Málsnúmer 1908016

Vakta málsnúmer

Íþrótta- og tómstundanefnd - 91. fundur - 28.08.2019

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í júní sl. tillögu íþrótta- og æskulýðsnefndar um að á komandi vetri fari fram undirbúningur fyrir frekari uppbyggingu í Þríhyrningi. Bæjarstjórn fól íþrótta- og æskulýðsnefnd að leggja fram hugmynd um hvernig mætti útfæra nánar þá vinnu.

Rætt var um hvaða þörfum Þríhyrningur ætti að þjóna, sem opið svæði. Stikkorð þeirrar umræðu voru: fræðsla, útivera, fjölskyldusamvera, hreyfing. Áherslur er að finna í tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi, auk þess sem nefndin telur mikilvægt að hafa til hliðsjónar eldri hugmyndavinnu tengda Þríhyrningi.

Rætt var hvernig ætti að nálgast hugmyndavinnu og útfærslu á uppbyggingu til framtíðar. Nefndin mun móta það frekar, en samþykkti að bjóða bæjarbúum í óformlegt spjall til að kalla fram hugmyndir og samtal um þetta. Nefndin mun auglýsa það síðar. Spjallið væri hluti af vinnu nefndarinnar við undirbúning og tillögugerð í samræmi við ósk bæjarstjórnar.

Samþykkt samhljóða.

Íþrótta- og tómstundanefnd - 92. fundur - 15.10.2019

Nefndin vinnur nú að tillögu til bæjarstjórnar um hvernig megi byggja upp áhugavert útivistarsvæði í Þríhyrningi.

Nefndin hélt opinn spjallfund í Sögumiðstöðinni þann 5. september sl. þar sem kallað var eftir hugmyndum um hvernig nýta mætti Þríhyrninginn og byggja upp til framtíðar. Umræður og hugmyndir þess fundar voru teknar saman í minnisblað, sem lagt var fram á fundinum.

Farið var yfir hugmyndir sem fram eru komnar.
Nefndin stillti upp minnisblaði til bæjarráðs, um stöðuna nú, þar sem settar eru fram:
a) Áherslur um uppbygginguna og um hlutverk Þríhyrnings
b) Hugmyndir um hvað eigi að vera í Þríhyrningi
c) Tillögur um næstu skref í þessari vinnu

Til frekari umfjöllunar á næsta fundi.

Bæjarráð - 537. fundur - 22.10.2019

Lagt fram minnisblað frá íþrótta- og æskulýðsnefnd til kynningar vegna fjárhagsáætlunar 2020. Vinnu nefndarinnar við þetta mál er þó ekki lokið.

Vísað til áframhaldandi vinnu við fjárhagsáætlun 2020.

Samþykkt samhljóða.

Íþrótta- og tómstundanefnd - 93. fundur - 11.11.2019

Nefndin vinnur að tillögu til bæjarstjórnar um hvernig megi byggja upp áhugavert útivistarsvæði í Þríhyrningi.

Nefndin stillti upp og gekk frá minnisblaði nr. 2 til bæjarráðs, þar sem sett er fram tillaga um næstu skref og fyrsta áfanga verkframkvæmda sem nefndin óskar eftir að fari fram 2020. Minnisblaðið verði kynnt bæjarráði vegna fjárhagsáætlunargerðar 2020.

Íþrótta- og tómstundanefnd - 94. fundur - 12.02.2020

Farið var yfir minnisblöð frá fyrri fundum, gögn frá opnum fundum á vegum nefndarinnar og skoðaðar hugmyndir og ýmis fordæmi um almenningsgarða, útikennslustofur, leiktæki/aðstöðu fyrir leik, og fleira.
Sett saman drög að áætlun um uppbyggingu, þ.e. helstu verkþættir og unnin drög að kostnaðaráætlun.
Bæjarstjóri sagði frá undirbúningi þess að fá landslagsarkitekt til aðstoðar við verkefnið.
Farið yfir viðræður við fulltrúa félagasamtaka um aðkomu að uppbyggingu Þríhyrningsins.

Stefnt að næsta fundi miðvikudaginn 4. mars nk.

Nefndarmenn skiptu á milli sín að ræða við tiltekna aðila um að koma sem gestir inná næsta fund, til viðræðna um Þríhyrning og fleira.

Íþrótta- og tómstundanefnd - 95. fundur - 04.03.2020

Áfram unnið í hugmyndum fyrir Þríhyrning.

