Málsnúmer 2003015

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 213. fundur - 09.03.2020

Í tillögu að aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, sem auglýst hefur verið, er gert ráð fyrir að íbúðarsvæði framlengist upp með Ölkelduvegi.
Nefndin leggur til við bæjarstjórn að gerð verði breyting á gildandi deiliskipulagi fyrir Ölkeldudal frá 2003, þar sem deiliskipulagsreiturinn verði stækkaður og bætt við lóðum fyrir íbúðarhúsnæði, upp Ölkelduveg, í samræmi við áformaðar breytingar í verðandi aðalskipulagi.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 220. fundur - 18.08.2020

Lagt fram minnisblað skipulagsráðgjafa, sem gerir grein fyrir hugmyndum að breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals, sem eru í vinnslu. Hugmyndir lagðar fyrir nefnd til umræðu.
Atriði sem fjallað er um í deiliskipulagsvinnunni hafa komið til umræðu nefndarinnar nýlega, m.a. ákvörðun, sem tekin var í lokin á aðalskipulagsvinnunni, um að færa göngustíg sem liggur að ölkeldu, þannig að hann liggi milli parhúss að Ölkelduvegi 27 og lóðar nr. 29.
Hinsvegar umræða um fyrirkomulag og mörk lóða í Fellasneið 1-7 og Hellnafelli 8.

Skipulags- og umhverfisnefnd fór yfir minnisblöð frá Alta, dagsett 7. maí og 12. júní 2020.
Lagt fram til kynningar.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 223. fundur - 02.12.2020

Farið yfir stöðu mála vegna breytingar á deiliskipulagi í Ölkeldudal, þar á meðal stækkunar deiliskipulagssvæðis á Ölkelduvegi og Hjaltalínsholti.
Lögð fram til kynningar gögn frá skipulagsráðgjafa um hugsanlega breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 225. fundur - 17.02.2021

Lögð fram tillaga að (óverulegri) breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals.
Breyting nær til lóða nr. 21, 23, 25, 27 og 29-31 við Ölkelduveg.
Tillaga að breytingu vegna 29-31 er að beiðni lóðarhafa, en aðrar breytingar að frumkvæði bæjarins er varða færslu á göngustíg og stækkun lóða nr. 21 og 23.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framlagaða tillögu að óverulegri deiliskipulagsbreytingu í Ölkeldudal og felur byggingarfulltrúa að grenndarkynna hana í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd felur byggingarfulltrúa að grenndarkynna óverulega deiliskipulagsbreytingu til eftirfarandi aðila: Lóðarhafar við Ölkelduveg nr. 21, 23, 25, 27 ásamt lóðarhöfum við Hrannarstíg 28 - 40.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 227. fundur - 12.04.2021

Lagt fram til afgreiðslu nefndar. Óveruleg deiliskipulagsbreyting á deiliskipulagi Ölkeldudals var tekin fyrir á 225. fundi nefndarinnar, breyting sem nær til lóða nr. 21, 23, 25, 27 og 29-31 við Ölkelduveg ásamt tilfærslu á göngustíg.
Tillaga að breytingu vegna 29-31 er að beiðni lóðarhafa, en breytingar er varða færslu á göngustíg og stækkun lóða nr. 21 og 23, sem og númerabreyting húsa, eru að frumkvæði bæjarins.

Samkvæmt tillögunni verða eftirfarandi breytingar á númeraröðun skv. breytingu deiliskipulagsins:

Lóð nr. 25 í gildandi deiliskipulagi breytist í nr. 25 og 27 (til samræmis við raunverulega merkingu í dag).
Lóðir nr. 27 og 29 í gildandi deiliskipulagi verða nr. 29, 31, 33, 35 og 37 skv. breytingu (raðhús).

Grenndarkynning fór fram á tímabilinu 19. febrúar til 23. mars 2021. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma.
Í ljósi þess að engar athugasemdir bárust, samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd erindi lóðarhafa Ölkelduvegar 29-31 og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.

Skipulags- og byggingarfulltrúi mun að öðru leyti ljúka frágangi óverulegu deilskipulagsbreytingarinnar og birta með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.


