234. fundur 16. janúar 2020 kl. 15:30 - 18:39 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
  • Hinrik Konráðsson (HK)
  • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS)
  • Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
  • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
  • Garðar Svansson (GS)
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri, sat fundinn undir lið 6.

Forseti setti fund.

Forseti lagði til að tekinn verði á dagskrá með afbrigðum dagskrárliðurinn; Sýslumaðurinn á Vesturlandi - Endurnýjun á rekstrarleyfi - Ferðaþjónustan í Suður-Bár, sem yrði 17. liður á dagskrá. Aðrir liðir færast aftur sem því nemur.

Samþykkt samhljóða.

Gengið var til dagskrár.

1.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1808018Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir minnispunkta sína. Hún sagði m.a. frá fundi sem hún og forseti bæjarstjórnar áttu með forsvarsfólki sveitarfélaga á Snæfellsnesi, þar sem farið var yfir afhendingaröryggi raforku og uppbyggingu innviða rafmagns, fjarskipta og fleira. Sveitarfélögin vinna að því að greina stöðu á innviðum á okkar svæði til að geta fengið skýra mynd af því úr hverju þurfi að bæta. SSV vinnur að slíkri greiningu fyrir Vesturland allt.

Hún sagði frá hafnarframkvæmdum en í dag var byrjað að reka niður stálþil í lengingu Norðurgarðs, sagði frá fundi almannavarnanefndar, forsetaboði, áramótapistli bæjarstjóra, frétt um 110 ára fæðingarafmæli Bergþóru Sigurðardóttur, fundi sem hún og bæjarverkstjóri áttu með verktökum bæjarins um snjómokstur, fundum á næstunni og fleira.

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu - Umræða

Málsnúmer 1808012Vakta málsnúmer

Rætt var m.a. um eftirfarandi:
- Stefna; drög frá Capacent - og næsti fundur stýrihóps.
- Snjómokstur. Fyrirkomulag innanbæjar og á þjóðvegum í sveitarfélaginu.
- Fjölmiðlaskýrsla Creditinfo.

3.Atvinnumál - Umræða

Málsnúmer 1808013Vakta málsnúmer

Engin mál rædd.

4.Skólanefnd - 151

Málsnúmer 1910006FVakta málsnúmer

  • Skólanefnd - 151 Anna Rafnsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla mætti á fundinn.
    Ennfremur Rut Rúnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi af hálfu foreldra og var hún boðin velkomin á sinn fyrsta fund.

    Fyrir fundinum lá greinargerð leikskólastjóra þar sem hún gerði grein fyrir starfsemi skólans. Leikskólastjóri sagði frá helstu þáttum í starfsemi skólans, m.a. hvað varðar starfsmannamál, fjölda nemenda o.fl. Hún sagði frá undirbúningi og innleiðingu á hugmyndafræði "Uppeldi til ábyrgðar", sem leikskólinn, Eldhamrar og grunnskólinn munu taka upp.
    Uppeldi til ábyrgðar hefur það markmið að ýta undir sjálfstjórn og ábyrgðarkennd barna. Aðferðin styður einnig við starfsfólk í starfi sínu og hjálpar þeim að móta stefnu í samskipta- og agamálum.

    Ennfremur var rætt um minnispunkta starfshóps um leikskólalóð, sbr. lið 2 á þessum fundi.
  • Skólanefnd - 151 Anna Rafnsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla og Rut Rúnarsdóttir fulltrúi foreldra sátu fundinn einnig undir þessum lið.
    Starfshópur sem bæjarstjórn skipaði til að fara yfir fyrirkomulag tengt lóð leikskóla og gera tillögu um framkvæmdir, hefur skilað niðurstöðum og liggja nú fyrir minnispunktar um það. Minnispunktarnir lagðir fram til kynningar.

    Farið yfir tillögur starfshópsins og rætt um framkvæmdir. Skólanefnd lýsir ánægju með niðurstöður starfshópsins.

    Hér vék Rut af fundi og var henni þökkuð koman.
  • Skólanefnd - 151 Anna Rafnsdóttir leikskólastjóri sat fundinn undir þessum lið.
    Anna sagði frá skólamálaþinginu, sem Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga stóð fyrir í október sl.

