starfsdeginum 10. nóv. sl., þar sem fjallað var um samskipti og hvernig samskipti eru best innan skólans.
  Þá var og fjallað um nám starfsmanna skólans og þörf á uppfærslu á reglum bæjarins í því sambandi.
  Skólanefnd mælir með því að námsreglurnar verði yfirfarnar og endurnýjaðar.
 • Skólanefnd - 140 Lagt fram bréf foreldraráðs leikskólans frá 29. okt. sl., varðandi ástand leikskólans.
  Jafnframt lagt fram bréf bæjarins frá 3. nóv. sl., sem sent var foreldraráði, Heilbrigðiseftirliti og öðrum sem málið varðar. Að ósk Grundarfjarðarbæjar var kallað eftir úttekt Heilbrigðiseftirlits Vesturlands á húsnæði leikskólans. Heilbrigðiseftirlitið hefur komið í skólann og gert úttekt á húsnæðinu.
  Fyrir fundinum liggur úttektarskýrsla eftirlitsins, og er unnið í málinu til samræmis við hana.
  Skólanefnd hvetur til þess að markvisst verði unnið að lagfæringum í samráði við Heilbrigðiseftirlitið.
  Bókun fundar Til máls tóku EG, RG, HK og ÞS.

3.Skipulags- og umhverfisnefnd - 184

Málsnúmer 1712001FVakta málsnúmer

 • Fyrirspurn vegna Berserkseyrar. Tillaga að breytingu á aðal- og deiliskipulagi um fjölgun sumarhúsa úr 5 í 15. Skipulags- og umhverfisnefnd - 184 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framlagða tillögu að breytingu á aðal- og deiliskipulagi Berserkseyrar og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja formlegt kynningar- og staðfestingarferli skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga. Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
 • Tenging rafstrengs við Grundargötu og frágangur götunnar. Skipulags- og umhverfisnefnd - 184 Umhverfis- og Skipulagsnefnd samþykkir framlagða tillöguteikningu frá vegagerðinni þar sem fram kemur að gangstétt er breykkuð í 1,8 metra. og bílastæðum fækkað. Einnig er ráðgert að færa ljósastaura að lóðarmörkum. Vegagerð gerir athugasemd við færslu ljóastaura,telja að það valdi ljósmengun fyrir íbúa!Umhverfis- skipulagnefnd tekur undir með vegagerðinni og leggur til að ljósastaurar verði ekki færðir. Skipulags-og bygginggingarfulltrúa ásamt verkstjóra áhaldahúss falið að kynna tillöguna fyrir íbúum aðliggjandi framkvæmdar við Grundargötu. Bókun fundar Til máls tóku EG, JÓK, ÞS og BP.

  Bæjarstjórn frestar afgreiðslu þessa liðar, þar sem kynningarferli er í gangi.
 • Strenglögn við Kirkjufellsfoss Skipulags- og umhverfisnefnd - 184 Umhverfis- og Skipulagsnefnd samþykkir að strengur verði lagður í stálröri og ídráttarrörum undir Kirkjufellsbrúnna og að reynt verði að valda sem minnstum umhverisáhrifum.Þetta er að ósk landeigenda.
  Umhverfis- og Skipulagsnefnd leggur til að sökum lélegs ástand brúarinnar verði brúin styrkt, bæði brúargólf og undirstöður.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um strenglögnina. Varðandi viðgerð brúarinnar felur bæjarstjórn skipulags- og byggingafulltrúa að ræða við fulltrúa Landsnets um styrkingu brúarinnar.
 • 3.4 1712007 Lárkot,efnisnáma
  Lárkot,efnisnáma og lagfæring vegstæðis við námuna. Skipulags- og umhverfisnefnd - 184 Vísað er í sameiginlega beiðni frá sveitarfélaginu Grundarfirði og Vegagerðinni, dags. 25. október sl.
  Það tengist lagningu rafstrengs fyrir Landsnet í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið óskar eftir að slóði sem lagður er við lagningu rafstrengs í jörð meðfram þjóðveginum haldi sér eftir framkvæmdir. Stígurinn eykur umferðaröryggi þar sem umferð gangandi og ríðandi færist af veginum yfir á stíginn.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
 • 3.5 1710056 Ferðamál, bréf
  Kynning á starfsemi og umsókn um aðstöðu fyrir Kajak og Jet ski leigu. Skipulags- og umhverfisnefnd - 184 Lagðar fram upplysingar gögn um fyrirhugaða starfsemi Kajak- og Jetski leigunnar ásamt ósk frá þeim að ganga frá lóðarleigu undir starfsemina í Grundafjarðarbæ. Umhverfis- og Skipulagsnefnd felur Skipulags- og Byggingarfulltrúa að grenndarkynna fyrirhugaða starfsemi og í framhaldi að úthluta stöðuleyfi undir þjónustuaðstöðu og sjósetningaraðstöðu.

