266. fundur 15. desember 2022 kl. 16:30 - 19:59 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
 • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
 • Garðar Svansson (GS)
 • Ágústa Einarsdóttir (ÁE)
 • Signý Gunnarsdóttir (SG)
 • Davíð Magnússon (DM)
  Aðalmaður: Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
 • Loftur Árni Björgvinsson (LÁB)
 • Patrycja Aleksandra Gawor (PAG)
  Aðalmaður: Sigurður Gísli Guðjónsson (SGG)
Starfsmenn
 • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
 • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti setti fund og bauð Patrycju A. Gawor velkomna á sinn fyrsta bæjarstjórnarfund.

Forseti óskaði eftir að tekin yrðu á dagskrá fundarins með afbrigðum tvær fundargerðir, skipulags- og umhverfisnefndar sem yrði liður nr. 5 og skólanefndar, sem yrði liður nr. 6 á fundinum. Aðrir liðir færast aftur sem því nemur.

Samþykkt samhljóða.

Gengið var til dagskrár.

1.Minnispunktar bæjarstjóra frá 2022

Málsnúmer 2205020Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir minnispunkta sína, sbr. framlagt skjal.

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu 2022-2026

Málsnúmer 2205021Vakta málsnúmer

Forseti sagði frá fundum nefnda og bæjarstjórnar framundan.

Hann lagði til að umbeðinn fundur með Skíðadeild UMFG, sbr. mál nr. 2211011, verði haldinn í janúar nk.

Lagt til að fulltrúar bæjarstjórnar/skólanefndar til að rýna tillögur um leikskólalóð séu Ágústa Einarsdóttir og Anna Rafnsdóttir.

Samþykkt samhljóða.

3.Bæjarráð - 598

Málsnúmer 2211009FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 598. fundar bæjarráðs.

Til máls tóku JÓK og GS.

 • Bæjarráð - 598 Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.
 • 3.2 2202005 Greitt útsvar 2022
  Bæjarráð - 598 Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-nóvember 2022. Skv. yfirlitinu hefur greitt útsvar í Grundarfirði hækkað um 9,9% miðað við sama tímabil í fyrra.
 • Bæjarráð - 598 Lagt fram rekstraryfirlit fyrir tímabilið janúar-september 2022, ásamt málaflokkayfirliti. Skv. yfirlitinu er rekstrarniðurstaða janúar-september 18 millj. kr. undir áætlun (neikvæð niðurstaða). Jafnframt lögð fram útkomuspá ársins 2022 sem gerir ráð fyrir að rekstur ársins sé á áætlun. Mestu frávikin felast í auknum fjármagnsgjöldum (verðbótum á lán) vegna hækkunar vísitölu neysluverðs.
 • Bæjarráð - 598 Lagður fram og farið yfir samantekinn lista yfir helstu kennitölur sem bæjarráð fylgist með. Jafnframt farið yfir rekstrarbreytingar frá fyrri umræðu.

  Lögð fram ýmis gögn um fjárfestingar og farið yfir drög að fjárfestingaáætlun 2023. Gerðar breytingar á fjárfestingum frá fyrri umræðu.

  Rætt um bílakaup og framlagðar upplýsingar vegna þeirra. Bæjarstjóra veitt umboð til að kaupa nýja bifreið fyrir áhaldahús/eignaumsjón, skv. umræðum fundarins.
 • Á fundi bæjarstjórnar 24. nóvember sl. var lögð fram tillaga Samstöðu bæjarmálafélags um að markaðs- og atvinnufulltrúi verði ráðinn til starfa hjá Grundarfjarðarbæ og að gert verði ráð fyrir því í fjárhagsáætlun ársins 2023.
  Bæjarstjórn samþykkti að tillagan yrði kostnaðarmetin og tekin fyrir í bæjarráði fyrir síðari umræðu um fjárhagsáætlun.
  Bæjarráð - 598 Lögð fram kostnaðargreining á starfi markaðs- og atvinnufulltrúa. Einnig lagt fram yfirlit yfir styrki sem fengist hafa síðustu ár og upplýsingar frá SSV um þjónustu atvinnuráðgjafa SSV og nýtingu þjónustunnar.

  GS reifaði tillöguna og sagðist telja fulla þörf fyrir ráðningu markaðs- og atvinnufulltrúa þar sem það er uppsveifla í sveitarfélaginu. Nýr starfsmaður myndi vinna að atvinnusköpun og markaðssetningu sveitarfélagsins fyrir fyrirtæki og innlenda sem erlenda ferðamenn. Ýmis tækifæri eru á að afla styrkja, innlendis sem erlendis.

  SGG sagði að á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi héldu sveitarfélögin úti störfum í atvinnuráðgjöf og starfi menningarfulltrúa, sem m.a. er ætlað að þjónusta fólk sem vill leita eftir stuðningi við stofnun og rekstur fyrirtækja.
  Atvinnuráðgjafar á vegum SSV komi reglulega og séu með opna viðtalstíma, auk þess að taka á móti símtölum og bóka fundi ef eftir því er leitað. Nauðsynlegt sé að horfa í það hvernig megi nýta sem allra best þessi störf og þjónustu sem Grundarfjarðarbær kostar, ásamt með öðrum sveitarfélögum á Vesturlandi til hagsbóta fyrir einstaklinga, frumkvöðla og atvinnulíf á svæðinu.