    Skólanefnd hvetur skólastjórnendur til að nýta þann góða efnivið sem fyrir liggur, eftir skólamálaþingið, og mun ræða áfram við skólastjórnendur um hvernig afrakstur þingsins verður tekinn áfram og nýttur í skólastarfinu.

    Hér yfirgaf Anna fundinn og var henni þökkuð koman.
  • Skólanefnd - 151 Lagt fram til kynningar.
  • Skólanefnd - 151 Lagt fram til kynningar.

5.Bæjarráð - 541

Málsnúmer 1912006FVakta málsnúmer

  • 5.1 1912018 Útboð og samningur um tryggingar bæjarins
    Bæjarráð - 541 Lagt fram minnisblað ráðgjafarfyrirtækisins Concello vegna útboðs sem fram fór á tryggingum Grundarfjarðarbæjar. Þrjú tryggingafélög skiluðu inn tilboðum, VÍS, Sjóvá og TM.
    Jafnframt voru lögð fram drög að viðauka um forvarnarsamstarf, en í útboðsgögnum leitaði bærinn eftir skriflegum hugmyndum tilboðsgjafa um útfærslu vegna forvarna, t.d í formi fræðslu, sem leitt gæti til öruggari starfsemi sveitarfélagsins í framtíðinni.

    Bæjarráð samþykkir samhljóða að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda, sem er VÍS. Tilboðið felur í sér lækkun iðgjalda frá samningi við VÍS sem rennur út um áramótin næstu. Ennfremur samþykkir bæjarráð að staðfestur verði viðauki VÍS um forvarnarsamstarf. Samningur verði gerður til þriggja ára.

    Bæjarstjóra falið að ganga frá samningi.

6.Hafnarstjórn - 8

Málsnúmer 1911006FVakta málsnúmer

  • Hafnarstjórn - 8 Lögð fram hönnun Vegagerðarinnar fyrir Grundarfjarðarhöfn, dags. janúar 2020; útfærsla á framkvæmd við landfyllingu á Framnesi, austan Nesvegar.
    Teikningin er grunnmynd/snið í mælikvarða 1:1000 og ber heitið "Landfylling við Framnes". Um er að ræða framkvæmd sem er í samræmi við gildandi deiliskipulag á svæðinu og er hluti af þeirri landfyllingu sem þar er gert ráð fyrir.
    Ennfremur lá fyrir magnskrá, sem ekki er þó bókuð sem fylgigagn í fundakerfi.

    Farið yfir framkvæmdagögn og rætt um framkvæmdina.
    Hafnarstjórn samþykkir samhljóða að hefja framkvæmd við landfyllingu á Framnesi, í samræmi við framlagða teikningu. Efni úr framkvæmd við lengingu Norðurgarðs verði nýtt í fyllinguna og gert er ráð fyrir umtalsverðri samlegð með þeirri framkvæmd sem þar stendur nú yfir.
    Hafnarstjórn samþykkir samhljóða að fela hafnarstjóra að vinna að nauðsynlegum undirbúningi og framkvæmd verksins, afla nauðsynlegra leyfa og leggja inn tilkynningu til skipulagsyfirvalda, auk þess að leggja fram drög að kostnaðaráætlun.

    Bókun fundar Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri sat fundinn undir þessum lið.

    Hann gerði grein fyrir áformaðri framkvæmd við sjóvörn og landfyllingu á Framnesi austan Nesvegar.

    Til viðbótar við framlögð gögn gerði hafnarstjóri grein fyrir því að áætlaður kostnaðarhluti hafnarinnar rúmist innan fjárhagsáætlunar ársins 2020.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu hafnarstjórnar um að hefja framkvæmd við landfyllingu á Framnesi, í samræmi við framlagða teikningu Vegagerðarinnar. Verkið er í samræmi við deiliskipulag svæðisins. Hagkvæmni felst í því að fara í afmarkaða verkþætti framkvæmdarinnar nú meðan lenging Norðurgarðs stendur yfir, m.a. sökum þess að í landfyllinguna verður sett efni sem koma þarf fyrir úr hafnarframkvæmdinni og myndi hafa meiri kostnað í för með sér ef það yrði ekki nýtt.

    Jafnframt er samþykkt samhljóða sú ráðstöfun hafnarstjórnar að fela hafnarstjóra að vinna að nauðsynlegum undirbúningi og framkvæmd verksins, afla nauðsynlegra leyfa og leggja inn tilkynningu til skipulagsyfirvalda.

