269. fundur 09. febrúar 2023 kl. 16:30 - 19:27 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
  • Garðar Svansson (GS)
  • Ágústa Einarsdóttir (ÁE)
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
  • Loftur Árni Björgvinsson (LÁB)
  • Sigurður Gísli Guðjónsson (SGG)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Forseti setti fund og gengið var til dagskrár.

Forseti óskaði eftir að tekinn yrði á dagskrá fundarins með afbrigðum, dagskrárliður fyrir kjör fulltrúa í ungmennaráð, skv. B lið 47. gr. samþykktar um stjórn Grundarfjarðarbæjar, sem yrði liður nr. 6 á fundinum. Aðrir liðir færast aftur sem því nemur.

Samþykkt samhljóða.

1.Minnispunktar bæjarstjóra frá 2022

Málsnúmer 2205020Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir minnispunkta sína, sbr. framlagt skjal.

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu 2022-2026

Málsnúmer 2205021Vakta málsnúmer

Forseti fór yfir fyrirhugaða fundardaga bæjarstjórnar, fram að sumarhléi, en þeir eru eftirfarandi:

9. mars
13. apríl, en þá fer m.a. fram fyrri umræða um ársreikning
11. maí, síðari umræða ársreiknings
8. júní

Forseti fór yfir aðra fundi sem fyrirhugaðir eru á næstunni, sjá einnig í framlögðum minnispunktum bæjarstjóra.

Forseti sagði frá því að stjórn SSV hefði samþykkt að stofna vinnuhóp um úttekt á samstarfsmöguleikum slökkviliða á Vesturlandi.
Í erindisbréfi sem samþykkt var fyrir hópinn kemur fram að hann skuli skipaður fimm fulltrúum, fjórum skv. tilnefningu frá sveitarfélögunum og einn sem SSV skipar og verður hann formaður; Ragnar Sæmundsson bæjarfulltrúi á Akranesi og fulltrúi í stjórn SSV.
Óskað hefur verið eftir því að Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær og Sveitarfélagið Stykkishólmur skipi sameiginlega einn fulltrúa í vinnuhópinn.
Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að koma á framfæri tillögu bæjarstjórnar um fulltrúa sem tilbúinn er til að taka þetta að sér, ef vilji sveitarfélaganna væri til þess, sbr. umræður fundarins.

Forseti sagði frá svari Vegagerðarinnar í tölvupósti í dag við fyrirspurn bæjarstjóra frá því í október sl. um frekari öryggisráðstafanir á vegi að og við áningarstaðinn við Kirkjufellsfoss, en afrit svars og fyrri samskipta liggur undir málinu. Öryggisteymi Vegagerðarinnar skoðaði aðstæður í október/nóvember á sl. ári og hefur nú kynnt afrakstur þeirrar skoðunar. Um er að ræða nokkrar aðgerðir, sem miða að auknu umferðaröryggi, bæði þeirra sem eiga leið að áningarstaðnum og þeirra sem framhjá fara. Slík framkvæmd krefst hönnunar og sérstaks fjármagns.
Hægt er að koma frekari tillögum á framfæri við Vegagerðina.

Bæjarstjórn þakkar fyrir þessa yfirferð og fagnar framkomnum hugmyndum/tillögum.
Bæjarstjórn hvetur til þess að skoðað verði hvort bæta megi úr vatnssöfnun sem verður í leysingum við þjóðveg 54, neðan Fellsenda, vestan þéttbýlisins. Slíkar aðstæður skapa hættu fyrir vegfarendur á svæðinu.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa þessum tillögum til kynningar og frekari umfjöllunar í skipulags- og umhverfisnefnd, sem fer með umferðarmál.

3.Bæjarráð - 600

Málsnúmer 2301005FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 600. fundar bæjarráðs.
  • Bæjarráð - 600 Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.
  • 3.2 2207015 Launaáætlun 2022
    Bæjarráð - 600 Lagt fram yfirlit sem sýnir samanburð á útgreiddum launum Grundarfjarðarbæjar og Grundarfjarðarhafnar janúar til desember 2022. Farið yfir niðurbrot launaáætlunar og raunlauna eftir deildum. Raunlaun eru yfir áætlun sem nemur 8 millj. kr., sem fyrst og fremst skýrist af auknum umsvifum Grundarfjarðarhafnar og breytingu á vinnufyrirkomulagi, sem og hagvaxtarauka skv. kjarasamningum, sem leiddi til hækkunar launa fyrr á árinu.
  • Bæjarráð - 600 Ragnar Ásmundsson frá Orkusetri/Orkustofnun sat fundinn undir þessum lið gegnum fjarfundabúnað. Jafnframt sátu Kristín Þorleifsdóttir, sviðsstjóri, Jósef Ó. Kjartansson og Ágústa Einarsdóttir fundinn undir þessum lið.

    Ragnar fór yfir þá styrki sem Grundarfjarðarbær hefur fengið loforð fyrir úr Orkusjóði, til verkefna um orkuskipti í íþrótta- og skólamannvirkjum.

    Rætt um og farið var yfir möguleika Grundfirðinga til orkuöflunar og dreifingar, þannig að kyndingarkostnaður íbúa og fyrirtækja lækki.

    Málið er til áframhaldandi skoðunar.
  • Bæjarráð - 600 Lagðir fram minnispunktar bæjarstjóra af fundi sem fulltrúar bæjarins áttu með sérfræðingum hjá Eflu 25. janúar sl., um orkuskipti í skóla- og íþróttamannvirkjum.

