Málsnúmer 2203043

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 585. fundur - 22.03.2022

Heiðdís Lind Kristinsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla er gestur undir þessum dagskrárlið.

Formaður bauð Heiðdísi velkomna á fundinn.

Leikskólastjóri fór yfir starfsemi leikskólans. Rætt var um það starf sem nú fer fram með ráðgjöfum frá Ásgarði, sem vinna með stjórnendum leikskólans. Ásgarður veitir faglegan stuðning við skipulag og framkvæmd skólastarfs í leik- og grunnskólum.

Það sem einkum er til skoðunar nú er "skipulag og barngildi" þar sem unnið er með starfsfólki leikskólans að því að rýna fyrirkomulag starfseminnar og finna bestu útfærslur m.v. starfið í dag. Auk þess er unnið að endurskoðun verklags við veitingu sérkennslu og stuðnings.

Út úr vinnunni kemur eftirfarandi:

i) dagsskipulag, sett niður eftir rýni starfsfólks (mögulega breytt frá því sem nú er)
ii) tillaga um endurskoðuð barngildisviðmið, þ.e. mönnun og skipulag út frá viðmiðum um barngildi fyrir leikskólastig,
iii) tillaga um fyrirkomulag við að meta sérkennsluþörf nemenda og viðmið um stuðning, og um stjórnskipulag og verklag skólans við að veita þá þjónustu
og
iv) svokallaðar "fáliðunarreglur", sem eru bindandi viðmið um hvernig unnið er þegar margir starfsmenn eru forfallaðir eða þegar ekki tekst að ráða leikskólakennara/starfsfólk. Slíkar reglur hafa verið settar hjá mörgum sveitarfélögum/leikskólum, m.a. hjá Reykjavíkurborg.

Liðir ii), iii) og iv) eru teknir til umsagnar í skólanefnd og bæjarráði, og til staðfestingar hjá bæjarstjórn. Ætlunin er að þær tillögur verði tilbúnar og teknar fyrir í bæjarráði og skólanefnd fyrir páska.

Rætt var um mönnun í leikskólanum. Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar eftir starfsfólki hefur ekki tekist að ráða að fullu í afleysingar vegna þeirra starfsmanna sem nú eru í leyfi vegna fæðingarorlofs og í lækkuðu starfshlutfalli vegna náms.
Á þessu ári hefur einnig gengið erfiðlega að manna stöður í eldhúsi.

Af þessum sökum hefur ekki verið unnt að taka inn tvö 12 mánaða gömul börn nú í mars. Tvö börn verða síðan 12 mánaða í apríl.

Bæjarráð tekur undir með leikskólastjóra, um að ekki sé hægt að fórna gæðum leikskólastarfsins með því að taka inn börn umfram það sem mönnun leyfir. Inntaka 12 mánaða barna í leikskólann sé því alltaf háð þeim skilyrðum að hægt sé að tryggja öryggi og gæði í leikskólastarfi.

Leikskólastjóri ræddi sérstaklega um starfsemi eldhúss í leikskólanum, um mönnun og fyrirkomulag, sem hefur verið talsverð áskorun undanfarnar vikur.

Heiðdísi var þakkað fyrir komuna og góðar umræður og vék hún hér af fundinum.

Gestir

  • Heiðdís Lind Kristinsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla - mæting: 18:10

Bæjarráð - 586. fundur - 04.04.2022

Lögð fram drög að viðmiðum um barngildi og mönnun sem og reglur um fáliðun á Leikskólanum Sólvöllum.

Undir þessum lið sátu fundinn gegnum teams Gunnþór E. Gunnþórsson, ráðgjafi hjá Ásgarði, Heiðdís Lind Kristinsdóttir, leikskólastjóri, bæjarfulltrúarnir Hinrik Konráðsson, Rósa Guðmundsdóttir og Garðar Svansson, sem jafnframt er formaður skólanefndar og aðrir fulltrúar skólanefndar, þau Valdís Ásgeirsdóttir og Loftur Árni Björgvinsson, auk Sigríðar G. Arnardóttur, varabæjarfulltrúa.

