585. fundur 22. mars 2022 kl. 16:30 - 21:05 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS) formaður
  • Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Skipulagsmál í vinnslu 2022-2023

Málsnúmer 2203038Vakta málsnúmer

Kristín Þorleifsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsmála og skipulagsfulltrúi er gestur undir þessum dagskrárlið.

Formaður bauð Kristínu velkomna á fundinn.
Kristín fór yfir helstu verkefni við uppbyggingu nýs sameiginlegs skipulags- og umhverfissviðs, sem bærinn stendur að í samvinnu við Stykkishólmsbæ, Eyja- og Miklaholtshrepp og Helgafellssveit.

Kristín tók til starfa í ágúst sl. og Fannar Þór Þorfinnsson, sem er byggingarfulltrúi, í október sl. Að auki er Þuríður Gía Jóhannesdóttir í 50% starfi sem aðstoðarmaður á sviðinu með aðsetur í Grundarfirði og í Stykkishólmi er annar aðstoðarmaður í 50% starfi. Undir sviðið heyra áhaldahús og fasteignaumsjón og hafa Kristín og Fannar Þór verklega yfir þeim einingum að segja, en bæjarstjórarnir fara með það sem lýtur að ráðningar- og starfsmannahluta eininganna. Lagt hefur verið uppúr því að koma á skilvirku verklagi og verkaskiptingu. Haldnir eru mánaðarlegir sviðsfundir þar sem farið er yfir verkefnastöðu sviðsins, auk þess sem Fannar vinnur með verkstjórum og fasteignaumsjón og fylgist með framgangi verkefna þeirra.

Komið hefur verið á fastri viðveru skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa í Grundarfirði og Stykkishólmi, og í hinum sveitarfélögunum tveimur eftir þörfum.

Unnið hefur verið að því að uppfæra ýmis grunngögn, sem nauðsynleg eru í starfseminni. Fram kom t.d. að skipulagsvefsjá Grundarfjarðarbæjar sé að nýtast mjög vel og alltaf sé að bætast við virkni og gögn. Sjá hér: https://geo.alta.is/grundarfjordur/vefsja/

Gjaldskrár mun þurfa að endurskoða og samræma að einhverju leyti.

Kristín sagði ennfremur frá skipulagsverkefnum sem eru í gangi í Grundarfirði.

Unnið hefur verið að endurskoðun á deiliskipulagi Ölkeldudals. Í samræmi við aðalskipulag, verður gert ráð fyrir nýjum íbúðarlóðum upp eftir Ölkelduvegi. Auk þess verður bætt við lóðum vestan við dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól, fyrir íbúðir ætlaðar fólki 60 ára og eldri. Fram kom hjá bæjarstjóra að lóðirnar eru innan eignarlóðar Fellaskjóls og að stjórn Fellaskjóls óski eftir því að bærinn kaupi svæðið út úr lóð Fellaskjóls.

Í undirbúningi er vinna við nýtt deiliskipulag á Framnesi, sem bæjarstjórn hefur ákveðið að láta vinna. Auk þess endurskoðun á gildandi deiliskipulagi Framness austan Nesvegar (hafnarsvæði). Ætlunin er þá að útvíkka skipulagið þannig að það nái yfir Norðurgarð og athafnalóðirnar þar, og mögulega stærra svæði einnig.
Kristín sagði frá vali á skipulagsráðgjöfum í þessi tvö deiliskipulagsverkefni sem fara eiga af stað á næstunni. Það er orðið mjög aðkallandi að breyta deiliskipulagi Framness austan Nesvegar (hafnarsvæðis). Áhersla er á að ljúka því sem fyrst - og á undan deiliskipulagi Framness - þó í upphafi séu svæðin rýnd samhliða.

Rætt var um uppbyggingu og lóðir fyrir íbúðarhúsnæði og um miðbæjarreit (Grundargata/Hrannarstígur/Hamrahlíð) og möguleika til uppbyggingar þar, sjá reit innan miðbæjarsvæðis, M-1 í skipulagsuppdrætti - sjá hér:
https://www.grundarfjordur.is/static/files/Byggingarfulltrui/Ask_2019_2039/ask-grfj-thettbylisuppdrattur.pdf

Einnig rætt um tækifæri tengd frístundabyggð (F-2) sem skipulögð er sunnan hesthúsabyggðar.