    Fyrirhugaður er annar fundur með þeim fimmtudagsmorguninn 2. febrúar.
  • 3.5 2301007 Framkvæmdir 2023
    Nokkrar framkvæmdir skv. fjárhagsáætlun ársins 2023 teknar til umræðu.

    Kristín Þorleifsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs er áfram gestur undir þessum lið fundarins.

    Ólafur Ólafsson íþrótta- og tómstundafulltrúi sat fundinn vegna umræðu um þarfagreiningu v/hönnunar sundlaugargarðs.

    Bæjarráð - 600 a) Tengigangur milli íbúðanna á Hrannarstíg 18 og Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Fellaskjóls:

    Fyrir liggur kostnaðaráætlun byggingarfulltrúa dags. 27. jan. 2023.
    Áætlunin nú er hærri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins.

    Í samantekt byggingarfulltrúa er gert ráð fyrir eftirfarandi verkþáttum:
    a) rif klæðningar (þak og útveggir)
    b) frágangur utanhúss
    c) frágangur innanhúss

    Áætlunin felur í sér að fjarlægja núverandi útveggjaklæðningu, þakklæðningu og klæða húsið (tengiganginn) upp á nýtt. Einnig að rífa klæðningu að innan þar sem hún er skemmd á köflum. Ekki er vitað um ástand burðarvirkis og því gert ráð fyrir ófyrirséðum kostnaði. Gert er ráð fyrir píparavinnu þar sem ofnar og ofnalagnir eru utanáliggjandi og þarf að taka niður fyrir rif klæðningar að innan og setja aftur upp. Yfirfara þarf einnig rafmagnið þegar loftaklæðning verður fjarlægð. Áætlunin gerir ráð fyrir kostnaði við að flota gólfið og kostnaði við gólfefni.

    Rætt um endurbætur á tengiganginum og valkosti. Lagt til að skoðuð verði önnur úrlausn eða efnisval við tengingu milli bygginganna. Bæjarstjóra og umhverfis- og skipulagssviði falið að fá kostnaðaráætlun á þá úrlausn, í samræmi við umræður fundarins og leggja fyrir bæjarráð/bæjarstjórn til skoðunar.

    Bæjarráð gerir ráð fyrir að leitað verði verðtilboða í þetta verk og að framkvæmd fari fram í vor/sumar. Til frekari umræðu og ákvörðunar síðar.

    b) Þarfagreining fyrir sundlaugargarð: drög íþrótta- og tómstundafulltrúa lögð fram til umræðu, auk þess upplýsingar um ýmsar útfærslur á saunaklefum.

    Farið yfir drögin og rætt um þá framkvæmdaþætti sem hafa þarf í huga þegar sundlaugargarður er skipulagður til framtíðar. Til frekari úrvinnslu og frágangs.

    Rætt um framkvæmdir sem hafa staðið yfir í íþróttahúsinu. Fram kom að búið er að skipta um gólfefni, að taka niður loft og skipta um lýsingu. Jafnframt kom fram hjá Ólafi að hljóðvist hafi batnað við þessar framkvæmdir, að hans mati.

    Ólafur vék af fundinum.

    c) Hönnunargögn fyrir frágang malbikaðra gangstétta við Hrannarstíg og víðar. Landslag, arkitektastofa, hefur unnið að útfærslu á frágangi malbikaðra gangstétta og hefur skipulagsfulltrúi haft umsjón með verkinu.

    Sviðsstjóri/skipulagsfulltrúi fór yfir glæný gögn um verkið og rætt um framkvæmdina.

    Bæjarráð samþykkir að áfram verði unnið með Landslagi að hönnun blágrænna lausna við Hrannarstíg og Borgarbraut. Tillögurnar verða kynntar fyrir íbúum. Fyrirkomulag á frágangi í Sæbóli og undirbúningur framkvæmda í miðbæ eru sömuleiðis á dagskrá.

    Samþykkt samhljóða.

    Kristín vék af fundinum og var henni þakkað fyrir komuna og upplýsingar.
  • 3.6 2209025 Gjaldskrár 2023
    Lögð fram drög að gjaldskrá fyrir húsaleigu í samvinnurými að Grundargötu 30 auk upplýsinga úr gjaldskrám fyrir samvinnurými í öðrum sveitarfélögum. Að Grundargötu 30 standa nú yfir framkvæmdir við rýmið, í samræmi við hönnun þess.
    Bæjarráð - 600 Farið yfir tillögur/hugmyndir sem lagðar voru fram og tekin ákvörðun um gjaldskrá sem myndi gilda árið 2023.

    Fyrirliggjandi tillaga 1 að gjaldskrá samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs um gjaldskrá fyrir útleigu rýmis að Grundargötu 30.
  • Bæjarráð - 600 Lögð fram ýmis gögn varðandi markaðs- og kynningarmál.

    a) Farið yfir hugmynd að spurningakönnun SSV í atvinnulífi, sbr. póst framkvæmdastjóra.

    b) Farið yfir tillögu að verkefnisáætlun Áfanga- og markaðsstofu Vesturlands (ÁMS) um vinnu með hagsmunaaðilum vegna mótttöku skemmtiferðaskipa og skipafarþega á Snæfellsnesi.