  UÞS situr hjá undir þessum lið.
  Bókun fundar EG vék af fundi undir þessum lið og RG tók við stjórn fundarins.

  Til máls tóku RG, HK og ÞS.

  Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.

  EG tók aftur sæti sitt á fundinum og við stjórn hans.
 • Grundargata 12 og 14, lóðaumsókn. Skipulags- og umhverfisnefnd - 184 Sæmundur Runólfsson sækir um byggingarlóðir f.h. óstofnaðs hlutafélags. Lóðir sem um er sótt Grundargata 12 og 14. hafa verið auglýstar til úthlutunar. Umhverfis- og Skipulagsnefnd frestar erindinu og óskar eftir fullnægjandi lóðarumsóknum og upplýsingum um fyrirhuguðar byggingarframkvæmdir. Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
 • Bréf frá bæjarstjóra lagt fram til kynningar. Lenging Norðurgarðs. Skipulags- og umhverfisnefnd - 184 Umsagnarbréf dags. 23.11.´17. frá Bæjarstjórn Grundarfjarðar til Skipulagsstofnunar vegna efnisnáma og framkvæmdaleyfis við Norðurgarð til kynningar. Bókun fundar Til máls tóku EG, EBB, ÞS og RG.
 • Nýtt deiliskipulag Sólvallareits Graftrarleyfi. Skipulags- og umhverfisnefnd - 184 Lögð fram samþykkt bæjarráðs 21. nóv. sl. samþykkt að veita Guðmundi Runólfssyni hf. heimild til að fara í jarðvegsskipti á byggingareitnum.
  Byggingafulltúi hefur veitt bráðabirgðaleyfi fyrir jarðvegsskiptum.
  Jafnframt var byggingafulltrúa falið að undirbúa hönnun á götu milli Nesvegar og Sólvalla.
  Bókun fundar RG vék af fundi undir þessum lið.

  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.

  RG tók aftur sæti sitt á fundinum.
 • 3.9 1712005 Sæból 33-35
  Sæból 33-35 Erindi til kynningar. Skipulags- og umhverfisnefnd - 184 Teikningar og gögn hafa verið samþykkt.
  Gengið verður frá byggingarleyfi.


  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
 • 3.10 1705017 Grundargata 52
  Grundargata 52 Hönnunargögn. Skipulags- og umhverfisnefnd - 184 Lagðar fram byggingarnefdarteikningar unnar af Marvin Ívarssyni.Vottun byggingareininga vantar.

4.Styrkumsóknir og afgreiðsla styrkja 2018

Málsnúmer 1710037Vakta málsnúmer

Lagðar fram og kynntar styrkumsóknir og afgreiðsla bæjarráðs á þeim.

Bæjarstjórn samþykkir tillögurnar samhljóða.

5.Fjárhagsáætlun 2018

Málsnúmer 1710010Vakta málsnúmer

Lögð fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun ársins 2018 ásamt greinargerð, samanburði milli fjárhagáætlunar 2017 og 2018 og útlistun á breytingum sem gerðar hafa verið milli umræðna. Jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2019-2021.

Skv. rekstraryfirliti fjárhagsáætlunar 2018 eru heildartekjur áætlaðar 1.034 m.kr. Áætlaður launakostnaður er 535,6 m.kr., önnur rekstrargjöld 347,1 m.kr. og afskriftir 52,9 m.kr. Fyrir fjármagnsliði er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma verði 98,8 m.kr. Gert er ráð fyrir 70,3 m.kr. fjármagnsgjöldum. Áætlunin gerir ráð fyrir 28,5 m.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu.

