171. fundur 13. febrúar 2024 kl. 17:00 - 18:55 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
 • Loftur Árni Björgvinsson (LÁB) formaður
 • Davíð Magnússon (DM)
 • Hólmfríður Hildimundardóttir (HH)
 • Anna Rafnsdóttir (AR)
 • Guðbrandur Gunnar Garðarsson (GGG)
Starfsmenn
 • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður bauð fundarfólk velkomið. Gengið var til dagskrár.

Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson ráðgjafi var í fjarfundi.
Aðrir þátttakendur í fundinum eru bókaðir undir hverju máli.

1.Málefni leikskólans

Málsnúmer 2207006Vakta málsnúmer

Fram fór almenn umræða um starfsemi leikskólans.

Skólastjóri sagði frá vinnu við uppbyggingu í innra starfi leikskólans.
Unnið er eftir áætlun leikskólans um faglegt leikskólastarf, sem sett var upp með aðstoð skólaráðgjafa Ásgarðs.

Leikskólinn vann "tímalínu" um faglega starfið þar sem búið er að skipuleggja það út skólaárið. Allir starfsmenn þekkja hvað á að gera í hverjum mánuði og hverri viku, og geta gengið að þeirri áætlun vísri. Þannig verður auðveldara að vinna skipulega og halda áætlun í þeim verkefnum sem aðalnámskrá segir til um að vinna eigi með hverjum aldurshópi.

Eftirfylgni áætlunargerðar og gæðamat leikskólastarfs er einnig unnið markvisst. Leikskólastjóri telur utanaðkomandi stuðning Ásgarðs við faglega starfið í samræmi við aðalnámskrá hjálpa mikið til í starfi skólans.

Leikskólastjóri er um þessar mundir að skoða starfsmannamál vegna komandi skólaárs, en þá mun nemendum fækka þar sem stærri árgangur fer af Sólvöllum á Eldhamra á komandi hausti heldur en sá árgangur 12 mánaða barna sem inn kemur á árinu.

Skólanefnd þakkaði fyrir upplýsingarnar og stefnir að heimsókn á leikskólastigið fljótlega.

Gestir

 • Sigurborg Knarran Ólafsdóttir fulltrúi starfsfólks Leikskólans Sólvalla - mæting: 17:00
 • Margrét Sif Sævarsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla - mæting: 17:00
 • Hallfríður Guðný Ragnarsdóttir fulltrúi foreldra - mæting: 17:00

2.Leikskólastig - Könnun meðal foreldra um dvalartíma og opnun - janúar 2024

Málsnúmer 2401027Vakta málsnúmer

Þær Margrét Sif, Sigurborg Knarran og Hallfríður Guðný sitja fundinn áfram undir þessum lið. Auk þeirra Anna Kristín Magnúsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Grundarfjarðar, vegna leikskóladeildarinnar Eldhamra.Lagðar fram til kynningar niðurstöður könnunar sem gerð var meðal foreldra/forráðamanna barna á Leikskólanum Sólvöllum og leikskóladeildinni Eldhömrum, að beiðni skólanefndar.Niðurstöður könnunarinnar eru ekki afgerandi, en gefa þó vísbendingar um óskir foreldra/forráðamanna um lokanir sem skólanefnd mun hafa hliðsjón af, þegar skóladagatöl leikskólastigsins fyrir næsta skólaár koma til afgreiðslu nefndarinnar á næstu vikum.

Óskað hafði verið eftir að það yrði lokað hjá Sólvöllum og Eldhömrum þrjá daga í Dymbilviku, en skólanefnd hafði sett fyrirvara við það og vildi skoða aðra leið, a.m.k. árið 2024. Óskin er tilkomin til að unnt sé að vinna upp þörf fyrir styttingu vinnutíma, sem er veruleg áskorun fyrir leikskólastigið, eins og kynnt var í skýringartexta könnunarinnar.

Skólanefnd samþykkir að hafa "takmarkaða opnun" í Dymbilviku 2024, þ.e. dagana 25., 26. og 27. mars, þannig að leikskóladvöl standi til boða fyrir börn foreldra sem mesta þörf hafa.

Skólanefnd leggur til að skólagjöld lækki fyrir þá foreldra/forráðamenn sem ekki hafa börn sín í leikskóla/leikskóladeild þessa þrjá daga.

Gestir

 • Anna Kristín Magnúsdóttir aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Grundarfjarðar - mæting: 17:30

3.Málefni leikskóladeildarinnar Eldhamra

Málsnúmer 2207008Vakta málsnúmer

Þær Margrét Sif, Sigurborg Knarran, Hallfríður Guðný og Anna Kristín sitja fundinn áfram undir þessum lið.Lagt fram skóladagatal fimm ára leikskóladeildarinnar Eldhamra.Um afgreiðslu vísast til næsta dagskrárliðar á undan, m.a. um takmarkaða opnun Sólvalla og Eldhamra í Dymbilviku 2024.

Skólanefnd leggur til að Eldhamrar og Sólvellir skoði möguleika á samvinnu vegna leikskóladvalar í takmarkaðri opnun þessa daga.

4.Menntastefna og innleiðing hennar

Málsnúmer 2402007Vakta málsnúmer

Farið var yfir hlutverk og verkefni skólanefndar við innleiðingu nýsamþykktrar menntastefnu Grundarfjarðarbæjar.

Gunnþór fór yfir sameiginlegt skjal skólanefndar þar sem skilgreind eru hlutverk og verkefni nefndarinnar yfir heilt ár. Hann útskýrði einnig matskerfi samkvæmt menntastefnunni nýju og verklag í starfi með skólunum öllum á þeim grunni.

Til frekari skoðunar á næstu fundum.

Gestir

 • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson ráðgjafi hjá Ásgarði - mæting: 18:30

5.FSS - Sálfræðiþjónusta á vormisseri 2024

Málsnúmer 2312018Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Félags- og skólaþjónustunnar um sálfræðiþjónustu á vormisseri 2024.

6.Ráðherranefnd - Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu

Málsnúmer 2401010Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fréttatilkynning ráðherranefndar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu, frá nóvember 2023.Bæjarstjórn vísaði erindinu til skólanefndar til kynningar.Gengið er frá fundargerð í kjölfar fundar og rafræns samþykkis aflað frá fundarmönnum.

Fundi slitið - kl. 18:55.