Skipulags- og umhverfisnefnd - 227. fundur - 12.04.2021

Unnið er að breytingu deiliskipulags í Ölkeldudal. Helsta breytingin felst í að mörk deiliskipulagssvæðisins eru færð út. Annars vegar með því að bætt er við lóðum upp Ölkelduveg, í samræmi við nýtt aðalskipulag, og hins vegar með því að bæta við skipulagi á lóðum við Fellasneið 3, 5 og 7.

Lagt var fram nýtt minnisblað skipulagsráðgjafa, dags. 9. apríl 2021, sem gerir grein fyrir hugmyndum að breytingu á áður framlagðri útfærslu í vinnu við breytingu á deiliskipulaginu, þ.e. mismunandi útfærslum á fyrirkomulagi lóða vestast á Ölkelduvegi.

Farið var yfir framlagt minnisblað.

Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að óska eftir útfærslu á tillögunni sem nú er í vinnslu, á þann veg að efsta lóðin við Ölkelduveg verði felld út. Þannig náist nægilegt rými á milli hússins við Fellasneið 28 og efsta húss á Ölkelduvegi, fyrir aðkomu að skógræktarsvæði ofan byggðar. Einnig myndist með því góð tenging á milli skógræktarsvæðisins og græna svæðisins neðan Ölkelduvegar, þ.e. niður "Hönnugil".

Nefndin leggur til að útfærsla tillögunnar verði opin hvað varðar húsagerð á nýjum lóðum á Ölkelduvegi. Gera megi ráð fyrir hvort heldur sem er einbýlishúsum, parhúsum eða raðhúsum.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 228. fundur - 26.05.2021

Lögð fram til afgreiðslu lokaútgáfa deiliskipulagsbreytingar vegna Ölkeldudals.
Unnin hefur verið tillaga að breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals, dags. 13.3.2003 m.s.br.

Í breytingunni felst að skipuleggja 3-4 nýjar lóðir við Ölkelduveg og 2 nýjar lóðir við Fellasneið. Mörk deiliskipulagsins stækka til vesturs um rúma 3200 m2. Breytingin er í samræmi við aðalskipulag.

Samhliða breytingunni er uppdráttur uppfærður m.t.t. uppbyggingar á svæðinu seinustu ár.

Breytingin verður auglýst í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 er lögð áhersla á að byggja í eyður í byggðinni til að nýta grunnkerfi sem best og skapa heildstæðari byggð með sem stystum vegalengdum í fyrirliggandi þjónustu, með hagsmuni íbúa og bæjarsjóðs í huga.

Í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir nýjum lóðum fyrir íbúðarhúsnæði á reit ÍB-5 meðfram Ölkelduvegi í átt að Fellasneið.
Reitur ÍB-5 er innan marka deiliskipulags Ölkeldudals.
Við Fellasneið 5 og 7 hafa um langt skeið verið tvær lóðir fyrir sérbýli lausar til úthlutunar.
Á lóð við Fellasneið 3 er nú ekki gert ráð fyrir uppbyggingu. Lóðirnar eru innan landnotkunarreits ÍB-3 og eru ódeiliskipulagðar. Þar sem talsverður áhugi er á uppbyggingu innan bæjarins og þörf er á fjölbreyttum íbúðum er lóðunum tveimur bætt við deiliskipulag Ölkeldudals og nánari skilmálar settir um þær.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framlögð drög að tillögu um breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að auglýsa umrædda breytingu í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 229. fundur - 01.07.2021

Til kynningar:
Afgreiðsla bæjarstjórnar á 250. fundi sínum þann 11. júní sl.

Bæjarstjórn tók til afgreiðslu fundargerð 228. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 28. maí 2021. Á þeim fundi samþykkti nefndin tillögu um breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals og fól skipulags- og byggingarfulltrúa að auglýsa breytinguna í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bæjarstjórn bókaði eftirfarandi við afgreiðslu málsins:

"Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar, en óskar eftir því að skipulags- og umhverfisnefnd taki til skoðunar hugmynd sem upp hefur komið um að auka við lóðir inní umræddum deiliskipulagsreit.
Á meðan það er skoðað verði auglýsingu deiliskipulagstillögu frestað."

