244. fundur 10. desember 2020 kl. 16:30 - 21:03 á fjarfundi
Nefndarmenn
 • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
 • Hinrik Konráðsson (HK)
 • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS)
 • Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
 • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
 • Garðar Svansson (GS)
 • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
Starfsmenn
 • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
 • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1808018Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir minnispunkta sína.

Fram kom meðal annars að Hagstofan hefur nú birt sem svokallaða tilraunatölfræði, upplýsingar unnar um útsvar sveitarfélaga, launagreiðslur, fjölda launagreiðenda, launþega o.fl., eftir atvinnugreinum og sveitarfélögum. Um ákveðin tímamót er að ræða, hvað þetta varðar, þar sem sveitarfélög hafa hingað til ekki haft aðgang að þessum upplýsingum þannig samanteknum. Bæjarstjóri sýndi töflur úr þessum gagnagrunni.

Bæjarstjóri sagði frá því að bréf hafi borist um úthlutun byggðakvóta. Grundarfjarðarbæ er úthlutað 140 tonnum, sama magni og í fyrra.

Í síðustu viku fór fram kynningarfundur um jafnlaunavottun, en Attentus vinnur að henni fyrir Grundarfjarðarbæ, Stykkishólmsbæ og Snæfellsbæ.

Hún sagði frá fulltrúaráðsfundi Svæðisgarðsins Snæfellsness 7. desember sl. og frá fundi með snjómokstursverktökum sem haldinn var í gær.

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu - Umræða

Málsnúmer 1808012Vakta málsnúmer

Lögð fram gögn um jöfnun dreifikostnaðar raforku í dreifbýli, um hækkun raforkuverðs á vegum Landsnets og frétt RARIK frá 27. nóvember sl. um aukið afhendingaröryggi raforku á Snæfellsnesi.

Í frétt frá RARIK í lok nóvember kom fram að RARIK og Landsnet hafi að undanförnu unnið að því að bæta afhendingaröryggi rafmagns á Snæfellsnesi. Fram kemur að Landsnet hafi keypt fimm færanlegar varaaflsvélar og að nýlokið sé prófunum á tengingu tveggja þeirra við kerfið á Snæfellsnesi. Bæjarstjórn fagnar því að unnið sé að því að bæta afhendingaröryggi rafmagns á Snæfellsnesi.

Forseti ber upp eftirfarandi tillögu:

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar vísar í frumvarp til breytinga á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, mál nr. 336 á 151. löggjafarþingi. Markmið frumvarpsins er að stuðla að jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda. Gert er ráð fyrir að 95% jöfnun verði náð árið 2025, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar telur mikilvægt að skrefið verði stigið til fullrar jöfnunar á kostnaði við dreifingu raforku og fari í 100% strax á næsta ári, eins og nú liggur fyrir í tillögu vegna málsins á Alþingi.

Bæjarstjórn lýsir jafnframt yfir áhyggjum af gjaldskrárhækkunum um 9,9% sem Landsnet hefur boðað frá og með 1. janúar nk. Slík hækkun mun, ef af verður, fljótlega gera að engu þann ávinning sem boðaður er af framangreindu frumvarpi. Sagan frá 2015 mun þá endurtaka sig þegar dreifbýlisframlagið var lækkað síðast en jöfnunarframlagið hvarf með gjaldskrárhækkunum Landsnets á þremur árum.

Bæjarstjórn hvetur ráðherra og atvinnuveganefnd Alþingis til að stefna að fullri jöfnun á dreifingu raforkukostnaðar strax á næsta ári. Það væri mikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina/byggðirnar og stórt skref í áttina að jöfnun kostnaðar við húshitun á köldum svæðum.

Samþykkt samhljóða.

Rætt um störf bæjarstjórnar framundan, húsnæðismál og samtal við UMFG og fleira.

Allir tóku til máls.

3.Atvinnumál - Umræða

Málsnúmer 1808013Vakta málsnúmer

Lagðir fram skilmálar um tímabundinn afslátt af gatnagerðargjöldum, sem renna út um næstu áramót.

Forseti leggur til að kjör sem í gildi eru um afslátt af gatnagerðargjöldum, skv. samþykkt bæjarstjórnar frá maí 2020, gildi áfram til 30. júní 2021.

