246. fundur 11. febrúar 2021 kl. 16:30 - 20:01 í Samkomuhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK) forseti bæjarstjórnar
  • Hinrik Konráðsson (HK)
  • Unnur Þóra Sigurðardóttir (UÞS)
  • Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
  • Rósa Guðmundsdóttir (RG)
  • Garðar Svansson (GS)
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Minnispunktar bæjarstjóra

Málsnúmer 1808018Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri fór yfir minnispunkta sína og sagði frá ýmsum málum í vinnslu. Hún ræddi um áherslur bæjarstjórnar allt frá 2018, um að fá haldbetri upplýsingar um útsvarið, álagningu þess, innheimtu og upplýsingagjöf og sagði frá því að í þessari viku hafi komið í ljós að ríkið hafi ofgreitt sveitarfélögum háar fjárhæðir í útsvari sem væntanlega verði þá að semja um hvernig verði greiddar til baka eða leiðréttar. Hún sagði þetta furðu sæta og kallaði á góðar skýringar. Hún sagði frá áherslum um aukinn fréttaflutning af málefnum bæjarins. Hið sama gildir um fréttaflutning á vegum Svæðisgarðs þar sem í bígerð er að segja sögur af Snæfellsnesi.

Bæjarráð fór í heimsókn í Sögumiðstöð um daginn og sagt hefur verið frá því og þeim framkvæmdum sem þar eru í gangi.

Allir tóku til máls undir þessum lið.

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu - Umræða

Málsnúmer 1808012Vakta málsnúmer

Forseti leggur til að dagskrárliðir 2 og 3 verði ræddir saman.

Forseti ræddi um fund sem haldinn verður 15. febrúar nk. með fulltrúum Stykkishólmsbæjar, Helgafellssveitar og Eyja- og Miklaholtshrepps þar sem farið verður yfir drög að samkomulagi um sameiginlegt embætti skipulags- og byggingarfulltrúa. Fulltrúar bæjarins verða Jósef og Hinrik, auk bæjarstjóra. Bæjarstjóri hefur sent bæjarfulltrúum til skoðunar nýjustu drögin, sem unnið hefur verið að.

Hann minntist einnig á fund sem verður haldinn 18. febrúar nk. í samræmi við bókun bæjarráðs þar sem óskað var eftir sameiginlegu samtali bæjarfulltrúa við fulltrúa nokkurra stofnana um stöðu og líðan fólks á tímum Covid - hvort og hvaða merki séu um breytingar vegna áhrifa Covid og hvort/hvernig ástæða sé til að bregðast við. Á fundinum verða fulltrúar lögreglunnar, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Fjölbrautaskóla Snæfellinga og Félags- og skólaþjónustunnar, skólastjórar leik- og grunnskóla og forstöðumaður félagsmiðstöðvar sitja fundinn, auk þess sem fulltrúum Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Fellaskjóls og UMFG hefur verið boðið að taka þátt. Fundurinn verður fjarfundur.

Forseti minntist á að sveitarfélögin á Vesturlandi hefðu sent frá sér sameiginlega fréttatilkynningu um mikilvægi þess að hefja framkvæmdir við Sundabraut.

Þá sagði hann frá því að fyrirhugaður væri fundur með Íslenska gámafélaginu um þjónustumál. Rætt um fundartíma og fundarefni. Stefnt er að því að fá fulltrúa Íslenska gámafélagsins inn á næsta fund bæjarráðs í febrúar.

GS ræddi um framför í snjómokstri, hraðahindranir, tímabundna ráðningu á bæjarskrifstofu og styrki til íþróttafélaga. Hann hvatti til þess að stefnumótun í íþróttamálum verði hraðað.

Allir tóku til máls undir þessum lið.

3.Atvinnumál - Umræða

Málsnúmer 1808013Vakta málsnúmer

Umræða um þennan lið sameinuð dagskrárliðnum á undan.