Í sjóðsstreymisyfirliti áætlunarinnar sést, þegar leiðrétt hefur verið fyrir afskriftum og áföllnum en ógreiddum verðbótum og gengismun, auk annarra breytinga á skuldbindingum, að veltufé frá rekstri er 118,0 m.kr. Þessi fjárhæð nýtist síðan til afborgana lána og nauðsynlegra fjárfestinga sem brýnt er talið að ráðast í á árinu 2018. Ráðgert er að fjárfestingar nettó verði 116,9 m.kr., afborganir lána 106,9 m.kr. og að tekin verði ný lán að fjárhæð 60 m.kr. Miðað við þær forsendur er gengið á handbært fé um 45,7 m.kr. en í upphafi árs er ráðgert að það verði 64,8 m.kr. Handbært fé í árslok ársins 2018 er því áætlað 19,1 m.kr. gangi fjárhagsáætlun ársins 2018 fram eins og ráðgert er.

Tafla.

Allir tóku til máls.

Fjárhagsáætlun 2018 og þriggja ára áætlun 2019-2021 samþykkt samhljóða.

6.Byggðakvóti fiskveiðiárið 2017-2018

Málsnúmer 1709038Vakta málsnúmer

RG vék af fundi undir þessum lið.

Lagt fram bréf Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytis frá 21. nóv. sl., þar sem tilkynnt er um úthlutun byggðakvóta til sveitarfélagsins. Grundarfjarðarbær fékk 300 þorskígildistonn á grundvelli umsóknar sinnar.

Bæjarstjórn samþykkir að, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa í Grundarfirði á fiskveiðiárinu 2017/2018, skuli gilda ákvæði reglugerðar nr. 604, frá 7. júlí 2017.

Samþykkt samhljóða.

RG tók aftur sæti sitt á fundinum.

7.Endurskoðun aðalskipulags, staða mála

Málsnúmer 1712015Vakta málsnúmer

Björg Ágústsdóttir, fulltrúi Alta, sem vinnur að endurskoðun aðalskipulags fyrir Grundarfjarðarbæ, sat fundinn undir þessum lið.

Hún fór yfir stöðu og vinnu við endurskoðun aðalskipulags Grundarfjarðar sem áætlað er að lokið verði vorið 2018.

8.Gistirými í Grundarfirði

Málsnúmer 1605035Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri kynnti ráðgjöf Pacta lögmanna vegna bréfs bæjarins frá 23. nóv. sl. til lögmannanna ásamt tillögum Pacta lögmanna að afgreiðslu umsagna vegna gistileyfisumsókna.

Ráðgjöfin kveður á um að ákvarðanir um umsagnir vegna rekstrar- og gistileyfisumsókna í íbúabyggð í þéttbýli Grundarfjarðar skuli taka mið af 2. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 og 12. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um sama efni.

Jafnframt skuli tekið mið af skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en skv. henni skuli rekstur gistiheimila aðeins fara fram á þeim svæðum sem ráð er gert fyrir verslun og þjónustu.

Ennfremur skuli litið til 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, þar sem kveðið sé á um að óheimilt sé að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu byggingaleyfi skipulags- og byggingafulltrúa sveitarfélagsins. Þessi regla gildir m.a. þegar íbúðahúsnæði er breytt í atvinnuhúsnæði.

Á grundvelli framangreindra atriða telur bæjarstjórn að almennt sé ekki unnt að veita jákvæðar umsagnir vegna nýrra rekstrarleyfisumsókna um gististaði í íbúðabyggð.

Við skoðun málsins kom í ljós að svo virðist sem annmarkar hafi verið á eldri umsögnum sem bærinn hefur þegar veitt um eldri umsóknir. Þetta hafi leitt til þess að jákvæðar umsagnir hafi verið veittar um umsóknir sem ekki áttu að fá jákvæðar umsagnir þegar horft er til framangreindra atriða.