Samþykkt samhljóða.

4.Bæjarráð - 561

Málsnúmer 2011005FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 561. fundar bæjarráðs.
 • Bæjarráð - 561 Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.
 • 4.2 2002001 Greitt útsvar 2020
  Bæjarráð - 561 Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar fyrstu ellefu mánuði ársins ásamt uppfærðri tekjuáætlun. Skv. yfirlitinu er greitt útsvar 2,1% lægra en á sama tímabili árið 2019.
 • Bæjarráð - 561 Lagt fram bréf frá Stígamótum dags. 9. nóvember sl., þar sem óskað er eftir fjárstuðningi.

  Bæjarráð getur því miður ekki orðið við erindinu.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 561 Farið yfir fjárfestingaáætlun ársins 2021.

  Bæjarráð vísar tillögu að fjárfestingaáætlun ársins 2021 til annarrar umræðu í bæjarstjórn.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 561 Herborg Árnadóttir hjá Alta sat fundinn undir þessum lið.

  Farið yfir stöðu vinnunnar við hönnun gangstétta og stíga. Herborg sýndi glærukynningu með hugmyndum og tillögum sem nýtast við forgangsröðun verkþátta.

  Bæjarráð leggur til að verkþættir verði kostnaðarmetnir. Bæjarstjóra falið að láta kostnaðarmeta verkþætti verkefnisins.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 561 Ragnheiður Agnarsdóttir sat fundinn undir þessum lið.

  Hún fór yfir stöðu vinnu við styttingu vinnuvikunnar. Bæjarráði gerð grein fyrir þeirri vinnu sem fram hefur farið í vinnutímanefndinni, en í henni sitja fulltrúar starfsfólks og vinnuveitanda.

  Bæjarstjóra og skrifstofustjóra falið umboð til að vinna áfram fyrir hönd bæjarins að þessu verkefni.

  Niðurstaða atkvæðagreiðslu starfsfólks um tillögurnar verður síðan lögð fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 561 Farið yfir erindi frá Eflu, verkfræðistofu, um varmaskiptaverkefnið. Styrkur hefur fengist úr Orkusjóði til að leggja af olíukyndingu í grunnskóla, íþróttahúsi og sundlaug.

  Bæjarstjóra falið að semja við Eflu um aðstoð við vinnuna.

  Samþykkt samhljóða.
  Bókun fundar Til máls tóku JÓK, GS, BÁ og SÞ.
 • Bæjarráð - 561 Lögð fram eldri gögn og þau síðustu vegna samskipta við Orkuveitu Reykjavíkur vegna samnings við Grundarfjarðarbæ frá árinu 2005.

  Fram kom á bæjarstjórnarfundi þann 26. nóvember sl. að forseti bæjarstjórnar og bæjarstjóri hefðu rætt við lögmann bæjarins vegna málsins. Farið yfir stöðu og næstu skref.

  Bæjarráð mun taka málið áfram í upphafi nýs árs.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 561 Lögð fram undirbúningsgögn og drög að skýrslu HLH ehf., sem unnið er að fyrir Grundarfjarðarbæ, Stykkishólmsbæ, Helgafellssveit og Eyja- og Miklaholtshrepp.

  Lagt til að bæjarstjóra sé falið að vinna áfram að undirbúningi. Skýrsla HLH ehf. verði lögð fyrir bæjarráð/bæjarstjórn þegar hún verður fullbúin.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 561 Rætt um setningu vinnureglna sveitarfélaga varðandi opinbera birtingu gagna með fundargerðum.