Ragnheiður Dröfn sýndi teikningar sem nemendur hennar í þriðja bekk grunnskólans unnu í náttúrufræði, þar sem farið var í útikennslu í Þríhyrning. Nemendum var skipt í hópa og hóparnir unnu hver sína tillögu að framtíðarfyrirkomulagi í Þríhyrningi. Það er athyglisvert að í hugmyndunum koma fram mikið af þeim atriðum sem komið hafa uppá borðið í hugmyndavinnu með íbúum, um Þríhyrninginn. Engu að síður eru einnig skemmtilegar hugmyndir til viðbótar við það sem þegar er komið fram.
Myndir af hugmyndunum eru lagðar undir málið sem málsgögn, og verða nýttar í vinnunni.

Ragnheiður Dröfn hafði rætt við formann UMFG um hugmyndir um samstarf og var tekið jákvætt í það.

Rætt um vinnuna framundan og næstu skref skipulögð. Sett niður í minnisblað sem Björg mun bæta undir málið.


Íþrótta- og tómstundanefnd - 96. fundur - 30.04.2020

Gestur fundarins var Sigursteinn Sigurðsson, menningarfulltrúi SSV.

Farið var yfir hugmyndir að uppbyggingu í Þríhyrningi og hvað þyrfti að hafa í huga við áframhaldandi vinnu, en verkefnið hefur fengið styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að láta gera söguskilti um starfsemi í Þríhyrningi á árum áður. Skiltið verður hluti af framkvæmdum á svæðinu.

Rætt um verkefnið.

Eftir að Sigursteinn vék af fundi var rætt um næstu skref í vinnunni.

Nauðsynlegt er að teikna upp hugmyndirnar, sbr. minnisblöð nefndarinnar, en einnig að boðað verði til opins fundar þegar kemur að frágangi hönnunar. Nefndin samþykkir að fela bæjarstjóra að leita eftir aðstoð arkitekta við að grófvinna á þessum nótum úr hugmyndum nefndarinnar, sem m.a. hafa verið unnar með áhugasömum aðilum og fulltrúum félagasamtaka, á fundum.

Gestir

  • Sigursteinn Sigurðsson frá SSV

Íþrótta- og tómstundanefnd - 97. fundur - 17.09.2020

Undir þessum lið sátu eftirtaldir sem gestir:

Herborg Árnadóttir arkitekt frá Alta, í fjarfundi.
Þorsteinn Hjaltason fulltrúi grunnskólans, í fjarfundi, og Ingibjörg E. Þórarinsdóttir fulltrúi leikskólans.
Signý Gunnarsdóttir fulltrúi Skógræktarfélagsins, í fjarfundi.
Sigríður G. Arnardóttir fulltrúi UMFG, í fjarfundi.
Sunna Njálsdóttir fulltrúi Kvenfélagsins Gleym-mér-ei, í fjarfundi.

Herborg kynnti samantekt sem hún hefur unnið, úr gögnum og vinnu nefndarinnar, um fjölskyldu- og útivistarsvæði í Þríhyrningi. Sl. vetur hélt nefndin opinn fund og fund með félagasamtökum og tók í framhaldinu saman hugmynd sem nú hefur verið unnið með.

Umræður fóru fram um spurningar eins og fyrir hverja svæðið væri, í hvaða tilgangi fólk kæmi í garðinn, hver væri sérstaða hans, hugmyndir um nýtingu, punktar um viðhaldsþörf og fleira.

Gagnlegar umræður urðu um þessi atriði og mun Herborg vinna áfram að þróun svæðisins fyrir nefndina, á grunni þess sem fram kom. Mikilvægt er að vinna hugmyndina áfram í samvinnu við nágranna og félagasamtökin. Þegar hugmyndin hefur verið sett í búning og útfærð nánar, verður tillaga kynnt íbúum.

Til frekari umræðu á næsta fundi.

Gestum fundarins var þökkuð þátttaka í umræðunum.

Skólanefnd - 154. fundur - 21.09.2020

Íþrótta- og æskulýðsnefnd hefur unnið að hugmynd um uppbyggingu útivistarsvæðis og fjölskyldugarðs í Þríhyrningnum. Þar er jafnframt gert ráð fyrir útikennslustofu.
Sigurður Gísli situr fundinn undir þessum lið í fjarfundi.
Bæjarstjóri kynnti hugmyndir sem íþrótta- og æskulýðsnefnd hefur unnið að.
Á svæðinu er gert ráð fyrir útikennslustofu, að beiðni leik- og grunnskóla, og í samræmi við nýtt aðalskipulag.