Að lokum voru einnig ræddar hugmyndir um að fegra miðbæjarreitinn ("Víkingasvæðið" og nærliggjandi plan) með einföldum hætti í sumar, en bæjarstjórn gerði ráð fyrir fjármunum í einfaldar aðgerðir í því skyni.

Kristínu var þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar og vék hún hér af fundinum.

Gestir

  • Kristín Þorleifsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsmála og skipulagsfulltrúi - mæting: 16:35

2.Greitt útsvar 2022

Málsnúmer 2202005Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri sagði frá því að dr. Vífill Karlsson / Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) vinni nú úttekt á tekjum Grundarfjarðarbæjar.

Bæjarstjóri sagði frá því að hún hefði óskað eftir því að SSV myndu rýna tekjuþróun Grundarfjarðarbæjar. Sambærileg úttekt var unnin af SSV haustið 2018, fyrir bæjarstjórn.

Úttektin nú snýr einkum að útsvari og þróun þess, sveiflum í útsvarstekjum, atvinnugreinaflokkun, áhrifum íbúafjölda o.fl., auk þess að helstu tekjuforsendum Grundarfjarðarbæjar.

Gögn um útsvarstekjur eru orðin betri og aðgengilegri núna en þau voru 2018, m.a. vegna þess að Grundarfjarðarbær hefur átt þátt í að þrýsta á um haldbetri upplýsingar um þennan megintekjustofn sveitarfélaga.

Auk útsvarsins á að skoða Jöfnunarsjóðstekjur bæjarins og þróun þeirra, sem og fasteignamatið og þróun þess.

Greiningin ætti að liggja fyrir í apríl nk.

3.Leikskólinn Sólvellir - Skipulag skólastarfs 2022

Málsnúmer 2203043Vakta málsnúmer

Heiðdís Lind Kristinsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla er gestur undir þessum dagskrárlið.

Formaður bauð Heiðdísi velkomna á fundinn.

Leikskólastjóri fór yfir starfsemi leikskólans. Rætt var um það starf sem nú fer fram með ráðgjöfum frá Ásgarði, sem vinna með stjórnendum leikskólans. Ásgarður veitir faglegan stuðning við skipulag og framkvæmd skólastarfs í leik- og grunnskólum.

Það sem einkum er til skoðunar nú er "skipulag og barngildi" þar sem unnið er með starfsfólki leikskólans að því að rýna fyrirkomulag starfseminnar og finna bestu útfærslur m.v. starfið í dag. Auk þess er unnið að endurskoðun verklags við veitingu sérkennslu og stuðnings.

Út úr vinnunni kemur eftirfarandi:

i) dagsskipulag, sett niður eftir rýni starfsfólks (mögulega breytt frá því sem nú er)
ii) tillaga um endurskoðuð barngildisviðmið, þ.e. mönnun og skipulag út frá viðmiðum um barngildi fyrir leikskólastig,
iii) tillaga um fyrirkomulag við að meta sérkennsluþörf nemenda og viðmið um stuðning, og um stjórnskipulag og verklag skólans við að veita þá þjónustu
og
iv) svokallaðar "fáliðunarreglur", sem eru bindandi viðmið um hvernig unnið er þegar margir starfsmenn eru forfallaðir eða þegar ekki tekst að ráða leikskólakennara/starfsfólk. Slíkar reglur hafa verið settar hjá mörgum sveitarfélögum/leikskólum, m.a. hjá Reykjavíkurborg.

Liðir ii), iii) og iv) eru teknir til umsagnar í skólanefnd og bæjarráði, og til staðfestingar hjá bæjarstjórn. Ætlunin er að þær tillögur verði tilbúnar og teknar fyrir í bæjarráði og skólanefnd fyrir páska.

Rætt var um mönnun í leikskólanum. Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar eftir starfsfólki hefur ekki tekist að ráða að fullu í afleysingar vegna þeirra starfsmanna sem nú eru í leyfi vegna fæðingarorlofs og í lækkuðu starfshlutfalli vegna náms.
Á þessu ári hefur einnig gengið erfiðlega að manna stöður í eldhúsi.

Af þessum sökum hefur ekki verið unnt að taka inn tvö 12 mánaða gömul börn nú í mars. Tvö börn verða síðan 12 mánaða í apríl.