    Bæjarráð tekur fyrir sitt leyti vel í framlagða verkefnistillögu, en það er í höndum hafnarstjóra og bæjarstjóra að rýna hana nánar og vinna úr henni, með ÁMS.

    c) Rætt um kynningarmyndband sem unnið hefur verið fyrir íþrótta- og tómstundanefnd og Grundarfjarðarbæ, um íþróttastarf, tómstundir og fleira í Grundarfirði. Ætlunin er að ræða þetta síðar í dag, í nefndinni.

    d) Lagðar fram teiknaðar stemnings-/kynningarmyndir til að nota í markaðsstarfi, kynningum, auglýsingum og glærum.

    Bæjarráð lýsir yfir ánægju með framangreind verkefni, sem eru áfram til vinnslu.
  • Eigendur Árbrekku óska eftir að breyta skráningu sumarhúss í íbúðarhús.

    Í aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019-2039 er heimild fyrir tveimur íbúðarhúsum án tengsla við landbúnað á hverri jörð án þess að breyta þurfi aðalskipulagi. Eigendur óska eftir samþykki á þeim grunni, en fyrir liggur samþykki fyrir hönd eiganda Hamra, en Árbrekka er stofnuð út úr jörðinni Hömrum.

    Bæjarráð - 600 Byggingarfulltrúi og skipulagsfulltrúi hafa yfirfarið teikningar húss og aðstæður m.t.t. skipulagsskilmála og gera ekki athugasemd við að fallist sé á ósk húseigenda. Skipulagsfulltrúi vísaði erindinu til endanlegrar afgreiðslu bæjarráðs/bæjarstjórnar.

    Með tilliti til framlagðra gagna er beiðni eigenda Árbrekku samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 600 Lagt fram minnisblað um Safnaklasa Vesturlands, ásamt drögum að samþykktum klasa safna, sýninga og setra á Vesturlandi, drögum að rekstraráætlun og fleiri gögnum.

    Gert er ráð fyrir að aðild að félaginu (klasanum) geti átt söfn, setur og sýningar á Vesturlandi og að árgjald verði 60.000 kr.

    Gert er ráð fyrir starfsmanni í 25% starf fyrir klasann, sem fyrst um sinn verði fjármagnað sem áhersluverkefni gegnum sóknaráætlun Vesturlands. Markmiðum starfsins er lýst í framlögðum gögnum.

    Bæjarstjóra er falið að afla upplýsinga um hvernig fjármögnun sé hugsuð þegar áhersluverkefni lýkur.

    Einnig verði óskað upplýsinga um hvað átt sé við með því sem fram kemur í framlögðu skjali um hlutverk og verkaskiptingu, þar sem segir að vinna þurfi að sameiginlegu varðveislusetri á Vesturlandi.

    Fyrirliggjandi gögn að öðru leyti samþykkt samhljóða og þátttaka af hálfu Grundarfjarðarbæjar í stofnun safnaklasa Vesturlands.
  • Bæjarráð - 600 Lögð fram gögn um helstu samskipti sem átt hafa sér stað varðandi löggæslumál, þjónustu og aðstöðu í Grundarfirði. Farið yfir málið, en bæjarstjórn ræddi það á fundi sínum í janúar sl.

    Lagt fram svar frá FSRE, Framkvæmdasýslu-Ríkiseignum, við fyrirspurn bæjarstjóra. Bæjarstjóri hefur ennfremur átt samtöl við lögreglustjóra um þjónustu og aðstöðu.

    Bæjarráð veltir þeirri hugmynd upp til skoðunar, hvort skynsamlegt gæti verið að hafa sameiginlega miðstöð slökkviliðs, björgunarsveitar/slysavarnafélags, lögreglu og almannavarna.
  • Bæjarráð - 600 Lagt fram til kynningar yfirlit íþrótta- og tómstundafulltrúa yfir aðsóknartölur í Sundlaug Grundarfjarðar árið 2022.

    Bæjarráð felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að skoða möguleikann á því að taka upp árskort í sundlauginni.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 600 Lögð fram til kynningar eftirlitsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, dags. 14. nóvember 2022, vegna Íþróttamiðstöðvar Grundarfjarðar. Þau atriði sem gerð voru athugasemdir við hafa þegar verið lagfærð eða eru í framkvæmd, sbr. yfirstandandi endurbætur á tengigangi.
  • Í samræmi við fyrri afgreiðslur bæjarráðs sl. haust var byggingafulltrúa og verkstjóra áhaldahúss falið að leita samninga við verktaka bæjarins um snjómokstur. Leitað var til verktaka bæjarins og niðurstaðan var samningsgerð við tvo þeirra.
    Bæjarráð - 600 Lagður fram til kynningar snjómoksturssamningur við JK&co slf.
  • Í samræmi við fyrri afgreiðslur bæjarráðs sl. haust var byggingafulltrúa og verkstjóra áhaldahúss falið að leita samninga við verktaka bæjarins um snjómokstur. Leitað var til verktaka bæjarins og niðurstaðan var samningsgerð við tvo þeirra.
    Bæjarráð - 600 Lagður fram til kynningar sjómoksturssamningur við Tóma steypu ehf.
  • Bæjarráð - 600 Lagðir fram til kynningar minnispunktar bæjarstjóra frá fundi 17. jan. 2023 með Guðjóni Brjánssyni, verkefnastjóra á vegum SSV, um áhersluverkefni varðandi samþættingu í velferðarþjónustu.
  • Starfandi hefur verið að undanförnu starfshópur um öldrunarþjónustu á Vesturlandi. Hópurinn kynnti tillögur sínar í skýrslu sem kom út á sl. ári.

