227. fundur 12. apríl 2021 kl. 16:15 - 18:41 á fjarfundi
Nefndarmenn
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS) formaður
  • Vignir Smári Maríasson (VSM)
  • Runólfur J. Kristjánsson (RJK)
  • Helena María Jónsdóttir (HMJ)
  • Lísa Ásgeirsdóttir (LÁ)
    Aðalmaður: Eymar Eyjólfsson (EE)
Starfsmenn
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson (SVÁ) skipulags- og byggingafulltrúi
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður setti fundinn, sem haldinn er sem fjarfundur, og gengið var til dagskrár.

1.Grundargata 28 - byggingarleyfi

Málsnúmer 2101035Vakta málsnúmer

Á 224. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var lögð fram umsókn um byggingarleyfi fyrir Grundargötu 28. Óskað var eftir breytingu á útliti á norðurhlið hússins, með ísetningu nýrra glugga á miðhæð og efri hæð. Þar sem umrædd framkvæmd felur í sér breytingu á útliti húss lagði nefndin til að fyrirhuguð framkvæmd yrði grenndarkynnt. Grenndarkynning stóð yfir frá 5. febrúar til 5. mars 2021. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma.
Með hliðsjón af niðurstöðu úr grenndarkynningu samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum og að fengnu samþykki allra eigenda fjölbýlishússins fyrir umræddri breytingu sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

2.Sólbakki - byggingarleyfi vegna viðbyggingar

Málsnúmer 2104001Vakta málsnúmer

Eigendur að Sólbakka í landi Háls leggja fram umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við frístundahús. Um er að ræða viðbyggingu á tveimur pöllum við þegar byggt frístundahús. Eigendur óska jafnframt eftir óverulegri breytingu á deiliskipulagi Sólbakka, með stækkun byggingarreits vegna viðbyggingar, sé þess þörf.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindi um viðbyggingu og óverulega breytingu deiliskipulags, gerist þess þörf, og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi með fyrirvara um að viðbyggingin falli innan byggingarreits, og að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.


3.Grundargata 30, e.h. - Svalastækkun

Málsnúmer 2104004Vakta málsnúmer

Eigandi efri hæðar að Grundargötu 30 leggur fram teikningar vegna stækkunar á svölum.
Gert er ráð fyrir að svalir lengist um 2 m til vesturs (ofan aðalinngangs í húsið) samtals um 18,3 m2.


Skipulags- og umhverfisnefnd óskar eftir að umrædd framkvæmd verði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum að Grundargötu 29, þar sem breyting telst ekki óveruleg skv. leiðbeiningarblaði 8a gefið út af Skipulagsstofnun, sbr. grein 2.3.4. gr. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, hvað varðar útsýni.
Einnig skuli liggja fyrir skriflegt samþykki annarra eigenda hússins fyrir umræddri breytingu, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir byggingarleyfi að uppfylltum ofangreindum skilyrðum, berist ekki athugasemdir í grenndarkynningu, og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi, sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.

4.Fagurhólstún 2 - breytt not húss, verslun

Málsnúmer 2104006Vakta málsnúmer

Lagt er fram erindi húseiganda sem sækir um breytt not húss í hluta af neðri hæð íbúðarhússins að Fagurhólstúni 2, þar sem ætlunin er að setja upp litla verslun með íþróttafatnað. Ekki eru gerðar breytingar á útliti húss, en ætlunin er þó að setja upp skilti á garðvegg innan lóðarmarka. Samþykki eigenda nærliggjandi húsa fylgir með, þ.e. eigenda að Eyrarvegi 17, 20 og 22.

Húsið er á reit sem skilgreindur er fyrir íbúðarbyggð skv. aðalskipulagi. Í skipulagsreglugerð, grein 6.2, er að finna skilgreiningu á landnotkunarflokknum "íbúðarbyggð" og segir þar: "Svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins."

Aðalskipulag tekur ekki sérstaklega á verslun í íbúðarbyggð að öðru leyti en því að vísa í framangreinda grein skipulagsreglugerðar.

Í 2.3.1. gr. byggingarreglugerðar er fjallað um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir og segir þar að leyfi þurfi fyrir breyttri notkun húss.

Skipulags- og umhverfisnefnd telur að umsótt, breytt not teljist minniháttar atvinnustarfsemi sem samræmst geti búsetu og fyrirkomulagi í nánasta umhverfi hússins, og að bílastæði séu næg. Samþykki nærliggjandi húsa fylgir.

Nefndin gerir því ekki athugasemdir við umsótta breytingu á notum húss og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum, sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.

