Lagt fram yfirlit yfir áætlaðar framkvæmdir ársins 2017. Greint frá því að keyptur hefur verið nýr Avant fyrir áhaldahús og nýjar klippur fyrir slökkvilið. Unnið er að útboðsgögnum vegna þakviðgerða að Hrannarstíg 18, til skoðunar eru malbikunar og útrásamál, unnið að áætlun um helstu viðhaldsframkvæmdir á grunnskóla, leikskóla, sundlaug og íþróttahúsi. Áætlað að skipt verði um gervigras á sparkvelli eins fljótt og veður leyfir í vor.
Ennfremur er unnið að endurskoðun aðalskipulags og öðrum framkvæmdum, s.s. við Paimpolgarð, girðingar, tjaldsvæði o.fl. Unnið er að gerð tímaáætlana um það hvernig og hvenær heppilegast er að framkvæma einstakar framkvæmdir. Nánari áætlanir verða lagðar fyrir og kynntar þegar þær eru tilbúnar fyrir hverja og eina framkvæmd.
Allir tóku til máls.
Bæjarstjórn lýsir ánægju með vinnuna og hvetur til þess að henni verði framhaldið og helstu framkvæmdir boðnar út sem fyrst.
Farið yfir stöðu helstu framkvæmda sem áætlaðar eru á þessu ári. Öll helstu verkefni eru í góðri vinnslu. Áætlaður er fundur í næstu viku til að yfirfara forgangsröðun á viðhaldsframkvæmdum í grunnskólanum.
Jafnframt er sérstaklega ítrekað mikilvægi þess að unnið verði að því að ákveða endanlega hvaða trjátegundir verða notaðar í fyrsta áfanga gróðursetningar í Paimpol garði.
Bæjarráð leggur til að skipulags- og byggingarfulltrúi, í samstarfi við sérfræðinga í skógrækt, vinni endanlega tillögu að plöntuvali og kanni jafnframt kostnað við verkefnið. Miðað skal við að mögulegt verði að hefja gróðursetningu í vor.
Farið yfir stöðu framkvæmda ársins 2017. Framkvæmdir við sundlaugina eru á lokastigi, en þar var skipt um heita potta og aðgengi lagfært. Jafnframt er unnið að endurnýjun girðingar umhverfis laugina. Lokið hefur verið við lagfæringu útrásar í Sæbóli eins og áætlað var. Fóðring hennar er talin hafa tekist vel. Með þessari aðferð var unnt að losna við mikið jarðrask á svæðinu, sem annars hefði orðið ef hefðbundin aðferð hefði verið farin við endurnýjun lagnanna.
Skipt hefur verið um gervigras á sparkvellinum. Ekkert kurl eða sandur er í gervigrasinu, sem er nýjung. Hesteigendafélaginu hefur verið greitt framlag ársins vegna reiðskemmunnar. Í undirbúningi er plöntun trjáa í Paimpolgarð og ráðgert að því verki ljúki í júní. Unnið er að lagfæringu fjárgirðinga ofan bæjarins.
Úttekt hefur verið gerð á grunnskólanum varðandi lagfæringar húss og er greinargerð væntanleg. Í áhaldahús hefur verið keyptur nýr Avant og er fyrirhugað að selja þann eldri eftir lagfæringar. Hugmyndir eru uppi um að nýta andvirði sölunnar til kaupa á sóp á nýja tækið.
Unnið er að gerð samnings um malbikunarframkvæmdir, sem áætlað er að fara í seinnihluta júlímánaðar. Jafnframt er fyrirhuguð viðgerð á þaki að Hrannarstíg 18. Ennfremur er unnið áfram að endurskoðun aðalskipulags bæjarins. Skoða þarf sérstaklega viðgerðaþörf í leikskólanum. Auk þessa er unnið að mismunandi minni verkefnum.
Þorsteinn Birgisson, skipulags- og byggingafulltrúi sat fundinn undir þessum lið.
Lögð fram og kynnt ástandsúttekt á húsnæði Grunnskóla Grundarfjarðar, sem unnin var af Verkfræðistofunni Eflu, dagsettri í júní 2017. Í úttektinni eru nefndar þrjár leiðir til lagfæringa á húsnæðinu.
Skipulags- og byggingafulltrúa falið að fá verðtilboð í leið 1 og 3 skv. skýrslunni. Jafnframt að kanna hvort og hvernig unnt sé að áfangaskipta verkinu.
Bæjarstjórn felur skipulags- og byggingafulltrúa að láta gera sambærilegar úttektir á öðrum húseignum bæjarins og yrðu húsnæði Leikskólans Sólvalla og Samkomuhús Grundarfjarðar í forgangi.
Samþykkt samhljóða.
Jafnframt gerð grein fyrir helstu verkefnum sem unnið er að.
Þorsteinn Birgisson, skipulags- og byggingafulltrúi, sat fundinn undir þessum lið.
Fjallað um viðhald á Grunnskóla Grundarfjarðar til samræmis við úttekt Eflu, sem unnin var fyrir Grundarfjarðarbæ. Í úttektinni eru lagðar til þrjár mismunadi leiðir. Búið er að fara nánar yfir málin og er hér lagt til að farin verði leið 1 og að gengið verði til samninga við Þ.G. Þorkelsson verktaka ehf.
Bæjarstjóra og skipulags- og byggingafulltrúa falið að ganga frá samningum.
Gerð grein fyrir stöðu helstu framkvæmda sem unnið er að hjá bænum. Helst er þar að nefna viðgerðir á grunnskólanum, malbikunar- og gatnagerðarframkvæmdir, gróðursetning í Paimpol garði o.fl.
Farið yfir stöðu á helstu framkvæmdum sem unnið er að, s.s. malbiksframkvæmdir, viðgerð á grunnskóla, gróðursetningu í Paimpol garði, framkvæmdir í sundlaug o.fl.
Áframhaldandi vinnu vísað til næsta fundar bæjarráðs.