Kynning þessi er til undirbúnings umsagna bæjarráðs og skólanefndar og afgreiðslu bæjarstjórnar síðar í vikunni.

Gunnþór, ráðgjafi hjá Ásgarði, fór yfir tilurð vinnu við setningu barngildisviðmiða og reglur um fáliðun á leikskólum. Með þessum tillögum er verið að skerpa á þeim viðmiðum sem unnið hefur verið eftir. Tillögurnar eru unnar með stjórnendum Leikskólans Sólvalla og eru þær hluti af frekari vinnu við að styrkja starf leikskólans.

Skv. reglunum er gert ráð fyrir að grunnmönnun sé 8 börn á hvert stöðugildi. Að jafnaði skulu stöðugildi vera í takt við fjölda barna, en fjöldi barna á hvert stöðugildi fækkar með lækkandi aldri, en miðað er við 4 börn á hvert stöðugildi í yngsta aldurshópnum. Til viðbótar koma svo stöðugildi sem miða við stuðningsþarfir barna hverju sinni. Unnið er að verklagsreglum um sérkennslu og stuðning, sem verða lagðar fyrir á næstu vikum.

Fáliðun telst þegar fáir starfsmenn eru við vinnu og viðmiðið er að fjöldi barna fari ekki yfir 8 á hvern starfsmann. Reglurnar gera grein fyrir því til hvaða úrræða skuli gripið ef fjöldi barna á hvert stöðugildi fer yfir grunnviðmið.

Fram fór umræða fundarmanna um tillögurnar.

Bæjarráð fagnar framlögðum og skýrum tillögum og leggur til við bæjarstjórn að þær verði samþykktar.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Valdís Ásgeirsdóttir - mæting: 16:30
  • Gunnþór E. Gunnþórssosn - mæting: 16:30
  • Sigríður G. Arnardóttir - mæting: 16:30
  • Hinrik Konráðsson - mæting: 16:30
  • Rósa Guðmundsdóttir - mæting: 16:30
  • Garðar Svansson - mæting: 16:30
  • Heiðdís Lind Kristinsdóttir - mæting: 16:30
  • Loftur Árni Björgvinsson - mæting: 16:30

Skólanefnd - 161. fundur - 05.04.2022

Undir þessum dagskrárlið sátu áfram sömu gestir og undir dagskrárlið nr. 1.

Fyrir fundinum lá tillaga til umsagnar skólanefndar, um barngildisviðmið og mönnun, sem og reglur um fáliðun fyrir Leikskólann Sólvelli.

Formaður sagði frá því að í gær, á fundi bæjarráðs, hefðu bæjarfulltrúar og skólanefndarfulltrúar fengið kynningu Gunnþórs E. Gunnþórssonar, skólaráðgjafa hjá Ásgarði, en hann fór yfir tilurð vinnu við setningu barngildisviðmiða og drög að reglum um fáliðun á leikskólum. Með tillögum sem nú liggja fyrir er verið að skerpa á þeim viðmiðum sem unnið hefur verið eftir. Tillögurnar eru unnar með stjórnendum Leikskólans Sólvalla og hafa verið kynntar starfsfólki, og eru þær hluti af frekari vinnu við að styrkja starf leikskólans.

Skv. reglunum er gert ráð fyrir að grunnmönnun sé 8 börn á hvert stöðugildi. Að jafnaði skulu stöðugildi vera í takt við fjölda barna, en fjöldi barna á hvert stöðugildi fækkar með lækkandi aldri, og er miðað við 4 börn á hvert stöðugildi í yngsta aldurshópnum.

Til viðbótar koma svo stöðugildi sem miða við stuðningsþarfir barna hverju sinni. Unnið er að verklagsreglum um sérkennslu og stuðning, sem verða lagðar fyrir skólanefnd til umsagnar á næstu vikum.

Fáliðun telst þegar fáir starfsmenn eru við vinnu og viðmiðið er að fjöldi barna fari ekki yfir 8 á hvern starfsmann og færri eftir því sem börnin eru yngri, sbr. það sem fyrr segir.
Reglurnar gera grein fyrir því til hvaða úrræða skuli gripið ef fjöldi barna á hvert stöðugildi fer yfir grunnviðmið.

