202. fundur 29. júlí 2019 kl. 17:30 - 22:04 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS) formaður
  • Vignir Smári Maríasson (VSM)
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
  • Helena María Jónsdóttir (HMJ)
  • Runólfur J. Kristjánsson (RJK)
Starfsmenn
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson (SVÁ) skipulags- og byggingafulltrúi
Fundargerð ritaði: Unnur Þóra Sigurðardóttir formaður
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri sat fundinn undir liðum 8 og 9.

1.Grundargata 12 og 14 - Byggingarleyfi

Málsnúmer 1907031Vakta málsnúmer

Hafnaríbúðir ehf. sækir um byggingarleyfi vegna nýbyggingar á fjölbýlishúsi með 9 íbúðum.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að óska eftir nýjum teikningum sem uppfylla kröfur um fjölda bílastæða.

Skipulags og byggingarfulltrúa falið að setja fyrirhugaðar byggingar á lóðunum við Grundargötu 12 og 14 í grenndarkynningu.

2.Innri Látravík - Byggingarleyfi

Málsnúmer 1907035Vakta málsnúmer

Valgeir Þór Magnússon og Ingibjörg Sigurðardóttir sækja um byggingarleyfi, áður hafði verið gefið út tímabundið stöðuleyfi vegna hússins.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi vegna frístundahúss í landi Innri Látravíkur að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum.

3.Hlíð - Byggingarleyfi

Málsnúmer 1709015Vakta málsnúmer

Finnur Hinriksson sækir um byggingarleyfi fyrir geymslu við frístundahús.

Fyrir nefndinni liggur bréf sem sent var af fv. skipulags- og byggingarfulltrúa dags. 17.08.2017 þar sem farið var fram á stöðvun framkvæmda við byggingu hússins þar sem ekki hafði verið sótt um byggingarleyfi.

Einnig liggur fyrir ítrekun núverandi skipulags- og byggingarfulltrúa dags. 10.07.2019.


Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur móttekið umsókn og teikningar vegna geymslu í landi Hlíðar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingaleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum.

4.Norðurgarður C, Djúpiklettur - Byggingarleyfi

Málsnúmer 1305003GRUVakta málsnúmer

Norðurgarður C, Djúpiklettur sækir um byggingarleyfi fyrir 80,5 m2 vélageymslu á lóð sinni. Áður hefur verið gefið út byggingarleyfi á fundi 137. árið 2013 en það leyfi er útrunnið og er því sótt um aftur.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum.

5.Fellabrekka 3 - Bílastæði utan lóðar.

Málsnúmer 1907034Vakta málsnúmer

Guðmundur Pálsson og Hólmfríður Hildimundardóttir óska eftir leyfi til að gera bílastæði á lóðinni Fellabrekku 5 á meðan hún er óbyggð.
Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemd við gerð þessa bílastæðis á lóðamörkum Fellabrekku 3 og 5 en bendir á að framkvæmd þessi er ávallt víkjandi þar sem um er að ræða byggingarlóð sem laus er til úthlutunar.

Afstaða nefndarinnar í þessu tilviki er ekki fordæmisgefandi.


6.Fellabrekka 7-21

Málsnúmer 1902007Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga unnin af Verkís af uppfærðum lóðarblöðum af lóðunum við Fellabrekku 7-21. Lóðarblöðin hafa verið kynnt fyrir eigendum Fellabrekku 15-21 og voru unnin í samráði við þá.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framlögð lóðarblöð að Fellabrekku 7-21 og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að ganga frá útgáfu þeirra.

7.Sæból 29 - Smáhýsi á lóð

Málsnúmer 1907014Vakta málsnúmer

Fyrir nefndinni liggur fyrirspurn frá Árna Halldórssyni vegna byggingar smáhýsis á lóð, en málinu var frestað á síðasta fundi.
Skipulags- og umhverfisnefnd bendir á að umrædd framkvæmd samrýmist ekki reglum um smáhýsi, heldur heyrir undir byggingarleyfi.

Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út stöðuleyfi til að hámarki eins árs og óskar eftir teikningum og umsókn um byggingarleyfi áður en stöðuleyfið er fallið úr gildi.

8.Skerðingsstaðir - Deiliskipulagslýsing

Málsnúmer 1803056Vakta málsnúmer

Lagðar fram umsagnir og ábendingar sem bárust vegna skipulagslýsingar fyrir deiliskipulag á Skerðingsstöðum.