4.Bæjarráð - 563

Málsnúmer 2101002FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 563. fundar bæjarráðs.
  • 4.1 1801048 Sögumiðstöðin
    Bæjarráð - 563 Í upphafi fundar fóru fundarkonur í Sögumiðstöðina og skoðuðu þær breytingar sem eru farnar af stað þar. Ætlunin er að í Sögumiðstöðinni verði "samfélagsmiðstöð" bæjarbúa. Þar verður áfram starfsemi bókasafnsins og upplýsingamiðstöðvar og Bæringsstofa verður með nær óbreyttu sniði. Með breytingunum verður hins vegar skapað aukið rými og betri aðstaða fyrir margvíslegt félagsstarf og minni samkomur. Með hliðsjón af því er bæjarstjóra falið að ræða forsvarsfólk félagsstarfs og Verkalýðsfélag Snæfellinga vegna þeirrar starfsemi sem farið hefur fram að Borgarbraut 2.

    Samþykkt samhljóða.

    Rætt var við Inga Hans Jónsson hjá Ildi ehf./Sögustofunni, sem hefur umsjón með breytingunum. Formaður menningarnefndar var jafnframt viðstödd.

    Farið var yfir áður fram komnar tillögur Inga Hans að grunnhönnun rýma í Sögumiðstöð. Næstu skref eru að ljúka frágangi teikninga vegna þeirra breytinga sem tillögurnar gera ráð fyrir.

    Bæjarstjóri sagði frá því að til stæði að Eyrbyggjar, hollvinasamtök, myndu leggja verkefninu til fjárstyrk.

    Bæjarráð fagnar því, sem og þeim styrk sem Uppbyggingarsjóður Vesturlands veitti nú nýverið til uppbyggingar í húsinu fyrir þróun og breytta starfsemi.

    Inga Hans var þakkað fyrir leiðsögnina.
  • Bæjarráð - 563 Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.
  • 4.3 2002001 Greitt útsvar 2020
    Bæjarráð - 563 Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-desember 2020. Skv. yfirlitinu hækkaði útsvar um 0,6% milli áranna 2019 og 2020. Upphafleg fjárhagsáætlun ársins 2020 gerði hins vegar ráð fyrir um 5% hækkun.

    Bæjarráð ræddi um þá stöðu sem upp kom í lok síðasta árs, í samræmi við það sem fram kemur í frétt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 11. janúar sl. - sjá hér: https://www.samband.is/frettir/utsvar-i-stadgreidslu-haekkar-um-4-milli-ara/

    “Í því skyni að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins var gerð breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Breytingin færði launagreiðendum sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna faraldursins heimild til að fresta allt að þremur gjalddögum skatta, þ.m.t. útsvari, á tímabilinu apríl til desember 2020. Í lok árs var sveitarfélögum greitt útsvar, sem frestað hafði verið, alls 3,1 milljarður króna. Rétt er að taka fram að sveitarfélögum hafði ekki verið gerð grein fyrir áhrifum frestunar greiðslna og komu greiðslur í lok árs þeim nokkuð á óvart.?

    Í samræmi við þetta bárust Grundarfjarðarbæ útsvarsgreiðslur í lok desember sem ekki voru fyrirséðar þegar endurskoðun fjárhagsáætlunar fór fram í september/október og endurspeglaðist ekki í spám um útsvarsgreiðslur á síðasta ári sem unnið hafði verið eftir. Grundarfjarðarbæ var ekki kunnugt um það á síðasta ári að innborgaðar útsvarsgreiðslur ársins væru ekki að skila sér að fullu þegar þær voru greiddar inná reikning sveitarfélagsins.

    Eftirfarandi tillaga lögð fram um bókun:

    Útsvarið er langveigamesti tekjustofn sveitarfélaganna. Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar lýsir furðu á því verklagi af hálfu ríkisins, að útsvar hafi ekki verið greitt sveitarfélögunum í samræmi við skilagreinar og fyrri upplýsingar af hálfu ríkisins um að heimiluð frestun á staðgreiðslu opinberra gjalda hefði ekki áhrif á greiðslur útsvars til sveitarfélaganna.