7.Menningarnefnd - 25

Málsnúmer 1912001FVakta málsnúmer

  • 7.1 1801048 Sögumiðstöðin
    Menningarnefnd - 25 Nefndin ræddi um hlutverk og framtíðarstarfsemi í Sögumiðstöð.
    Sett voru niður atriði í minnisblað sem nefndin mun ganga frá og senda til bæjarstjórnar eða bæjarráðs, um hlutverk, hagsmunaaðila, almenna starfsemi í húsinu, fyrirkomulag, framtíðaruppbyggingu og fleira.
    Vilji nefndarinnar er að í Sögumiðstöð verði lífleg menningarstarfsemi, með sýningarhaldi margskonar, þar sem sögu byggðar verði ekki síst gerð skil. Einnig verði þar eins og verið hefur, almenningsbókasafn og upplýsingamiðstöð, aðstaða til að bjóða kaffiveitingar, og fleira.

  • Menningarnefnd - 25 Umræður um starfsemi nýs menningarfélags og mögulegt samstarf bæjarins við það, sbr. einnig umræður á fundi nefndarinnar 4. júlí sl. og samtöl fulltrúa úr nefndinni við aðila sem að þessu standa síðan þá. Tengist umræðum um næsta lið á undan og kemur inní minnisblaðið sem nefndin mun ganga frá.


  • Menningarnefnd - 25 Alls báru 65 ljósmyndir í samkeppninni 2019 frá yfir 20 aðilum, sem er mjög góð þátttaka.
    Eygló Bára og Sigurborg skipuðu dómnefnd af hálfu menningarnefndar, auk Lúðvíks Karlssonar, Listons, alþýðulistamanns. Þema keppninnar 2019 var "fegurð".
    Oliver Degener átti myndir í fyrsta og öðru sæti og Salbjörg Nóadóttir átti myndina sem valin var í þriðja sæti. Verðlaunaafhending fór fram á aðventudegi Kvenfélagsins þann 2. desember sl.
    Menningarnefnd þakkar öllum ljósmyndurum kærlega fyrir framlag þeirra og óskar verðlaunahöfum til hamingju. Lúðvík Karlssyni er sérstaklega þakkað fyrir ánægjulegt samstarf í dómnefnd.
  • Menningarnefnd - 25 Menningarnefnd samþykkir að ljósyndasamkeppni Grundarfjarðarbæjar fari fram á árinu 2020 með svipuðum hætti og verið hefur. Vísað er í reglur um keppnina.
    Farið var yfir þemu samkeppninnar allt frá 2011.
    Ákveðið var að þema keppninnar 2020 verði "Vetur í Grundarfirði" - en árið 2011 var þemað "Sumar í Grundarfirði".
    Myndirnar verða að vera teknar innan sveitarfélagsmarka á tímabilinu 1. desember 2019 til 1. nóvember 2020.
    Bæjarstjóra falið að setja auglýsingu í loftið um þetta.
  • Menningarnefnd - 25 Menningarnefnd gekkst í annað sinn fyrir viðurkenningu fyrir "Jólahús Grundarfjarðar". Þá er valið fallega skreytt hús í bænum og eigendum þess veittur þakklætisvottur. "Ekki er leitað eftir veglegustu eða mest skreyttu húsunum heldur þeim sem vekja hlýju í hjarta og hug", eins og sagði í auglýsingu nefndarinnar í desember sl.

    Í desember 2018 voru valin tvö hús, en um nýliðin jól varð eitt hús fyrir valinu. María Ósk Ólafsdóttir og Hlynur Sigurðsson, fengu viðurkenningu fyrir hús sitt að Hrannarstíg 14.

    Í dómnefnd voru fulltrúar menningarnefndar, Ólöf Guðrún Guðmundsdóttir, Sigurrós Sandra Bergvinsdóttir og Tómas Logi Hallgrímsson.


8.Skólanefnd - 152

Málsnúmer 1912004FVakta málsnúmer

  • 8.1 1808034 Málefni grunnskólans
    Skólanefnd - 152 Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri grunnskólans sat fundinn undir þessum lið.
    Fulltrúi kennara hafði boðað forföll.

    Sigurður fór yfir fyrirliggjandi gögn sem send höfðu verið nefndarfólki.

