216. fundur 23. maí 2018 kl. 15:00 - 18:04 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
 • Eyþór Garðarsson (EG) forseti bæjarstjórnar
 • Berghildur Pálmadóttir (BP)
 • Bjarni Georg Einarsson (BGE)
 • Elsa Bergþóra Björnsdóttir (EBB)
 • Hinrik Konráðsson (HK)
 • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
 • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
Starfsmenn
 • Þorsteinn Steinsson (ÞS) bæjarstjóri
 • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti setti fund.

Björg Ágústsdóttir og Matthildur Kr. Elmarsdóttir (í síma) sátu fundinn undir lið 5.

Gengið var til dagskár.

1.Bæjarráð - 513

Málsnúmer 1805004FVakta málsnúmer

 • 1.1 1501066 Lausafjárstaða
  Bæjarráð - 513 Lagt fram og yfirfarið yfirlit yfir lausafjárstöðu.
 • Bæjarráð - 513 Lagt fram kauptilboð Grundarfjarðarbæjar í húseignina Nesvegur 19, matshluta 01 0102. Kaupverðið er 19,3 m.kr. Um er að ræða iðnaðarhús sem ætlað er undir starfsemi áhaldahúss.
  Bæjarráð samþykkir tilboðið og vísar endanlegri afgreiðslu til bæjarstjórnar.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu bæjarráðs.
 • Bæjarráð - 513 Lagt fram bréf Þjóðskrár Íslands frá 6. maí sl. um meðferð kjörskrárstofna vegna sveitarjórnarkosninga. Skv. 1. mgr. 26. gr. kosningalaga skulu kjörskrár lagðar fram eigi síðar en miðvikudaginn 16. maí 2018. Kjörskrá liggur fram á bæjarskrifstofu frá þeim degi.

  Jafnframt lagður fram kjörskrárstofn í Grundarfirði. Á kjörskrá eru 626 manns, 315 karlar og 311 konur.

  Bæjarráð samþykkir samhljóða fyrirliggjandi kjörskrárstofn og felur bæjarstjóra að undirrita hann.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu bæjarráðs.
 • 1.4 1710023 Framkvæmdir 2018
  Bæjarráð - 513 Farið var yfir helstu framkvæmdir sem unnar verða á árinu 2018.
  Verið er að ganga frá samningum um lagfæringu á leikskólanum og verður hafist handa þar á næstunni. Miðað er við að haldið verði áfram með lagfæringar á grunnskóla, þegar skóla lýkur.Verið er að kanna með kaup á hoppubelg. Lagfæringar og undirbúningur er í gangi vegna tjaldsvæðis. Kynntar hugmyndir um kaup á klósettgámi sem hugmyndin er að setja upp á tjaldsvæði, slík framkvæmd yrði til mikilla bóta fyrir þjónustu tjaldsvæðisins.
  Lokið er við eldvarnir og ýmsar lagfæringar í samkomuhúsi. Verið er að ljúka við tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi bæjarins, sem verður væntanlega sett í auglýsingu í næstu viku. Í undirbúningi er að gera göngustíg í gegnum Paimpolgarðinn frá Hrannarstíg yfir að Grunnskóla. Í undirbúningi eru lagfæringar á bæjargirðingunni.
  Ný gata milli Nesvegar og Sólvalla er í hönnun og er gert ráð fyrir að unnt verði að fara í þá framkvæmd seinnihluta sumars og vonandi að ljúka við malbikun hennar í framhaldi.
  Lögð fram tilboð í götumálun og kantsteina við bílastæði. Jafnframt var farið yfir hugmyndir um gerð og lagfæringu gangstétta. Bæjarráð leggur áherslu á að farið verði sem fyrst í framkvæmdir við gangstétt upp Ölkelduveg.