    Bæjarráð og bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hafa gagnrýnt laka upplýsingagjöf af hálfu ríkisins til sveitarfélaga um útsvarið og hafa í þó nokkurn tíma kallað eftir haldbetri upplýsingum, m.a. um uppruna útsvars og skiptingu eftir atvinnugreinum. Þegar miklar sviptingar eru í efnahagsmálum þjóðarinnar og óvissa mikil, eins og allt síðasta ár vegna áhrifa Covid, þá er það sérlega bagalegt hve litla innsýn sveitarfélögin hafa í eðli og uppruna útsvarstekna sinna. Það er að auki allsendis óviðunandi að sveitarfélög þurfi að byggja fjárhagsstjórn sína á misvísandi upplýsingum um megintekjustofn sinn.

    Bæjarráð kallar eftir skoðun og reikningsskilum frá Fjársýslunni á útsvarsgreiðslum Grundarfjarðarbæjar.

    Samþykkt samhljóða.

    Bókun fundar Bæjarstjóri sagði frá því að síðan þessi bókun var gerð, hafi það komið í ljós í þessari viku að sveitarfélög landsins hafi fengið ofgreidda staðgreiðslu, að öllum líkindum fyrir mistök, samtals yfir 3 milljarða króna. Samband íslenskra sveitarfélaga eigi nú í viðræðum við fjármálaráðuneytið um þetta mál og framkvæmd endurgreiðslu, auk þess sem skýringa hafi verið óskað á því hvað gerðist.

    Forseti leggur fram eftirfarandi tillögu að bókun:

    Bæjarstjórn tekur undir bókun á 563. fundi bæjarráðs, þar sem lýst er furðu á því verklagi af hálfu ríkisins, að útsvar hafi ekki verið greitt sveitarfélögunum á árinu 2020 í samræmi við skilagreinar og fyrri upplýsingar af hálfu ríkisins um að heimiluð frestun á staðgreiðslu opinberra gjalda hefði ekki áhrif á greiðslur útsvars til sveitarfélaganna. Bæjarráð og bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hafa gagnrýnt laka upplýsingagjöf af hálfu ríkisins til sveitarfélaga um útsvarið og hafa í þó nokkurn tíma kallað eftir haldbetri upplýsingum, m.a. um uppruna útsvars og skiptingu eftir atvinnugreinum. Þegar miklar sviptingar eru í efnahagsmálum þjóðarinnar og óvissa mikil, eins og allt síðasta ár vegna áhrifa Covid, þá er það sérlega bagalegt hve litla innsýn sveitarfélögin hafa í eðli og uppruna útsvarstekna sinna. Það er að auki allsendis óviðunandi að sveitarfélög þurfi að byggja fjárhagsstjórn sína á misvísandi upplýsingum um megintekjustofn sinn. Vangreiðsla útsvars á árinu 2020 og ofgreiðsla í janúar 2021 kallar á skýringar á því hvernig slík mistök geti gerst. Ekki eingöngu leiðir slíkt til aukinnar fyrirhafnar og óvissu hjá sveitarfélögum, heldur einnig til beins kostnaðar af því að þurfa að fjármagna lögbundin verkefni og annan rekstur með lánsfé, meðan sveitarfélögin eiga vangreiddar tekjur inni hjá ríkinu.

    Áhrifin eru þó öllu alvarlegri að því leytinu til, að mistök og misvísandi upplýsingar leiða vel í ljós þann veikleika sem býr í framkvæmd álagningar, innheimtu og upplýsingagjafar af hálfu ríkisins, um útsvarsgreiðslur sveitarfélaganna. Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur á þessu kjörtímabili kallað eftir úrbótum og ítrekar þær ályktanir hér með. Nauðsynlegt er sveitarfélögum séu veittar skýringar og reikningsskil gerð við innheimtu ríkisins og skil á útsvarsgreiðslum til sveitarfélaganna. Við þetta ógagnsæi verður ekki unað lengur.