    Í lok síðasta árs var Guðjón Brjánsson ráðinn sem ráðgjafi til að vinna að frekari útfærslum á tillögum hópsins. Guðjón fundaði nýverið með verkefnisstjórn um endurskoðun á öldrunarþjónustu á landsvísu. Í kjölfar fundarins var ákveðið að þau Ólafur Þór Gunnarsson formaður hópsins og Berglind Magnúsdóttir verkefnisstjóri myndu funda með fulltrúum af Vesturlandi.

    Bæjarráð - 600 Lagt fram til kynningar fundarboð vegna fundar um öldrunarþjónustu, sem haldinn verður 3. febrúar nk. á Hótel Hamri í Borgarnesi, kl. 14.00.

    Bæjarstjóri mun sækja fundinn.
  • Samband íslenskra sveitarfélaga og Mannvit standa að fræðsluviðburði og pallborðsumræðu, föstudaginn 3. febrúar frá kl. 8:30 til 10:00. Fjallað verður um loftslagsbreytingar á Íslandi; áhrif á sveitarfélög, fyrirtæki, íbúa og innviði í landinu. Fundurinn verður einnig í streymi.

    Bæjarráð - 600 Lagt fram til kynningar fundarboð vegna fundarins.

4.Hafnarstjórn - 4

Málsnúmer 2301006FVakta málsnúmer

  • Hafnarstjórn - 4 Yfirlit hafnarstjóra um landanir ársins 2022 lagt fram.
    Landanir ársins 2022 voru samtals 1074 en voru 1032 árið 2021. Samtals var landaður afli 2022 27.112 tonn en var 23.676 tonn árið 2021.

    Hafnarstjóri fór yfir helstu niðurstöður um tekjur og gjöld. Tekjur eru umtalsvert yfir áætlun ársins, gjöld eru yfir áætlun vegna aukinna umsvifa og aukningar á starfsfólki.

    Rætt um tekjuáætlun 2023 og horfur í þeim efnum, bæði hvað varðar fiskiskip og skemmtiferðaskip. Einnig rætt um framkvæmd á móttöku skemmtiferðaskipa. Fyrirhugað er samtal við hagsmunaaðila um reynsluna sl. sumar og sumarið framundan.

  • Kristín Þorleifsdóttir skipulagsfulltrúi situr fundinn undir þessum lið, í fjarfundi.

    Lagðar fram til kynningar umsagnir og ábending sem bárust á kynningartíma skipulagslýsingar.
    Lýsingin var kynnt 25. nóvember 2022, sjá hér: https://www.grundarfjordur.is/is/frettir-og-tilkynningar/skipulagslysing-vegna-breytingar-a-adalskipulagi
    og lauk kynningartíma hennar 21. desember sl.
    Opið hús var um lýsinguna 13. desember.

    Hafnarstjórn - 4 Umsagnir bárust frá:
    1. Skipulagsstofnun
    2. Náttúrustofa Vesturlands
    3. Breiðafjarðarnefnd
    4. Náttúrufræðistofnun Íslands
    5. Umhverfisstofnun
    6. Vegagerðin
    Auk þess barst ábending frá:
    7. Olíudreifingu

    Gögnin gefa ekki tilefni til sérstakra viðbragða af hálfu hafnarstjórnar, umfram það sem fram kemur í umfjöllun hér undir næstu dagskrárliðum og minnispunktum hafnarstjórnar til skipulagsfulltrúa, sem bæjarstjóri/formaður hafnarstjórnar mun taka saman.

  • Lögð fram til umfjöllunar hafnarstjórnar vinnuskjal Eflu dags. 3. janúar 2023: drög að tillögu um breytingu á aðalskipulagi, fyrir hafnarsvæði og Framnes.
    Hafnarstjórn - 4 Fjallað var um efnisatriði í framlögðum drögum hvað varðar þann hluta sem snýr að hafnarsvæðinu.

    Hafnarstjórn samþykkir samhljóða, fyrir sitt leyti, aðalskipulagsbreytingu eins og fyrirliggjandi drög gera ráð fyrir, þ.e. að:

    - Hafnarsvæði H-2 verði stækkað við rót Norðurgarðs (kriki, athuga stærð) að sunnanverðu og með lengingu á Miðgarði um allt að 50 m. Skilmálar fyrir svæðið verði uppfærðir.
    - Til samræmis við það færist svæði fyrir sérstök not haf- og strandsvæða (SN-1) á kafla við Miðgarð og minnkar sem því nemur, auk breytingar á skilmálatöflu fyrir SN-1 þar sem stærð svæðisins er uppfærð.

    Helstu ábendingar/tillögur hafnarstjórnar um tillöguna eru að öðru leyti eftirfarandi:

    - Mörk deiliskipulagssvæðis (áhrif inní aðalskipulagstillögu) breytist, þannig að landfylling sunnan Miðgarðs verði ekki inní skipulagssvæðinu, heldur verði tekin til skoðunar þegar vinna hefst við deiliskipulag syðri hluta hafnarsvæðis.
    - Landnotkun á því svæði verði því ekki til umfjöllunar í þessu deiliskipulagi/breytingu á aðalskipulagi.
    - Landnotkun verði óbreytt á þegar skilgreindu hafnarsvæði og skilmálar fyrir lóðir á hafnarsvæði taki mið af starfsemi hafnarinnar og mikilvægi hafnsækinnar starfsemi.
    - Þess utan verði hugað að aukinni umferðarstýringu á annatíma skemmtiferðaskipa, sbr. umræðu um umferðaröryggi á hafnarsvæði.