Hvað varðar skilti sem fyrirhugað er að setja upp, sbr. umsókn, þá kemur fram í 2.5.1. gr. byggingarreglugerðar að sækja þurfi um leyfi fyrir skiltum á byggingum ef þau eru yfir 1,5 m² að flatarmáli. Umsækjanda er bent á að leggja fram viðeigandi gögn til byggingarfulltrúa þegar útlit, fyrirkomulag og nánari staðsetning skiltis liggur fyrir.

5.Deiliskipulag Ölkeldudals, breyting

Málsnúmer 2003015Vakta málsnúmer

Lagt fram til afgreiðslu nefndar. Óveruleg deiliskipulagsbreyting á deiliskipulagi Ölkeldudals var tekin fyrir á 225. fundi nefndarinnar, breyting sem nær til lóða nr. 21, 23, 25, 27 og 29-31 við Ölkelduveg ásamt tilfærslu á göngustíg.
Tillaga að breytingu vegna 29-31 er að beiðni lóðarhafa, en breytingar er varða færslu á göngustíg og stækkun lóða nr. 21 og 23, sem og númerabreyting húsa, eru að frumkvæði bæjarins.

Samkvæmt tillögunni verða eftirfarandi breytingar á númeraröðun skv. breytingu deiliskipulagsins:

Lóð nr. 25 í gildandi deiliskipulagi breytist í nr. 25 og 27 (til samræmis við raunverulega merkingu í dag).
Lóðir nr. 27 og 29 í gildandi deiliskipulagi verða nr. 29, 31, 33, 35 og 37 skv. breytingu (raðhús).

Grenndarkynning fór fram á tímabilinu 19. febrúar til 23. mars 2021. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma.
Í ljósi þess að engar athugasemdir bárust, samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd erindi lóðarhafa Ölkelduvegar 29-31 og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.

Skipulags- og byggingarfulltrúi mun að öðru leyti ljúka frágangi óverulegu deilskipulagsbreytingarinnar og birta með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.


6.Nesvegur 4a - Breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 2102016Vakta málsnúmer

Á 225. fundi skipulags og umhverfisnefndar var lögð fram ósk lóðarhafa og tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi á Framnesi, austan Nesvegar. Breytingin varðar reit sem nær til Nesvegar 4a og samþykkti nefndin að breytingartillagan færi í grenndarkynningu. Á sameiginlegum fundi nefndarinnar nr. 226 og fundi hafnarstjórnar voru lagðar fram og samþykktar tilfæringar og breytingar á tillögunni.

Eftir þá afgreiðslu þurfti að gera frekari breytingar á byggingarreit og fleiru, í samráði við hafnarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa. Nú hafa ASK arkitektar endurbætt og sett fram þær breytingar sem óskað er eftir, á uppdrætti sem hér er lagður fram til afgreiðslu að nýju.

Óverulega deiliskipulagsbreytingin felst í að mörk lóðar 4a færast vegna breikkunar á vegi austan við lóðina og færslu hafnargarðs, lóðin minnkar því þeim megin en stækkar á móti til suðvesturs. Byggingarreitur er einnig stækkaður til suðurs og vesturs. BK kóta er bætt inn, en TK er óbreyttur. Nýtingarhlutfall helst óbreytt.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framlagða tillögu að óverulegri deiliskipulagsbreytingu á Nesvegi 4a og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að grenndarkynna fyrirhugaða byggingu á lóðinni, með tilgreindum breytingum deiliskipulags, til nærliggjandi lóðarhafa eða þeirra sem gætu átt hagsmuni að gæta sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Um er að ræða eigendur fasteigna að Nesvegi 4 og 4b, Norðurgarði D og Norðurgarði C.


7.Deiliskipulag Ölkeldudals, breyting

Málsnúmer 2003015Vakta málsnúmer

Unnið er að breytingu deiliskipulags í Ölkeldudal. Helsta breytingin felst í að mörk deiliskipulagssvæðisins eru færð út. Annars vegar með því að bætt er við lóðum upp Ölkelduveg, í samræmi við nýtt aðalskipulag, og hins vegar með því að bæta við skipulagi á lóðum við Fellasneið 3, 5 og 7.

Lagt var fram nýtt minnisblað skipulagsráðgjafa, dags. 9. apríl 2021, sem gerir grein fyrir hugmyndum að breytingu á áður framlagðri útfærslu í vinnu við breytingu á deiliskipulaginu, þ.e. mismunandi útfærslum á fyrirkomulagi lóða vestast á Ölkelduvegi.

Farið var yfir framlagt minnisblað.

Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að óska eftir útfærslu á tillögunni sem nú er í vinnslu, á þann veg að efsta lóðin við Ölkelduveg verði felld út. Þannig náist nægilegt rými á milli hússins við Fellasneið 28 og efsta húss á Ölkelduvegi, fyrir aðkomu að skógræktarsvæði ofan byggðar. Einnig myndist með því góð tenging á milli skógræktarsvæðisins og græna svæðisins neðan Ölkelduvegar, þ.e. niður "Hönnugil".

Nefndin leggur til að útfærsla tillögunnar verði opin hvað varðar húsagerð á nýjum lóðum á Ölkelduvegi. Gera megi ráð fyrir hvort heldur sem er einbýlishúsum, parhúsum eða raðhúsum.

8.Bongó slf - Stöðuleyfi

Málsnúmer 1902044Vakta málsnúmer

Bongó slf. sækir um tímabundið stöðuleyfi v/matarvagns sem staðsettur verður á auðu svæði á Grundargötu 33 líkt og verið hefur síðustu árin.
Umrætt tímabil er frá 20. maí til 10. september 2021.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út stöðuleyfi að uppfylltum skilyrðum, í samræmi við gildandi Gjaldskrá og reglur vegna stöðuleyfa í Grundarfjarðarbæ.

9.Fellabrekka 11-13, afturköllun lóða

Málsnúmer 2103028Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi leggur fram bréf sitt dags. 10. mars sl. sem sent var lóðarhöfum að Fellabrekku 11-13 um afturköllun lóðanna.
Á 197. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 17. október 2018 var samþykkt lóðaúthlutun lóðanna Fellabrekku 11-13 til Páls Mar Magnússonar og Arnar Beck Eiríkssonar. Afgreiðslan var staðfest á fundi bæjarstjórnar 18. október 2018 og þann 22. október 2018 var lóðarhöfum tilkynnt um úthlutun lóðanna.

Í samræmi við lið 3.4. í Samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði og m.t.t. áður sendra erinda til lóðarhafa þar sem óskað var eftir að teikningar yrðu lagðar fram, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi lóðarhöfum með bréfi þann 10. mars 2021, að úthlutun lóðanna væri felld úr gildi. Bréfið er lagt fyrir fundinn og vísast í það til nánari upplýsinga um feril umsóknar, afgreiðslu og samskipti við lóðarhafa.

Lagt fram til kynningar fyrir skipulags- og umhverfisnefnd.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að umræddar lóðir verði auglýstar lausar til úthlutunar að nýju.

10.Umhverfisrölt Grundarfjarðar

Málsnúmer 1905027Vakta málsnúmer

Árin 2018, 2019 og 2020 buðu skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn til umhverfisrölts með íbúum um afmörkuð hverfi í þéttbýlinu.
Ætlunin hefur verið að fara einnig í rölt í dreifbýlinu, en Covid hefur m.a. hamlað þeim áformum.



Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að stefna að því að umhverfisrölt fari fram í græna og rauða hverfi þriðjudaginn 18. maí nk. kl. 19.30 og 20.30.
Umhverfisrölt í bláa og gula hverfi fari fram miðvikudaginn 19. maí kl. 19:30 og 20.30 - með fyrirvara um veðurspá, samkomutakmarkanir og nánara skipulag.

Umverfisrölt í dreifbýli fari fram þriðjudagskvöldið 25. maí nk. - með sömu fyrirvörum - og hefjist með heimsókn í hesthúsahverfið, í samvinnu við Hesteigendafélagið, og auk þess verði rölt um iðnaðar- og athafnasvæðið við Kverná.

11.Gönguvænn Grundarfjörður - hönnun gangstétta og stíga

Málsnúmer 2012003Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri kynnti vinnu sem staðið hefur yfir við verkefnið "Grænn og gönguvænn Grundarfjörður", sem byggir á markmiðum aðalskipulags.

Síðan á síðasta ári hefur bæjarráð/bæjarstjórn unnið að greiningu á ástandi gangstétta, stíga og umferðartenginga í bænum. Rýnt var í rými í götum (götukassar) í þéttbýli og í framhaldinu unnar tillögur um hvernig megi koma fyrir breiðari gangstéttum og stígum fyrir hjólandi umferð, samhliða gangandi. Einnig hefur verið unnið að útfærslu á tengingum og göngustígum, m.a. við austanverða og vestanverða Grundargötu og að göngustíg frá þéttbýli að Kirkjufellsfossi.

Nú stendur yfir frekari hönnun þeirra hugmynda sem unnið hefur verið að.
Stefnt er að sameiginlegum fundi nefndarinnar með bæjarfulltrúum, til að kynna þessar tillögur frekar, þegar hönnun liggur endanlega fyrir.

Fundargerð var sýnd á sameiginlegum skjá fundarmanna, og lesin upp jafnóðum undir hverjum lið, auk þess sem rafrænt samþykki fundarmanna við fundargerðinni lá fyrir að loknum fundi.

Fundargerð þessi er birt með fyrirvara um afgreiðslu í bæjarstjórn.

Fundi slitið - kl. 18:41.