    Samþykkt samhljóða.
  • 4.4 2006020 Launaáætlun 2020
    Bæjarráð - 563 Lagt fram yfirlit sem sýnir samanburð á launaáætlun og útgreiddum launum Grundarfjarðarbæjar janúar til desember 2020. Við endurskoðun fjárhagsáætlunar sl. haust var launaáætlun ársins lækkuð um 23 millj. kr. vegna ýmissa breytinga, en skv. framlögðu yfirliti enduðu raunlaun ársins í að vera 5,5 millj. kr. yfir hinni endurskoðuðu áætlun. Var það m.a. vegna breytinga og hækkana á kjarasamningum á seinni hluta ársins.
  • Bæjarráð - 563 Lagt fram bréf Sýslumannsins á Vesturlandi, þar sem óskað er eftir að afskrift á álögðum opinberum gjöldum með höfuðstól að fjárhæð 1.439.546 kr. ásamt dráttarvöxtum.

    Bæjarráð samþykkir samhljóða beiðni sýslumanns.
  • Bæjarráð - 563 Ragnheiður Agnarsdóttir ráðgjafi sat fundinn undir þessum lið.

    Lagðir fram tölvupóstar frá Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellsness (SDS) ásamt bréfi frá fulltrúum í starfshópi grunnskólans um styttingu vinnuvikunnar.

    Í erindunum er lýst vonbrigðum með að ekki hafi verið samþykkt að fara í fulla styttingu vinnuvikunnar, þ.e. í 36 klst. á viku fyrir fullt starf. Jafnframt kemur fram að bæjarráð hefði átt að hafna tillögum vinnutímanefnda stofnana, fyrst ekki var samþykkt að ganga alla leið og fara í fulla styttingu.

    Bæjarráð samþykkti styttingu vinnuvikunnar um 30 mínútur á dag, eða 2 ½ klst. á viku sem þýðir að virkur vinnutími starfsfólks í 100% starfi sé 36 klst. á viku, auk 20 mínútna neysluhlés á dag, eða samtals 37,5 klst. vinnuvika.

    Því getur bæjarráð ekki fallist á að tillögum starfsmanna hafi verið hafnað. Þvert á móti var fallist á meginhluta tillagna sem vörðuðu útfærslur á styttingu sem bárust bæjarráði og kosið hafði verið um á hverjum vinnustað. Með höfnun á tillögum starfsmanna myndi 13 mínútna stytting á dag skv. kjarasamningum taka gildi, sem er 65 mínútna stytting á viku fyrir fullt starf, eða 38,9 klst. vinnuvika.

    Bæjarráð vill árétta að faglega var staðið að vinnu við styttingu vinnuvikunnar af hálfu Grundarfjarðarbæjar. Ekki verður annað séð en að almenn ánægja ríki meðal starfsfólks um styttinguna. Í upphafi vinnunnar var gerð könnun meðal þeirra starfsmanna sem stytting nær til. Af 50 starfsmönnum svöruðu 34, sem er 68% svarhlutfall.

    Niðurstöður könnunarinnar leiddu m.a. í ljós eftirfarandi:
    -
    að flestir telja heppilegast að safna styttingu upp innan mánaðar
    -
    að meirihluti þeirra sem hafa fastan kaffitíma innan vinnudagsins eru ekki reiðubúin til að stytta kaffitíma til þess að ná fram meiri styttingu, eða 67% svarenda
    -
    að mikill meirihluti þeirra sem eru með fastan matartíma innan vinnudagsins eru ekki reiðubúin að stytta matatíma með það að markmiði að ná fram meiri styttingu, eða 84% svarenda
    -
    að meirihluti starfsfólks er tilbúinn að vinna sveigjanlegan vinnutíma til að tryggja óbreytta þjónustu eftir að stytting tekur gildi