    Formaður/bæjarstjóri mun taka saman minnispunkta úr umræðum hafnarstjórnar og senda skipulagsfulltrúa.
  • Lögð fram til umfjöllunar í hafnarstjórn vinnsludrög skipulagsráðgjafa, Eflu, dags. 2. janúar 2023, að tillögu um breytt deiliskipulag (greinargerð og uppdráttur, valkostir 1B og 1B-bráðabirgðalausn) fyrir "Hafnarsvæði norður".

    Hafnarstjórn - 4 Farið var yfir vinnsludrögin og rætt um breytingar á deiliskipulagi hafnarsvæðis, norðurhluta.

    Formanni/bæjarstjóra falið að taka saman ábendingar hafnarstjórnar og senda skipulagsfulltrúa.

    Vísað er til þess sem segir undir dagskrárlið 3.

    Hafnarstjórn leggur til að deiliskipulagssvæðið verði minnkað þannig að svæði á framtíðarlandfyllingu sunnan Miðgarðs verði ekki hluti af deiliskipulagssvæðinu nú, heldur verði hluti af deiliskipulagstillögu fyrir syðri hluta hafnarsvæðis. Er það gert með tímaramma skipulagsgerðarinnar í huga, en brýnt er að ljúka þessum deiliskipulagsbreytingum sem fyrst. Umfjöllun og tillögugerð um landfyllingu sunnan Miðgarðs kalli á frekari vinnu sem eðlilegra sé að gefa tíma samhliða öðrum breytingum á suðursvæði hafnarsvæðisins.

    Hafnarstjórn samþykkir samhljóða að leggja til við bæjarstjórn, að þegar lokið verði vinnu við yfirstandandi deiliskipulagsgerð fyrir hafnarsvæði norður, verði í beinu framhaldi hafist handa við deiliskipulagsgerð á suðurhluta hafnarsvæðisins.

  • 4.5 2301007 Framkvæmdir 2023
    Lagt fram yfirlit hafnarstjóra um helstu verkefni 2022 og 2023.
    Einnig minnisblað af verkfundi hafnarstjóra og bæjarstjóra þann 18.01.2023.

    Hafnarstjórn - 4 Hafnarstjóri fór yfir helstu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á árinu, sbr. framlagt minnisblað hans og sbr. minnisblað bæjarstjóra um verkfund með hafnarstjóra þann 18. janúar sl.

    Samþykkt að kanna með möguleika á reglulegum mælingum í sjó og mælingum loftgæða á hafnarsvæði. Í vinnslu.

    Rætt var sérstaklega um áform um að setja upp WC-einingar fyrir gesti á hafnarsvæði fyrir komandi sumar. Hafnarstjóri hefur skoðað valkosti varðandi leigu á húseiningum með salernum, þannig að bjóða megi gestum skemmtiferðaskipa uppá slíka aðstöðu.

    Hafnarstjórn felur hafnarstjóra og bæjarstjóra umboð til að undirbúa og sjá um að slíkar einingar verði settar upp fyrir komandi sumar.
    Bókun fundar GS sagði frá áformum hafnarstjórnar um mælingar, á lífverum í sjó og loftgæðum, í lögsögu hafnarinnar.
    BÁ vakti athygli á tillögu hafnarstjórnar um áframhaldandi deiliskipulagsvinnu á syðri hluta hafnarsvæðis þegar vinnu lýkur við nyrðri hlutann, sem nú er í gangi.
  • Hafnasamband Íslands vekur athygli hafnarstjórna á ályktun 43. hafnasambandsþings frá því í október 2022 um öryggi og aðgengi að höfnum, sem lögð er fram til kynningar.
    Hafnarstjórn - 4 "Hafnasambandsþing hvetur hafnastjórnir til að huga vel að öryggi og aðgengi að höfnum en reynslan sýnir að aldrei er of varlega farið og fara þarf reglulega yfir öll öryggis og aðgengismál. Hvatt er til þess að hafnir deili á milli sín góðri reynslu um hvernig hægt er að tryggja öryggi allra á hafnarsvæðinu en á sama tíma tryggja vöxt mismunandi atvinnugreina og öruggt aðgengi almennings þar sem við á."
  • Lagðar fram til kynningar nýjar reglur Hafnasambands Íslands um stuðning við hafnarsjóði til að mæta kostnaði við rekstur fordæmisgefandi dómsmála.

    Hafnarstjórn - 4 Samkvæmt reglunum geta aðildarhafnir Hafnasambands Íslands óskað eftir fjárhagsstuðningi hafnasambandsins til að mæta kostnaði við rekstur dómsmála enda sé líklegt að niðurstaða málsins feli í sér fordæmisgefandi niðurstöðu fyrir aðrar hafnir.
  • Lögð fram til kynningar fundargerð 446. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, sem haldinn var 26. október 2022.

    Hafnarstjórn - 4
  • Lögð fram til kynningar fundargerð 447. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, sem haldinn var 18. nóvember 2022.

    Hafnarstjórn - 4
  • Lögð fram til kynningar fundargerð 448. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, sem haldinn var 16. desember 2022.

