Málsnúmer 2203025

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 257. fundur - 10.03.2022

Að undanförnu hafa bæjarstjórn og bæjarstjóri leitað upplýsinga og svara frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands um þjónustu HVE í Grundarfirði. Snýr það einkum að tvennu. Annars vegar að dögum þegar læknisþjónustu hefur vantað í Grundarfirði, en slíkt hefur ítrekað komið upp í vetur. Hins vegar að því verklagi að sjúklingum er gert að sækja þjónustu læknis til Ólafsvíkur um helgar, sem mörgum reynist örðugt.

Bæjarstjórn lýsir áhyggjum af þeirri þjónustu sem HVE býður íbúum Grundarfjarðar, einkum og sér í lagi fyrirkomulagi á þjónustu lækna.
Bæjarstjórn lýsir jafnframt áhyggjum af ástandi íbúðarhúsnæðis sem ætlað er þeim læknum sem koma til þjónustu hér, 4-5 sólarhringa í senn. Bæjarstjórn fer fram á það við stjórnendur HVE að búið sé betur að starfandi læknum hvað þessa þætti varðar.

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að leita eftir fundi með heilbrigðisráðherra, til viðræðna um framkvæmd þeirrar heilbrigðisþjónustu sem ríkið heldur úti í Grundarfirði.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarráð - 585. fundur - 22.03.2022

Málefnið var til umræðu á 257. fundi bæjarstjórnar þann 10. mars sl.

Frekari ábendingar hafa borist frá íbúum um fyrirkomulag þjónustu HVE um helgar, þegar sjúklingum er gert að sækja þjónustu læknis til Ólafsvíkur. Ábendingarnar gefa tilefni til að leita eftir skýringum HVE á fyrirkomulagi við veitingu þjónustunnar.

Bæjarráð telur að ábendingarnar gefi enn frekari ástæðu til þess að kalla eftir skýrum svörum HVE um fyrirkomulag á vaktþjónustu lækna um helgar við íbúa Grundarfjarðar, og eftir svörum heilbrigðisyfirvalda um þjónustustig.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kalla eftir skýringum í samræmi við umræður fundarins.

Bæjarstjórn - 262. fundur - 09.06.2022

Allir tóku til máls.

Forseti kynnti svarbréf HVE við bókunum og erindi bæjarstjórnar til HVE þar sem gerðar eru athugasemdir og fyrirspurn um fyrirkomulag læknisþjónustu í Grundarfirði.

Bæjarstjóri sagði frá samskiptum við HVE. Fulltrúar allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi áttu á síðasta kjörtímabili fundi með stjórnendum HVE. Einnig sagði bæjarstjóri frá fundi fulltrúa bæjarins með heilbrigðisráðherra þann 20. apríl sl. um læknisþjónustu í Grundarfirði.

Forseti lagði til að bæjarstjóra yrði falið að vinna áfram í samskiptum við HVE á þeim grunni sem bæjarstjórn hefði ályktað.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 263. fundur - 13.09.2022

Í framhaldi af fyrri bókunum bæjarstjórnar um þjónustu HVE í Grundarfirði og fundum fulltrúa bæjarins með stjórnendum HVE og heilbrigðisráðherra sl. vor um læknisþjónustu í Grundarfirði.
Til máls tóku JÓK, SG, ÁE, LÁB og BÁ.

SG, ÁE og BÁ sögðu frá fundi sem þær áttu í gær, hér í ráðhúsinu, með Stefáni Vagni Stefánssyni, þingmanni kjördæmisins um stöðuna í læknisþjónustu í Grundarfirði.

JÓK sagði frá fundi fulltrúa bæjarins með heilbrigðisráðherra í apríl sl., en bæjarstjórn hafði óskað eftir samtali við ráðherra um stöðuna.

Bæjarstjórn lýsir enn yfir áhyggjum sínum af stöðu læknisþjónustu í Grundarfirði, þ.e. að ekki hefur tekist að manna stöðu læknis með fullnægjandi hætti í bænum. Bæjarstjórn óskar eftir samvinnu við heilbrigðisráðherra í því skyni að leita nýrra leiða við mönnun læknisþjónustu í bænum og óskar eftir aðkomu þingmanna að málinu. Bæjarstjórn hvetur jafnframt HVE til að sinna viðeigandi upplýsingagjöf á vef sínum þegar um læknaskort er að ræða.