    Bæjarráði þótti því ljóst að það væri ekki í hag starfsfólks að afsala sér með öllu forræði yfir matar- og/eða kaffitímum innan dagsins, enda eru hvíldarhlé innan dagsins nauðsynleg. Því var lögð áhersla á að starfsfólk héldi forræði sínu yfir 20 mínútna daglegu neysluhléi. Með því væri betur hlúð að velferð og heilsu starfsfólks og góðri vinnustaðamenningu. Eins og fram kom í fyrri bókun bæjarráðs, sem og í vinnu vinnutímanefndarinnar, er hér um mikilvægt skref að ræða og því er brýnt að vel takist til. Þá er lögð áhersla á að tryggt sé jafnræði milli stofnana en að hver stofnun útfæri sína styttingu í sínu nærumhverfi.

    Bæjarráð bendir á að í fylgiskjali 2 með kjarasamningi aðila segir:
    „Breyting á skipulagi vinnutíma á að öðru óbreyttu ekki að leiða til breytinga á launum eða launakostnaði sveitarfélaga. Jafnframt er forsenda breytinganna að starfsemi vinnustaðarins raskist ekki og að opinber þjónusta sé að sömu gæðum og áður.“

    Bæjarráð telur að full stytting vinnuvikunnar í 36 klst. á viku fyrir fullt starf muni leiða af sér aukinn rekstrarkostnað og/eða þjónustuskerðingu. Ef ráða þarf inn starfsmenn til afleysinga er ljóst að um kostnaðarauka er að ræða. Ef það er ekki gert er ljóst að um þjónustuskerðingu er að ræða.

    Eins og fram kom í bókun bæjarráðs þann 21. desember sl. verður fyrirkomulag þetta endurmetið í maí 2021 með tilliti til markmiða þeirra sem sett voru með breytingunni.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 563 Lagt fram tilboð Advania í tímaskráningarkefið Vinnustund ásamt kynningu á kerfinu, sem bæjarstjóri, skrifstofustjóri og launafulltrúi sátu. Gert er ráð fyrir stofnkostnaði í fjárhagsáætlun.

    Bæjarráð samþykkir samhljóða að gengið verði að tilboði Advania.
  • Bæjarráð - 563 Lögð fram fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands (HeV) fyrir árið 2021. Áætlunin hafði verið lækkuð frá þeirri sem upphaflega barst sveitarfélögunum.

    Bæjarstjóri sat fund í sl. viku þar sem farið var yfir ákvarðanir Heilbrigðisnefndar/Heilbrigðiseftirlits, gerð fjárhagsáætlunar og gjaldskrár. Endurskoðuð áætlun er send til bæjarstjórna á Vesturlandi til formlegrar samþykktar.

    Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að fjárhagsáætlun HeV verði samþykkt.

    Samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Forseti ber upp tillögu bæjarráðs um að endurskoðuð og breytt fjárhagsáætlun HeV verði samþykkt.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 563 Fundarkonur hittu fulltrúa Ungmennafélags Grundarfjarðar (UMFG) að Borgarbraut 18, þar sem hafinn er undirbúningur að aðstöðu fyrir rafíþróttastarfsemi.

    Lögð fram drög að leigusamningi Grundarfjarðarbæjar og UMFG um Borgarbraut 18. Húsið hefur verið afhent og búið er að semja við Símann um nettengingar.

    Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi leigusamning og felur bæjarstjóra frágang hans.

    Samþykkt samhljóða.
  • 4.10 2001008 Grundargata 65
    Bæjarráð - 563 Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulags- og byggingarfulltrúi, sat fundinn undir þessum lið, í gegnum síma.

    Lagðir fram minnispunktar skipulags- og byggingarfulltrúa eftir skoðun á íbúð bæjarins að Grundargötu 65. Íbúðin hefur verið á söluskrá. Í ljósi upplýsinga frá skipulags- og byggingarfulltúa og í samræmi við umræður fundarins, er lagt til að gerðar verði minniháttar lagfæringar í íbúðinni. Jafnframt verði veitt heimild til tímabundinnar útleigu íbúðarinnar.