    Eftirfarandi kom m.a. fram:

    Innra mat á skólastarfi:

    Innra mat er liður í lögbundnu eftirlitsstarfi skóla og skólayfirvalda sem hefur þann tilgang að tryggja réttindi nemenda og stuðla að skólaumbótum. Skólinn sjálfur sér um innra mat, en á nokkurra ára fresti lætur menntamálaráðuneytið fara fram ytra mat á skólastarfinu.
    Markmið innra mats og eftirlits er einkum þríþætt. Í fyrsta lagi að fylgjast með að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskráa. Í öðru lagi að auka gæði skólastarfsins og stuðla að umbótum, tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum. Í þriðja lagi að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.

    Innra mat byggir m.a. á viðhorfskönnunum nemenda, kennara og foreldra, t.d. gegnum Skólapúlsinn og smærri kannanir, foreldaviðtöl, starfsmannaviðtöl og nemendaviðtöl, sem eru nýtt til innra mats eins og kostur er hverju sinni.
    Sigurður fór yfir niðurstöður úr Skólapúlsinum, könnun meðal nemenda sem gerð var síðasta haust. Niðurstöður verða kynntar á vef skólans, auk þess sem þær eru nýttar við þróun og umbætur í skólastarfi.

    Úttekt ytra mats grunnskólans lauk 2019 og fengu bæjarstjóri, skólaráð og skólinn staðfestingu þess efnis.


    Almennt um skólastarfið

    Skólastarf hefur gengið vel undanfarið.
    Unnið hefur verið að endurskoðun á vinnureglum um Mentor og er litið til annarra sveitarfélaga í þeirri vinnu, m.a. vegna persónuverndarlöggjafar.

    Í nóvember fór skólastjóri ásamt tveimur kennurum í skólaheimsókn til Kinvara á Írlandi. Er þetta þáttur í KA2 Erasmus verkefni sem skólinn tekur þátt í með skólum á Írlandi, Spáni, Póllandi og Noregi. Heimsóttir voru nokkrir skólar og unnið að verkefnum er snúa að sjálfbærni. Í mars er stefnan tekin á Spán og í tökum við á móti kennurum frá þátttökulöndunum. Mikil vinna fer í þetta verkefni, nemendur vinna verkefni og deila með nemendum frá hinum þátttökulöndunum.

    Haldið var Menningarmót þann 18. október sl. undir handleiðslu Kristínar Vilhjálmsdóttur en Menningarmót er haldið til að vekja athygli á mismunandi menningu; matarmenningu, íþróttamenningu, trúarbrögðum o.s.frv. Mikil vinna var lögð í þetta verkefni og ljóst er að það er komið til að vera.

    Forseti Íslands kom í opinbera heimsókn í lok október og skoðaði grunnskóla og Eldhamra, en nemendur sýndu honum í máli og myndum afrakstur Menningarmótsins, skólann sinn og fleira.

    Einn kennari hefur fengið vilyrði frá Námsleyfasjóði um launað námsleyfi fyrir komandi skólaár 2020-2021.

    Bæjarstjóri og skólastjóri fóru yfir þær viðhaldsframkvæmdir sem fram fóru á síðasta ári og það sem fyrirhugað er á þessu ári.
    Skólastjóri lýsti ánægju með framkvæmdirnar sem fram fóru á síðasta ári.

    Bókun fundar Til máls tóku JÓK og HK.
  • 8.2 1808036 Málefni leikskóladeildarinnar Eldhamra
    Skólanefnd - 152 Sigurður Gísli sat fundinn áfram undir þessum lið.
    Í fyrirliggjandi minnispunktum hans kom m.a. fram:

    Starfið á Eldhömrum gengur vel. Nemendur þar taka þátt í alls konar verkefnum í skólanum. Þeir hafa nýlega verið að vinna verkefni í tónlistarskólanum með Alexöndru og einnig hafa þeir verið í nokkurri íþróttakennslu í íþróttahúsi.
    Í janúar fer starfsfólk á námskeið í "Uppeldi til ábyrgðar" sem Leikskólinn Sólvellir ætlar að innleiða.

    Að öðru leyti er vísað til umræðu undir liðum 1 og 3 á dagskránni.