  Bæjarráð samþykkir að keyptur verði klósettgámur á tjaldsvæðið, jafnframt að fenginn verði aðili til þess að mála götur bæjarins og að keyptir verði bílastæðasteinar skv. tilboði til að setja við sundlaug og grunnskóla.
  Ennfremur samþykkt að kanna með kaup á hoppubelg og finna endanlega staðsetningu fyrir slíkt tæki.
  Byggingafulltrúa falið að hafa forgöngu um þessi mál í samvinnu við forstöðumann áhaldahúss og fasteigna bæjarins.
  Bæjarráð er að öðru leyti samþykkt þeim verkáætlunum sem í gangi eru.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu bæjarráðs.
 • Bæjarráð - 513 Farið yfir málefni Skipulags- og byggingarfulltrúa.

  Bæjarráð samþykkir að auglýsa starf skipulags- og byggingafulltrúa aftur laust til umsóknar.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu bæjarráðs.
 • Bæjarráð - 513 Menningar- og markaðsfulltrúi hefur sagt starfi sínu lausu. bæjarstjórn vísaði málinu til vinnslu í bæjarráði.

  Lögð fram samantekt um starfssvið menningar-og markaðsfulltrúa. Þar kemur vel fram í hverju helstu verkefni viðkomandi starfsmanns eru fólgin.
  Bæjarráð felur bæjarstjóra og skrifstofustjóra í samráði við formann bæjarráðs að yfirfara starfslýsingu starfsins í samræmi við umræður á fundinum..
  Bókun fundar Lögð fram drög að auglýsingu um starf menningar- og markaðsfulltrúa.

  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að auglýsa starf menningar- og markaðsfulltrúa til samræmis við umræður á fundinum og fyrirliggjandi drög að auglýsingu.
 • Bæjarráð - 513 Lagt fram bréf dómsmálaráðuneytisins frá 11. maí sl., sem er svar við erindum bæjaryfirvalda um það að unnt verði að kjósa utankjörfundar í Grundarfirði vegna komandi sveitarstjórnarkosningar.

  Ráðuneytið metur það svo að ekki sé skylt að hafa atkvæðagreiðslu utan kjörfundar í Grundarfirði miðað við gildandi lög og reglur. Ráðuneytið bendir þó á að það sé á forræði sýslumannsins að meta hvort nauðsyn er á að unnt sé að greiða atkvæði utan kjörfundar á öðrum stöðum en skrifstofum sýslumannsins. Við það mat skuli m.a. tekið mið af því hvort kjósendur sem ekki geta greitt atkvæði á kjördag þurfi um langan veg að fara til að greiða atkvæði sitt. Ekki sé gert ráð fyrir í lögum að unnt sé að kjósa utan kjörfundar í hverju og einu sveitarfélagi.

  Bæjaryfirvöld í Grundarfirði ítreka mótmæli sín vegna þess að ekki sé boðið upp á utankjörfundaratkvæðagreiðslu í sveitarfélaginu eins og til að mynda var gert í síðustu Alþingiskosningum. Með slíkri ákvörðun sé ekkert tillit tekið til þesss að almenningssamgöngur séu stopular milli staða á landsbyggðinni. Með ákvörðun af þessum toga er jafnræðisreglan ekki í heiðri höfð gagnvart öllum íbúum þessa lands.
  Bæjarráð skorar á sýslumanninn á Vesturlandi að sjá til þess að að Grundfirðingar geti kosið utan kjörfundar, í heimabyggð fyrir komandi kosningar.
  Samþykkt að fela bæjarstjóra að vinna að úrlausn málsins með dómsmálaráðuneytinu til framtíðar.
 • Bæjarráð - 513 Lögð fram tillaga að launum bæjarfulltrúa og nefnda í Grundarfirði.

  Að lokinni umfjöllun var lagt til að tillagan yrði samþykkt og að laun samkvæmt henni verði greidd frá og með 1. júní nk.
  Bæjarráð samþykkir tillöguna samhljóða.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu um nefndarlaun sem bæjarráð vísaði til afgreiðslu bæjarstjórnar.
 • Bæjarráð - 513 Lagðar fram breytingartillögur á samþykktum um stjórn Grundarfjarðarbæjar.