  Lagt til að skrifstofustjóra verði falið að afla vinnureglna hjá öðrum sveitarfélögum fyrir janúarfund bæjarráðs.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 561 Lagðar fram til kynningar fjárhagsáætlanir 2021 vegna Norska hússins, Earth Check verkefnisins og persónuverndarfulltrúa, sem lagðar voru fram á fundi stjórnar Byggðasamlags Snæfellinga 23. nóvember sl.
 • Bæjarráð - 561 Lagðar fram til kynningar fundargerðir starfshóps um stöðu og stefnu úrgangsmála á Vesturlandi, sem haldnir voru 28. september og 12. október sl. Jafnframt lögð fram skýrsla um matarsóun og tillögur til úrbóta.
 • 4.13 1801048 Sögumiðstöðin
  Bæjarráð - 561 Lagður fram til kynningar undirritaður verksamningur Grundarfjarðarbæjar við Ildi ehf.
 • Bæjarráð - 561 Lagður fram til kynningar samstarfssamningur Grundarfjarðarbæjar og Eldvarnarbandalagsins um auknar eldvarnir. Samningurinn er gerður í tengslum við endurnýjaðan samning við VÍS, eftir útboð vátrygginga.
 • Bæjarráð - 561 Lagður fram til kynningar ársreikningur Hesteigendafélags Grundarfjarðar vegna ársins 2019.
 • Bæjarráð - 561 Lagður fram til kynningar ársreikningur Björgunarsveitarinnar Klakks vegna ársins 2019.

5.Skipulags- og umhverfisnefnd - 223

Málsnúmer 2010001FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 223. fundar skipulags- og umhverfisnefndar.
 • Á 222. fundi nefndarinnar fól hún byggingarfulltrúa að grenndarkynna breytingu á þaki sbr. 2.3.4. gr. byggingarreglugerðar. Grenndarkynning stóð til 20. nóvember 2020 - engar athugasemdir bárust á umsagnartíma. Ein ábending barst.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 223 Í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 var grenndarkynning send út 21. október og frestur til athugasemda var til 20. nóvember 2020 - engar athugasemdir bárust á umsagnartíma.

  Byggingarfulltrúi gaf út byggingarleyfi að lokinni grenndarkynningu að höfðu samráði við skipulags- og umhverfisnefnd.

  Byggingarleyfi staðfest.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu umhverfis- og skipulagsnefndar.
 • Lagt fram byggingarleyfi og teikningar vegna Ölkelduvegar 23. Skipulags- og umhverfisnefnd - 223 Sótt er um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu á Ölkelduvegi 23.
  Framlagðar teikningar falla vel inn í gildandi deiliskipulag.
  Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu umhverfis- og skipulagsnefndar.
 • Farið yfir gögn málsins og stöðu sbr. bókun á 193. fundi nefndarinnar.
  Málið er til frekari skoðunar hjá byggingarfulltrúa og nefndinni.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 223 Máli frestað

 • Farið yfir stöðu mála vegna breytingar á deiliskipulagi í Ölkeldudal, þar á meðal stækkunar deiliskipulagssvæðis á Ölkelduvegi og Hjaltalínsholti. Skipulags- og umhverfisnefnd - 223 Lögð fram til kynningar gögn frá skipulagsráðgjafa um hugsanlega breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals.
 • Lagðar fram til kynningar teikningar af breytingum af efri hæð að Grundargötu 30. Skipulags- og umhverfisnefnd - 223 Fyrir nefndinni liggja teikningar af breytingum á efri hæð á Grundargötu 30.

  Nefndin hafði áður samþykkt fyrirhugaða framkvæmd á 220. fundi og leggur byggingarfulltrúi fram fullunnar teikningar til upplýsinga.

  Grundargata 30 er í sölu- og skiptaferli milli Grundarfjarðarbæjar og Helgrinda ehf.

  Þegar kaup og skipti hafa verið frágengin felur skipulags- og umhverfisnefnd skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum.
 • Bæjarstjóri leggur fram til kynningar breytingar á alrými á n.h. á Grundargötu 30. Fyrir liggja teikningar af rými á 1. hæð með breytingum af húsnæðinu. Skipulags- og umhverfisnefnd - 223 Byggingarfulltrúa er falið að ganga frá teikningum í samræmi við núverandi notkun á húsnæði.
 • Fyrirspurn barst varðandi hraðatakmarkanir í og við þéttbýli í bæjarfélaginu.
  Erindi lagt fram til umsagnar hjá nefnd.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 223 Byggingarfulltrúa falið að koma því á framfæri við Vegagerðina að leiðbeinandi skilti vestan við Grundarfjörð sem sýnir 50 km/h verði fjarlægt og að hámarkshraði á Kvíabryggjuafleggjara verði lækkaður til samræmis við vegaðstæður. Bókun fundar Til máls tóku JÓK, HK, BS og SÞ.
 • Vegna tengingar heimtaugar á Norðurgarði Grundarfjarðarhafnar, þarf að byggja við spennistöðvarhúsið á hafnarsvæðinu. Umrædd framkvæmd fellur undir h. lið 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og er því ekki byggingarleyfisskyld. Þar sem viðbygging er 7,5 m2 að stærð og hefur ekki áhrif á ásýnd hafnarsvæðis.