  BÁ sagði að á vegum Svæðisgarðsins Snæfellsness væri einnig unnið að markaðssetningu og svæðismörkun, miklir fjármunir hefðu fengist sem styrkur í "branding" vinnu (mörkun svæðis) og verkefnið yrði kynnt í upphafi komandi árs.

  BÁ sagði að breytingar myndu væntanlega verða á næsta ári á starfi í upplýsingamiðstöð o.fl. og að hugsa yrði það í samhengi við markaðsmál.

  Rætt um hlutverk menningarnefndar sem hefur skv. erindisbréfi einnig hlutverk sem ráðgefandi nefnd við bæjarstjórn, um markaðsmál.

  JÓK velti því upp hvort mæta mætti þörf fyrir vinnu að markaðsmálum með öðrum hætti og hvernig nýta mætti sameiginlega krafta og frumkvæði fólksins í atvinnulífi bæjarins, fulltrúa í nefndum og fleiri, og mögulega kaupa aðstoð að, teljist þörf fyrir það. Hann lagði til að gert yrði ráð fyrir fjármunum til markaðsmála í fjárhagsáætlun 2023 til að sinna ákveðnum verkefnum sem bæjarráð o.fl. myndu skilgreina.

  Lagt til að bæjarráð og menningarnefnd vinni að því að skilgreina óskir um markaðsefni og markaðsmál í upphafi komandi árs.

  Einnig lagt til að gert verði átak í að vekja athygli fólks á þjónustu atvinnuráðgjafa SSV.

  Lagt til að gert verði ráð fyrir fjármagni til markaðsmála/markaðsátaks 2023, í samræmi við umræður fundarins.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 598 Lögð fram gjaldskrá Sorpurðunar Vesturlands vegna ársins 2023.
 • Tilnefning í starfshóp og hlutverk hans - um næstu skref/ákvarðanir varðandi samvinnurýmið. Bæjarráð - 598 Lagt til að Ágústa Einarsdóttir og Garðar Svansson verði skipuð í starfshóp sem taki ákvörðun um frekari skref við þróun og uppbyggingu samvinnurýmisins að Grundargötu 30.
  Hópurinn taki afstöðu til efnisvals og áfangaskiptingar í framkvæmdum sem eftir eru m.v. hönnun sem bæjarstjórn samþykkti fyrr á árinu.
  Ennfremur geri nefndin tillögur til bæjarstjórnar um fyrirkomulag í rekstri og starfsemi rýmisins. Gerð gjaldskrár verði þó í höndum bæjarráðs.

  Einnig lagt fram skjal hönnuðar um litaval - ekki gerðar athugasemdir við framlagða tillögu.

 • Erindi Sambands íslenskra sveitarfélaga um þátttöku sveitarfélaga í verkefni um þróun spjallmennis. Bæjarráð - 598 Lögð fram ýmis gögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi þátttöku sveitarfélaga í þróun á sameiginlegu spjallmenni sveitarfélaga.

  Bæjarráð leggur til að ekki verði tekið þátt í verkefninu að sinni.

 • Bæjarráð - 598 Lagður fram tölvupóstur f.h. eigenda jarðanna Búða, Háls og Kirkjufells með ósk um að Grundarfjarðarbær skipi fulltrúa í samráðshóp landeigenda og hagsmunaaðila. Hópurinn hafi það hlutverk að svara ýmsum spurningum um aðgengi að og öryggi fólks á Kirkjufelli.

  Lagt til að bæjarstjóri verði fulltrúi bæjarstjórnar í samráðshópnum. Skipulagsfulltrúi komi að vinnunni eftir þörfum.

  Samþykkt samhljóða.
 • Bæjarráð - 598 Lagðir fram til kynningar minnispunktar um sérsöfnun úrgangs í Snæfellsbæ og Grundarfjarðarbæ eftir spjallfund bæjarstjóra beggja sveitarfélaga með Stefáni Gíslasyni umhverfisráðgjafa Environice, þann 30. nóvember sl.

  Bæjarstjóra veitt umboð til að vinna áfram í málinu.

  Samþykkt samhljóða.

 • Greinargerð frá Guðmundi Jónssyni, um framtíðarskíðasvæði. Bæjarráð - 598 Lögð fram til kynningar greinargerð frá Guðmundi Jónssyni um framtíðarskíðasvæði, dags. 29. nóvember sl. en Guðmundur fór ásamt nafna sínum Pálssyni frá stjórn Skíðasvæðis Snæfellsness til að skoða mögulegt framtíðarskíðasvæði ofan núverandi svæðis.

  Bæjarráð þakkar fyrir góða greinargerð.

  Bæjarráð vísar greinargerð Guðmundar til íþrótta- og tómstundanefndar og skipulagsnefndar/skipulagsfulltrúa, til skoðunar.
  Bæjarstjóri hefur þegar sent greinargerðina til stjórnar Skíðasvæðis Snæfellsness.

 • Bæjarráð - 598 Lagður fram til kynningar tölvupóstur Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. nóvember sl., um ýmis mál, m.a. undirbúning Grænbókar (drög) í málaflokki sveitarstjónarmála.

  Grænbókin byggir á stefnumótun stjórnvalda, upplýsingum frá hagsmunaaðilum og víðtæku samráði innanríkisráðuneytis við á fjórða tug sveitarfélaga.
  Frestur er til 16. desember nk. til að veita umsögn um drögin.

 • Bæjarráð - 598 Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Leigufélaginu Bríet, dags. 30. nóvember sl.
  Fram kemur að félagið tók ákvörðun um lækkun á leigu í desember 2022 og 4% lækkun á leigu árið 2023.

  Bæjarráð fagnar ákvörðun Bríetar.
 • Bæjarráð - 598 Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá nefndasviði Alþingis, dags 28. nóvember sl., um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 (gjaldstofn fasteignaskatts), 63. mál. Frestur til að veita umsögn er til og með 12. desember nk.
 • Bæjarráð - 598 Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá nefndasviði Alþingis, dags 24. nóvember sl., um tillögur til þingsályktunar um kaup á nýrri Breiðafjarðarferju, 56. mál. Frestur til að veita umsögn er til og með 8. desember nk.
 • Bæjarráð - 598 Lagt fram til kynningar minnisblað frá netfundi um stöðu innleiðingar farsældarlaganna hjá Barna- og fjölskyldustofu. Fundurinn var haldinn þann 17. nóvember sl.
  Næsti fundur verður haldinn 15. desember nk.

 • Bæjarráð - 598 Lagt fram til kynningar ársuppgjör Sjómannadagsráðs Grundarfjarðar vegna ársins 2021.
 • Bæjarráð - 598 Lagt fram til kynningar ársuppgjör Handverkshóps eldri borgara vegna ársins 2021.
 • Bæjarráð - 598 Lagður fram til kynningar ársreikningur Skotfélags Snæfellsness vegna ársins 2021.

4.Skipulags- og umhverfisnefnd - 243

Málsnúmer 2211004FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 243. fundar skipulags- og umhverfisnefndar.
 • Markmið vinnufundarins er að rifja upp ferli málsins, fara yfir framkomin gögn og undirbúa afgreiðslu á svörum við umsögnum og athugasemdum sem bárust á auglýsingatíma deiliskipulagstillögunnar skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  Eftirfarandi gögn voru lögð fyrir fundinn, alls 55 skjöl:

  -Deiliskipulagstillaga fyrir hótel í landi Skerðingstaða (dags. 2. júní 2022) ásamt eftirfarandi fylgskjölum:
  -Greinargerð með deiliskipulagi
  -Umhverfis og framkvæmdarskýrsla
  -Skýrsla um neysluvatn og fráveitulausnir
  -Rannsóknir á Lárvaðli
  -Ásýndarstúdía
  -Fornleifaskráning
  -Skýrsla um gróður og fuglalíf

  Eftirfarandi gögn voru einnig lögð fram:
  -Svör landeigenda við athugasemdum vegna skipulagslýsingar 2019.
  -Allar umsagnir og athugasemdir sem bárust á auglýsingatíma tillögunnar 20.07.-15.09.2022 og samantekt skipulagsfulltrúa um þær.
  -Tillaga skipulagsfulltrúa að svörum við umsögnum og athugasemdum vegna auglýsingar tillögunnar 2022 (drög, vinnuskjal).
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 243 Farið var yfir allar athugasemdir, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum deiliskipulagstillögunnar, sbr. framlagða samantekt skipulagsfulltrúa. Drög að svörum við hverja athugasemd rædd.

  Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar bæjarfulltrúum og Ívari Pálssyni hrl. fyrir komuna á vinnufundinn.

  Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa að vinna áfram drög að svörum við athugasemdum í samræmi við umræður og tillögur fundarins og leggja fullmótuð drög fyrir fund nefndarinnar.

5.Skipulags- og umhverfisnefnd - 244

Málsnúmer 2212001FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 244. fundar skipulags- og umhverfisnefndar.
 • Vélsmiðja Grundarfjarðar leggur fram umsókn um byggingarleyfi vegna viðbyggingar við Ártún 3. Um er að ræða seinni hluta viðbyggingar, en fyrri hlutinn var byggður vorið 2020.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 244 Framlögð gögn eru í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir lóðina, að undanskildu misræmi í upplýsingum um nýtingarhlutfall á teikningunni sjálfri.

  Skipulags- og umhverfisnefnd felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi með fyrirvara um að nýtingarhlutfall á lóðinni sé í samræmi við gildandi deiliskipulag (hámark 0,32) og að öllum skilyrðum 2.4.4. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 m.s.br. uppfylltum.

  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
 • Leiguþjónustan ehf. sækir um lóðina Grundargötu 82 til byggingar parhúss.

  Lóðin er á ódeiliskipulögðu svæði sem í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 er skilgreint sem íbúðarsvæði (ÍB-4). Í skipulagsskilmálum fyrir ÍB-4 segir að "[heimilt sé] að byggja íbúðarhús sem falla vel að þeirri byggð sem fyrir er s.s. hvað varðar hæð húsa."

  Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir jafnframt að "Þegar sótt [sé] um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn [...] ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Þegar um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr."
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 244 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að úthluta lóðinni við Grundargötu 82 til Leiguþjónustunnar ehf. sbr. samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði og skilmála um afslátt af gatnagerðargjöldum. Lóðinni er úthlutað með fyrirvara um að umboð eigenda Leiguþjónustunnar ehf. vegna undirritunar umsóknar berist.

  Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir jafnframt fyrir sitt leyti að byggingaráform verði grenndarkynnt þegar þau liggja fyrir skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin leggur áherslu á að fyrirhuguð bygging verði hönnuð með hliðsjón af byggðarmynstri, götumynd og þéttleika byggðar m.a. hvað varðar byggingarlínu við götu, hæð húsa og aðkomu úr botnlanga.

  Nefndin samþykkir að grenndarkynnt verði fyrir lóðarhöfum eftirfarandi fasteigna: Grundargötu 65, 67, 69, 76, 78, 80, 84 og 86.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og úthlutun lóðarinnar.
 • Leiguþjónustan ehf. sækir um lóðina við Grundargötu 90 til byggingar á parhúsi.

  Lóðin er á ódeiliskipulögðu svæði sem í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 er skilgreint sem íbúðarsvæði (ÍB-4). Í skipulagsskilmálum fyrir ÍB-4 segir að "[heimilt sé] að byggja íbúðarhús sem falla vel að þeirri byggð sem fyrir er s.s. hvað varðar hæð húsa."

  Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir jafnframt að "Þegar sótt [sé] um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn [...] ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Þegar um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr."
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 244 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að úthluta lóðinni við Grundargötu 90 til Leiguþjónustunnar ehf. til íbúðarbyggingar, sbr. samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði og skilmála um afslátt af gatnagerðargjöldum. Lóðinni er úthlutað með fyrirvara um að umboð eigenda Leiguþjónustunnar ehf. vegna undirritunar umsóknar berist.

  Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir jafnframt fyrir sitt leyti að byggingaráform verði grenndarkynnt þegar þau liggja fyrir skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin leggur áherslu á að fyrirhuguð bygging verði hönnuð með hliðsjón af byggðarmynstri, götumynd og þéttleika byggðar m.a. hvað varðar byggingarlínu við götu, hæð húsa og aðkomu úr botnlanga.

  Nefndin samþykkir að grenndarkynnt verði fyrir lóðarhöfum eftirfarandi fasteigna: Grundargötu 69, 84, 86, 88, 92 og 94.
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og úthlutun lóðarinnar.

  Til máls tóku JÓK, DM og LÁB.
 • Leiguþjónustan ehf. sækir um lóðina Ölkelduveg 17 til byggingar parhúss.

  Lóðin er á deiliskipulögðu svæði (Ölkeldudalur 2003 m.s.br.). Samkvæmt gildandi deiliskipulagsskilmálum fyrir lóðina, takmarkast uppbygging við byggingu 1-2 hæða einbýlishúss.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 244 Skipulags- og umhverfisnefnd hafnar umsókn Leiguþjónustunnar ehf. um lóðina við Ölkelduveg 17 til byggingar parhúss, þar sem deiliskipulag svæðisins gerir ráð fyrir einbýlishúsi á 1-2 hæðum.

  Hafi umsækjandi áhuga á að byggja einbýlishús á lóðinni samþykkir nefndin fyrir sitt leyti slíka úthlutun lóðarinnar, sbr. samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði og skilmála um afslátt af gatnagerðargjöldum.

  Samþykkt með fyrirvara um að umboð eigenda Leiguþjónustunnar ehf. vegna undirritunar umsóknar berist.

  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
 • Leiguþjónustan ehf. sækir um lóðina Ölkelduveg 19 til byggingar parhúss.

  Lóðin er á deiliskipulögðu svæði - Deiliskipulag Ölkeldudals frá 2003 m.s.br. Samkvæmt gildandi deiliskipulagsskilmálum takmarkast uppbygging á lóðinni við byggingu 1-2 hæða einbýlishúss.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 244 Skipulags- og umhverfisnefnd hafnar umsókn Leiguþjónustunnar ehf. um lóðina við Ölkelduveg 19 til byggingar parhúss, þar sem deiliskipulag svæðisins gerir ráð fyrir einbýlishúsi á 1-2 hæðum.

  Hafi umsækjandi áhuga á að byggja einbýlishús á lóðinni samþykkir nefndin fyrir sitt leyti slíka úthlutun lóðarinnar, sbr. samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði og skilmála um afslátt af gatnagerðargjöldum.

  Samþykkt með fyrirvara um að umboð eigenda Leiguþjónustunnar ehf. vegna undirritunar umsóknar berist.

  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.

  Til máls tóku JÓK, DM og SG.
 • Leiguþjónustan ehf. óskar eftir að gerð verði breyting á gildandi deiliskipulagi fyrir Ölkeldudal vegna lóðanna við Ölkelduveg 17 og 19.

  Í gildandi deiliskipulagi Ölkeldudals eru lóðirnar skilgreindar sem einbýlishúsalóðir á 1-2 hæðum. Óskað er eftir að breyta þeim í parhúsalóðir.

  Skipulags- og umhverfisnefnd - 244 Skipulags- og umhverfisnefnd tekur jákvætt í fyrirspurn umsækjanda og felur umhverfis- og skipulagssviði að fylgja málinu eftir og skoða nánar forsendur fyrirspurnarinnar og mögulegar útfærslur.

  Er það mat nefndarinnar að breyting úr einbýlishúsalóð(um) í parhúsalóð(ir) kalli á meðferð skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 (veruleg deiliskipulagsbreyting).
  Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
 • Lagður er aftur fram til kynningar uppfærð breytingartillaga með minniháttar lagfæringum er varða Fellasneið 5 og 7.

  Forsaga:
  Á 239. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 30. ágúst sl. voru lagðar fram til kynningar umsagnir og athugasemdir sem bárust á auglýsingartíma breytingartillögunnar.

  Á 240. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 27. september sl. tók nefndin afstöðu til framkominna athugasemda og fól skipulagsfulltrúa að vinna að minniháttar breytingum til þess að koma til móts við athugasemdir sem bárust. Bæjarstjórn staðfesti á 264. fundi sínum þann 20. október sl. afgreiðslu nefndarinnar, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  Á 242. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 15. nóvember sl. samþykkti nefndin uppfærða deiliskipulagsbreytingu með minniháttar lagfæringum. Á 265. fundi sínum þann 24. nóvember sl. staðfesti bæjarstjórn tillögu að minniháttar breytingum að undanskilinni einni óbókaðri minniháttar breytingu á lóðum við Fellasneið 5 og 7, en skipulagsfulltrúi gerði bæjarstjórn grein fyrir því atriði á fundi bæjarstjórnar.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 244 Skipulagsfulltrúi kynnti fyrir nefndinni ástæður þess að ein minniháttar breyting sem nefndin hafði lagt til er varðar lóðir nr. 5 og 7 við Fellasneið var felld út á fundi bæjarstjórnar þann 24. nóvember sl. en bæjarstjórn taldi breytinguna ekki þjóna hagsmunum núverandi lóðarhöfum við götuna.

  Deiliskipulagsbreytingin, með þeim minniháttar breytingum sem gerðar hafa verið til þess að koma til móts við athugasemdir sem bárust á auglýsingartímanum, fer nú til yfirferðar Skipulagsstofnunar skv. 1. mgr 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samtímis verður uppfærð tillaga birt á vefsíðu sveitarfélagsins og þeim sem gert höfðu athugasemdir tilkynnt um það.

  Eftir yfirferð Skipulagsstofnunar tekur skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Tilkynning um gildistökuna verður send til þeirra sem gerðu athugasemdir við tillöguna ásamt upplýsingum um kærufrest, sem er 1 mánuður eftir gildistöku.
  Bókun fundar Bæjarstjórn hafði á 265. fundi sínum samþykkt afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og staðfest framlagðan deiliskipulagsuppdrátt með minniháttar lagfæringum.

  Til máls tóku JÓK og DM.
 • Lögð eru fram til umræðu drög að deiliskipulagsbreytingu á athafna- og iðnaðarsvæðinu vestan Kvernár.

  Forsaga:
  Í gildi er deiliskipulag frá 1999 með síðari breytingum frá 2008 (Ártún 1, 2, 3 og 5), 2015 (Ártún 1), 2021 (Ártún 3) og 2022 (Ártún 4 - tekur gildi í desember 2022).

  Á 263. fundi sínum þann 13. september sl. samþykkti bæjarstjórn að hefja vinnu við endurskoðun deiliskipulags fyrir iðnaðar- og athafnasvæðið vestan Kvernár á grunni verk- og kostnaðaráætlunar ráðgjafarfyrirtækisins Alta.

  Á 242. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 15. nóvember sl. kynntu skipulagsráðgjafar frá Alta stöðuna í verkefninu sem er þrískipt og felst í óverulegri deiliskipulagsbreytingu vegna Ártúns 4 (tekur gildi í desember 2022), verulegri breytingu vegna metralóða við Hjallatún og breytingu á heildarskipulagi svæðisins.

  Deiliskipulagsbreyting þessi tekur til þess hluta skipulagssvæðisins sem í dag er að mestu byggður. Markmiðið með deiliskipulagsbreytingunni er að auka nýtingu á svæðinu með því að hliðra til lóðarmörkum, breyta hluta metralóða við Hjallatún í 1-2 lóðir, bæta við lóð við Ártún 8, laga göturnar Ártún og Hjallatún betur að raunnotkun og að finna hentuga staðsetningu fyrir útivistarstíg í gegnum eða framhjá iðnaðarsvæðinu.

  Skipulags- og umhverfisnefnd - 244 Skipulagsfulltrúi fór yfir framlögð drög að tillögu vegna breytingar á deiliskipulagi iðnaðar- og athafnasvæðis vestan Kvernár.

  Nefndinni líst vel á framlögð drög og felur skipulagsfulltrúa að vinna áfram með skipulagsráðgjöfum að mótun tillögunnar.

  Göngustígur er til áframhaldandi skoðunar og telur nefndin að huga þurfi sérstaklega að leiðbeinandi legu útivistarstígs meðfram Kverná austan við deiliskipulagssvæðið.
 • Lögð fram til kynningar greinargerð Guðmundar Jónssonar frá 29. nóvember sl. um framtíðarskíðasvæði ofan við núverandi skíðasvæði en hann og Guðmundur Pálsson frá stjórn Skíðasvæðis Snæfellsness skoðuðu svæðið í haust.

  Forsaga:
  Greinargerðin var tekin fyrir á 598. fundi bæjarráðs þann 7. desember sl. og vísaði bæjarráð erindinu til kynningar hjá íþrótta- og tómstundanefnd og skipulags- og umhverfisnefnd. Bæjarstjóri hefur einnig sent greinargerðina til stjórnar Skíðasvæðis Snæfellsness.

  Stefnt er að fundi fulltrúa bæjarins og Skíðadeildar/Skíðasvæðis í janúar um erindi skv. máli nr. 2211011.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 244 Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar fyrir greinargerðina og líst vel á að fyrirhugað framtíarskíðasvæði ofan byggðar verði skoðað heildstætt og með hliðsjón af fjölbreytileika í mögulegri nýtingu svæðisins og búnaðar og fyrirhugaðri landnotkun aðliggjandi svæða skv. aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019-2039 þ.m.t. frístundahúsabyggð og skógrækt ofan byggðar.
 • Lagður fram til kynningar tölvupóstur með erindi frá eigendum jarðanna Búða, Háls og Kirkjufells með ósk um að Grundarfjarðarbær skipi fulltrúa í samráðshóp landeigenda og hagsmunaaðila. Hópurinn hafi það hlutverk að svara ýmsum spurningum um aðgengi að og öryggi fólks á Kirkjufelli.

  Forsaga:
  Á 598. fundi bæjarráðs 7. desember sl. samþykkt bæjarráð að tilnefna bæjarstjóra sem fulltrúa bæjarstjórnar í samráðshópinn og að skipulagsfulltrúi komi að vinnunni eftir þörfum.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 244 Skipulagsfulltrúi gerði grein fyrir aðdraganda erindisins. Hún sagði frá mótaðri skiltastefnu Grundarfjarðarbæjar og áformum um uppsetningu skilta á næstunni, sem m.a. eru viðvörunarskilti um hættur tengdar Kirkjufelli.
 • Skipulagsfulltrúi sagði frá kynningum nemenda í landslagsarkitektúr við Landbúnaðarháskóla Íslands sem fram fóru 7. desember sl. í Samkomuhúsinu í Grundarfirði. Nemendur unnu hönnunarverkefni sem öll höfðu Grundarfjörð sem viðfangsefni. Kynningarnar verða gerðar nefndarfólki aðgengilegar í fundarkerfi. Skipulags- og umhverfisnefnd - 244 Bókun fundar Bæjarstjórn þakkar nemendum, kennurum og Landbúnaðarháskólanum fyrir að taka Grundarfjörð fyrir sem viðfang verkefna.
 • Byggingarfulltrúi og skipulagsfulltrúi gerðu grein fyrir stöðu ýmissa mála sem eru í vinnslu hjá sviðinu.

  Minnt var á að opið hús er á morgun, 13. desember, til kynningar á skipulagslýsingu fyrir deiliskipulag hafnarsvæðis og Framness.
  Skipulags- og umhverfisnefnd - 244

6.Skólanefnd - 167

Málsnúmer 2211008FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 167. fundar skólanefndar.
 • Gestir fundarins voru boðnir velkomnir.
  Skólanefnd - 167 Ingibjörg leikskólastjóri sagði frá því hvað væri brýnast í leikskólastarfinu núna. Ingibjörg, Gunnþór og Erla sögðu ennfremur frá vinnu við markvissa uppbyggingu á innra starfi í leikskólanum, en sl. vor byrjaði skólinn að innleiða gæðaviðmið um leikskólastarf. Gæðaviðmið eru eins konar uppskrift að góðu leikskólastarfi sem hver skóli gerir að sínum. Gæðaráð hefur verið skipað, en í því sitja m.a. fulltrúar foreldra og starfsfólks. Gæðaráð kemur m.a. að innra mati á leikskólastarfi.

  Rætt var sérstaklega um inntöku nýrra barna á fyrri hluta næsta árs. Ingibjörg leikskólastjóri sagði frá því að sótt hefur verið um leikskóladvöl fyrir um 10-12 börn sem verða eins árs, á vorönn 2023. Þar er um að ræða umtalsverða fjölgun barna á þessum aldri.
  Rætt var um aðstöðu, mönnun og fyrirkomulag til að mæta þessum umsóknum og fóru Ingibjörg og Gunnþór yfir þær viðræður sem átt hafa sér stað undanfarið milli skólastjórnenda um leiðir í þessum efnum. Bæjarstjóri sagði frá skoðun á aðstöðumálum og kostnaði.

  Skólanefnd lýsir yfir stuðningi við áframhaldandi vinnu sem miðar að því að geta tekið sem flest eins árs börn inn, í samræmi við óskir foreldra.

  Bæjarstjóri sagði frá því að unnið er að breytingum í eldhúsmálum/mötuneyti leikskólans.

  Bókun fundar Til máls tóku JÓK, DM, LÁB og ÁE.
 • Lagt fram erindi foreldraráðs Leikskólans Sólvalla í bréfi dags. 16. nóvember sl. varðandi starfsemi og aðstæður leikskólans.
  Skólanefnd - 167 Rætt um hlutverk foreldraráða, en þau skulu starfa við alla leik-, grunn- og framhaldsskóla. Foreldraráð leikskóla starfar skv. 11. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008.

  Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans, fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi.

  Framlagt bréf nýs foreldraráðs var yfirfarið og efni þess rætt.

  Skólanefnd þakkar foreldraráði fyrir erindið og fyrir áhuga ráðsins á því að "starfa á faglegum nótum með það að markmiði að styðja vel við bakið á leikskólanum", eins og fram kemur í erindinu.

  Bæjarstjóra var falið að svara erindinu í samræmi við umræður fundarins.

  Bókun fundar Til máls tóku JÓK, LÁB og BÁ.
 • Bæjarstjóri kynnti tillögu að fjárfestingaáætlun 2023 fyrir þær stofnanir sem undir skólanefnd heyra, þ.e. húsnæði og lóðir leikskóla og grunnskóla, auk íþróttahúss. Hún kynnti einnig að fjármunir væru áætlaðir í vinnu við endurskoðun skólastefnu/setningu nýrrar menntastefnu, en vinna við hana hefst á nýju ári.

  Fjárhagsáætlun verður afgreidd við 2. umræðu í bæjarstjórn á morgun, 15. desember.

  Skólanefnd - 167
 • Lagt fram til kynningar bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 18. október 2022 um úthlutun úr Námsgagnasjóði fyrir skólaárið 2022-2023.

  Námsgagnasjóður hefur það hlutverk að leggja grunnskólum til fé til námsgagnakaupa´og miðast greiðsla fyrir hvern grunnskóla við fjölda skráðra nemenda. Verja skal úthlutuðum fjármunum til kaupa á námsgögnum frá lögaðilum öðrum en Menntamálastofnun og skulu námsgögnin samrýmast markmiðum aðalnámskrár grunnskóla.

  Árið 2022 hefur Námsgagnasjóður 72,5 millj. kr. til ráðstöfunar og Grundarfjarðarbær fær 156.000 kr. fyrir yfirstandandi skólaár.
  Skólanefnd - 167

7.Fjárhagsáætlun 2022 - viðauki 2

Málsnúmer 2108010Vakta málsnúmer

Lagður fram og kynntur viðauki við fjárhagsáætlun ársins 2022. Gert er ráð fyrir hækkun skatttekna og framlaga Jöfnunarsjóðs og hærri tekna Grundarfjarðarhafnar á móti auknum fjármagnsgjöldum vegna hárrar verðbólgu. Auk þess er áætlun Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga bætt við viðaukann skv. nýlegri breytingu á sveitarstjórnarlögum. Gert er ráð fyrir lægri lántöku en gert hafði verið ráð fyrir í upphaflegri áætlun, sem leiðir til þess að lækkun á handbæru fé nemur 49,9 millj. kr. Gert er ráð fyrir 5,5 millj. kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Allir tóku til máls.

Viðauki 2 við fjárhagsáætlun 2022 samþykktur samhljóða.

8.Fjárhagsáætlun 2023 - síðari umræða

Málsnúmer 2209022Vakta málsnúmer

Haraldur Líndal Haraldsson, ráðgjafi, sat fundinn undir hluta af þessum lið, en hann tók út rekstur sveitarfélagsins og starfsemi árin 2012 og 2020. Hann fór yfir helstu kennitölur um fjárhag bæjarins og þróun þeirra með bæjarfulltrúum.

Lögð fram og kynnt til síðari umræðu fjárhagsáætlun ársins 2023, listi yfir helstu kennitölur, samanburður milli fjárhagsáætlunar 2022 og 2023 og útlistun á breytingum sem gerðar hafa verið milli umræðna. Jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2024-2026.

Bætt hefur verið inn í A-hluta áætlunarinnar byggðasamlögum, í samræmi við eignarhluta Grundarfjarðarbæjar í þeim.

Skv. rekstraryfirliti fjárhagsáætlunar 2023 fyrir A- og B-hluta eru heildartekjur áætlaðar 1.514,1 millj. kr. Áætlaður launakostnaður er 828,8 millj. kr., önnur rekstrargjöld 472,4 millj. kr. og afskriftir 73,0 millj. kr. Fyrir fjármagnsliði er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma verði 139,8 millj. kr. Gert er ráð fyrir 125,0 millj. kr. fjármagnsgjöldum. Áætlun 2023 gerir ráð fyrir 14,8 millj. kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu.