Bæjarráð tekur undir með leikskólastjóra, um að ekki sé hægt að fórna gæðum leikskólastarfsins með því að taka inn börn umfram það sem mönnun leyfir. Inntaka 12 mánaða barna í leikskólann sé því alltaf háð þeim skilyrðum að hægt sé að tryggja öryggi og gæði í leikskólastarfi.

Leikskólastjóri ræddi sérstaklega um starfsemi eldhúss í leikskólanum, um mönnun og fyrirkomulag, sem hefur verið talsverð áskorun undanfarnar vikur.

Heiðdísi var þakkað fyrir komuna og góðar umræður og vék hún hér af fundinum.

Gestir

  • Heiðdís Lind Kristinsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla - mæting: 18:10

4.Samþykkt um stjórn Grundarfjarðarbæjar og erindisbréf nefnda

Málsnúmer 2201015Vakta málsnúmer

Í vinnslu eru drög að endurskoðuðum samþykktum um stjórn Grundarfjarðarbæjar og endurskoðuðum erindisbréfum fastanefnda.
Rætt var um endurskoðun samþykktanna og um fjölda nefndarmanna.
Bæjarstjórn mun taka endurskoðaðar samþykktir til afgreiðslu á næsta fundi sínum.

5.Grundarfjarðarbær - Um þjónustu HVE í Grundarfirði

Málsnúmer 2203025Vakta málsnúmer

Málefnið var til umræðu á 257. fundi bæjarstjórnar þann 10. mars sl.

Frekari ábendingar hafa borist frá íbúum um fyrirkomulag þjónustu HVE um helgar, þegar sjúklingum er gert að sækja þjónustu læknis til Ólafsvíkur. Ábendingarnar gefa tilefni til að leita eftir skýringum HVE á fyrirkomulagi við veitingu þjónustunnar.

Bæjarráð telur að ábendingarnar gefi enn frekari ástæðu til þess að kalla eftir skýrum svörum HVE um fyrirkomulag á vaktþjónustu lækna um helgar við íbúa Grundarfjarðar, og eftir svörum heilbrigðisyfirvalda um þjónustustig.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kalla eftir skýringum í samræmi við umræður fundarins.

6.Samband íslenskra sveitarfélaga - Samþykkt stjórnar Sambandsins og yfirlýsing CEMR vegna Úkraínu

Málsnúmer 2203006Vakta málsnúmer

Lögð fram svör félagsmálaráðuneytis í tölvupósti 18. mars sl. við spurningum frá bæjarstjóra um ýmis atriði varðandi framkvæmd við móttöku flóttafólks frá Úkraínu.
Auk svara ráðuneytisins bendir ráðuneytið á vefinn:
https://www.mcc.is/fagfolk/

7.Fellaskjól - Tilkynning um hækkað verð á máltíðum, mótt. 18.03.2022

Málsnúmer 2203042Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Fellaskjóls um að matarverð hækki um 200 kr.

Bæjarráð samþykkir samhljóða að hækka gjaldskrá fyrir heimsendan mat sem þessari hækkun nemur og fari því úr 950 í 1150 kr.

Í erindinu er jafnframt óskað eftir viðgerðum (holufyllingum) í innkeyrslu að Fellaskjóli. Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma þeirri beiðni áleiðis til áhaldahúss, til framkvæmdar.

8.Unicef Ísland - Barnvæn sveitarfélög - Innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Málsnúmer 2002037Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar undirritaður samningur bæjarins við mennta- og barnamálaráðherra og UNICEF frá 11. mars 2022.
Ennfremur til kynningar handbók um hlutverk umsjónarmanns og stýrihóps.

Bæjarstjóri sagði frá því að íþrótta- og tómstundafulltrúi vinni að undirbúningi vegna innleiðingar sveitarfélagsins á verklagi barnvænna sveitarfélaga. Meðal annars er unnið að því að fá börn og ungmenni í ungmennaráð, en skipa þarf viðbótarfulltrúa í það.

9.Þjóðskrá Íslands - Skýrsla fyrir Grundarfjarðarbæ

Málsnúmer 2202014Vakta málsnúmer

Lögð fram sjálfvirk skýrsla fyrir Grundarfjarðarbæ með lykiltölum frá Þjóðskrá, m.v. dagsetninguna 22. mars 2022.