    Hafnarstjórn - 4

5.Íþrótta- og tómstundanefnd - 107

Málsnúmer 2301008FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 107. fundar íþrótta- og tómstundanefndar.
  • Tómas Freyr Kristjánsson sat fundinn undir þessum lið.

    Ný útgáfa af kynningarmyndbandi um íþróttir og tómstundir í Grundarfirði varð lögð fram til kynningar og umræðu.

    Íþrótta- og tómstundanefnd - 107 Farið var yfir myndbandið og líst nefndinni mjög vel á það.
    Lagðar voru til nokkrar breytingar.
    Stefnt er að því að myndbandið verði fullunnið fyrir næsta fund nefndarinnar sem fyrirhugaður er 1. mars nk.

  • 5.2 2301007 Framkvæmdir 2023
    Farið var yfir fyrirhugaðar framkvæmdir við íþróttamannvirki á árinu 2023.
    Íþrótta- og tómstundanefnd - 107 Ólafur fór yfir framkvæmdir við íþróttamiðstöð á árinu 2023 og kynnti stöðu þeirra. Nú hefur verið skipt um gólfefni í anddyri og á gangi íþróttahúss, loft hefur verið tekið niður með loftaplötum og ný lýsing er að hluta til komin upp. Búið er að panta nýjar skóhillur og snaga. Von er á málurum mjög fljótlega og skoðað verður með viðbótarefni á veggi. Að mati Ólafs hefur hljóðvist batnað með þessum framkvæmdum.

    Gluggar eru komnir í tengigang milli íþróttahúss og grunnskóla, og bíða þeir þess að veður leyfi gluggaskipti. Þak tengigangs var endurnýjað sl. sumar/haust.

    Fyrir liggur nú greinargerð hljóðvistarsérfræðings frá Eflu, um hljóðvist í íþróttasal og verður unnið úr henni í framhaldinu.

    Íþrótta- og tómstundafulltrúi kynnti drög að þarfagreiningu fyrir sundlaugargarð sem hann hefur unnið. Drögin voru lögð fram til umræðu, en þau voru einnig til kynningar og umræðu í bæjarráði fyrr um daginn.

    Góðar umræður fóru fram.
  • Kynning á undirbúningsvinnu sem er í gangi, vegna fyrirhugaðra orkuskipta fyrir íþróttamiðstöð og grunnskóla.

    Íþrótta- og tómstundanefnd - 107 Ólafur íþrótta- og tómstundafulltrúi fór yfir og upplýsti um stöðu mála.

    Hann sagði frá undirbúningsvinnu vegna orkuskipta í íþrótta- og skólamannvirkjum, sem nú er í gangi. Skipta þarf úr olíukyndingu og nýta varmadælutækni til húshitunar mannvirkja.
  • Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri sat fundinn undir þessum lið.

    Framlögð voru til kynningar og umræðu drög að samstarfssamningi milli Grundarfjarðarbæjar og Ungmennafélags Grundarfjarðar. Drögin eru í vinnslu.

    Íþrótta- og tómstundanefnd - 107 Björg fór yfir aðdraganda og þörfina á að gera samning við UMFG. Ætlunin er að byrja á þeim samningi en gera síðan samninga við önnur íþróttafélög í bænum.

    Góðar umræður fóru fram. Samningsdrögin eru til áframhaldandi vinnslu.

  • Ungmennafélag Grundarfjarðar verður 90 ára þann 10. júlí nk.
    Aðalstjórn stefnir að því að halda veglega afmælishátíð í júlí.
    Íþrótta- og tómstundanefnd - 107 Ólafur íþrótta- og tómstundafulltrúi kynnti hugmyndir aðalstjórnar Ungmennafélagsins um viðburði vegna afmælisins.

    Góðar umræður fóru fram.

6.Kosning í nefndir skv. B lið 47. gr. samþykktar um stjórn Grundarfjarðarbæjar

Málsnúmer 2205026Vakta málsnúmer

Íþrótta- og tómstundafulltrúi hefur rætt við ungmenni um að taka sæti í ungmennaráði, en það er skipað fimm fulltrúum.

Lagt til að þær Aþena Hall Þorkelsdóttir, Harpa Dögg Bergmann Heiðarsdóttir og Sólveig Stefanía Bjarnadóttir verði kosnar sem aðalmenn í ungmennaráð, skv. tillögu íþrótta- og tómstundafulltrúa.

Samþykkt samhljóða.

Unnið er að því að fá tvo fulltrúa til viðbótar, auk varamanna.

7.Tilnefning byggingarfulltrúa

Málsnúmer 2109010Vakta málsnúmer

Þrjár umsóknir bárust vegna auglýsingar á starfi byggingarfulltrúa á sameiginlegu umhverfis- og skipulagssviði Grundarfjarðarbæjar, Sveitarfélagsins Stykkishólms og Eyja- og Miklaholtshrepps, en auglýsingafrestur rann út 7. feb. sl. Umsóknirnar uppfylltu ekki skilyrði auglýsingar, skv. upplýsingum frá sviðsstjóra. Stefnt er að því að auglýsa aftur, með vorinu.

Samkvæmt samkomulagi samstarfssveitarfélaganna, mun hvert sveitarfélag fyrir sig leysa byggingarfulltrúamálin tímabundið þar til nýr byggingarfulltrúi verður ráðinn í starfið.