    Samþykkt samhljóða.

  • Bæjarráð - 563 SÞ vék af fundi undir þessum lið.

    Lögð fram drög að samningi Grundarfjarðarbæjar við fyrirtækið Sanna landvætti um bílastæði við Kirkjufellsfoss ásamt beiðni Grundarfjarðarbæjar til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í júlí 2019 um að verkþáttur vegna bílastæða verði tekinn út úr framkvæmdaáætlun vegna styrkveitingar við áningarstaðinn Kirkjufellsfoss.

    Sannir landvættir höfðu áður gert samning við landeigendur Kirkjufells. Félag á þeirra vegum tekur þá yfir rekstur bílastæðisins og sinnir þjónustu á því. Bílastæðinu yrði þá afsalað til félagsins gegn greiðslu framkvæmdakostnaðar.

    Bæjarráð felur bæjarstjóra að ljúka samingaviðræðum við Sanna landvætti á þeim grunni sem framlögð gögn sýna. Endanlegur samningur verður lagður fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

    Samþykkt samhljóða.

    SÞ tók aftur sæti sitt á fundinum.
    Bókun fundar Til máls tóku JÓK, GS og BÁ.
  • Bæjarráð - 563 Lagt fram minnisblað HLH ráðgjafar varðandi stöðu á viðræðum um samstarf fjögurra sveitarfélaga á Snæfellsnesi um verkefni skipulags- og byggingarfulltúa. Bæjarstjóri fór stuttlega yfir stöðuna í undirbúningsvinnunni. Tillaga um samstarfssamning er í smíðum, en þar mun koma fram fyrirkomulag samstarfs, kostnaðarskipting, stjórnskipuleg staða starfsmanna o.fl.

    Stefnt er að sameiginlegum fundi fulltrúa sveitarfélaganna fjögurra í febrúar til að fara yfir tillögu um fyrirkomulag hins sameiginlega embættis, til undirbúnings afgreiðslu í sveitarstjórnunum sjálfum.

    Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna áfram að málinu.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 563 Lagðar fram verklagsreglur sjö sveitarfélaga um birtingu gagna með fundargerðum stjórna og ráða.

    Bæjarstjóra og skrifstofustjóra falið að gera drög að verklagsreglum Grundarfjarðarbæjar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 563 Lagður fram til kynningar tölvupóstur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar varðandi samstarf á sviði brunamála.
  • Bæjarráð - 563 Lögð fram til kynningar skýrsla starfshóps um stöðu og stefnu úrgangsmála á Vesturlandi. Boðað hefur verið til eigendafundar þann 1. febrúar nk. um málið.
  • Bæjarráð - 563 Lagðir fram til kynningar minnispunktar frá fundi Veitna og Grundarfjarðarbæjar sem haldinn var 13. janúar sl. Bæjarstjóri sagði frá samskiptum við Veitur í framhaldi af fundinum.
  • Bæjarráð - 563 Lagt fram til kynningar bréf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um úthlutun byggðakvóta 2020-2021.
  • Bæjarráð - 563 Lögð fram til kynningar drög að stefnu um meðhöndlun úrgangs 2021-2032 sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda.
  • Bæjarráð - 563 Lögð fram til kynningar ýmis gögn í framhaldi af ráðstefnu um sorpbrennslu sem haldin var 11. janúar sl.
  • Bæjarráð - 563 Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Svæðisgarðsins frá 11. og 18. nóvember sl.
  • Bæjarráð - 563 Lagður fram til kynningar samningur um fánaumsýslu 2020-2021.
  • Bæjarráð - 563 Lagður fram til kynningar tölvupóstur og önnur gögn frá félagsmálaráðuneytinu varðandi skipun sérfræðingateymis til að vera sveitarfélögum til ráðgjafar um viðeigandi þjónustu við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir.
  • Bæjarráð - 563 Lagður fram til kynningar tölvupóstur Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, dags. 18. janúar sl., varðandi Lífshlaupið, sem haldið verður 3. febrúar nk.
  • Bæjarráð - 563 Lögð fram til kynningar skrá yfir störf sem undanþegin eru verkfallsheimild, sem er óbreytt frá árinu 2019, ásamt bréfum til stéttarfélaga og svörum þeirra.
  • Bæjarráð - 563 Lagt fram til kynningar boð um þátttöku í Húsnæðisþingi sem haldið var í dag, 27. janúar. M.a. var farið yfir nýja skýrslu um stöðu og þróun á húsnæðismarkaði, rætt við sveitarstjórnarfólk og byggingaraðila, auk þess sem embættismenn og stjórnmálamenn sátu fyrir svörum.