Bæjarstjóra falið að vinna áfram að málinu og eiga samskipti við ráðherra og þingmenn um viðeigandi lausnir.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 269. fundur - 09.02.2023

Bæjarstjóri sagði frá fundi sínum með forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands þann 24. janúar sl. á Akranesi og sagði að ýmislegt jákvætt hefði komið þar fram. Ræddu þær um þjónustu HVE í Grundarfirði, einkum stöðu varðandi ráðningu og störf lækna, aðgang lækna að leikskóla- og heilsdagsplássum o.fl. Bæjarstjóri áréttaði hvatningu um umbætur í húsnæðismálum læknis í Grundarfirði.


Bæjarstjórn - 283. fundur - 12.03.2024

Rætt um stöðu læknisþjónustu, í samræmi við fyrri umræðu og ályktanir bæjarstjórnar.

Á síðustu árum hefur bæjarstjórn oftsinnis rætt og ályktað um stöðu læknismála í Grundarfirði. Í apríl 2022 áttu fulltrúar bæjarins fund með heilbrigðisráðherra um stöðuna.

Fundur er fyrirhugaður með stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands 10. apríl nk. í Grundarfirði, skv. beiðni bæjarstjóra. Auk þess hefur verið óskað eftir fundi með heilbrigðisráðherra, þingmönnum og stjórnendum HVE.

Bæjarstjórn ítrekar fyrri óskir sínar um að ríkið sinni skyldu sinni og sjái Grundfirðingum fyrir viðunandi læknisþjónustu.

Bæjarstjórn þakkar hvatamönnum og þátttakendum í undirskriftarsöfnun sem fram fór nýverið með kröfu um bætta læknisþjónustu í bænum.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 284. fundur - 11.04.2024

Í gær, 10. apríl, funduðu fulltrúar bæjarstjórnanna í Grundarfirði og Snæfellsbæ með stjórnendum HVE, í Ráðhúsi Grundarfjarðar.

Forseti og bæjarstjóri sögðu frá fundinum með HVE. Þar var rætt um stöðu þjónustu og nauðsynlegar umbætur á henni.

HVE kynnti tölfræði um umfang þjónustu, fjölda heimsókna og fleira, sem veitt er á þessum tveimur stöðum. Farið var yfir áskoranir í mönnun heilbrigðisþjónustu á okkar svæði og almennt. Kynnt var vinna við breytingar sem miða að því að treysta þjónustu á svæðinu, með auknu samstarfi milli staða. Einnig rætt um möguleika á aukinni þjónustu með aðstoð nútíma tækni.

Umræður urðu um málefnið.

Óskir fulltrúa sveitarfélaganna eru um formlegt samstarf aðila, í ljósi sameiginlegra hagsmuna og snertiflata.

HVE óskaði eftir framhaldsfundi í lok maí, þegar fyrir liggja frekari upplýsingar úr vinnu HVE.

Bæjarstjórn - 287. fundur - 13.06.2024

Fulltrúar Grundarfjarðarbæjar hafa nýlega átt tvo fundi með stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE), ásamt fulltrúum Snæfellsbæjar. Þann 10. apríl hittust fulltrúar sveitarfélaganna tveggja og stjórnendur HVE í Grundarfirði á fundi og þann 29. maí sl. var haldinn fjarfundur sömu aðila, um þjónustu stofnunarinnar í Grundarfirði og Snæfellsbæ.Að morgni 31. maí sl. var haldinn opinn spjallfundur til að kynna íbúum hvað fram hefði komið í samtali bæjarstjórnar við HVE.Lagður fram tölvupóstur bæjarstjóra til forstjóra HVE í aðdraganda síðari fundarins, þar sem fram koma drög að efni samkomulags, sem lagt er til að aðilar geri með sér. Einnig lögð fram samantekt bæjarstjóra dags. 31. maí 2024 um efni framangreindra funda.

Bæjarstjóri fór yfir málið og framlögð gögn.

Hvað varðar viðveru og þjónustu læknis, þá kom fram hjá HVE að búið væri að manna allar vikur ársins nema eina viku í ágúst nk., sem væri í vinnslu. Einnig kom fram vilji til samstarfs og að gera samkomulag í þeim anda sem lagt er til.

Ákveðið var að hittast næst á fundi í lok ágúst nk.

Bæjarstjórn tekur undir þau efnisatriði sem lögð voru fram í samtali við stjórnendur HVE og felur bæjarráði að taka til frekari umfjöllunar.

Samþykkt samhljóða.