  Lagt fram til kynningar.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 223 Lagt fram Bókun fundar Til máls tóku JÓK, BS, UÞS, BÁ og SÞ.
 • Bæjarstjórn felur skipulags- og umhverfisnefnd umfjöllun og umsögn ofangreinds máls.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 223 Lögð fram tillaga að viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015-2026 ásamt umhverfismati.
  Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 8. janúar 2021.

  Afgreiðslu máls frestað til 3. janúar 2021 þar sem nefndin mun skila niðurstöðu sinni á þeim fundi.
 • Byggingarfulltrúi fer yfir þau mál sem legið hafa fyrir hjá embættinu.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 223 Byggingarfulltrúi fer yfir þær rekstrarleyfisúttektir sem hefur verið farið í. Lokaúttekt á Vélsmiðju Grundarfjarðar, Rafræna skráningu hjá hms.is.

  Áætlað er að fara í vettvangsskoðun í dreifbýli í samræmi við umhverfisrölt eins og farið var í innan þéttbýlis í vor.

6.Íþrótta- og æskulýðsnefnd - 98

Málsnúmer 2010003FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 98. fundar íþrótta- og æskulýðsnefndar.
 • 6.1 1908016 Þríhyrningur - hugmyndir, hönnun, endurbætur
  Framhald vinnu og umræðu á síðasta fundi nefndarinnar.
  Gestur fundarins undir þessum lið var Herborg Árnadóttir, arkitekt, sem unnið hefur að útfærslu hugmynda sem nefndin hefur unnið með.

  Íþrótta- og æskulýðsnefnd - 98 Farið var yfir hönnunartillögur sem unnar hafa verið.
  Eftir síðasta fund nefndarinnar voru settar fram tillögur um uppbyggingu í Þríhyrningnum sem lagðar voru fram til kynningar á 242. fundi bæjarstjórnar þann 8. október sl.
  Tillögurnar hafa einnig verið kynntar á vef bæjarins. Sjá slóð hér:
  https://www.grundarfjordur.is/is/mannlif/vidburdir-og-utivist/uppbygging-thrihyrningsins

  Farið var yfir og rætt nánar um útfærslu einstakra þátta tillögunnar, s.s. um gerð leiktækja, um útfærslu útisviðs og brekku, um aðstöðu til útikennslu. Ósk er uppi um að þak verði sett yfir borð/bekki sem ætluð eru nemendum meðal annarra, þar sem það myndi auka á notagildi aðstöðunnar fyrir útikennslu.

  Herborg mun vinna úr umræðum fundarins. Ætlunin er að stilla upp kostnaðarmati og tillögu um forgangsröðun í uppbyggingu, þannig að velja megi heppilega áfanga til að byrja á.

  Herborgu var þakkað fyrir komuna á fundinn og fyrir góða yfirferð og umræður.
  Bókun fundar Bæjarstjórn þakkar Guðmundi Runólfssyni hf. fyrir veglegan styrk til leiktækjakaupa í Þríhyrningi. Styrkurinn var veittur í tilefni 100 ára fæðingarafmælis Guðmundur Runólfssonar.

  Til máls tóku JÓK, HK, SÞ og UÞS.
 • 6.2 2010011 Grundarfjarðarbær - Styrkur frá G.Run vegna Þríhyrnings
  Íþrótta- og æskulýðsnefnd - 98 Í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu Guðmundar Runólfssonar þann 9. október sl., færðu eigendur fjölskyldufyrirtækisins Guðmundur Runólfsson hf. gjafir til góðra verkefna og félagasamtaka í bænum.

  Verkefni um uppbyggingu útikennslu- og fjölskyldugarðs í Þríhyrningi, á vegum Grundarfjarðarbæjar, var meðal þeirra verkefna sem hlutu fjárstyrk. Styrkurinn á að renna til kaupa á leiktækjum í Þríhyrningi fyrir unga sem aldna.

  Íþrótta- og æskulýðsnefnd flytur eigendum fyrirtækisins innilegar þakkir fyrir gjöfina, sem mun koma sér vel við uppbyggingu Þríhyrningsins.
 • 6.3 2010001 Reglur um kjör íþróttamanns Grundarfjarðar - endurskoðun
  Lögð fram viðbrögð íþróttafélaga við beiðni um umsögn um reglur um kjör íþróttamanns Grundarfjarðar.
  Íþrótta- og æskulýðsnefnd - 98 Íþrótta- og æskulýðsnefnd sendi íþróttafélögum í Grundarfirði póst þann 27. september sl. þar sem óskað var eftir áliti þeirra á þörf fyrir breytingar á reglum um kjör íþróttamanns Grundarfjarðar.

  Eftirfarandi athugasemdir bárust:

  Golfklúbburinn Vestarr:
  - Telur reglurnar sem slíkar mjög góðar.
  - Spurning sé með faglegt mat, með hvaða hætti mat við kosninguna eigi að fara fram. Hvað eigi að greiða mörgum atkvæði, eigi að raða í sæti við kosninguna, o.fl.

  Stjórn UMFG:
  - Vangaveltur um faglegt mat á tilnefningunum, hvernig það fari fram.
  - Telur að val á íþróttamanni Grundarfjarðar, undirbúningur og kosning eigi að vera alfarið í höndum íþrótta- og æskulýðsnefndar, sbr. íþróttamaður ársins sem valinn er af félagi íþróttafréttamanna, en ekki af félögunum sjálfum né íþróttasamböndum. Rök: óljóst sé hver á að tilnefna íþróttamenn hjá UMFG; er það stjórnin, þjálfarar, meistaraflokkar eða foreldraráð.
  - Gera eigi því hærra undir höfði að vera íþróttamaður Grundarfjarðar og leggja meiri vinnu í kringum undirbúning og kynningu heldur en verið hefur. Dæmi um útfærslu gæti verið að íþrótta- og æskulýðsnefnd fari og hitti t.d. þjálfara, ræði við stjórnir allra félagasamtaka, og safni t.d. 2-3 nöfnum í pottinn frá hverju félagi.
  - Þetta gefi nefndinni meiri möguleika að leggja hlutlaust mat á valið í stað þess að fulltrúar frá hverju félagi auk nefndarinnar komist að niðurstöðu.
  - Treysta eigi íþrótta- og æskulýðsnefnd til að taka bestu ákvörðunina.
  Ástæða breytinga sé sú að Grundarfjarðarbær beri ábyrgð á þessum verðlaunum/tilnefningum og bærinn eigi að ganga úr skugga um að þetta sé rétt og vel gert. Taka eigi ábyrgðina af félagasamtökum og að stjórn eins og hjá UMFG eigi ekki að svara fyrir þessa ákvörðun ár hvert.

  Einnig athugasemd við orðalag 2. gr.
  - Regla þar sem segir: "Viðkomandi hafi lögheimili í Grundarfjarðarbæ og sé á fimmtánda aldursári."
  - Lagfæri eigi orðalagið. Þetta hljómi eins og aðilinn verði að vera 15 ára, hvorki yngri né eldri. Mætti vera "eigi yngri en á fimmtánda aldursári" eða "á fimmtánda aldursári og eldri".

  ---
  Íþrótta- og æskulýðsnefnd þakkar fyrir innsendar ábendingar.

  Í ljósi þessara svara, og eftir umræður í nefndinni, telur íþrótta- og æskulýðsnefnd ástæðu til að gefa sér rýmri tíma í að yfirfara reglur um kjör íþróttamanns Grundarfjarðar og útfæra mögulegar breytingar. Í ár fari því kjör íþróttamanns Grundarfjarðar fram í samræmi við þær reglur sem í gildi eru.

  Samþykkt samhljóða.

  Til áframhaldandi vinnslu hjá nefndinni.
  Bókun fundar Til máls tóku JÓK, BÁ, HK, GS og UÞS.
 • 6.4 1810008 Markmið íþrótta- og æskulýðsnefndar
  Íþrótta- og æskulýðsnefnd - 98 Rætt stuttlega um verkefni og hlutverk.
  Nefndin stefnir að því að bjóða íþróttafélögum til samtals á nýju ári.

7.Hafnarstjórn - 13

Málsnúmer 2011004FVakta málsnúmer

 • Lögð fram tillaga að gjaldskrá Grundarfjarðarhafnar sem taki gildi 1. janúar 2021.
  Hafnarstjórn - 13 Almennt er lagt til að gjöld samkvæmt gjaldskránni færist upp um almenna áætlaða verðlagsbreytingu. Sorpgjald hækki í samræmi við aukinn kostnað við málaflokkinn. Aflagjöld eru óbreytt milli ára.

  Hafnarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu að gjaldskrá hafnarinnar með áorðnum breytingum og vísar henni til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.

8.Fjárhagsáætlun Grundarfjarðarhafnar 2021

Málsnúmer 2010039Vakta málsnúmer


Lögð fram gjaldskrá Grundarfjarðarhafnar frá 1. janúar 2021.

Bæjarstjórn staðfestir fyrirliggjandi gjaldskrá Grundarfjarðarhafnar.

9.Fjárhagsáætlun 2021

Málsnúmer 2009045Vakta málsnúmer


Lögð fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun ársins 2021 ásamt greinargerð, samanburði milli fjárhagsáætlunar 2020 og 2021 og útlistun á breytingum sem gerðar hafa verið milli umræðna. Jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2022-2024.

Skv. rekstraryfirliti fjárhagsáætlunar 2021 eru heildartekjur áætlaðar 1.171,9 millj. kr. Áætlaður launakostnaður er 667,8 millj. kr., önnur rekstrargjöld 388,4 millj. kr. og afskriftir 72,9 millj. kr. Fyrir fjármagnsliði er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma verði 42,7 millj. kr. Gert er ráð fyrir 82,9 millj. kr. fjármagnsgjöldum. Áætlun 2021 gerir ráð fyrir 40,3 millj. kr. neikvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu.

Skv. sjóðsstreymisyfirliti áætlunarinnar er veltufé frá rekstri 83,3 millj. kr. þegar leiðrétt hefur verið fyrir afskriftum og áföllnum en ógreiddum verðbótum og gengismun, auk annarra breytinga á skuldbindingum. Þessi fjárhæð nýtist síðan til afborgana lána og nauðsynlegra fjárfestinga sem brýnt er að ráðast í á árinu 2021. Ráðgert er að fjárfestingar verði 153,5 millj. kr., afborganir lána 126,1 millj. kr. og að tekin verði ný lán að fjárhæð 190 millj. kr. Miðað við þær forsendur er gengið á handbært fé um 1,6 millj. kr., sem í upphafi árs er ráðgert að það verði 32,4 millj. kr. Handbært fé í árslok ársins 2021 er því áætlað 30,8 millj. kr. gangi fjárhagsáætlun ársins 2021 fram eins og ráðgert er.

Allir tóku til máls.

Fjárhagsáætlun 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024 samþykkt samhljóða.

10.Jafnréttisáætlun Grundarfjarðarbæjar, endurskoðuð

Málsnúmer 2005042Vakta málsnúmer


Lögð fram endurbætt útgáfa af jafnréttisáætlun bæjarins, en jafnréttisnefnd hafði fjallað um tillöguna á fundi sínum þann 23. september sl.

Til máls tóku JÓK, BÁ, RG, SÞ og UÞS.

Jafnréttisáætlun Grundarfjarðarbæjar samþykkt samhljóða.

11.Jafnlaunastefna Grundarfjarðarbæjar - 2020

Málsnúmer 2012009Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að jafnlaunastefnu Grundarfjarðarbæjar.

Til máls tóku JÓK og BÁ.

Jafnlaunastefna Grundarfjarðarbæjar samþykkt samhljóða.

12.Sýslumaðurinn á Vesturlandi - Sólvellir 13 - Umsögn um rekstrarleyfi, endurnýjun

Málsnúmer 2012016Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni Sýslumannsins á Vesturlandi um umsögn, vegna umsóknar 65 Ubuntu ehf. um rekstrarleyfi, til að reka gististað í flokki II, að Sólvöllum 13. Um endurnýjað leyfi er að ræða.

Fyrir liggja jákvæðar umsagnir slökkviliðsstjóra og skipulags- og byggingafulltrúa.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við að umbeðið leyfi verði veitt.

Samþykkt samhljóða.

13.Umsókn um leyfi til sölu á skoteldum

Málsnúmer 2011053Vakta málsnúmer


Björgunvarsveitin Klakkur, í samræmi við 29. gr., sbr. 31. gr., reglugerðar um skotelda nr. 414/2017 sótti um leyfi til lögreglustjóra til smásölu skotelda.

Fyrir liggja jákvæðar umsagnir slökkviliðsstjóra og skipulags- og byggingafulltrúa.

Leitað er samþykkis Grundarfjarðarbæjar sem lóðareiganda, vegna húsnæðis sem skoteldar skulu geymdir í og seldir.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við að umbeðið leyfi verði veitt.

Samþykkt samhljóða.

14.Breiðafjarðarnefnd - Samantekt um framtíð Breiðafjarðar - ósk um umsögn

Málsnúmer 2011047Vakta málsnúmer

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar tekur undir það að tímabært sé að lög um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995, verði endurskoðuð. Bæjarstjórn leggur áherslu á að endurskoðun á lögunum fari fram í samráði við sveitarfélög og hagsmunaaðila við Breiðafjörð.

Hvað aðrar tillögur Breiðafjarðarnefndar varðar, getur bæjarstjórn ekki veitt jákvæða umsögn að svo stöddu, þar sem of mörgum spurningum er enn ósvarað. Breiðafjörður er einstök heild, með fjölbreytt og auðugt náttúrufar. Auðlindir svæðisins eru einstakar. Þær eru undirstaða menningar og mannlífs við Breiðafjörð. Því er mikilvægt að hverjar þær tillögur sem teknar verða til skoðunar séu unnar í samráði við sveitarfélög og hagsmunaaðila við Breiðafjörð.

Samþykkt samhljóða.

15.Félags- og barnamálaráðuneytið - Samþætting þjónustu í þágu barna

Málsnúmer 2012012Vakta málsnúmer


Lagður fram til kynningar tölvupóstur félagsmálaráðuneytisins, dags. 30. nóvember sl., varðandi efni lagabreytinga um samþætta þjónustu í þágu barna.

16.Hagstofa Íslands - Manntal og húsnæðistal

Málsnúmer 2012013Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Hagstofu Íslands, dags. 27. nóvember sl., varðandi töku manntals og húsnæðistals sem ráðgert er 1. janúar 2021 og framvegis ár hvert.

17.Samband íslenskra sveitarfélaga - Uppbyggingarteymi stöðuskýrsla 7

Málsnúmer 2011015Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar stöðuskýsla félagsmálaráðuneytisins nr. 6, dags. 16. október sl., vegna teymisvinnu um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar Covid-19.

18.Samband íslenskra sveitarfélaga - Boð á tvo fjarfundi um húsnæðismál fatlaðs fólks

Málsnúmer 2012004Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 26. nóvember sl., með fundarboðum tveggja fjarfunda í desember, um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í þágu fatlaðs fólks.

19.Samband íslenskra sveitarfélaga - Upptaka af málþingi um reynsluverkefni um íbúasamráð

Málsnúmer 2011033Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 11. nóvember sl., með slóð á upptöku málþings um reynsluverkefni um íbúasamráð, sem haldið var 9. nóvember sl.

20.Samband íslenskra sveitarfélaga - Upptaka af norrænum loftslagsfundi

Málsnúmer 2012020Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 7. desember sl., með slóð á upptöku af norrænum loftslagsfundi, sem haldinn var 2. desember sl.

21.Persónuvernd - Ársskýrsla Persónuverndar 2019

Málsnúmer 2011045Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar ársskýrsla Persónuverndar 2019.

Til máls tóku JÓK, UÞS, SÞ og BÁ.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 21:03.