Fram fór umræða fundarmanna um tillögurnar. Fram kom að reglurnar verði einnig kynntar fyrir foreldrum/forráðamönnum leikskólabarna.

Skólanefnd fagnar framlögðum tillögum og þeirri vinnu sem fram hefur farið. Skólanefnd leggur til við bæjarstjórn að reglurnar verði samþykktar.


Að lokinni umræðu um þennan lið véku gestir af fundi og var þeim þakkað fyrir komuna.

Bæjarstjórn - 259. fundur - 07.04.2022

Lögð fram tillaga um reglur með viðmiðum um barngildi og fáliðunarreglur fyrir Leikskólann Sólvelli.

Tillagan er unnin af stjórnendum Leikskólans Sólvalla, með aðstoð skólaráðgjafa frá Ásgarði, og hefur einnig verið kynnt og rædd með starfsfólki leikskólans.

Bæjarfulltrúar og skólanefndarfulltrúar fengu kynningu frá Ásgarði og leikskólastjóra, á vinnunni og tillögunum, á 586. fundi bæjarráðs þann 4. apríl sl.
Bæjarráð og skólanefnd hafa veitt jákvæðar umsagnir.

Auk þess átti bæjarstjórn góðan fund með starfsfólki leikskólans í gær um styrkingu leikskólastigsins og starfsumhverfis leikskóla, og er það hluti af uppbyggingarvinnu sem nú fer fram í leikskólanum.

Allir tóku til máls.

Reglur um barngildi og mönnun og um fáliðun samþykktar samhljóða.

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að ræða við skólastjóra um aðlögun reglnanna að starfsemi leikskóladeildarinnar Eldhamra, sem síðan verði rætt í skólanefnd.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarráð - 587. fundur - 26.04.2022

Þann 6. apríl sl. áttu bæjarfulltrúar fund í samkomuhúsinu með starfsfólki leikskólans. Fundurinn var liður í þeirri vinnu sem nú fer fram við endurskoðun og uppbyggingu innra starfs í leikskólanum. Samtalið var mjög gagnlegt og snerist um (1) hvernig mætti styrkja leikskólastigið, (2) hvernig megi auka skilning (allra) á tilgangi leikskólastarfs, skv. lögum og aðalnámskrá, og (3) hvernig megi styrkja starfsumhverfið og samvinnu. Umræður fóru fram í fjórum hópum og í lokin deildu hóparnir niðurstöðum úr umræðum sínum.

Bæjarráð fór yfir niðurstöður fundarins og lýstu fundarmenn ánægju sinni með afar gagnlegt og uppbyggilegt samtal sem þar fór fram.

Bæjarstjóri sagði frá samtali sínu við leikskólastjóra um helstu ráðstafanir í kjölfar fundarins.

Bæjarstjóra og leikskólastjóra falið að stilla upp helstu skilaboðum úr umræðum fundarins, þannig að hægt sé að taka áfram í innra starfi leikskólans þau verkefni sem heyra undir starfsmannahópinn og að til bæjarráðs/bæjarstjórnar komi þau atriði sem þar þarf að bregðast við.

Samþykkt samhljóða.

Skólanefnd - 162. fundur - 27.04.2022

Unnið er að uppbyggingu á innra starfi leikskólans.
Bæjarstjóri sagði frá því að þann 6. apríl sl. hafi bæjarfulltrúar átt fund í samkomuhúsinu með starfsfólki leikskólans. Fundurinn var liður í þeirri vinnu sem nú fer fram við endurskoðun og uppbyggingu innra starfs í leikskólanum, en við það nýtur skólinn aðstoðar frá Ásgarði, skólaráðgjöfum.

Bæjarstjóri sagði að samtalið hafi verið mjög gagnlegt en það snerist um (1) hvernig mætti styrkja leikskólastigið, (2) hvernig megi auka skilning (allra) á tilgangi leikskólastarfs, skv. lögum og aðalnámskrá, og (3) hvernig megi styrkja starfsumhverfið og samvinnu.