Til kynningar og umræðu á fundinum.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í tillögu bæjarstjórnar um að skoða fjölgun á lóðum á svæði vestanvert við dvalarheimilið. Nefndin leggur til að niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en um miðjan september 2021 hvort að slíkar hugmyndir gangi upp.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 230. fundur - 12.10.2021

Lagðar fram til kynningar frumteikningar að viðbótarlóðum á deiliskipulagsreit Ölkeldudals.

Á 250. fundi bæjarstjórnar þann 10. júní sl. var óskað eftir því að skipulags- og umhverfisnefnd tæki til skoðunar að bæta við lóðum inn á deiliskipulagsreit Ölkelduldals, við yfirstandandi endurskoðun deiliskipulags fyrir svæðið. Skipulags- og umhverfisnefnd tók málið til umfjöllunar á 229. fundi sínum 1. júlí sl og tók vel í tillögu um að skoða fjölgun á lóðum á svæði vestanvert við dvalarheimilið. Nú liggja fyrir frumtillögur að fyrirkomulagi viðbótarlóða á umræddu svæði.
Nefndin tekur fyrir sitt leyti vel í framlagðar hugmyndir. Skipulagsfulltrúi og bæjarstjóri munu í framhaldinu bera frumtillögurnar undir fulltrúa lóðareiganda.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 234. fundur - 01.03.2022

Á fundinum er lögð fram lokatillaga að breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals. Í tillögunni felast m.a. útfærslur á nýjum lóðum vestan við Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól, sem unnið hefur verið að með stjórn heimilisins, en um er að ræða eignarland Fellaskjóls.


Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að auglýsa tillögu 8.2 að deiliskipulagsbreytingu fyrir Ölkeldudal ásamt nýjum lóðum vestan við Fellaskjól, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um samkomulag bæjarins og stjórnar Fellaskjóls um það sem viðkemur umræddum lóðum.

Tillagan gerir ráð fyrir akfærum göngustíg norðan við lóðirnar og tengist stígurinn plani við Hrannarstíg 18. Áréttað er að hugmyndir sem sýna byggingar norðaustan við lóð Hrannarstígs 18 og aðkomuleið að þeim, eru ekki hluti af samþykktu deiliskipulagi fyrir Ölkeldudal og eru því ekki teknar til efnislegrar umfjöllunar eða afgreiðslu nefndarinnar nú.

Nefndin veitir skipulagsfulltrúa umboð sitt til þess að vinna með skipulagsráðgjafa að minniháttar breytingum samkvæmt ábendingum sem fram komu á fundinum, áður en tillagan verður tekin til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 235. fundur - 12.04.2022

Lögð fram til kynningar endurbætt tillaga að útsetningu nýrra lóða vestan við Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól, eftir samráð við fulltrúa úr stjórn Fellaskjóls. Breytingarnar fela í sér: fækkun íbúðareininga um eitt (úr 8 einingum í 7), fækkun bygginga úr þremur í tvær, örlitla hliðrun bygginga innan lóðar þannig að fjögurra eininga raðhús er miðjusett á Fellaskjólsbygginguna. Jafnframt er akfæra göngustígnum hliðrað örlítið.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir endurbætta tillögu og leggur til við bæjarstjórn að samþykkja breytta tillögu og auglýsa breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt leggur nefndin til að haldinn verði kynningarfundur fyrir stofnanir og íbúa í næsta nágrenni á auglýsingartímanum.

Bæjarstjórn - 260. fundur - 03.05.2022

Forseti ber upp tillögu um að taka eftirfarandi mál á dagskrá með afbrigðum frá boðaðri dagskrá. Málið var afgreiðslumál á fundi skipulags- og umhverfisnefndar sem afgreiddur hefur verið hér fyrr á fundi bæjarstjórnar. Til skýrleika er málið gert að sérstökum dagskrárlið. Samþykkt samhljóða.
Lögð fram uppfærð tillaga að breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals ásamt nýjum lóðum vestan við Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól, sem unnin hefur verið í samstarfi við stjórn Fellaskjóls.
Bæjarstjórn samþykkir uppfærða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals ásamt nýjum lóðum vestan við Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól, sem unnin hefur verið í samstarfi við stjórn Fellaskjóls. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að tillagan verði auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga.