284. fundur 11. apríl 2024 kl. 16:30 - 20:18 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
  • Pálmi Jóhannsson (PJ)
    Aðalmaður: Garðar Svansson (GS)
  • Ágústa Einarsdóttir (ÁE)
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
  • Davíð Magnússon (DM)
    Aðalmaður: Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
  • Loftur Árni Björgvinsson (LÁB)
  • Sigurður Gísli Guðjónsson (SGG)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Minnispunktar bæjarstjóra frá 2022

Málsnúmer 2205020Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir minnispunkta sína, sbr. framlagt skjal.

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu 2022-2026

Málsnúmer 2205021Vakta málsnúmer

Í samræmi við ákvörðun bæjarráðs voru skipaðir fjórir fulltrúar bæjarstjórnar til að ræða við stjórn Golfklúbbsins Vestarrs, sbr. beiðni þeirra. Fulltrúar bæjarins eru Sigurður Gísli Guðjónsson, Loftur Árni Björgvinsson, Jósef Ó. Kjartansson og Pálmi Jóhannsson.

SGG sagði frá fundum fulltrúa bæjarstjórnar og fulltrúa Golfklúbbsins, en þau hafa hist tvisvar. Mál í vinnslu.

Forseti óskaði eftir afstöðu bæjarfulltrúa um að senda fulltrúa bæjarins í heimsókn til vinabæjarins í Paimpol í Frakklandi í október nk. Reifuð tillaga um fjölda þeirra sem fara af hálfu bæjarins.

Forseti ræddi um stöðu upplýsingamiðstöðvar og rekstur hennar á komandi sumri.
Aðeins barst ein umsókn um starf í upplýsingamiðstöð ferðamanna fyrir sumarið, skv. upplýsingum bæjarstjóra. Erfiðlega hefur gengið að manna upplýsingamiðstöð síðustu sumur og umfangið aukist umtalsvert.

Ekki er lagaskylda að reka svona starfsemi, en engu að síður hefur þessi þjónusta verið til staðar lengi og ekki áform að sinni um að hætta því. Höfnin og gestir skemmtiferðaskipa stóla ekki síst á þessa þjónustu og höfnin greiðir hluta rekstrarkostnaðar.

Forseti leggur til að auglýst verði eftir áhugasömum rekstraraðilum (þjónustuaðila í bænum) til að reka upplýsingamiðstöðina fyrir hönd bæjarins, til reynslu í sumar, með ákveðnum skilyrðum, s.s. um rými, aðstöðu og aðgengi, starfsmannafjölda og færni starfsmanna, s.s.tungumálakunnáttu.

Samþykkt samhljóða.

3.Bæjarráð - 618

Málsnúmer 2403005FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 618. fundar bæjarráðs.
  • Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.
    Bæjarráð - 618
  • 3.2 2402013 Greitt útsvar 2024
    Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-febrúar 2024. Bæjarráð - 618 Samkvæmt yfirlitinu hefur greitt útsvar hækkað um 3,8% miðað við sama tímabil í fyrra.
  • Eftir yfirferð og úrvinnslu tilboða í útboði sorpþjónustu hjá Grundarfjarðarbæ og Snæfellsbæ í desember/janúar sl. var öllum tilboðum hafnað, sbr. fund bæjarstjórnar 16. febrúar sl.

    Nýtt hraðútboð var sett af stað, þar sem sama útboð var endurtekið með örlítið breyttum forsendum og styttri útboðsfresti en í fyrra skiptið. Möguleiki var gefinn á að samið yrði við sitthvorn bjóðandann í sveitarfélögunum tveimur.

    Þann 15. mars sl. voru tilboð opnuð í hraðútboðinu og er opnunarskýrsla Ríkiskaupa nú lögð fram. Ríkiskaup munu á næstu dögum senda út val tilboðs þar sem tilkynnt er að til standi að taka tilgreindum tilboðum og er það undanfari samningsgerðar.
    Bæjarráð - 618 Bæjarstjóri fór yfir niðurstöðutölur í tilboðunum.

    Lagt til að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda í sorpþjónustu í Grundarfirði og að bæjarstjóra verði falið að ganga frá samningi að loknu útboðsferli Ríkiskaupa.

    Bæjarráð samþykkir að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda og felur bæjarstjóra að ganga frá samningi.

    Samþykkt samhljóða.
  • Lögð fram húsnæðisáætlun 2024 til samþykktar, en bæjarstjórn veitti bæjarráði umboð til að afgreiða áætlunina.
    Bæjarráð - 618 Fyrirliggjandi húsnæðisáætlun 2024 samþykkt samhljóða.
  • Íbúð að Hrannarstíg 36 hefur verið innleyst.

    Í skoðun er rekstur íbúða fyrir eldri borgara og ætlunin að leggja fyrir bæjarráð, í apríl, uppgjör vegna ársins 2023 og nýjan samanburð við rekstur leiguíbúða hjá nágrannasveitarfélögum. Þegar gögnin liggja fyrir mun bæjarráð taka afstöðu til þess hvernig bregðast eigi við taprekstri af íbúðunum.

    Þar til slík niðurstöður liggja fyrir er lagt til að hin innleysta íbúð verði ekki auglýst til úthlutunar.
    Bæjarráð - 618 Bæjarráð samþykkir að bíða með að auglýsa íbúðina til úthlutunar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Þann 13. mars kynntu fulltrúar Póstsins breytingar á afgreiðslu sinni í Grundarfirði á fjarfundi með fulltrúum bæjarins.

    Lögð fram ýmis gögn og ósk Byggðstofnunar um umsögn bæjarins vegna boðaðra breytinga Íslandspósts á póstafgreiðslu í Grundarfirði.
    Bæjarráð - 618 Bæjarráð hefur ýmsar spurningar um þessi áform og óskar eftir öðrum fundi með fulltrúum Póstsins áður en erindi Byggðastofnunar verður svarað.

    Samþykkt samhljóða.
  • 3.7 2401018 Framkvæmdir 2024
    Lögð fram tilboð sem aflað var í gjaldhlið fyrir salerni í samkomuhúsi.

    Bæjarráð - 618 Farið yfir tilboðin.

    Bæjarráð telur mikla þörf á að almenningssalerni séu opin í þéttbýli Grundarfjarðar, með góðu aðgengi og góðum opnunartíma. Þar sem slík aðstaða er ekki rekin í Grundarfirði hefur bærinn undanfarin ár tekið salernisaðstöðu samkomuhússins í slík not.

    Á meðan notast er við þá lausn og að fenginni reynslu, telur bæjarráð brýnt að viðhafa gjaldtöku fyrir afnot af salernunum.

    Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga frá kaupum á gjaldhliði í samkomuhúsi í samræmi við umræður á fundinum.

    Samþykkt samhljóða.
  • Lögð fram nálgun vegna endurskoðunar á gjaldskrám í tengslum við kjaraviðræður 2024.
    Bæjarráð - 618 Bæjarráð fagnar því að kjarasamningar til fjögurra ára hafi náðst á almennum vinnumarkaði og mun Grundarfjarðarbær taka þátt í þeim aðgerðum sem lagðar eru til í yfirlýsingu ríkistjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mikilvægt er að náðst hafi niðurstaða um hóflega hækkun launa á móti aðgerðum ríkis og sveitarfélaga.

    Það er von bæjarráðs að samningar á opinberum markaði, sem hafa mest áhrif á launaútgjöld sveitarfélaga, verði sambærilegir við þegar gerða samninga, svo aðgerðir sveitarfélaga við lækkun gjaldskráa skili sér sem best til íbúa og hafi raunveruleg áhrif á verðbólgu og vexti til lengri tíma.

    Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu um nálgun við endurskoðun gjaldskráa Grundarfjarðarbæjar, þar sem gjaldskrám hefur verið skipt í þrjá flokka. Gjaldskrár í flokki III, gjaldskrár fyrir grunnþjónustu sem hefur mikil áhrif á barnafjölskyldur, verði teknar til endurskoðunar samkvæmt framangreindu og síðan til afgreiðslu í bæjarstjórn.

    Bæjarstjóra og skrifstofustjóra falið að afla upplýsinga og undirbúa, í samræmi við umræður fundarins. Hvað varðar gjaldfrjálsar skólamáltíðir segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Sambandsins að sá liður verði útfærður í sameiningu fyrir lok maí 2024.

    Samþykkt samhljóða.
  • Lögð fram tvö erindi frá starfsfólki og stjórnendum Leikskólans Sólvalla um frekari styttingu vinnutíma.
    Bæjarráð - 618 Bæjarráð fór yfir bréfin.

    Í gangi er vinna við ákvæði um styttingu vinnuvikunnar á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðsemjenda þess. Ætlunin er að niðurstöður úr þeirri vinnu liggi fyrir á næstunni í tengslum við kjarasamningagerð.

    Bæjarráð vill að sú niðurstaða liggi fyrir áður en afstaða er tekin til erindanna.

    Samþykkt samhljóða.
  • Lagður fram til kynningar tölvupóstur Úrvinnslusjóðs, dags. 11. mars sl., um samþykkt stjórnar sjóðsins um hækkun á gjaldskrá sem þýðir að meira verður greitt fyrir endurvinnsluefni til sveitarfélagsins vegna aukinnar flokkunar.
    Bæjarráð - 618
  • Lagður fram til kynningar samningur bæjarins við BSI á Íslandi ehf. um aðalskoðun leiksvæða 2024-2025.

    Leiksvæðin eru fjögur; grunnskóla- og íþróttahússlóð, leikskólalóð, Þríhyrningur og Hjaltalínsholt.

    Bæjarráð - 618
  • Lagður fram til kynningar tölvupóstur nefnda- og greiningarsviðs Alþingis, dags. 15. mars sl., þar sem Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar, 125. mál. Umsagnarfrestur er til og með 2. apríl nk.
    Bæjarráð - 618
  • Lagt fram til kynningar bréf Umboðsmanns barna, dags. 18. mars sl., um hljóðvist í skólum.
    Bæjarráð - 618
  • Lögð fram kynning frá fundi landskjörstjórnar með yfirkjörstjórnum sveitarfélaga þann 8. febrúar sl.
    Bæjarráð - 618
  • Lagt fram til kynningar ársuppgjör Listvinafélags Grundarfjarðarkirkju vegna ársins 2023.
    Bæjarráð - 618
  • Lagt fram til kynningar ársuppgjör Skíðadeildar UMFG vegna ársins 2023.
    Bæjarráð - 618

4.Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa - 6

Málsnúmer 2403007FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 6. afgreiðslufundar byggingarfulltrúa.
  • Byggingarfélagið Djúpá ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir 300fm parhúsi á einni hæð á lóðinni Grundargötu 90. Undirstöður eru steinsteyptar ásamt gólfplötu en burðarvirki veggja og þaks eru úr timbri. Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa - 6 Þar sem ekki er til deiliskipulag fyrir svæðið vísar byggingarfulltrúi erindinu til skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Byggingarfélagið Djúpá ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir 300fm parhúsi á einni hæð á lóðinni Grundargötu 82. Undirstöður eru steinsteyptar ásamt gólfplötu en burðarvirki veggja og þaks eru úr timbri. Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa - 6 Þar sem ekki er til deiliskipulag fyrir svæðið vísar byggingarfulltrúi erindinu til skipulags- og umhverfisnefndar.

5.Skipulags- og umhverfisnefnd - 257

Málsnúmer 2403004FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 257. fundar skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Á miðnætti í gær, 20. mars, rann út frestur til að skila inn athugasemdum og ábendingum vegna auglýsingar um vinnslutillögu vegna breytingar aðalskipulags í tengslum við nýtt deiliskipulag iðnaðarsvæðis vestan Kvernár.

    Leitað var umsagna hjá Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, Minjastofnun Íslands, Skipulagsstofnun, Rarik, Veitum, Vegagerðinni og Mílu.

    Lagðar fram tvær umsagnir sem bárust, þ.e. frá Minjastofnun og Heilbrigðiseftirliti Vesturlands.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257 Ekki þarf að bregðast sérstaklega við með svörum til þeirra sem veittu umsagnir eða sendu inn athugasemdir, en höfð verður hliðsjón af þeim við áframhaldandi skipulagsvinnu.

    Unnið er að gerð vinnslutillögu deiliskipulagshlutans og verður hún tekin fyrir hjá nefndinni á næstunni og vinnslutillaga auglýst.
  • Á miðnætti í gær, 20. mars, rann út frestur til að skila inn athugasemdum og ábendingum vegna auglýsingar á skipulagslýsingu vegna breytingar aðalskipulags og gerð deiliskipulags fyrir Ölkeldudal.

    Sex umsagnir bárust um breytingu aðalskipulags og sjö sem snúa að breytingu deiliskipulags, í gegnum Skipulagsgáttina þar sem aðal- og deiliskipulagstillögum er stillt upp í sitthvoru lagi.

    Leitað var umsagna hjá: Minjastofnun (barst), Heilbrigðiseftirliti Vesturlands (barst í tölvupósti eftir frest), Mílu (barst), Umhverfisstofnun (barst), Slökkviliði Grundarfjarðar (barst), Skipulagsstofnun (barst), Land og Skógur (barst í tölvupósti eftir frest), Veðurstofu Íslands, Snæfellsbæ (barst), Sveitarfélaginu Stykkishólmi, Rarik, Veitum, Svæðisskipulagssnefnd Snæfellsness og Náttúrustofu Vesturlands. Landsnet var ekki umsagnaraðili en skilaði inn umsögn.

    Auk þess lögð fram samantekt skipulagsráðgjafa um efni umsagnanna.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257 Ekki þarf að bregðast sérstaklega við með svörum til þeirra sem veittu umsagnir eða sendu inn athugasemdir, en höfð verður hliðsjón af þeim við áframhaldandi skipulagsvinnu.

    Eftir umræður fundarins samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd að deiliskipulagstillagan verði sett fram fyrir allt deiliskipulagssvæði Ölkeldudals, þannig að allar eldri breytingar verði sameinaðar í eina útgáfu. Með því yrði utanumhald auðveldað og skilmálar gerðir skýrari fyrir svæðið.

    Nefndin fór yfir þær hugmyndir sem verið hafa uppi um breytingar á skipulagssvæðinu. Samþykkt samhljóða að fyrir utan umrædda breytingu með nýjum íbúðarlóðum í Paimpolgarði verði einungis gerð sú efnislega breyting á öðrum hlutum skipulagssvæðisins, að lóðin við Ölkelduveg 19 verði felld út, en að lóðin Ölkelduvegur 17 verði stækkuð og nái yfir hluta af núverandi lóð nr. 19.

    Næstu skref er auglýsing vinnslutillögu fyrir aðalskipulagshlutann og verður sú tillaga afgreidd af nefndinni á næstunni. Síðar verður vinnslutillaga vegna deiliskipulags útbúin og auglýst.

  • Á 250. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var samþykkt beiðni Grundarfjarðarbæjar um undanþágu frá gr. 5.8.4 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 með vísun í gr. 5.8.2 "vegna mögulegrar stækkunar á tæknirými með viðbyggingu við neðri hæð íþróttamiðstöðvar um samtals 10-20 m2."
    Stækkun rýmisins var hugsuð til að koma fyrir spenni vegna tengingar við nýja heimtaug í tengslum við varmaskipti skóla- og íþróttamannvirkja.

    Í afgreiðslu nefndarinnar á 250. fundi var jafnframt bókaður svohljóðandi fyrirvari:

    "Verði síðar talið nauðsynlegt að koma spenninum fyrir annarsstaðar á lóðinni, felur nefndin umhverfis- og skipulagssviði að leysa það mál með viðeigandi aðilum innan þessarar undanþáguheimildar."

    Ætlunin er að koma fyrir stakstæðu húsi, 6,5 m2 að stærð, suðaustan við íþróttahúsið og bílastæðin austan við húsið, skv. fyrirliggjandi teikningu. Grundarfjarðarbær leggur nú fram, til staðfestingar, teikningu þar sem sýnd er staðsetning húss fyrir spenninn, suðaustan við íþróttahús og neðri/austari bílastæðin.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257 Engin hús eða lóðir eru nærliggjandi þessu svæði og er hús fyrir spennistöð samkvæmt framangreindu ekki talið hafa grenndaráhrif sem þörf er á að taka í myndina.

    Skipulags- og umhverfisnefnd staðfestir fyrri afgreiðslu um undanþágu frá gr. 5.8.2 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um óverulega breytingu á deiliskipulagi með vísun í gr. 5.8.4. fyrir spennistöðvarhús með nýrri staðsetningu.

    Nefndin veitir byggingarfulltrúa jafnframt heimild til að gefa út byggingarleyfi/byggingarheimild fyrir umræddu húsi með uppsetningu spennis og aðliggjandi lögnum, að öllum skilyrðum uppfylltum, sbr. byggingarreglugerð nr. 112/2012 m.s.br., og með fyrirvara um afgreiðslu málsins í bæjarstjórn.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Fulltrúar Skíðadeildar (Skíðasvæði Snæfellsness) komu til viðræðna við bæjarráð á fundi 28. febrúar sl. Á þeim fundi var farið yfir hugmyndir þeirra um aðstöðuhús fyrir skíðasvæðið, rætt hvort og hvernig mætti nýta jarðvegsefni til fyllingar í brekkur svæðisins, um aðkomu að svæðinu og fleira.

    Í framhaldi af fundi bæjarráðs fóru skipulagsfulltrúi, íþrótta- og tómstundafulltrúi og verkstjóri áhaldahúss í vettvangsferð með fulltrúum deildarinnar og eru lagðir fram minnispunktar skipulagsfulltrúa um það samtal og auk þess uppfærðar teikningar frá Skíðasvæði Snæfellsness af aðstöðuhúsi og mögulegri staðsetningu þess.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257 Skipulagsfulltrúi og bæjarstjóri sögðu frá samtölum við fulltrúa Skíðadeildarinnar.

    Rætt var um skipulag á svæðinu, m.a. með hliðsjón af umræðu síðustu vikna um breytingar á deiliskipulagi Ölkeldudals og sunnanverðu skóla- og íþróttasvæði og áhrif á nærliggjandi svæði.

    Skipulags- og umhverfisnefnd tekur jákvætt í hugmyndir Skíðadeildar um staðsetningu aðstöðuhúss og er skipulagsfulltrúa falið að vinna áfram að málinu með fulltrúum Skíðadeildar.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Erindi áður tekið fyrir, en hefur verið til skoðunar í tengslum við heildarumræðu um skipulagsmál og um næstu skref í skipulagsvinnu sem tengist vesturhluta þéttbýlis.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257 Skipulags- og umhverfisnefnd getur ekki mælt með útleigu svæðis eða lóða úr landi Hellnafells fyrir bústaði/smáhýsi og telur að það samrýmist ekki stefnu í aðalskipulagi. Hugmyndir eru uppi um frekari íbúðabyggð vestan við vestustu húsin við Grundargötu og hefur bæjarstjórn þegar samþykkt að farið verði í skipulagsvinnu við það, þó ekki liggi ljóst fyrir hve langt verði farið til vesturs. Að auki telur nefndin að þess sé ekki langt að bíða að huga þurfi að heildarskipulagi fyrir uppbyggingu og þróun á þessu svæði.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Í gildi hefur verið endurnýjað stöðuleyfi fyrir aðstöðuhús á vegum umsækjanda í Torfabót, vegna kajakleigu sem þar er rekin. Sótt er um 13,8 m2 stækkun á þeirri aðstöðu og afmörkun 300 m2 lóðar.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257 Umrætt svæði í Torfabót er hluti af því svæði sem yfirstandandi deiliskipulagsvinna Framness tekur til.

    Skipulagsfulltrúa falið að ræða við umsækjanda um áform á svæðinu, áður en lengra er haldið.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Gögn lögð fram til kynningar og áframhaldandi úrvinnslu.

    Sagt var frá fundi sem fór fram í síðustu viku með Leifi Harðarsyni f.h. áhugamanna um fjallahjólastíga. Fundinn sátu Signý Gunnarsdóttir úr skipulags- og umhverfisnefnd, fulltrúar úr íþrótta- og tómstundanefnd og Ólafur Ólafsson íþrótta- og tómstundafulltrúi.

    Á fundinum var rætt um möguleika á gerð fjallahjólastíga ofan við þéttbýlið í Grundarfirði.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257 Skipulags- og umhverfisnefnd tekur jákvætt í að vinna með fyrirspyrjendum um því að finna hentugar leiðir fyrir hjólastíga í og við þéttbýli Grundarfjarðar.

    Skipulagsfulltrúa er falið að vinna með fyrirspyrjendum að málinu. Skoða þarf vel hvar sé heppileg staðsetning, hvernig best sé að standa að gerð stíga, hvernig merkingum og kynningu eigi að hátta og hvert fyrirkomulag yrði við endurbætur og umsjón með stígum.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Húsefni ehf. sækir um lóðir við Fellabrekku 7, 9, 11 og 13 fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis. Hugmyndir umsækjanda eru að byggja átta íbúðir en nánari hugmyndir eru í vinnslu.

    Lóðirnar eru á ódeiliskipulögðu svæði sem í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 er skilgreint sem íbúðarsvæði (ÍB-3). Í skipulagsskilmálum fyrir ÍB-3 segir að heimild sé til að auka byggingarmagn á óbyggðum lóðum þar sem það þyki henta, t.d. með því að leyfa aukaíbúðir þar sem stórar einbýlishúsalóðir eru, og sérákvæði er um Fellabrekku 7-9.

    Lagt fram minnisblað Alta dags. 21.03.2024 um skipulag á svæðinu m.t.t. fram kominnar umsóknar.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að úthluta umsækjanda lóðunum við Fellabrekku 7-13, til íbúðarbyggingar, sbr. samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði og skilmála um afslátt af gatnagerðargjöldum frá 14. desember 2023.

    Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða, með vísan í 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga, að gera eftirfarandi breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039:

    Eftirfarandi skipulagsákvæði fyrir íbúðarsvæði ÍB-3 breytist úr:

    „Fellabrekka 7-9: Heimild er til að byggja allt að 3ja íbúða hús á lóðunum sameiginlega, eða parhús og einbýli á lóðunum tveimur.“
    í:
    „Fellabrekka 7-13: Heimilt er að byggja allt að 8 íbúðum samtals, á 2 hæðum í fjölbýli eða sérbýli.

    Önnur ákvæði íbúðarreitsins haldast óbreytt.

    Breytingin telst óveruleg með eftirfarandi rökum:
    - Ekki er um breytingu á landnotkun að ræða.
    - Áformað byggingarmagn og hæð húsa er í samræmi við aðliggjandi byggðarmynstur og það sem vænta mátti á reitnum skv. gildandi aðalskipulagi, þó svo íbúðum fjölgi og húsagerð breytist.
    - Aukin umferð í götunni, vegna fleiri íbúða, mun hafa lítil áhrif á núverandi hús þar sem þau eru innst í botngötunni. Auk þess eru aðstæður þannig að aðeins er byggt öðrum megin götunnar.
    - Breytingin er því ekki talin líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða á stórt svæði.

    Þegar aðalskipulagsbreytingin hefur verið staðfest verði byggingarleyfisumsókn fyrir Fellabrekku 7-13 grenndarkynnt á grundvelli 44. gr. skipulagslaga.

    Skipulagsfulltrúa er falið að ganga frá tillögu að óverulegri breytingu aðalskipulags skv. framangreindu til auglýsingar og meðferðar skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Á 255. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var samþykkt að byggingaráform á hinni úthlutuðu lóð verði grenndarkynnt þegar þau liggja fyrir skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt var samþykkt að grenndarkynnt verði fyrir lóðarhöfum eftirfarandi fasteigna: Grundargötu 65, 67, 69, 76, 78, 80, 84 og 86.

    Á 6. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 19. mars 2024 vísaði byggingarfulltrúi málinu til afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar þar sem ekki er til deiliskipulag fyrir svæðið.

    Byggingaráform hafa nú verið lögð fram með viðeigandi teikningum/gögnum.
    Sótt er um byggingarleyfi fyrir 300 fm parhúsi á einni hæð. Hvoru húsi fylgir bílskúr. Undirstöður eru steinsteyptar ásamt gólfplötu en burðarvirki veggja og þaks eru úr timbri.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257 Skipulags- og umhverfisnefnd staðfestir að fara skuli fram grenndarkynning byggingaráforma og felur skipulagsfulltrúa að láta kynningu fara fram í samræmi við afgreiðslu 255. fundar.
    Berist engar athugasemdir úr grenndarkynningu felur nefndin byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum gr. 2.4.4 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Á 255. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var samþykkt að byggingaráform á hinni úthlutuðu lóð verði grenndarkynnt þegar þau liggja fyrir skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt var samþykkt að grenndarkynnt verði fyrir lóðarhöfum eftirfarandi fasteigna: Grundargötu 69, 84, 86, 88, 92 og 94.

    Á 6. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 19. mars 2024 vísaði byggingarfulltrúi málinu til afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar þar sem ekki er til deiliskipulag fyrir svæðið.

    Byggingaráform hafa nú verið lögð fram með viðeigandi teikningum/gögnum.
    Sótt er um byggingarleyfi fyrir 300 fm parhúsi á einni hæð. Hvoru húsi fylgir bílskúr. Undirstöður eru steinsteyptar ásamt gólfplötu en burðarvirki veggja og þaks eru úr timbri.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257 Skipulags- og umhverfisnefnd staðfestir að fara skuli fram grenndarkynning byggingaráforma og felur skipulagsfulltrúa að láta kynningu fara fram í samræmi við afgreiðslu 255. fundar.
    Berist engar athugasemdir úr grenndarkynningu felur nefndin byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum gr. 2.4.4 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Sótt er um byggingarleyfi/byggingarheimild fyrir ca. 30 m2 viðbyggingu við íbúðarhús að Innri Látravík, skv. framlagðri teikningu.

    Á 5. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 29. febrúar 2024 vísaði byggingarfulltrúi erindinu til afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar þar sem ekki er til deiliskipulag fyrir svæðið.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257 Skipulags- og umhverfisnefnd telur að viðbygging við íbúðarhús sem fyrir er á staðnum hafi ekki grenndaráhrif á aðra/aðliggjandi eignir og felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarheimild að uppfylltum skilyrðum gr. 2.3.8 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Landeigendur sækja um byggingarleyfi fyrir 5 sumarhúsum (smáhýsi) í landi Innri Látravíkur samkvæmt uppdráttum frá W7.

    Með umsókn fylgja gögn, m.a. aðaluppdráttur, afstöðumynd, skráningartöflur og ljósmynd sem sýnir staðsetningu húsanna í landinu. Hvert hús er tæplega 37 m2 að stærð, með einu herbergi auk alrýmis, baðherbergis og forstofu. Notkun er skilgreind sem „gistihús“.

    Í fundargerð af 5. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, dags. 29. febrúar 2024, er erindinu vísað til skipulags- og umhverfisnefndar þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag af svæðinu.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257 Með vísan í framlögð gögn og minnisblað Alta dags. 21.03.2024 samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd að láta fara fram grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga, þegar borist hefur endanleg ljósmynd sem sýnir ásýnd þegar ekið er í austurátt á Snæfellsnesvegi.
    Gögnin verði send til eigenda aðliggjandi landeigna og gefinn 4 vikna frestur til athugasemda. Ef aðilar hafa lýst skriflega yfir, með áritun sinni á kynningargögn áður en 4 vikur eru liðnar, að þeir geri ekki athugasemdir við framkvæmdina þá styttist kynningartíminn að sama skapi.

    Á kynningartíma verði leitað umsagnar Vegagerðarinnar vegna tengingar við þjóðveg og Landsnets vegna legu rafstrengja.

    Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa að láta grenndarkynningu fara fram.

    Berist engar athugasemdir úr grenndarkynningu og hafi umsagnaraðilar (Vegagerðin og Landsnet) ekki athugasemdir við byggingaráformin, felur nefndin byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012 með síðari breytingum. Ella kemur málið aftur til afgreiðslu nefndarinnar.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að umhverfisrölt verði farið í þéttbýlinu dagana 14. og 16. maí nk.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257
  • Lagður fram til kynningar tölvupóstur dags. 27. febrúar 2024 þar sem fram kemur að matvælaráðuneytið hefur falið stofnuninni Landi og skógi að hefja endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi stuðningskerfa í landgræðslu og skógrækt. Kallað er eftir ábendingum fyrir 29. mars nk. sem nýst geta við vinnuna við að móta tillögur að endurskoðuðu stuðningskerfi, en markmiðið er að til verði tillaga að heildstæðu stuðningskerfi málaflokksins innan stofnunarinnar.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 257

6.Ársreikningur 2023

Málsnúmer 2403036Vakta málsnúmer

Lagðir fram ársreikningar samstæðu og sjóða vegna ársins 2023 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Jónas Gestur Jónasson, lögg. endurskoðandi og Marinó Mortensen, frá Deloitte, sátu fundinn undir þessum lið. Þeir fóru yfir helstu tölur í ársreikningi 2023.

Allir tóku til máls.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 1.689 millj. kr., en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 1.589 millj. kr. Rekstrartekjur A-hluta námu 1.424 millj. kr. en áætlun gerði ráð fyrir 1.363 millj. kr.

Rekstrarniðurstaða samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 51,0 millj. kr. Fjárhagsáætlun samstæðu með viðauka gerði ráð fyrir 6,1 millj. kr. jákvæðri niðurstöðu. Sé litið til A hluta eingöngu, þá er rekstarafkoma A-hluta var jákvæð á árinu um 5,8 millj. kr.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2023 nam 1.131,2 millj. kr. skv. efnahagsreikningi, þar af nam eigið fé A-hluta 803,6 millj. kr. Eiginfjárhlutfall var 31,45%, en var 32,76% árið áður.

Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins námu 2.023,5 millj. kr., en námu 1.905,4 millj. kr. árið 2022. Skuldahlutfall skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga er 93,0% í samanteknum ársreikningi, en var 97,7% árið 2022. Hjá A-hluta var hlutfallið 86,4%, en var 93,8% á árinu 2022.

Veltufé frá rekstri í samanteknum ársreikningi var 298,5 millj. kr. og handbært fé í árslok 111,0 millj. kr., en var 86,8 millj. kr. árið áður.

Samþykkt samhljóða að vísa ársreikningi 2023 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Gestir

  • Marinó Mortensen - mæting: 17:30
  • Jónas Gestur Jónasson - mæting: 17:30

7.Lánasjóður sveitarfélaga - Lántaka 2024

Málsnúmer 2404002Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að lánasamningi við Lánasjóð sveitarfélaga vegna lántöku ársins 2024.



Ákvörðun um að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins:

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkir hér með á bæjarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 100.000.000,- með lokagjalddaga þann 20. febrúar 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir fundinum og sem bæjarstjórn hefur kynnt sér.

Bæjarstjórn samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól, uppgreiðslugjaldi auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Er lánið tekið til að endurfjármagna afborganir ársins sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Björgu Ágústsdóttur, bæjarstjóra, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Grundarfjarðarbæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

Samþykkt samhljóða.

8.Sorpmál - breytingar 2023-24

Málsnúmer 2212021Vakta málsnúmer

Lögð fram samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Grundarfjarðarbæ til þriðju umræðu í bæjarstjórn, með örlitlum breytingum skv. ábendingum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.



Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Grundarfjarðarbæ samþykkt samhljóða.

9.Kosning í nefndir skv. B lið 47. gr. samþykktar um stjórn Grundarfjarðarbæjar

Málsnúmer 2205026Vakta málsnúmer

Kosning nýs aðalmanns í menningarnefnd í stað Guðmundar Pálssonar.

Lagt til að Hjalti Allan Sverrisson verði kosinn aðalmaður í menningarnefnd.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn þakkar Guðmundi fyrir hans störf í menningarnefnd.

10.Barnaverndarþjónusta Vesturlands - Nýr samningur og kynning

Málsnúmer 2403034Vakta málsnúmer

Lagður fram nýr samningur um Barnaverndarþjónustu Vesturlands (samkomulag FSS og Borgarbyggðar) um sameiginlega barnaverndarþjónustu. Jafnframt lagðar fram kynningarglærur KPMG vegna verkefnisins.



Samninginn þarf að ræða við tvær umræður í bæjarstjórn og leggja fyrir ráðherra til staðfestingar.

Farið yfir nýjan samning um barnaverndarþjónustu og kynningu á verkefninu.

Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi samning um barnaverndarþjónustu og vísar honum til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

11.Sýslumaðurinn á Vesturlandi - Umsagnarb. rek. G.II - Grf Hostel, Hlíðarvegur 15 og Borgarbraut 9

Málsnúmer 2009037Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni Sýslumannsins á Vesturlandi um umsögn við umsókn 65° Ubuntu ehf. um leyfi til að reka gististað í flokki II að Borgarbraut 9. Um er að ræða hluta af eldri umsókn, þar sem einnig var sótt um leyfi vegna reksturs að Hlíðarvegi 15, en sá hluti hefur þegar verið afgreiddur. Beðið hafði verið eftir breyttum gögnum vegna Borgarbrautar 9.



Lögð fram skýrsla slökkviliðsstjóra þar sem fram kemur að úrbætur hafi verið gerðar með fullnægjandi hætti. Einnig liggur fyrir úttekt byggingarfulltrúa.

DM vék af fundi undir þessum lið.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við að umbeðið leyfi verði veitt.

Samþykkt samhljóða.

DM tók aftur sæti sitt á fundinum.

12.Sýslumaðurinn á Vesturlandi - Umsagnarb.rek.G.II-Búlandshöfði, Búlandshöfða, Eyrarsveit, Grundarfjörður-2024024072

Málsnúmer 2404003Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni Sýslumannsins á Vesturlandi dags. 22. mars 2024 um umsögn við umsókn Thies ehf. um leyfi til að reka gististað í flokki II, að Búlandshöfða.



Ekki liggja fyrir umsagnir slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa.
Bæjarstjórn felur bæjarráði umboð til að afgreiða málið þegar úttektir byggingarfulltrúa og slökkviliðsstjóra liggja fyrir.

Samþykkt samhljóða.

13.Sýslumaðurinn á Vesturlandi - Umsagnarb.rekstrarl. V.III-Bjargarsteinn, Sólvellir 15, Grundarfjörður_2024016391

Málsnúmer 2403002Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni Sýslumannsins á Vesturlandi dags. 5. mars 2024 um umsögn við umsókn ESV ehf. um leyfi til að reka veitingastað að Bjargarsteini, Sólvöllum 15.



Fyrir liggja umsagnir slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemd við að umbeðið leyfi verði veitt.

Samþykkt samhljóða.

14.Grundarfjarðarbær - Um þjónustu HVE í Grundarfirði

Málsnúmer 2203025Vakta málsnúmer

Í gær, 10. apríl, funduðu fulltrúar bæjarstjórnanna í Grundarfirði og Snæfellsbæ með stjórnendum HVE, í Ráðhúsi Grundarfjarðar.

Forseti og bæjarstjóri sögðu frá fundinum með HVE. Þar var rætt um stöðu þjónustu og nauðsynlegar umbætur á henni.

HVE kynnti tölfræði um umfang þjónustu, fjölda heimsókna og fleira, sem veitt er á þessum tveimur stöðum. Farið var yfir áskoranir í mönnun heilbrigðisþjónustu á okkar svæði og almennt. Kynnt var vinna við breytingar sem miða að því að treysta þjónustu á svæðinu, með auknu samstarfi milli staða. Einnig rætt um möguleika á aukinni þjónustu með aðstoð nútíma tækni.

Umræður urðu um málefnið.

Óskir fulltrúa sveitarfélaganna eru um formlegt samstarf aðila, í ljósi sameiginlegra hagsmuna og snertiflata.

HVE óskaði eftir framhaldsfundi í lok maí, þegar fyrir liggja frekari upplýsingar úr vinnu HVE.

15.Fyrirspurn um ákvæði laga um Menntasjóð námsmanna - Alvarlegur læknaskortur í Grundarfirði

Málsnúmer 2403035Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fyrirspurn Grundarfjarðarbæjar til Byggðastofnunar um nýleg ákvæði í VII. kafla laga um Menntasjóð námsmanna í tengslum við skort á sérmenntuðu fólki á landsbyggðinni, sbr. lækna, ásamt samskiptum bæjarstjóra og Byggðastofnunar vegna málsins.



Bæjarstjóra falið að fylgja málinu eftir.

Samþykkt samhljóða.

16.Gott að eldast - Samstarfsverkefni á Vesturlandi

Málsnúmer 2403030Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur SSV, dags. 25. mars sl., um samstarfsverkefnið Gott að eldast. Ráðinn hefur verið tengiráðgjafi fyrir Vesturland.

17.Jeratún - Fundargerð 68 og ársreikningur

Málsnúmer 2403031Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 68. fundar stjórnar Jeratúns ehf. ásamt ársreikningi vegna ársins 2023.

18.SSV - Leiðir til byggðafestu

Málsnúmer 2404006Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar 636. fréttabréf SSV varðandi skýrslu um leiðir til byggðafestu sem komin er út.

19.Breiðafjarðarnefnd - Fundargerðir 2024

Málsnúmer 2402014Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 221. fundar Breiðafjarðarnefndar sem haldinn var 5. febrúar sl.

Fylgiskjöl:

20.Sorpurðun Vesturlands - Fundargerð aðalfundar

Málsnúmer 2403033Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð aðalfundar Sorpurðunar Vesturlands hf. sem haldinn var 20. mars sl.

21.Heilbrigðisnefnd Vesturlands - Fundargerð aðalfundar og ársreikningur 2023

Málsnúmer 2403032Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð aðalfundar Heilbrigðisnefndar Vesturlands sem haldinn var 20. mars sl., ásamt skýrslu stjórnar og ársreikningi vegna ársins 2023.

22.Heilbrigðisnefnd Vesturlands - Fundargerðir 2024

Málsnúmer 2403013Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð Heilbrigðisnefndar Vesturlands sem haldinn var 11. mars sl.

23.Samband íslenskra sveitarfélaga - Fundargerðir 2024

Málsnúmer 2401021Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga; fundargerð 945. fundar sem haldinn var 28. febrúar sl. og fundargerð 946. fundar sem haldinn var 15. mars sl.

24.Samband íslenskra sveitarfélaga - Íslensku menntaverðlaunin 2024 - tilnefningar óskast

Málsnúmer 2404001Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 3. apríl sl., þar sem tilkynnt er um að opið sé fyrir tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2024.

25.EBÍ - Til aðildarsveitarfélaga EBÍ - Styrktarsjóður EBÍ - umsóknarfrestur

Málsnúmer 2404004Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands, dags. 21. mars sl., um umsóknarfrest í Styrktarsjóð EBÍ 2024.

26.Grunnskóli og íþróttamannvirki - Orkuskipti

Málsnúmer 1910006Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir verkfunda vegna orkuskiptaverkefnisins.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 20:18.