  Eftir yfirferð og smávægilegar breytingar samþykkti bæjarráð fyrirliggjandi tillögur að breytingum að samþykktum um stjórn Grundarfjarðarbæjar.
  Tillögunum vísað til afgreiðslu í bæjarstjórn.
  Bókun fundar Fyrir fundinum lá tillaga bæjarráðs um breytingu á 47. grein á samþykktum um stjórn Grundarfjarðarbæjar til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

  Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi tillögu um breytingar á samþykktum um stjórn bæjarins og vísar til síðari umræðu í bæjarstjórn.
 • Bæjarráð - 513 Lagt fram til kynningar frá Landskerfi bókasafna dags. 9. maí sl. Í bréfinu er boðað til aðalfundar Landskerfis bókasafna, sem verður 30. maí nk. í Reykjavík.
 • Bæjarráð - 513 Lagt fram til kynningar bréf dags. 15. maí sl., þar sem boðað er til hluthafafundar í Snæfrost h/f.
 • Bæjarráð - 513 Lagt fram til kynningar bréf dags. 15. maí sl., frá Öryrkjabandalaginu, þar sem boðað er til málþings 29. maí nk.
 • Bæjarráð - 513 Lagt fram til kynningar bréf frá IOGT dags. 22. mars sl.

2.Skipulags- og umhverfisnefnd - 190

Málsnúmer 1805005FVakta málsnúmer

 • Farið yfir Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar 2018-2038, einnig drög að umhverfisskýrslu Skipulags- og umhverfisnefnd - 190 Björg Ágústsdóttir fór yfir tillögu á vinnslustigi og umhverfisskýrslu. Matthildur Kr. Elmarsdóttir var með á símafundi.

  Skipulags-og umhverfisnefnd samþykkir framlagða tillögu á vinnslustigi að Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar. Einnig samþykkir nefndin drög að umhverfisskýrslu sem lögð hefur verið fram.

  Skipulags-og umhverfisnefnd leggur til að skipulagstillagan verði sett í kynningu, skv. 2.mgr.30.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  Rósa Guðmundsdóttir sat fundinn undir þessum lið.

  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og vísar til 5. liðar á dagskrá þessa fundar.
 • Lögð fram að nýju tillaga að deiliskipulagi Kirkjufellsfoss, dags. 18.4.2018, sem unnin er fyrir Grundarfjarðarbæ af ráðgjafafyrirtækinu Alta Skipulags- og umhverfisnefnd - 190 Kirkjufellsfoss
  Skipulags- og umhverfisnefnd:

  Lögð fram að nýju tillaga að deiliskipulagi Kirkjufellsfoss, dags. 18.4.2018, sem unnin er fyrir Grundarfjarðarbæ af ráðgjafafyrirtækinu Alta. Tillagan er unnin í samstarfi við landeigendur jarðarinnar Kirkjufells. Í tillögunni felst nýtt bílastæði vestan við fossinn með nýrri tengingu við þjóðveginn ásamt áningar- og salernisaðstöðu. Gönguleiðir meðfram fossinum verða lagfærðar og sérstaklega er hugað að aðgengi fyrir alla frá bílastæði að fossinum. Deiliskipulagið er sett fram á deiliskipulagsuppdrætti í mkv. 1:1000 og greinargerð, dags. 18. 4.2018.

  Lýsing fyrir verkefnið var kynnt frá 5.1.2018 til 1.2.2018 og í kjölfarið var tillaga að deiliskipulagi kynnt á vinnslustigi frá 14.3.2018 til og með 3.4.2018. Ábendingar bárust á kynningartíma sem hafðar voru til hliðsjónar við gerð deiliskipulagstillögunnar.

  Tillagan var auglýst 5.4.2018 á vef sveitarfélagsins, Fréttablaðinu og í svæðisbundnum fréttamiðli. Athugasemdafrestur var til 17.5.2018. Athugasemdir bárust frá Vegagerðinni dags. 18.4.2018 og Lögmönnum Höfðabakka, f.h. Sædísar Helgu Guðmundsdóttur dags. 23.4.2018. Misfórst að birta auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu en hún var birt 18.5.2018 með athugasemdafresti til 29.6. 2018.

  Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir, með vísan í 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillögu að deiliskipulagi áfangastaðar við Kirkjufellsfoss ásamt meðfylgjandi umsögn um athugasemdir, dags. 18.5.2018 og leggur til að deiliskipulagið verði sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.

  Jafnframt lagt fram yfirlit yfir athugasemdir sem hafa borist og tillögur að afgreiðslu þeirra, unnar eru af ráðgjafafyrirtækinu Alta og dags. 18. maí 2018.

  Skipulags- og umhverfisnefnd vísar málinu til bæjarstjórnar, að höfðu samráði við Alta eftir samtal þeirra við Skipulagsstofnun vegna auglýsingaferlisins.

  Þorsteinn Steinsson sat fundinn undir þessum lið.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og vísar til 7. liðar á dagskrá þessa fundar.
 • Lögð fram að nýju tillaga að deiliskipulagi fyrir áfangastað við Kolgrafafjörð, dags. 18.4.2018, sem unnin er fyrir Grundarfjarðarbæ af ráðgjafafyrirtækinu Alta. Skipulags- og umhverfisnefnd - 190 Kolgrafafjörður
  Skipulags- og umhverfisnefnd:

  Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga að deiliskipulagi fyrir áfangastað við Kolgrafafjörð, dags. 18.4.2018, sem unnin er fyrir Grundarfjarðarbæ af ráðgjafafyrirtækinu Alta. Tillagan er unnin í samstarfi við landeigendur. Í tillögunni felst að útbúa aðstöðu til að njóta útsýnis og náttúrulífs við vesturenda brúarinnar. Á áfangastað er gert ráð fyrir útsýnispalli á grjótvarnargarði, svæði til áningar ásamt salernisaðstöðu. Á áfangastað verða upplýsingaskilti um nánasta umhverfi, náttúru svæðisins og nærliggjandi þjónustu. Deiliskipulagið er sett fram á deiliskipulagsuppdrætti í mkv. 1:1000 og greinargerð, dags. 18.4.2018.

  Lýsing fyrir verkefnið var kynnt frá frá 3.11.-26.11.2016. Athugasemdir og ábendingar bárust á kynningartíma sem hafðar voru til hliðsjónar við gerð deiliskipulagstillögunnar. Tillaga að deiliskipulagi var kynnt á vinnslustigi frá 14.3.2018 til og með 3.4.2018. Engar athugasemdir eða ábendingar bárust á kynningartíma vinnslutillögunnar.

  Tillagan var auglýst 5.4.2018 á vef sveitarfélagsins, Fréttablaðinu og með auglýsingu í svæðisbundnum fréttamiðli. Athugasemdafrestur var til og með 17.5.2018. Engar athugasemdir bárust við auglýsta tillögu. Misfórst að birta auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu en hún var birt 18.5.2018 með athugasemdafresti til 29.6.2018.

  Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir, með vísan í 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillögu að deiliskipulagi áfangastaðar við Kolgrafafjörð og leggur til að deiliskipulagið verði sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.

  Skipulags- og umhverfisnefnd vísar málinu til bæjarstjórnar, að höfðu samráði við Alta eftir samtal þeirra við Skipulagsstofnun vegna auglýsingaferlisins.

  Þorsteinn Steinsson sat fundinn undir þessum lið.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og vísar til 6. liðar á dagskrá þessa fundar.
 • Almenna umhverfisþjónustan ehf leggur fram tillögu af húsum til bygginga á lóðunum Grundargötu 82 og 90 Skipulags- og umhverfisnefnd - 190 Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa í samráði við Almennu umhverfisþjónustuna ehf. að grenndarkynna fyrirhugaðar byggingar á lóðunum við Grundargötu 82 og 90.