Bæjarstjórn leggur áherslu á að þess verði framvegis gætt að ekki verði veittar jákvæðar umsagnir um umsóknir um rekstrarleyfi til atvinnustarfsemi sem ekki séu í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir. Þetta muni þó ekki hafa áhrif á þegar útgefin rekstrarleyfi.

Samþykkt samhljóða.

9.Rekstrarleyfi, Ölkelduvegi 9, íb. 0206

Málsnúmer 1710005Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Sýslumannsins á Vesturlandi frá 27. sept. sl., þar sem óskað er umsagnar um rekstrarleyfi skv. lögum nr. 85/2007 fyrir gististað í flokki II að Ölkelduvegi 9, íbúð 206.

Bæjarstjórn telur umrædda starfsemi hvorki samræmast gildandi deiliskipulagi fyrir Ölkelduveg né aðalskipulagi bæjarins, sbr. 2. gr. laganna.

Bæjarstjórn getur því ekki veitt jákvæða umsögn um rekstarleyfisumsóknina að teknu tilliti til ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og -reglugerðar nr. 90/2013 sem og ákvæða laga um mannvirki nr. 160/2010.

Bæjarstjóra falið að tilkynna Sýslumanninum um afstöðu bæjarstjórnar.

Samþykkt samhljóða.

10.Rekstrarleyfi, Ölkelduvegi 9, íb. 0203

Málsnúmer 1710004Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Sýslumannsins á Vesturlandi frá 27. sept. sl., þar sem óskað er umsagnar um rekstrarleyfi skv. lögum nr. 85/2007 fyrir gististað í flokki II að Ölkelduvegi 9, íbúð 203.

Bæjarstjórn telur umrædda starfsemi hvorki samræmast gildandi deiliskipulagi fyrir Ölkelduveg né aðalskipulagi bæjarins, sbr. 2. gr. laganna.

Bæjarstjórn getur því ekki veitt jákvæða umsögn um rekstarleyfisumsóknina að teknu tilliti til ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og -reglugerðar nr. 90/2013 sem og ákvæða laga um mannvirki nr. 160/2010.

Bæjarstjóra falið að tilkynna Sýslumanninum um afstöðu bæjarstjórnar.

Samþykkt samhljóða.

11.Rekstrarleyfi Eiði, umsögn

Málsnúmer 1712009Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Sýslumannsins á Vesturlandi frá 7. des. sl., þar sem óskað er umsagnar um rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki II að Eiði, Grundarfirði.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við að rekstrarleyfið verði veitt, enda liggi fyrir jákvæðar umsagnir annarra umsagnaraðila.

Samþykkt samhljóða.

12.Íbúðalánasjóður, erindi til sveitarstjórnar

Málsnúmer 1706021Vakta málsnúmer

Lögð fram tilboð og gagntilboð í íbúðir í eigu Íbúðalánasjóðs.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að bíða með ákvörðun um íbúðakaup að svo stöddu.

13.Ölkelduvegur 1, 5 og 9

Málsnúmer 1712004Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi dags. 5. des. sl. þar sem eigandi íbúða að Ölkelduvegi 1, 5 og 9 býður Grundarfjarðarbæ íbúðirnar til leigu.

Bæjarstjórn þakkar fyrir erindið og óskar nánari upplýsinga um leigukjör.

Samþykkt samhljóða.

14.Sæból 33-35

Málsnúmer 1712005Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi dags. 4. des. sl. frá eiganda íbúða að Sæbóli 33-35 þar sem Grundarfjarðarbæ eru boðnar íbúðir til kaups.

Bæjarstjórn þakkar fyrir erindið og tekur jákvætt í að eiga samtal við eiganda íbúðanna.

Samþykkt samhljóða.

15.Lögreglusamþykktir

Málsnúmer 1712011Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Lögreglustjórans á Vesturlandi dags. 7. des. sl. varðandi lögreglusamþykktir á svæðinu.

Í bréfinu vísar hann til fundar samstarfsnefndar og sveitarfélaga frá 4. des. sl., og skorar á sveitarfélögin að vinna að sameiginlegri lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélögin á svæðinu.