Á fundi bæjarráðs í gær hafi verið samþykkt að fela bæjarstjóra og leikskólastjóra að stilla upp helstu skilaboðum úr umræðum fundarins, þannig að hægt sé að taka áfram í innra starfi leikskólans þau verkefni sem heyra undir starfsmannahópinn og að til bæjarráðs/bæjarstjórnar komi þau atriði sem þar þarf að bregðast við.

Bæjarráð - 588. fundur - 16.05.2022

Heiðdís Lind Kristinsdóttir, leikskólastjóri, og Ragnar Smári Guðmundsson, varaformaður skólanefndar, sátu fundinn undir þessum lið.
Lögð fram samantekt frá fundi bæjarfulltrúa með starfsfólki leikskólans þann 6. apríl sl.

Farið yfir málefni leikskólans og þá sérstaklega rekstur eldhúss fyrir leik- og grunnskóla og fyrirkomulag þess.

Bæjarráð, vill í samræmi við fyrri umræður, leita lausna á fyrirkomulagi á rekstri eldhúss leikskólans, þar sem eldað er nú fyrir bæði leik- og grunnskóla. Er það gert til að létta tímabundið á rekstri eldhúss leikskólans.

Lagt til að leitað verði eftir tilboðum fyrirtækja í bænum til að sjá um skólamat fyrir grunnskólann næsta skólaár.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Ragnar Smári Guðmundsson, varaformaður skólanefndar - mæting: 17:50
  • Heiðdís Lind Kristinsdóttir, leikskólastjóri - mæting: 17:50

Skólanefnd - 163. fundur - 04.07.2022

Á fundi skólanefndar nr. 161 voru samþykkt viðmið um barngildi og fáliðunarreglur.

Nú er lögð fram tillaga að starfsreglum um sérkennslu og stuðning, sem unnar hafa verið af skólaráðgjöfum Ásgarðs með stjórnendum Leikskólans Sólvalla.

Tillagan er framhald og hluti af vinnu við að styrkja starf leikskólans.

Ennfremur er lagt fram minnisblað Ásgarðs 2. maí 2022 um þá vinnu sem fram hefur farið og auk þess minnispunktar af fundi bæjarfulltrúa með starfsfólki leikskóla 6. apríl 2022.

Farið var yfir framlagða tillögu og efni reglnanna, og samhengi þeirra við áður samþykktar reglur.

Í framlögðum tölvupósti ráðgjafa Ásgarðs til bæjarstjóra kemur fram að drögin geri ráð fyrir að stoðþjónustuteymi fari yfir umsókn um stuðningstíma með rökstuðningi frá sérkennslustjóra. Ákveða þurfi fyrirkomulag þessa þáttar í stjórnskipulagi skólans/bæjarins. Rökstuðningur fyrir stuðningi þurfi að vera skýr og ákvörðun um úthlutun fjármagns sé tekin út frá þeim markmiðum sem sett eru með sérkennslunni.

Starfsreglur um sérkennslu og stuðning samþykktar samhljóða. Skólanefnd leggur jafnframt til að ákveðið verði fyrirkomulag á stoðþjónustuteymi.

Skólanefnd telur að reglurnar þurfi að gilda um og/eða laga að starfsemi leikskóladeildarinnar Eldhamra og leggur til að það verði skoðað.

BÁ sagði lauslega frá því starfi sem fram hefur farið að undanförnu við að byggja upp innra starf leikskólans, með liðsinni skólaráðgjafa Ásgarðs.
Hér vék Ragnheiður Dröfn af fundi og var henni þakkað fyrir komuna.

Gestir

  • Ragnheiður Dröfn Benidiktsdóttir fulltrúi foreldra

Bæjarráð - 590. fundur - 07.07.2022

Lögð fram tillaga um starfsreglur um sérkennslu og stuðning, til afgreiðslu bæjarráðs, ásamt minnispunktum um vinnu sem farið hefur fram hjá skólastjórnendum með Ásgarði, skólaráðgjöf, síðustu mánuði.

Tillagan var tekin til afgreiðslu á 163. fundi skólanefndar þann 4. júlí sl. og voru reglurnar samþykktar af skólanefnd.
Starfsreglur um stuðning og sérkennslu samþykktar samhljóða.