  Skipulags- og umhverfisnefnd áréttar samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði og bendir á reglur um tímamörk.

  Ólafur Tryggvason vék af fundi undir þessum lið.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og leggur til að grenndarkynnt verði í húsum að Grundargötu nr. 76, 78, 80, 84, 86, 88, 92 og 94. Bæjarstjórn áréttar samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði og bendir á reglur um tímamörk.

  Samþykkt samhljóða.
 • Orkuveita Reykjavíkur óskar eftir leyfi Grundarfjarðarbæjar fyrir lagningu vatnslagnar. Skipulags- og umhverfisnefnd - 190 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir legu nýrrar vatnslagnar Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
 • 2.6 1805037 Lóðaúthlutanir
  Tímamörk á lóðaúthlutunum Skipulags- og umhverfisnefnd - 190 Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að tilkynna lóðahöfum um tímamörk á þegar úthlutuðum lóðum.

  Skipulags- og umhverfisnefnd vísar í samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að fella úthlutun lóða úr gildi að liðnu einu ári frá úthlutun þeirra hafi framkvæmdir ekki hafist eða fullnægjandi gögn borist.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar. Bæjarstjórn áréttar samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði og bendir á reglur um tímamörk.

  Samþykkt samhljóða.
 • Lögð fram tillaga að hjólastíg/göngustíg við Sæból

  Skipulags- og umhverfisnefnd - 190 Skipulags- og umhverfisnefnd list vel á tillöguna og leggur til að heildstæð vinna við hjólastíga verði unnin eftir að nýtt aðalskipulag tekur gildi.

  Skipulags- og umhverfisnefnd leggur einnig til gangbrautir bæði á móts við Sæból 16 og framan við Sæból 24.

  Bókun fundar Bæjarstjórn tekur undir tillögu skipulags- og umhverfisnefndar og felur skipulags- og byggingafulltrúa að vinna að málinu.

  Samþykkt samhljóða.

3.Öldungaráð - 8

Málsnúmer 1805003FVakta málsnúmer

 • Öldungaráð - 8 Í vetur hefur mikið verið rætt um heilsueflingu fyrir eldri borgara á fundum öldungaráðs. Ráðið hefur lagt til að horft verði til samnings landlæknis við Janus Guðlaugsson og hann hafður sem fyrirmynd að starfi fyrir eldri borgara í Grundarfirði.

  Öldungaráð leggur til að hafist verði handa við gerð púttvallar í Paimpol garði í samstarfi við golfklúbbinn Vestarr hið fyrsta svo hann verði tilbúinn til notkunar í byrjun sumars.

  Öldungaráð kallar eftir því að ráðinn verði starfsmaður til að skipuleggja hreyfingu og heilsueflingu fyrir eldri borgara á vetrum. Óskað er eftir að búið verði að undirbúa vetrarstarfið í byrjun september svo hægt sé að ganga að ákveðinni dagskrá um hreyfingu og almennri heilsueflingu vísri.
  Bókun fundar Bæjarstjórn tekur vel í hugmyndir öldungaráðs og kallar eftir samstarfi við Golfklúbbinn Vestarr um gerð púttvallar. Jafnframt er bæjarráði falið að auglýsa eftir starfsmanni í ca. 25% stöðugildi fyrir veturinn, sem skipuleggja myndi hreyfingu og heilsueflingu eldri borgara.
 • 3.2 1805019 Snjómokstur
  Öldungaráð - 8 Rætt um snjómokstur á vetrum þar sem eldri borgarar hafa oft lent í að vera fastir heima hjá sér vegna þess að snjór er fyrir útidyrum og leiðinni út að götu. Margir hafa ekki heilsu til að moka frá sjálfir og mikilvægt er að þeim sé veitt aðstoð við að komast til og frá heimili sínu.