Bæjarstjórn tekur jákvætt í þátttöku í sameiginlegri lögreglusamþykkt á Vesturlandi.

Samþykkt samhljóða.

16.Ungmennafélagið, erindi vegna íþróttaaðstöðu

Málsnúmer 1710013Vakta málsnúmer

Hugmyndir hafa verið uppi um að skoða kaup á saltgeymslu Saltkaupa, sem staðsett er að Norðurbakka D. Gerð grein fyrir málinu, en sérstakur starfshópur hefur unnið að skoðun málsins. Skoðaðir hafa verið kostir og gallar við kaupin með tilliti til þess að húsið yrði notað sem æfingahús fyrir íþróttir.

Rætt um verð á húsi, aðgerðir og framkvæmdir sem nauðsynlegt er að vinna, ef skrefið yrði stigið. Óskað hefur verið eftir áliti Heilbrigðiseftirlits Vesturlands á því hvað þurfi að vera til staðar skv. reglugerðum um heilbrigðiseftirlit.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn felur starfshópnum að vinna áfram að málinu í samræmi við umræður á fundinum, s.s. með öflun frekari gagna.

Samþykkt samhljóða.

17.Sannir landvættir, salernismál

Málsnúmer 1712012Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Sönnum Landvættum frá 7. des sl., þar sem fyrirtækið leitar eftir samstarfi við Grundarfjarðarbæ um uppbyggingu og rekstur á þjónustu við ferðamenn í bæjarfélaginu.

Bæjarstjórn telur hugmyndir fyrirtækisins áhugaverðar og lýsir yfir áhuga á að ræða nánar við bréfritara um hugsanlega samvinnu.

Samþykkt samhljóða.

18.Golfklúbburinn Vestarr

Málsnúmer 1712014Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að nýjum samningi við Golfklúbbinn Vestarr um garðslátt á íþróttavelli, tjaldsvæði og opnum svæðum Grundarfjarðarbæjar. Gerð grein fyrir nýjum samningi og frávikum frá eldri samningi.

Til máls tóku EG og ÞS.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög að samningi.

19.Orkuveita Reykjavíkur

Málsnúmer 1506017Vakta málsnúmer

Kynnt samningsdrög milli Grundarfjarðarbæjar og Orkuveitunnar (OR), vegna samnings aðila frá 20. sept. 2005 um hitaveituvæðingu í Grundarfirði. Samningsdrögin hafa áður verið til umfjöllunar í bæjarstjórn.

Jafnframt lagt fram minnisblað lögmanns bæjarins frá 7. des. sl., varðandi málið.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn vill á grundvelli samningsdraganna að gengið verði til samninga við OR um yfirtöku bæjarins á Vatnsveitu Grundarfjarðar, ásamt öllum réttindum um hitaveitu og vatnsréttindi í sveitarfélaginu, sem OR hefur á hendi. Bæjarstjórn er einhuga um það að ekki komi til greina að samþykkja slit samnings frá 2005 án þess að til komi greiðslur í formi skaðabóta.

Samþykkt samhljóða.

20.Kirkjufellsfoss, skipulagslýsing

Málsnúmer 1703028Vakta málsnúmer

Lögð fram verkefnislýsing fyrir tillögu að deiliskipulagi áfangastaðar við Kirkjufellsfoss, dags. í desember 2017. Í lýsingu verkefnisins koma fram helstu áherslur við skipulagsgerðina, markmið og tilgangur deiliskipulagsins og hvernig samráði og kynningu verði háttað. Deiliskipulagið er unnið í samráði við landeigendur.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að kynna lýsingu í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 5. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 m.s.br. Verkefnislýsing verður aðgengileg á vef bæjarins og send umsagnaraðilum.

21.Snorraverkefnið - Stuðningur við Snorraverkefnið 2018

Málsnúmer 1711019Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi varðandi stuðning við svokallað Snorraverkefni dags. 20. nóv. sl.

Bæjarstjórn getur því miður ekki orðið við erindinu.

Samþykkt samhljóða.