Nefndarmenn lýstu yfir ánægju með hugmyndir um fyrirhugaða uppbyggingu svæðisins.

Hér vék Sigurður Gísli af fundi og var honum þökkuð koman og upplýsingarnar.

Bæjarstjórn - 242. fundur - 08.10.2020

Lögð fram hugmyndavinna að útfærslu á Þríhyrningi, sem útikennslu- og fjölskyldugarðs, úr vinnu íþrótta- og æskulýðsnefndar. Verkið er enn á vinnslustigi, en verður kynnt nágrönnum, félagasamtökum og íbúum á næstunni.

Til máls tóku JÓK, UÞS, RG, SÞ og BÁ.

Bæjarstjórn þakkar fyrir þessa góðu vinnu og lýsir yfir ánægju með þær hugmyndir sem fram eru komnar um framtíðaruppbyggingu í Þríhyrningi. Bæjarstjórn felur íþrótta- og æskulýðsnefnd að vinna áfram að útfærslu hugmyndanna. Í framhaldinu verði tillaga nefndarinnar kostnaðarmetin, þannig að áfangaskipta megi verkefninu og leggja niður til næstu ára.

Íþrótta- og tómstundanefnd - 98. fundur - 21.10.2020

Framhald vinnu og umræðu á síðasta fundi nefndarinnar.
Gestur fundarins undir þessum lið var Herborg Árnadóttir, arkitekt, sem unnið hefur að útfærslu hugmynda sem nefndin hefur unnið með.

Farið var yfir hönnunartillögur sem unnar hafa verið.
Eftir síðasta fund nefndarinnar voru settar fram tillögur um uppbyggingu í Þríhyrningnum sem lagðar voru fram til kynningar á 242. fundi bæjarstjórnar þann 8. október sl.
Tillögurnar hafa einnig verið kynntar á vef bæjarins. Sjá slóð hér:
https://www.grundarfjordur.is/is/mannlif/vidburdir-og-utivist/uppbygging-thrihyrningsins

Farið var yfir og rætt nánar um útfærslu einstakra þátta tillögunnar, s.s. um gerð leiktækja, um útfærslu útisviðs og brekku, um aðstöðu til útikennslu. Ósk er uppi um að þak verði sett yfir borð/bekki sem ætluð eru nemendum meðal annarra, þar sem það myndi auka á notagildi aðstöðunnar fyrir útikennslu.

Herborg mun vinna úr umræðum fundarins. Ætlunin er að stilla upp kostnaðarmati og tillögu um forgangsröðun í uppbyggingu, þannig að velja megi heppilega áfanga til að byrja á.

Herborgu var þakkað fyrir komuna á fundinn og fyrir góða yfirferð og umræður.

Gestir

  • Herborg Árnadóttir

Íþrótta- og tómstundanefnd - 100. fundur - 16.02.2021

Þríhyrningur: Staða hönnunar og undirbúningur.

Gestir fundarins voru Herborg Árnadóttir arkitekt og Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulags- og byggingarfulltrúi.
Herborg fór yfir hugmyndir að nánari útfærslu þeirrar hönnunar sem nefndin hefur unnið með og áfangaskiptingu verksins. Rætt um ýmsa þætti hönnunarinnar og útfærslur, sem og framkvæmdina.

Í ár eru ætlaðar 3 millj.kr. í fjárhagsáætlun í uppbyggingu Þríhyrningsins.
Auk þess hefur fyrirtækið G.Run ánafnað fjármunum til kaupa á leiktækjum, og Uppbyggingarsjóður Vesturlands veitt styrk til að undirbúa skilti um sögu Þríhyrningsins.

Fram kom að ekki þarf að skipta um jarðveg á svæðinu.

Að loknum umræðum var Herborgu þakkað fyrir kynninguna og henni og Sigurði Val þakkað fyrir komuna. Viku þau hér af fundi.