Í því ljósi samþykkir bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar að sviðsstjóri og bæjarstjóri hafi umboð til að ráða tímabundið í stöðu byggingarfulltrúa Grundarfjarðarbæjar, án auglýsingar.

Sviðsstjóri og bæjarstjóri hafa gert samkomulag við Sigurð Val Ásbjarnarson um að hann gegni starfi byggingarfulltrúa Grundarfjarðarbæjar frá og með 10. febrúar 2023 og verður hann skráður sem slíkur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, í samræmi við 3. mgr. 8. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Samþykkt samhljóða.

8.Framnes og hafnarsvæði - Breyting á aðalskipulagi 2023

Málsnúmer 2301004Vakta málsnúmer

Fram er lögð til afgreiðslu bæjarstjórnar vinnslutillaga vegna breytingar á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 vegna hafnarsvæðis og Framness. Breytingin er gerð í tengslum við vinnu við gerð deiliskipulags fyrir Framnes og norðurhluta hafnarsvæðis.

Umfjöllun um málið fór fram í skipulags- og umhverfisnefnd þann 9. janúar sl. og hafnarstjórn þann 23. janúar sl.

Tillögur að breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðis annars vegar og Framness hins vegar eru í vinnslu og eiga eftir að fara í gegnum frekari umræðu í skipulagsnefnd og hafnarstjórn áður en þær fara í kynningu.
Allir tóku til máls.

Rætt um tillöguna.

Lagt til að bæjarstjórn samþykki vinnslutillöguna til kynningar í samræmi við 2. mgr. 30 gr. skipulagslaga nr. 123/2010

Bæjarstjóra er falið að óska eftir því við skipulagsfulltrúa að bætt verði við nánari umfjöllun um göngustíg (upplifunarstíg) meðfram ströndinni frá Norðurgarði eftir Framnesi og að Torfabót, í samræmi við hugmyndir þar um. Einnig að orðalag í texta skilmála um íbúðir á Framnesi verði samræmt, sbr. umræður fundarins.

Bæjarstjórn samþykkir að fyrirliggjandi vinnslutillaga að breytingum á aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, forsendur hennar og umhverfismat verði kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt. Aðalskipulagstillagan verði jafnframt auglýst með áberandi hætti og kynnt sveitarstjórnum aðliggjandi sveitarfélaga, svæðisskipulagsnefnd og öðrum sveitarfélögum sem kunna að eiga hagsmuna að gæta vegna skipulagsins, í samræmi við 1. mgr. 36. gr., sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Að lokinni slíkri kynningu tillögu á vinnslustigi, sem standi í að minnsta kosti 2 vikur, verður aðalskipulagstillagan lögð aftur fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu og send til athugunar Skipulagsstofnunar, sbr. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga, og síðan auglýst opinberlega í sex vikur, í samræmi við 31. gr. skipulagslaga.

Skipulagsfulltrúa er falið að ganga frá tillögunni til kynningar og meðferðar í samræmi við framangreint.

Samþykkt samhljóða.

9.Umhverfisvottun - Framkvæmdaáætlun 2023-2027

Málsnúmer 2302001Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að framkvæmdaáætlun Umhverfisvottunar Snæfellsness 2023-2027, til staðfestingar í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun 2023-2027.

Bæjarstjóra er veitt umboð til að samþykkja og undirrita áætlunina á fundi Byggðasamlags Snæfellinga þar sem áætlunin verður tekin til afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða.

10.Umhverfisvottun Snæfellsness - Úttektarskýrsla EarthCheck

Málsnúmer 2302007Vakta málsnúmer

Lögð fram til afgreiðslu úttektarskýrsla EarthCheck vegna Umhverfisvottunar Snæfellsness - "Onsite Destination Audit Report - Snaefellsnes Peninsula - 17 Jan 2023".
Bæjarstjórn staðfestir fyrir sitt leyti fyrirliggjandi úttektarskýrslu og felur bæjarstjóra, í samráði við forstöðumenn Grundarfjarðarbæjar, að vinna eftir því sem unnt er, að þeim umbótum sem úttektin beinir til bæjarins.

Samþykkt samhljóða.

11.Löggæslumál - þjónusta og aðstaða

Málsnúmer 2301021Vakta málsnúmer

Lögð fram löggæsluáætlun dómsmálaráðuneytisins fyrir árin 2019-2023.

Bæjarstjóri sagði frá samtali sínu við lögreglustjóra Vesturlands og við dómsmálaráðherra í gær, 8. febrúar. Í skoðun.

12.Grundarfjarðarbær - Um þjónustu HVE í Grundarfirði

Málsnúmer 2203025Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri sagði frá fundi sínum með forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands þann 24. janúar sl. á Akranesi og sagði að ýmislegt jákvætt hefði komið þar fram. Ræddu þær um þjónustu HVE í Grundarfirði, einkum stöðu varðandi ráðningu og störf lækna, aðgang lækna að leikskóla- og heilsdagsplássum o.fl. Bæjarstjóri áréttaði hvatningu um umbætur í húsnæðismálum læknis í Grundarfirði.


13.Fjarskiptasamband í Grundarfirði

Málsnúmer 2202004Vakta málsnúmer

Til kynningar, samskipti við Mílu og upplýsingar um framkvæmdir á vegum Mílu í Grundarfirði 2023.
Í svari Mílu við fyrirspurn frá bæjarstjóra þann 31. janúar sl. kom fram að ætlunin sé að leggja og tengja ljósleiðara í hluta þéttbýlisins á komandi sumri skv. meðfylgjandi mynd.
Auk þess séu fleiri hús í skoðun vegna vandamála með kopartengingar.