  • 8.3 1808035 Málefni tónlistarskólans
    Skólanefnd - 152 Sigurður Gísli sat fundinn áfram undir þessum lið og gerði grein fyrir starfinu.
    Í fyrirliggjandi minnispunktum hans kom m.a. fram:

    Haustönnin síðasta gekk vel fyrir sig. Skráður var 61 nemandi, flestir í hálft nám, en það er að aukast aftur að nemendur fari í heilt nám og eru skólastjórnendur ánægðir með það. Aldursbil nemenda er mjög breitt, yngstu í 1. bekk og elstu 52 ára. Fjórir kennarar starfa við tónlistarskólann. Kennt var á öll helstu hljóðfæri, ásamt söngkennslu. Einnig tók skólahljómsveitin aftur til starfa. Í henni eru nemendur á unglingastigi sem hafa náð góðu valdi á hljóðfæri.
    Söngur á sal var á sínum stað einu sinni í mánuði sem endaði með jólaþema 11.desember. Nemendur á öllum stigum eru duglegir að taka undir í söng.

    Nemendur Eldhamra hafa fengið tónlistartíma, 4-5 í hóp einu sinni í viku í 6 vikur.
    Elstu nemendur leikskólans komu í heimsókn í nóvember og skoðuðu tónlistarskólann og fræddust um starfið og fengu kynningu á hljóðfærum. Slík heimsókn verður aftur í vor.

    Nemendur komu fram á aðventudegi kvenfélagsins 1. desember í samkomuhúsinu og fóru á dvalarheimilið 16. desember, spiluðu og sungu fyrir íbúa, starfsmenn og gesti. Jólatónleikar tónlistarskólans voru 4. desember í Grundarfjarðarkirkju og voru vel sóttir.

    16. desember var síðasti kennsludagur fyrir jólafrí.


    Á árinu 2019 var bætt við hljóðfærakostinn og ýmsa fylgihluti. Keyptur var saxófónn, rafmagnstrommusett, bassamagnari, gítarmagnari og “tuner? fyrir gítar og bassa.

    Viðhald húsnæðis hefur verið mikið, en allur tónlistarskólinn var málaður í lok síðasta árs, skipt um loftljós og fleira.

    Umræða varð í skólanefnd um tónleika Tónlistarskólans, hvort tvískipta ætti tónleikum til að gefa fleiri nemendum kost á að koma fram, eða hvort fjölga megi viðburðum á vegum skólans. Til frekari umræðu síðar.
  • 8.4 2001003 Samband íslenskra sveitarfélaga - Niðurstöður skólaþings 2019
    Lagt fram til kynningar.
    Skólanefnd - 152

9.Skipulags- og umhverfisnefnd - 209

Málsnúmer 1912005FVakta málsnúmer

  • 9.1 1904022 Árbrekka 1 - Byggingarleyfi
    Embættinu hefur borist umsókn um byggingarleyfi vegna byggingar á sumarhúsi á spildu úr landi Hamra, Árbrekku 1. Skipulags- og umhverfisnefnd - 209 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum.

    Eftir að byggingarleyfið hefur verið gefið út þarf að tilkynna Vegagerðinni um tengingu heimreiðar við þjóðveg.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • 9.2 1908022 Nesvegur 17 - Byggingarleyfi
    ÞF smíði sendir inn beiðni vegna ísetningar á glugga á iðnaðarbili sínu við Nesveg 17. Meðfylgjandi er samþykki allra skráðra eigenda við Nesveg 17. Eigandi hefur einnig skilað inn reyndarteikningum. Skipulags- og umhverfisnefnd - 209 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • 9.3 1911006 Berserkseyri - Byggingarleyfi
    H.G.G Fasteign sendu inn umsókn v/ byggingarleyfis í nóvember sl.
    Á 206. fundi skipulags- og umhverfisnefndar frestaði nefndin erindinu og fól byggingarfulltrúa að fara í vettvangsskoðun.
    Þann 18. desember 2019 fór byggingarfulltrúi ásamt slökkviliðsstjóra í skoðun og reyndust framkvæmdir í samræmi við teikningar. Byggingarfulltrúi hefur yfirfarið og samþykkir framlagðar teikningar.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 209 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum. Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • 9.4 1912009 Nesvegur 4a - Leyfi til niðurrifs
    Fyrir hönd G.Run er óskað eftir byggingarleyfi vegna niðurrifs á húsi við Nesveg 4a. Í framhaldi af því verður síðar sótt um leyfi til uppbyggingar á nýju húsnæði fyrir netaverkstæði fyrirtækisins.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 209 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi til niðurrifs á húsinu Nesvegur 4a, að uppfylltum skilyrðum sbr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð 112/2012 með síðari breytingum. Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • 9.5 1912017 Grundarfjarðarhöfn - Framkvæmdarleyfi sjóvörn og landfylling
    Hafnarstjórn Grundarfjarðar óskar eftir framkvæmdarleyfi og fer þess á leit við bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar/skipulagsnefnd að hún taki ákvörðun um hvort framkvæmdir vegna sjóvarnar og landfyllingar, austan við Nesveg og fram á Framnes, sbr. deiliskipulag svæðisins, séu háðar mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin er í flokki C.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 209 Í samræmi við 6 gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda hefur skipulags- og umhverfisnefnd farið yfir tilkynningu framkvæmdaraðila.

