505. fundur 12. október 2017 kl. 16:30 - 21:38 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Hinrik Konráðsson (HK) formaður
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
  • Eyþór Garðarsson (EG)
  • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
  • Þorsteinn Steinsson (ÞS) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forstöðumenn stofnana, þau Sigurður G. Guðjónsson, Anna Rafnsdóttir, Sunna Njálsdóttir, Aðalsteinn Jósepsson og Gunnar Jóhann Elísson, sátu fundinn undir lið 2, hvert í sínu lagi.

Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Viðauki við fjárhagsáætlun 2017

Málsnúmer 1710022Vakta málsnúmer

Lagður fram viðauki við fjárhagsáætlun 2017, þar sem fært er á milli deilda, vegna launaleiðréttinga og annars. Upphafleg fjárhagsáætlun 2017 gerði ráð fyrir 17.240 þús. kr. hagnaði samstæðu, en í fjárhagsáætlun 2017 með viðaukum er gert ráð fyrir 18.580 þús. kr. hagnaði, sem er 1.340 þús. kr. betri áætlun afkomu.

Að sama skapi er handbært fé í árslok áætlað 1.340 þús. kr. hærra en í upphaflegri áætlun, eða 68.120 þús. kr.

Fjárhagsáætlun 2017 með viðaukum samþykkt samhljóða og vísað til bæjarstjórnar.

2.Fjárhagsáætlun 2018

Málsnúmer 1710010Vakta málsnúmer

Undir þessum lið sátu forstöðumenn stofnana hver í sínu lagi, Sigurður G. Guðjónsson, skólastjóri grunnskóla, tónlistarskóla og Eldhamra, Anna Rafnsdóttir, skólastjóri leikskólans, Sunna Njálsdóttir, forstöðumaður bókasafns, Aðalsteinn Jósepsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja og Gunnar Jóhann Elísson, umsjónarmaður fasteigna.

Farið yfir tillögur að fjárhagsáætlun 2018 með hverjum forstöðumanni.

Fyrirliggjandi tillögum vísað til áframhaldandi vinnu við gerð fjárhagsáætlunar 2018.

Samþykkt samhljóða.

3.Fasteignagjöld 2018

Málsnúmer 1710015Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að álagningu fasteignagjalda, sundurliðuð niður á álagningarflokka. Tillagan gerir ráð fyrir óbreyttri álagningu fasteignagjalda.

Vísað er til afgreiðslu 504. fundar bæjarráðs þar sem tillögunni er vísað til bæjarstjórnar.

4.Gjaldskrár 2018

Málsnúmer 1710017Vakta málsnúmer

Lagðar fram tillögur að þjónustugjaldskrám.

Eftir yfirferð á þjónustugjaldskrám eru tillögurnar samþykktar og vísað til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

5.Framkvæmdir 2018

Málsnúmer 1710023Vakta málsnúmer

Lagðar fram tillögur um viðhald og nýframkvæmdir á árinu 2018. Farið yfir helstu framkvæmdir sem nauðsynlegt er að ráðast í ásamt búnaðarkaupum.

Frekari vinnu við fjárfestingaáætlun vísað til næsta fundar bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

6.Grjótnáma Lambakróarholti

Málsnúmer 1710024Vakta málsnúmer

Vegna fyrirhugaðs grjótnáms í grjótnámu að Lambakróarholti er þörf á að segja upp leigusamningi frá 15. maí 2002 við Bárð Rafnsson. Bæjarráð vill bjóða Bárði nýjan leigusamning að teknu tilliti til fyrirhugaðs grjótnáms.

Fyrir fundinum lá uppdráttur af svæðinu.

Bæjarstjóra falinn frágangur málsins.

Samþykkt samhljóða.

7.Smiðjan Ólafsbraut 19, húsakaup

Málsnúmer 1710025Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að samþykkt vegna láns sem Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga (FSS) mun taka vegna húsakaupa fyrir Smiðjuna að Ólafsbraut 19, Ólafsvík. Þar er gert ráð fyrir hlutfallslegri ábyrgð aðildarsveitarfélaga FSS á láninu, sem alls er að fjárhæð 20 millj. kr. Lánið er tekið hjá Lánasjóði sveitarfélaga.

Á fundi bæjarstjórnar þann 13. sept. sl. samþykkti bæjarstjórn umrædda lántöku. Á grundvelli þeirrar samþykktar er bæjarstjóra falið að undirrita nauðsynleg skjöl vegna lántökunnar.

Samþykkt samhljóða.

8.Northern Wave vinnustofa, umsókn um styrk

Málsnúmer 1710026Vakta málsnúmer

Lögð fram umsókn Eyjólfs B. Eyvindarsonar f.h. Northern Wave kvikmyndahátíðarinnar, um styrk vegna vinnustofu sem haldin verður í Grundarfirði föstudaginn 27. október nk.

Bæjarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlanagerðar vegna ársins 2018.

Samþykkt samhljóða.

9.Alþingiskosningar 2017

Málsnúmer 1710021Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Þjóðskrár Íslands frá 29. september sl. um meðferð kjörskrárstofna vegna alþingiskosninga 28. október 2017. Skv. 1. mgr. 26. gr. kosningalaga skulu kjörskrár lagðar fram eigi síðar en miðvikudaginn 18. október 2017. Kjörskrá verður lögð fram á bæjarskrifstofu frá þeim degi.

Jafnframt lagður fram kjörskrárstofn í Grundarfirði. Á kjörskrá eru 579 manns, 302 karlar og 277 konur.

Bæjarráð samþykkir samhljóða fyrirliggjandi kjörskrárstofn og felur bæjarstjóra að undirrita hann.

10.Kennarasamband Íslands, ályktun um stöðu barna

Málsnúmer 1710020Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar ályktun frá samráðsfundi félags stjórnenda leikskóla sem haldinn var á Flúðum 28. og 29. sept. sl.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 21:38.