Sjá hér:
https://storage.googleapis.com/a2p-v2-storage/4ddc5e33-c019-41f2-a623-bf638ac03d41

Í skýrslunni kemur m.a. fram að fjölgað hefur um 6 íbúa í sveitarfélaginu frá 1. desember 2021.

10.Skátafélagið Örninn - Samningur um fánaumsýslu 2021-2022

Málsnúmer 2203007Vakta málsnúmer

Lagður fram samningur Grundarfjarðarbæjar við Skátafélagið Örninn um fánaumsýslu fyrir bæinn 2021-2022.

11.Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála - Ný skýrsla - Reynsla og viðhorf kjörinna fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum á Íslandi

Málsnúmer 2203029Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla (febrúar 2022) um reynslu og viðhorf kjörinna fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum á Íslandi.


12.Samband íslenskra sveitarfélaga - Hækkun lífeyrisskuldbindinga 2021

Málsnúmer 2203010Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar minnisblað Sambandsins frá 22. febrúar 2022 um hækkun lífeyrisskuldbindinga sveitarfélaga.
Fram kemur að lífeyrisskuldbindingar margra sveitarfélaga vegna ársins 2021 hafa hækkað verulega. Rekja má hækkunina til (1) hækkunar launa, (2) breyttra forsendna um lífaldur og (3) hækkandi hlutar launagreiðenda.

Breytingin leiðir til talsverðrar hækkunar lífeyrisskuldbindinga og ákvað fjármálaráðherra að heimila lífeyrissjóðum að innleiða hinar breyttu forsendur á næstu tveimur árum, þ.e. 2021 og 2022.
Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga ákvað að nýta ekki heimild til frestunar á lokuðum sjóðum í hans umsjón. Sveitarfélögum gefst því ekki kostur á frestun og því ljóst að lífeyrisskuldbindingar munu hækka strax á árinu 2021.

Ljóst er að hækkun lífeyrisskuldbindinga mun leiða til minni rekstrarafgangs margra sveitarfélaga.

13.Samband íslenskra sveitarfélaga - Um sveitarstjórnarkosningar 2022 og breytingar á kosningalögum

Málsnúmer 2203037Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Sambandsins til sveitarfélaga og kjörstjórna um undirbúning fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí nk., um breytingar á kosningalögum og um kynningarfundi.

14.Samband íslenskra sveitarfélaga - Samráðs- og upplýsingafundir til undirbúnings stefnumótunarvinnu

Málsnúmer 2203011Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Sambandsins um samráðs- og upplýsingafundi sem haldnir eru með sveitarstjórnarmönnum til undirbúnings stefnumótunarvinnu á landsþingi sambandsins í september 2022.

15.Sjóvá - Samantekt frá morgunverðarfundi um forvarnir sveitarfélaga

Málsnúmer 2203036Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar samantekt frá morgunverðarfundi sem vátryggingarfélagið Sjóvá hélt 3. mars sl. um forvarnir sveitarfélaga.

Upptöku fundarins má finna hér: https://www.youtube.com/watch?v=uoYtL28yZ1E

16.Líkamsræktin ehf. - Erindi um aukið rými fyrir starfsemi Líkamsræktarinnar

Málsnúmer 2203039Vakta málsnúmer

JÓK vék sæti áður en liðurinn var tekinn til afgreiðslu og yfirgaf fundinn þar sem þetta var síðasti dagskrárliðurinn.

Lagt fyrir erindi Líkamsræktarinnar Grundarfirði þar sem sett er fram hugmynd um sameiginlega nýtingu Líkamsræktarinnar á sal Tónlistarskólans, fyrir spinningtíma sem eru hluti af starfsemi Líkamsræktarinnar. Innangengt er úr húsnæði því sem Líkamsræktin leigir og inní salinn.

Einnig liggur fyrir umsögn skólastjóra grunn- og tónlistarskóla um nýtingu skólanna á rýminu.

Bæjarráð þakkar Líkamsræktinni fyrir erindið.

Í ljósi upplýsinga skólastjóra um nýtingu rýmisins sér bæjarráð sér ekki fært að verða við erindinu.
Lokið var við fundargerð eftir fund og rafræns samþykkis aflað frá fundarmönnum.

Fundi slitið - kl. 21:05.