Alls bárust 10 umsagnir frá eftirtöldum aðilum;

Skipulagsstofnun
Umhverfisstofnun
Vegagerðinni
Náttúrufræðistofnun Íslands
Heilbrigðiseftirliti Vesturlands
Svæðisskipulagsnefnd sveitarfélaganna á Snæfellsnesi
Breiðafjarðarnefnd
Landeigendum Innri Látravíkur
Landeigendum Króks
Landeigendum Mýrarhúsa

Nefndin veitir landeiganda/framkvæmdaraðila tækifæri á að tjá sig um framkomnar umsagnir og athugasemdir um skipulagslýsinguna, þ.m.t. hvernig hann telur að rétt sé að bregðast við þeim við gerð deiliskipulagstillögu.
Nefndin mun í kjölfarið fara yfir athugasemdir og svör landeiganda/framkvæmdaraðila.

Í samræmi við þetta er skipulags- og byggingarfulltrúa falið að taka saman viðeigandi gögn og kynna landeigendum/framkvæmdaraðila og veita hæfilegan frest til að tjá sig um fram komin gögn.

9.Breyting á Aðalskipulagi 2003-2015 vegna lengingar Norðurgarðs og
efnistökusvæðis í Lambakróarholti.

Málsnúmer 1904011Vakta málsnúmer

Athugasemdafresti er lokið - ein athugasemd barst, frá Kristni G. Jóhannssyni.
Lögð er fram að nýju tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2003-2015 vegna lengingar Norðurgarðs og tilheyrandi efnistöku í Lambakróarholti. Í breytingartillögunni eru lagðar til tvær breytingar; annars vegar að Norðurgarður verði lengdur til austurs um 130 metra með viðlegukanti og landfyllingu austan Nesvegar sem tengir Framnes og Norðurgarð; hins vegar að efnistökusvæði í Lambakróarholti verði stækkað um 29.000 m2 og heimilað að vinna um 70.000 m3 af lausu efni fyrir lengingu á Norðurgarði og 70.000 m3 til viðbótar vegna hafnarframkvæmda á næstu árum. Áætlað umfang efnistöku er því um 140.000 m3 alls.
Markmið með lengingu Norðurgarðs er að auka getu Grundarfjarðarhafnar til að taka á móti stórum skipum. Markmið með breytingu á efnistökusvæði í Lambakróarholti er að stytta flutningsvegalengdir á brimvarnar- og fyllingarefni úr námum og draga úr efnisflutningum í gegnum þéttbýlið í Grundarfirði og þar með draga úr útblæstri, rykmengun, kostnaði og slysahættu.
Framkvæmdirnar hafa hlotið málsmeðferð skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, annars vegar hjá Grundarfjarðarbæ og hins vegar hjá Skipulagsstofnun. Efnistakan fellur undir lið 2.03 í viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og er því tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar.
Skipulags- og umhverfisnefnd Grundarfjarðarbæjar fjallaði um lengingu Norðurgarðs í samræmi við 4. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 á fundi sínum 30. október 2017, sbr. skýrslu Vegagerðarinnar (2017) um lengingu Norðurgarðs og efnisnámur tengdar framkvæmdinni. Nefndin tók ákvörðun um að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 1. nóvember 2017. Bæjarstjórn áréttar fyrri ákvörðun á grunni þess að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með vísan í það mat á umhverfisáhrifum sem kemur fram í skýrslu Vegagerðarinnar og að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum.
Skipulagsstofnun fjallaði um efnistöku vegna lengingar Norðurgarðs á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og var niðurstaða stofnunarinnar, sbr. ákvörðun dags. 11. apríl 2018 að efnistakan væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þann 11. apríl 2019 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi. Tillagan var auglýst í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, að undangenginni athugun Skipulagsstofnunar, 4. júní 2019 með athugasemdafresti til 16. júlí 2019. Ein athugasemd barst við auglýsta tillögu. Nefndin telur athugasemdina ekki kalla á breytingar á tillögunni og vísar í fyrirliggjandi greinargerð skipulagsráðgjafa. Skipulagsfulltrúa er falið að svara fram kominni athugasemd.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að framlögð tillaga að breytingu á aðalskipulagi verði samþykkt, sbr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundargerð þessi er birt með fyrirvara um afgreiðslu í bæjarstjórn.

Fundi slitið - kl. 22:04.