Skv. sjóðsstreymisyfirliti áætlunarinnar er veltufé frá rekstri 181,1 millj. kr. þegar leiðrétt hefur verið fyrir afskriftum og áföllnum en ógreiddum verðbótum og gengismun, auk annarra breytinga á skuldbindingum. Þessi fjárhæð nýtist síðan til afborgana lána og nauðsynlegra fjárfestinga sem brýnt er að ráðast í á árinu 2023. Ráðgert er að fjárfestingar verði 224,4 millj. kr., afborganir lána 172,7 millj. kr. og að tekin verði ný lán að fjárhæð 200 millj. kr. Miðað við þær forsendur er gengið á handbært fé um 11,2 millj. kr. Handbært fé í árslok ársins 2023 er því áætlað 45,5 millj. kr. gangi fjárhagsáætlun ársins 2023 fram eins og ráðgert er.

Allir tóku til máls.

Fjárhagsáætlun 2023 og þriggja ára áætlun 2024-2026 samþykkt samhljóða.

Gestir

 • Haraldur Líndal Haraldsson, rekstrarráðgjafi - mæting: 17:15

9.Samband íslenskra sveitarfélaga - Umdæmisráð barnaverndar á landsbyggðinni

Málsnúmer 2209009Vakta málsnúmer

Lagður fram samningur sem bæjarstjóri hafði fengið umboð til að undirbúa og ganga frá f.h. bæjarins í sept. sl. Samningurinn kom til samþykktar í liðinni viku, en þá í nokkuð breyttri mynd. Fyrir liggja nú tveir valkostir um samningsleiðir.

Til máls tóku JÓK, BÁ og ÁE.

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að ganga frá samningi fyrir hönd bæjarins, hvort sem valin verði leið 1 eða leið 2.

Samþykkt samhljóða.

10.Samband íslenskra sveitarfélaga - Breytingar í barndaverndarþjónustu sveitarfélaga

11.Almenningssamgöngur og skólaakstur á Snæfellsnesi

Málsnúmer 2212024Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar vinnugögn sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa látið vinna fyrir sveitarfélögin á Snæfellsnesi, um möguleika á að samtvinna almenningssamgöngur og skólaakstur á Snæfellsnesi. Málið er áfram til skoðunar.
Í tölvupósti SSV segir að framkvæmdastjóri SSV og ráðgjafi frá VSÓ hafi átt fundi með fulltrúa Vegagerðarinnar varðandi almenningssamgöngur á Snæfellsnesi.

Verið er að skoða það sem heitir í samantekt VSÓ tillaga 1 með breytingu og viðbótarakstri en sú tillaga hafði mestan hljómgrunn meðal fulltrúa sveitarfélaganna á Snæfellsnesi.

Bæjarstjórarnir á Snæfellsnesi fólu framkvæmdastjóra SSV að koma fram fyrir hönd sveitarfélaganna í viðræðum við Vegagerðina.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða það fyrirkomulag.

12.Félagsmálanefnd Snæfellinga - Fundargerð 201. fundar

Málsnúmer 2212011Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 201. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga sem haldinn var 29. nóvember sl.

13.FSS - Fundargerðir 124. og 125. funda

Málsnúmer 2212027Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir 124. og 125. fundar stjórnar Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga sem haldnir voru 7. desember 2021 og 10. febrúar 2022.

14.Breiðafjarðarnefnd - Fundargerðir

Málsnúmer 2101034Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir 208. og 209. fundar Breiðafjarðarnefndar sem haldnir voru þann 25. október og 22. nóvember sl.

15.SSV - Fundur bæjar- og sveitastjóra á Vesturlandi

Málsnúmer 2212001Vakta málsnúmer

Lagðir fram til kynningar minnispunktar um ýmis mál sem tekin voru fyrir og rædd á sameiginlegum samstarfsfundi framkvæmdastjóra sveitarfélaga á Snæfellsnesi þann 14. nóvember sl.

16.Samband íslenskra sveitarfélaga - Stefnumörkun sambandsins 2022-2026

Málsnúmer 2212010Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar samantekt á stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir árin 2022-2026.

17.Samband íslenskra sveitarfélaga - Fundur um símenntun starfsfólks sveitarfélaga

Málsnúmer 2211025Vakta málsnúmer

Lögð fram gögn, m.a. kynningar fræðsluaðila, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um fund sem haldinn var 2. nóvember sl. um símenntun starfsfólks sveitarfélaga.

18.Samband íslenskra sveitarfélaga - Fundargerð 915

Málsnúmer 2212012Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 915. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 25. nóvember sl.

19.Matvælaráðuneytið - Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2022-2023

Málsnúmer 2212025Vakta málsnúmer

Lagðar fram leiðbeiningar vegna samantektar og afgreiðslu á tillögum sveitarstjórna um sérstök skilyrði (sérreglur) vegna byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2022/2023.

20.Byggðastofnun - Opnað fyrir umsóknir um framlög til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða

Málsnúmer 2212026Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar frétt á vef Byggðastofnunar um að innviðaráðherra auglýsi eftir umsóknum um framlög sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036 vegna verkefna sem tengjast aðgerð C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 19:59.