Nefndin setur sér fyrir eftirfarandi verkefni:

* Nefndarmenn munu skoða og gera tillögur um val leiktækja á leiksvæðið
* RDB mun skoða með plöntun trjáa, í samræði við umræður fundarins
* Nefndin mun fara í Þríhyrning og skoða aðstæður með skipulags- og byggingarfulltrúa og verkstjóra áhaldahúss, með mótun svæðisins í huga sbr. hönnunartillögur sem unnið hefur verið með
* Björg mun ræða við G.Run um styrkinn til leiktækja
* Björg mun taka hugmyndir framsettar og ræddar á fundinum og leggja drög að kostnaðarútreikningum framkvæmdar - í framhaldinu verður endanlega ákveðin áfangaskipting
* IEB og RDB munu ræða við fulltrúa Kvenfélagsins sem hefur sýnt áhuga á að koma að plöntun villigróðurs í garðinn
* Nefndarmenn munu leita fyrir sér með hönnun á skilti, í samræmi við umræður fundarins
* Nefndarmenn munu leita til bæjarbúa og annarra sem til þekkja, eftir upplýsingum, minningum og heimildum (t.d. ljósmyndum) um sögu Þríhyrningsins. Auglýst verður opinberlega eftir þessu.

Vinna þarf betur að hugmyndum um lýsingu í garðinum.
Hönnun og tillögur um Þríhyrninginn verða kynntar fyrir nágrönnum og íbúum á Teams fljótlega.

Gestir

  • Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulags- og byggingarfulltrúi
  • Herborg Árnadóttir arkitekt

Íþrótta- og tómstundanefnd - 102. fundur - 03.09.2021

Farið yfir stöðu framkvæmda í Þríhyrningi.
Um uppbyggingu í Þríhyrningi má lesa hér á vef bæjarins: https://www.grundarfjordur.is/is/mannlif/vidburdir-og-utivist/uppbygging-thrihyrningsins

Kristín Þorleifsdóttir, nýráðin sem sviðsstjóri og skipulagsfulltrúi, hefur tekið yfir umsjón með undirbúningi framkvæmda, af Sigurði Val, sem kominn er í frí, en áhaldahús heldur síðan utan um verkstjórn á staðnum.
Björg og Kristín sögðu frá stöðu framkvæmda.

Eftirfarandi eru áfangar í Þríhyrningi á árinu:

JARÐVEGUR OG LAGNIR:
Í vor var kannað með lagnir og jarðveg - gerðar nokkrar jarðvegsprufur og endurbætt við holræsabrunn í göngustíg norðanvert í garðinum.

LEIKTÆKI:
Nefndin valdi fyrr á árinu leiktæki fyrir svæðið, í samræmi við hugmyndir um hönnun og yfirbragð svæðisins, sem fjölskyldu- og útivistarsvæðis.

Pöntuð voru 3 leiktæki frá Leiktæki og Sport ehf., af tegundinni Robinia - en það eru tæki úr náttúrulegu efni. Tækin eru:
- Robinia Play 8164; skip, stórt (breidd: 2,99 m, lengd 8,55 m, hæð 4,80 m, fallhæð 1,80 m)
- Robinia 8141; tvöfalt gormatæki (1,55 x 1,22 m, hæð 80 cm, fallhæð 55 cm)
- Robinia 8117; jafnvægistæki (stórt) (breidd 2,68 m, lengd 8,11 m, hæð á 2 háum súlum 2,40 m, fallhæð 60 cm)

Afhendingu tækjanna seinkaði - þau áttu að koma um mánaðamótin júlí/ágúst, en eru að koma með flutningabíl vestur til okkar í þessari viku (2.-3. september). Myndir af tækjunum fylgja með fundargögnum.

Leiktækin verða staðsett í norðvesturhorninu, þar sem rólur og fleiri leiktæki voru áður staðsett.
Búið er að teikna upp og staðsetja þau, m.t.t. uppgefins öryggissvæðis sem þarf að vera kringum hvert leiktæki.
Taugar ehf. (Kristján Kristjánsson) annast uppgröft fyrir tækjunum, en efnisskipta þarf undir þeim - mismikið eftir gerð tækja. Jarðvegurinn sem upp kemur verður nýttur í "Orminn".

ORMURINN:
Ormurinn er jarðvegsmön, sem löguð verður á staðnum - ætluð sem brekka til að leika sér í og sem sæti sem henta við lítið útisvið. Staðsetning hefur verið merkt inná svæðið og hælað út.
Í mönina fer jarðvegur/uppgröftur af öðrum svæðum í Þríhyrningi. Ef meira efni þarf í orminn, verður bætt við efni sem til fellur annars staðar í bænum.
Í norðurenda manar kemur "gat" þar sem í mönina fer stórt, steypt holræsarör. Það er hugsað þannig að börn geti skriðið í gegnum gatið - sem hluti af leik. Á hinum endanum verður "haus" á ormi/dreka.
Mönin þarf að standa og jarðvegurinn að síga fram á næsta vor/sumar, en þá verður tyrft yfir eða sáð í mönina. Ormurinn verður því ekki fullbúinn fyrr en þá.