  Óskað er eftir að sett verði upp svipað fyrirkomulag og með garðslátt. Hægt verði að skrá sig á bæjarskrifstofu til að vera á lista yfir þá sem þiggja snjómokstur á vetrum. Hér er fyrst og fremst átt við gönguleið til og frá heimilum.
  Bókun fundar Bæjarstjórn felur skipulags- og byggingafulltrúa ásamt verkstjóra áhaldahúss að gera tillögur í þessum efnum og að skýrar reglur séu um þjónustu þessa.

  Samþykkt samhljóða.
 • Öldungaráð - 8 Í vetur fjallaði öldungaráð um akstur fyrir eldri borgara. Enn eru þau mál rædd og óskar ráðið eftir því að bæjarstjórn taki afstöðu til þess hvort hægt sé að veita þá þjónustu við eldri borgara sveitarfélagsins. Bókun fundar Bæjarstjórn telur að skoða ætti akstursmál í heild sinni á Snæfellsnesi. Eðlilegt er að það verði gert í samvinnu við Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga.

  Bæjarstjóra falið að senda bréf til Félags- og skólaþjónustunnar varðandi málið.

  Samþykkt samhljóða.
 • Öldungaráð - 8 Umsókn sjúkraþjálfara liggur nú fyrir hjá HVE og strandar framganga málsins á því að ekki finnst viðunandi íbúðarhúsnæði fyrir sjúkraþjálfarann í Grundarfirði.

  Öldungaráð lýsir vonbrigðum sínum með að ekki skuli finnast úrlausn á þessu máli því ljóst er að mikil þörf er á að fá sjúkraþjálfara til starfa í sveitarfélaginu.
  Bókun fundar Bæjarstjórn tekur undir þessi sjónarmið að mikilvægt sé að finna húsnæði fyrir viðkomandi starfsmann.

  Bæjarstjóra falið að vera í sambandi við Heilbrigðisstofnun Vesturlands um húsnæðismál.

  Samþykkt samhljóða.
 • 3.5 1805022 Heimaþjónusta
  Öldungaráð - 8 Öldungaráð vill ítreka mikilvægi þess að ráðið verði afleysingafólk sem getur gripið inn í heimilisþrif og aðra heimilisþjónustu þegar þeir sem almennt sinna þeirri þjónustu taka sumarfrí eða verða veikir.

  Mikilvægt er að öldungaráð ásamt bæjaryfirvöldum fylgi því eftir að HVE, félags- og skólaþjónustan og Grundarfjarðarbær eigi samstarf um samþættingu þjónustu við eldri borgara.
  Bókun fundar Bæjarstjórn tekur undir sjónarmið öldungaráðs um heimaþjónustu og kallar eftir því að Félags- og skólaþjónustan hafi forgöngu um að haldinn verði fundur allra fagaðila um þjónustu við aldraða í sveitarfélaginu.

  Bæjarstjóra falið að koma ábendingum á framfæri við Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga.

  Samþykkt samhljóða.

4.Skólanefnd - 142

Málsnúmer 1805001FVakta málsnúmer

Til máls tóku EG, HK, ÞS og JÓK.
 • Skólanefnd - 142 Lögð fram skýrsla skólastjóra og gerði hann grein fyrir henni. Fór hann meðal annars yfir breytingar í starfsmannahaldi o.fl.
  Bent var á mikilvægi þess að skoða sérstaklega aðstöðu fyrir heilsdagsskóla, þar sem fjölgun nemenda hefur verið mikil. Skólanefnd óskar eftir að skipuð verði sérstök starfsnefnd sem skoða skal mögulegar lausnir svo þjónusta heilsdagsskólans verði ekki skert.
  Lagt er til að í nefndinni verði skólastjóri, starfsmaður heilsdagsskóla og fulltrúi skólanefndar. Nefndin getur kallað eftir áliti fagaðila eftir þörfum.
  Útskrift grunnskólans er 1. júní nk.
  Ennfremur lögð fram fundargerð skólaráðs frá 30. apríl varðandi skólapúls og skóladagatal.

  Farið var yfir skóladagatalið og var skóladagatali 2018-2019, vísað til síðari umræðu.

  Þá gerði skólastjóri sérstaka grein fyrir starfsmannakönnun grunnskóla 2017-2018. Skólinn kom vel út úr skólapúlsinum og er ánægjulegt að sjá hvað starfið gengur almennt vel.
 • Skólanefnd - 142 Lagt fram skóladagatal Eldhamra fyrir 2018-2019. Skólastjóri gerði grein fyrir skóladagatalinu.
  Skólanefnd leggur til að starfsdagar kennara skuli vera fimm eins og hjá grunnskólanum.
  Skólaslit Eldhamra verða 5. júní nk. Kennsla helst óbreytt fram að sumarfríi, sem er 25. júní nk.
  Skóladagatal Eldhamra 2018-2019 var vísað til síðari umræðu.
 • Skólanefnd - 142 Lagt fram skóladagatal fyrir Tónlistarskólann 2018-2019. Skólanefnd leggur til að starfsdagar kennara skuli vera fimm eins og hjá grunnskólanum.
  Skólastjóri gerði grein fyrir því og starfsemi skólans. Alls voru 50 nemendur við nám í skólanum á þessu skólaári.
  Skólaslit verða 16. maí nk. að afstöðnum lokatónleikum.
  Skóladagatal 2018-2019 vísað til síðari umræðu.
 • Skólanefnd - 142 Lögð fram skýrsla skólastjóra leikskólans Sólvalla. Skólastjóri fór yfir hana og gerði grein fyrir starfseminni. Í leikskólanum eru 20 starfsmenn í 18,13 stöðugildum.
  Börnum hefur verið að fjölga í leikskólanum og eru þau alls 51.
  Til skoðunar hefur verið stytting vinnuviku og finnst starfsfólki spennandi að prófa slíkt fyrirkomulag. Skólanefnd óskar eftir nánari útfærslu á hugmyndum um styttingu vinnuvikunnar.
  Ennfremur lagt fram skóladagatal leikskólans fyrir 2018-2019. Skóladagatali vísað til síðari umræðu.
  Skólastjóri gerði grein fyrir skóladagatalinu og svaraði fyrirspurnum fundarmanna.

  Skólanefnd leggur til að sérstakir starfsdagar í leikskólanum verði fimm talsins eins og í grunnskólanum.

5.Aðalskipulag Grundarfjarðar 2018 - 2038

Málsnúmer 1805034Vakta málsnúmer

Björg Ágústsdóttir og Matthildur Kr. Elmarsdóttir (í síma), ráðgjafar Alta, sátu fundinn undir þessum lið.

Vísað er til afgreiðslu bæjarstjórnar undir tl. 2.1 í fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, þar sem bæjarstjórn samþykkti samhljóða fyrirliggjandi tillögu á vinnslustigi að aðalskipulagi Grundarfjarðar 2018-2038 og umhverfisskýrslu tillögunnar.

Allir tóku til máls.

Kynningartími tillögunnar skal standa frá 24. maí til 10. september 2018 og miðað við að kynningarfundur um tillöguna verði haldinn í lok ágúst.

Samþykkt samhljóða.

6.Tillaga að deiliskipulagi - Kolgrafafjörður

Málsnúmer 1803036Vakta málsnúmer

Vísað er til afgreiðslu bæjarstjórnar undir tl. 2.3 í fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar þar sem bæjarstjórn samþykkti samhljóða fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi við Kolgrafafjörð og að hún verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar.

Allir tóku til máls.

Samþykkt samhljóða.

7.Tillaga að deiliskipulagi - Kirkjufellsfoss

Málsnúmer 1803035Vakta málsnúmer

Vísað er til afgreiðslu bæjarstjórnar undir tl. 2.2. í fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar, þar sem bæjarstjórn samþykkti samhljóða fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi við Kirkjufellsfoss og að hún verði send Skipulagsstofnun til yfirferðar.

Allir tóku til máls.

Samþykkt samhljóða.

8.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1505019Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir minnispunkta sína.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 18:04.