    Niðurstaða nefndarinnar er að sjóvörn og landfylling, austan við Nesveg og fram á Framnes sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000.
    Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

    Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir umsókn framkvæmdaraðila um framkvæmdarleyfi v. framkvæmdarinnar og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdarleyfi.

    Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri kom inn á fundinn og veitti upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir, í upphafi þessa dagskrárliðar.

    Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að ákvörðunin verði auglýst í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000, og kærufrestur ákveðinn, sbr. 14. gr. sömu laga.

    Bókun fundar Fyrir skipulags- og umhverfisnefnd var lagt fram erindi Grundarfjarðarhafnar þar sem tilkynnt er um áformaðar framkvæmdir við sjóvörn og landfyllingu á Framnesi austan Nesvegar, sbr. framlögð gögn. Auk þess var lögð fram ósk um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna framkvæmdarinnar.

    Framkvæmdin er C-framkvæmd og fellur undir flokk V, lið 10.23 í viðauka 1 í lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda nr. 106/2000.

    Framkvæmdin er í samræmi við deiliskipulag á svæðinu, efnistaka í námu í Lambakróarholti er í samræmi við breytingu sem gerð var 2019 á aðalskipulagi vegna efnistöku þar.

    Framkvæmdin er tilkynningarskyld til leyfisveitanda, þ.e. Grundarfjarðarbæjar, sem ákvarðar hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum áður en framkvæmdarleyfi verður veitt.

    Í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 hefur skipulags- og umhverfisnefnd farið yfir tilkynningu framkvæmdaraðila á fundi sínum fyrr í dag. Niðurstaða nefndarinnar var að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

    Nefndin fór jafnframt yfir framlögð gögn vegna framkvæmdarinnar, sem er í samræmi við samþykkt aðal- og deiliskipulag, og samþykkti útgáfu framkvæmdarleyfisins.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða niðurstöðu skipulags- og umhverfisnefndar og mun auglýsa hana í samræmi við 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

    Samþykkt samhljóða.

  • 9.6 1908008 Framkvæmdaleyfi til skógræktar á Spjör
    Á 206. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var afgreiðslu á umsókn um framkvæmdarleyfi frestað og nefndin óskaði eftir við framkvæmdaraðila að gerð yrði grein fyrir umhverfisáhrifum.

    Borist hafa svör við þeim atriðum sem skipulags- og umhverfisnefnd sendi á framkvæmdaraðila, ásamt umsögn (Stutt greinargerð um skógræktarsvæði á Spjör í Grundarfjarðarbæ) dags. 29. apríl 2019 frá skógræktarráðgjafa Skógræktarinnar.
    Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur farið yfir umrædd svör og uppfylla þau þær fyrirspurnir sem lagðar voru fyrir.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 209 Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að yfirfara framlögð gögn og kalla eftir viðbótargögnum sbr. umræður á fundinum og að fengnu áliti skipulagsráðgjafa.
  • 9.7 2001010 Hlíðarvegur 1 - Reyndarteikningar
    Embættið hefur móttekið reyndarteikningar af Hlíðarvegi 1. Byggingarfulltrúi hefur yfirfarið teikningar og leggur til að nefndin samþykki. Skipulags- og umhverfisnefnd - 209 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir erindið.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.

10.Framkvæmdir 2019

Málsnúmer 1902049Vakta málsnúmer

Forseti lagði til að þessum dagskrárlið verði frestað til næsta fundar vegna breytinga á dagskrá sem lengja fundinn.