Sjá einnig: https://www.mila.is/framkvaemdir/tilkynningar-um-framkvaemdir

Framkvæmdir muni líklega fara fram frá miðjum júní fram í miðjan júlí.

Í svarinu kemur fram að vonir standi til þess að unnt verði að ljúka lagningu ljósleiðara í Grundarfirði á næsta ári, 2024.

Af hálfu Mílu var tekið vel í ósk bæjarstjóra um fund til yfirferðar á framkvæmdum og er stefnt að honum síðar í febrúar eða í mars.

14.Samband íslenskra sveitarfélaga - Boðun XXXVIII. landsþings sambandsins

Málsnúmer 2302006Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar fundarboð Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna landsþings sambandsins sem haldið verður þann 31. mars nk. í Reykjavík.

15.Skíðadeild UMFG - Þakkarbréf

Málsnúmer 2301030Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar þakkarbréf stjórnar Skíðadeildar UMFG fyrir stuðning þann sem Grundarfjarðarbær hefur veitt Skíðadeildinni.

16.Sorpurðun Vesturlands - Urðun dýrahræja umræðufundur

Málsnúmer 2302011Vakta málsnúmer

Lagðir fram til kynningar minnispunktar bæjarstjóra af umræðufundi sem Sorpurðun Vesturlands hf. hélt 7. febrúar 2023, með fulltrúum sveitarfélaga, um urðun dýrahræja. Rætt var um leiðir til að taka á móti dýrahræjum og koma þeim í brennslu, en ekki er lengur heimilt að urða dýrahræ.

Á fundinum var samþykkt að fela stjórn SSV að stofna starfshóp fulltrúa sveitarfélaganna á Vesturlandi, til að vinna sameiginlega að lausn á þessu viðfangsefni.

17.Heilbrigðisnefnd Vesturlands - Fundargerð 179. fundar

Málsnúmer 2301017Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 179. fundar Heilbrigðisnefndar Vesturlands, sem haldinn var 7. desember sl.

18.Breiðafjarðarnefnd - Fundargerðir 2022-3

Málsnúmer 2101034Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 210. fundar Breiðafjarðarnefndar, sem haldinn var 6. desember sl.
Fylgiskjöl:

19.Samband íslenskra sveitarfélaga - Fundargerðir 2023

Málsnúmer 2302005Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga; fundargerð 917. fundar sem haldinn var 20. janúar sl. og fundargerð 918. fundar sem haldinn var 27. janúar sl.

20.Samband íslenskra sveitarfélaga - Erindi til sveitarstjórna vegna ágangs búfjár - minnisblað sambandsins

Málsnúmer 2302002Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 3. febrúar sl., um ágang búfjár, álit umboðsmanns Alþingis og úrskurður dómsmálaráðuneytisins.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa erindinu til kynningar hjá skipulags- og umhverfisnefnd, sem fer með fjallskilamál skv. ákvæðum laga um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986.

21.Lögreglustjórinn á Vesturlandi - Handbók AST og næsti fundur almannavarnanefndar

Málsnúmer 2302004Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar handbók fyrir aðgerðastjórnir, sem unnin er af Almannavarnadeild RLS í samvinnu við fulltrúa sveitarfélaga, lögreglustjóra og aðra viðbragðsaðila.

Í tölvupósti kom jafnframt fram að næsti fundur almannavarnanefndar Vesturlands verði haldinn í lok febrúar eða byrjun mars.

22.Ríkislögreglustjórinn - Hvers vegna erum við öll almannavarnir. Ráðstefna Almannavarna fimmtudaginn 27. apríl kl. 1300-1700

Málsnúmer 2302003Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Ríkislögreglustjóra um árlega ráðstefnu Almannavarna sem haldin verður 27. apríl nk.

23.Skipulagsstofnun - Til áminningar - tilkynning um aðalskipulagssjá og stafrænt aðalskipulag

Málsnúmer 2301024Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Skipulagsstofnunar, dags. 25. janúar sl., varðandi skipulagsáætlanir.

Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eiga skipulagsáætlanir nú að vera unnar og skilað á stafrænu formi til Skipulagsstofnunar.
Þetta lagaákvæði tók gildi fyrir svæðisskipulag og aðalskipulag þann 1. janúar 2020 og mun taka gildi fyrir deiliskipulag þann 1. janúar 2025.

Skipulagsstofnun er ætlað að gera skipulagsáætlanir á stafrænu formi aðgengilegar og hefur stofnunin nú opnað aðalskipulagssjá; vefsjá fyrir stafrænt aðalskipulag sem finna má á vef stofnunarinnar. Þar er nú að finna þær aðalskipulagsáætlanir sem skilað hefur verið til stofnunarinnar á stafrænu formi. Fyrirhugað er að birta stafræn gögn aðalskipulags allra sveitarfélaga á landinu í vefsjánni.

Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar 2019-2037 er stafrænt skipulag og er að finna í vefsjánni. Auk þess hefur Grundarfjarðarbær komið sér upp sinni eigin vefsjá, þar sem stafrænt aðalskipulag og fleiri gögn eru birt, sjá: https://geo.alta.is/grundarfjordur/vefsja/

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 19:27.