ELDSTÆÐI:
Í sumar var ætlunin að hlaða eldstæði norðaustarlega í garðinum. Vegna forfalla hleðslumanns náðist ekki að hefja það verk í vor/sumar eins og til stóð - en vonandi verður hægt að vinna verkið í haust, fyrir veturinn. Eldstæðið er m.a. hugsað til að bæta aðstöðu sem nýtist leik- og grunnskóla, til útikennslu í Þríhyrningi, eins og ætlunin er skv. aðalskipulagi.

ÚTISVIÐ:
Í vor var jarðvegsskipt fyrir útisviði sem staðsett er fyrir framan mönina (orminn).
Möguleiki er að steypa yfirborðið eða helluleggja, en ekki er þó ætlunin að gera það í ár.

GRÓÐUR OG BEKKIR:
Fulltrúar íþrótta- og æskulýðsnefndar höfðu samband við Skógræktarfélagið sem lagði til vinnu við að klippa tré í Þríhyrningi sl. vor. Ennfremur við Kvenfélagið Gleym-mér-ei, en vilji nefndarinnar er að í Þríhyrningi verði nokkurs konar "villigarður" með marglitum, fjölærum blómplöntum. Kvenfélagið ætlaði að aðstoða við gróðursetningu á þeim. Skoða þarf vel tímasetningar á slíku og samhengi við aðrar framkvæmdir í garðinum.
Gróðursetja þarf fleiri tré í garðinn á komandi árum.

Valgeir upplýsti að komnir væru bekkir inní Þríhyrninginn, aftur - sem nýta má fyrir hópa. Er það m.a. í samræmi við óskir frá Heilsueflingu 60 , sem mun reyna að nýta garðinn eftir því sem hægt er, til útivistar og hreyfingar.

---

Nefndin telur æskilegt að fá félagasamtök eða aðra aðila áfram að uppbyggingunni, sem er nokkurra ára verkefni.

Kristín vék nú af fundi og var henni þakkað fyrir komuna.

Gestir

  • Valgeir Þór Magnússon verkstjóri áhaldahúss - mæting: 13:00
  • Kristín Þorleifsdóttir sviðsstjóri skipulags- og byggingarmála - mæting: 13:00

Íþrótta- og tómstundanefnd - 103. fundur - 20.01.2022

Íþrótta- og æslulýðsnefnd hvetur bæjaryfirvöld til að ljúka framkvæmdum við eldstæði í Þríhyrningi þannig að íbúar bæjarins getið notið þess í vor.
Jafnframt óskar nefndin eftir upplýsingum um stöðu mála er varðar uppsetningu á söguskilti í garðinum.

Íþrótta- og tómstundanefnd - 104. fundur - 21.02.2022

Rætt var um stöðu á framkvæmdum í Þríhyrningi, fjölskyldu- og útivistarsvæði.

Búið er að setja upp öll leiktæki sem keypt voru í Þríhyrninginn, en eftir er að fylla að tækjunum með "perlumöl" sem valin er sem fallvörn kringum leiktækin. Ekki náðist að fylla upp með efninu, áður en snjóþyngsli lögðust yfir svæðið.

Rætt var um gerð og uppsetningu skiltis/skilta í Þríhyrning, til að segja sögu svæðisins.

Íþrótta- og tómstundafulltrúa falið að kanna og undirbúa vinnu við hönnun og uppsetningu söguskilta í Þríhyrninginn. Skiltin höfði sérstaklega til barna og unglinga.

Ungmennaráð - 10. fundur - 22.05.2024

Þríhyrningurinn - leiktæki, almenningsgarður, aðstaða.
Ungmennaráð ræddi um aðgengi og leiktæki í Þríhyrningi.

Ráðið vill benda á að stígar eru ekki gerðir fyrir hljólastóla og því er erfitt fyrir fólk í hjólastólum að nota garðinn.

Ráðið vill einnig benda á það vantar fleiri leiktæki/leiksvæði fyrir yngstu börnin.

Ungmennaráð óskar eftir að ræða þetta mál við bæjarstjórn á fundinum í júní þegar ungmennaráð kemur á fund bæjarstjórnar.