11.Kosning í nefndir skv. B lið 47. gr. samþykktar um stjórn Grundarfjarðarbæjar

Málsnúmer 1806014Vakta málsnúmer

Kosning varamanns í hafnarstjórn og varamanns í menningarnefnd, í staðinn fyrir Heiði Björk Fossberg Óladóttur.

Lagt til að Rósa Guðmundsdóttir verði varamaður í hafnarstjórn og Linda María Nielsen varamaður í menningarnefnd.

Samþykkt samhljóða.

12.Kosning í nefndir og stjórnir skv. C. lið 47. gr. samþykkta um stjórn Grundarfjarðarbæjar.

Málsnúmer 1806016Vakta málsnúmer



Kosning eins fulltrúa (aðalmanns) á aðalfund SSV og varamanns í eigendaráð Svæðisgarðsins Snæfellsness, í staðinn fyrir Heiði Björk Fossberg Óladóttur.

Lagt til að Unnur Þóra Sigurðardóttir verði aðalmaður á aðalfund SSV og Bjarni Sigurbjörnsson verði varamaður í stað Unnar, sem verið hefur varamaður þar.

Samþykkt samhljóða.

Ennfremur lagt til að Bjarni Sigurbjörnsson verði varamaður í eigendaráði Svæðisgarðsins Snæfellsness.

Samþykkt samhljóða.

13.Óbyggðanefnd - Þjóðlendumál á Snæfellsnesi

Málsnúmer 1808031Vakta málsnúmer

Lagður fram úrskurður óbyggðanefndar vegna Hrafnkelsstaða og önnur gögn málsins, ásamt minnisblaði Lögmanna Suðurlandi.

Niðurstaða úrskurðarnefndar í máli 3/2018, Eyrarbotn:
- Fallist er á kröfu íslenska ríkisins um að Eyrarbotn sé þjóðlenda vestur að línu sem dregin er um Fellstá við Kolgrafarfjörð og um háeggjar Gunnungsfells. Sama svæði er í afréttareign eigenda jarðanna Nausts, Nýjubúðar, Skallabúða, Akurtraða og Berserkseyrar.
- Hafnað er kröfu ríkisins um að svæði vestan áðurnefndrar línu og vestur að Hrafná sé þjóðlenda.

Lagt til að ekki verði aðhafst frekar og að úrskurði óbyggðanefndar verði unað varðandi jörðina Hrafnkelsstaði.

Samþykkt samhljóða.

14.Lögreglusamþykkt fyrir Vesturland

Málsnúmer 1712011Vakta málsnúmer


Lögð fram drög að sameiginlegri lögreglusamþykkt fyrir Vesturland ásamt lögum um lögreglusamþykktir nr. 36/1988 og reglugerð nr. 1127/2007 um lögreglusamþykktir og fleiri gögnum.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi drög.

15.Tímabundinn afsláttur á gatnagerðargjöldum

Málsnúmer 2001011Vakta málsnúmer

Forseti mælti fyrir tillögu um að bæjarstjórn samþykki að veita tímabundinn afslátt af gatnagerðargjöldum eldri íbúðarlóða í Grundarfjarðarbæ, sem og af tilbúnum iðnaðarlóðum í iðnaðarhverfinu Ártúni/Hjallatúni.

Um verði að ræða 50% afslátt gatnagerðargjalda skv. gildandi gjaldskrá, tímabundið í sex mánuði frá endanlegri samþykkt nánari skilmála, sem bæjarráði er falið að útfæra um framkvæmd þessa.

Skilmálar taki á tímafrestum úthlutana, gögnum sem leggja þarf fram og öðru sem þarf að koma fram til að tryggja skilvirka framkvæmd á úthlutun lóða og framkvæmdum á þeim grunni. Tilgreindar verði þær lóðir sem um ræðir.

Ráðstöfunin er gerð til að ýta frekar undir byggingu íbúðarhúsnæðis sem skortur er á, sem og atvinnuhúsnæðis, með vísan í sérstaka lækkunarheimild í 6. gr. laga um gatnagarðargjald nr. 153/2006. Lækkun mun ekki taka til nýrra lóða og ekki til byggingarreits í miðbæ, við Grundargötu/Hrannarstíg.