22.Heilbrigðisstofnun Vesturlands, læknaþjónusta

Málsnúmer 1709037Vakta málsnúmer

Heyrst hefur að til standi að minnka viðveru lækna í Grundarfirði frá því sem nú er. Eins og kunnugt er, þá er læknir staðsettur í Grundarfirði virka daga frá mánudegi til föstudags.

Á starfsmannafundi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE) var rætt um það að læknir í Grundarfirði yrði færður til Ólafsvíkur tvo hálfa daga í viku, sökum þess að bið væri lengri eftir læknaþjónustu í Ólafsvík en í Grundarfirði. Þá hefur verið til athugunar að læknir í Grundarfirði yrði með símatíma fyrir sjúklinga í Ólafsvík.

Gangi þessar hugmyndir eftir skerðist viðverutími lækna í Grundarfirði um 20% frá því sem nú er.

Allir tóku til máls.

Bókun bæjarstjórnar:
"Því er harðlega mótmælt að þjónusta lækna í Grundarfirði verði minnkuð frá því sem nú er. Slík aðgerð yrði í algerri mótsögn við áform ríkisstjórnarinnar um að efla heilsugæslu á landsvísu. Komi til aðgerða af þessu tagi yrði viðvera lækna í Grundarfirði skert um 20% frá því sem nú er. Enginn læknir er í Grundarfirði um helgar.

Ákvörðun af þessum toga getur haft veruleg áhrif á líðan fólks í samfélaginu og ákvarðanatöku fólks um það hvort það vill setjast að í samfélaginu eða ekki.

Bæjarstjórn Grundarfjarðar leggur ríka áherslu á það að fallið verði frá fyrirhuguðum aðgerðum.

Jafnframt furðar bæjarstjórn sig á samskiptaleysi HVE við bæjaryfirvöld."

Samþykkt samhljóða.

23.Í skugga valdsins

Málsnúmer 1712001Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 30. nóvember sl. með bókun sambandsins varðandi framtakið "Í skugga valdsins."

Bæjarstjórn tekur undir bókun Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Samþykkt samhljóða.

24.Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerð 854. fundar stjórnar

Málsnúmer 1711020Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 854. fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 24. nóvember sl.

25.Pacta lögmenn - Fræðsluhefti vegna persónuverndarlöggjafar

Málsnúmer 1711018Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Pacta lögmanna dags. 15. nóvember sl. ásamt fræðsluhefti um nýju persónuverndarlöggjöfina.

26.Félagsmálanefnd, fundargerð 173. nefndarfundar

Málsnúmer 1712008Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 173. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga frá 5. desember sl.

27.Tíðindi af vettvangi sveitarstjórnarmála

Málsnúmer 1712010Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar tíðindi af vettvangi sveitarstjórnarmála.

28.Ríkiskaupasamningur

Málsnúmer 1707018Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar upplýsingar um ríkiskaupasamning.

29.Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, fundargerð 145. fundar stjórnar

Málsnúmer 1712016Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 145. fundar Heilbrigðiseftirlits Vesturlands frá 30. október sl.

Til máls tóku EG og JÓK.

30.Byggðasamlag, stjórnar- og aðalfundur

Málsnúmer 1712017Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerð framkvæmdaráðs Byggðasamlags Snæfellsness og fundargerð aðalfundar, báðar frá 22. nóvember sl.

31.Öryggismál í höfnum

Málsnúmer 1712018Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Samgöngustofu frá 6. desember sl. varðandi öryggismál í höfnum landsins.

32.Hafnasamband Íslands, fundargerð 399. fundar stjórnar

Málsnúmer 1712019Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 399. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands frá 1. desember sl.

33.Menntamálastofnun, ytra mat leikskóla

Málsnúmer 1712021Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Menntamálastofnunar varðandi ytra mat leikskóla. Fimm leikskólar verða metnir árið 2018, en Leikskólinn Sólvellir er ekki þar á meðal í þetta sinn.

34.Stjórn félags- og skólaþjónustu, fundargerð 94. fundar

Málsnúmer 1712022Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 94. fundar stjórnar Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga frá 11. desember sl.

Til máls tóku EG, ÞS, RG, BP og HK.

35.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1505019Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri gerði grein fyrir minnispunktum sínum.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 22:38.