Til máls tóku JÓK, UÞS og RG.

Samþykkt samhljóða.

16.Félag heyrnarlausra - Þjóðargjöf App heyrnarlausra

Málsnúmer 1912021Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni Félags heyrnarlausra um styrk vegna gerðar táknmálsapps, sögustundar á táknmáli í símanum fyrir heyrnarlaus börn.

Til máls tóku JÓK og GS.

Bæjarstjórn vísar málinu til bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

17.Sýslumaðurinn á Vesturlandi - Endurnýjun á rekstrarleyfi - Ferðaþjónustan í Suður-Bár

Málsnúmer 1911025Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni Sýslumannsins á Vesturlandi, þar sem óskað er umsagnar á umsókn Ferðaþjónustunnar í Suður-Bár um restrarleyfi í flokki II.

Til máls tóku JÓK og BÁ.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við að umbeðið leyfi sé veitt, enda liggi fyrir jákvæðar umsagnir annarra umsagnaraðila.

Samþykkt samhljóða.

18.Byggðakvóti 2019-2020

Málsnúmer 1910023Vakta málsnúmer


Lagt fram til kynningar bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dags. 30. desember sl. ásamt fleiri gögnum. Skv. bréfi ráðuneytisins er úthlutaður byggðakvóti til Grundarfjarðarbæjar samtals 140 þorskígildistonn. Um er að ræða mun minni úthlutun en á síðasta ári, sem var 300 tonn, og hefur bæjarstjóri óskað skýringa frá ráðuneytinu.

19.Sorpurðun Vesturlands - um gjaldskrá 2020

Málsnúmer 1912013Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar uppfærð gjaldskrá Sorpurðunar Vesturlands fyrir árið 2020.

Til máls tóku JÓK og UÞS.

20.Sorpurðun Vesturlands hf. - Fundargerð stjórnarfundar 11.12.2019

Málsnúmer 1912016Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnarfundar Sorpurðunar Vesturlands, sem haldinn var 11. desember 2019.

21.Félag leikskólakennara - Ályktun

Málsnúmer 1912023Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar ályktun stjórna og skólamálanefnda Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla frá 12. desember 2019.

22.SSV - Stofnfundur Ungmennaráðs Vesturlands

Málsnúmer 1912025Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar fundarboð vegna stofnfundar Ungmennaráðs Vesturlands, sem stóð til að halda 14. janúar en var frestað vegna veðurs til 28. janúar nk.
Jafnframt lagt fram til kynningar erindisbréf fyrir væntanlegt Ungmennaráð Vesturlands.

Bæjarstjórn óskar eftir því að ungmennaráð tilnefni fulltrúa á stofnfundinn og felur skrifstofustjóra að hafa samband við ungmennaráð.

Til máls tóku JÓK, GS og UÞS.

23.Samband íslenskra sveitafélaga - Fundargerð 877. stjórnarfundar

Málsnúmer 1912024Vakta málsnúmer


Lögð fram til kynningar fundargerð 877. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 13. desember 2019.

24.Heilbrigðiseftirlit Vesturlands - Bréf vegna framlaga sveitarfélaga 2020

Málsnúmer 1912008Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, dags. 2. janúar 2020, ásamt yfirliti yfir greiðslur 2020 til eftirlitsins skv. fjárhagsáætlun 2020.

25.Samorka - Fundur um gjaldskrár vatnsveitna

Málsnúmer 2001006Vakta málsnúmer


Lagður fram til kynningar tölvupóstur Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samorku vegna fundar um gjaldskrár vatnsveitna, sem hefur verið haldinn.

26.Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga - Fundargerð 104. stjórnarfundar

Málsnúmer 2001007Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 104. fundar stjórnar Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, sem haldinn var 18. desember 2019, ásamt lokaútgáfu fjárhagsáætlunar 2020.

27.Jafnréttisstofa - Upplýsingaöflun vegna stöðu jafnlaunavottunar

Málsnúmer 2001009Vakta málsnúmer


Lagt fram til kynningar bréf Jafnréttisstofu, sem leitar upplýsinga um stöðu jafnlaunavottunar hjá sveitarfélaginu. Vinnu við jafnlaunavottun er ekki lokið. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi standa sameiginlega að þeirri vinnu að afla jafnlaunavottunar og er undirbúningur þeirrar vinnu farinn af stað.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 18:39.