5.Íþrótta- og æskulýðsnefnd - 99

Málsnúmer 2102002FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 99. fundar íþrótta- og æskulýðsnefndar.
  • 5.1 2012037 Ungmennafélag Grundarfjarðar - aðstaða fyrir rafíþróttir og húsnæðismál Félagsmiðstöðvarinnar Eden
    Til skoðunar er, að beiðni bæjarráðs, erindi sem snýr að húsnæði og aðstöðu fyrir Félagsmiðstöðina Eden og tengist erindi UMFG um aðstöðu fyrir rafíþróttir. Íþrótta- og æskulýðsnefnd - 99 Bæjarráð hafði óskað eftir því að íþrótta- og æskulýðsnefnd tæki til skoðunar húsnæðismál og aðstöðu Félagsmiðstöðvarinnar Eden. Til skoðunar hafa verið húsnæðismál í framhaldi af beiðni stjórnar UMFG um aðstöðu fyrir rafíþróttastarf sem hleypa á af stað á komandi ári.

    Sú hugmynd hefur komið upp, að félagsmiðstöð fái aðstöðu í grunnskóla, auk þess að nýta aðstöðu í samkomuhúsi og Sögumiðstöð, en þar er verið að vinna að breytingum á húsnæði og rými, þannig að það nýtist betur fyrir margvíslegt menningar- og félagsstarf. Félagsmiðstöðin hefur verið með aðstöðu í húsnæði sveitarfélagsins að Borgarbraut 18 og er hugmynd um að UMFG fái það til afnota fyrir rafíþróttastarf.

    Húsnæði grunnskólans, neðri hæð, var skoðað með tilliti til þess hvernig nýta mætti rými þar fyrir félagsstarf á vegum Eden. Rætt var um útfærslu og það sem hafa þyrfti í huga í þessu sambandi. Ákveðin samlegð er í því fólgin að nýta rýmið fyrir félagsstarf unglinga, en einnig fylgja því áskoranir og forðast þarf árekstra. Rætt var, að kostir séu við það að dreifa starfseminni og hafa úr ólíku húsnæði að velja fyrir félagsstarf unglinganna, s.s. samkomuhús, íþróttahús, Sögumiðstöð-Bæringsstofu, o.fl.

    Ragnheiður forstöðumaður Eden lagði áherslu á það að hafa þyrfti unglingana með í ráðum um fyrirkomulag og að meta þyrfti reynsluna.

    Fundarmenn voru sammála um að vanda þyrfti til útfærslu á þessu fyrirkomulagi og samskipta sem því fylgja og einnig að meta þyrfti reynsluna jafnóðum. Taka þyrfti stöðuna næst vorið 2021.

    Íþrótta- og æskulýðsnefnd er jákvæð fyrir því að þetta fyrirkomulag verði prófað, en leggur áherslu á að vel verði staðið að breytingum, leitað eftir afstöðu unglinganna sjálfra og metið hvernig þetta muni ganga.

6.Skipulags- og umhverfisnefnd - 224

Málsnúmer 2101003FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 224. fundar skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Eigandi að Grundargötu 28, miðhæð og efri hæð, óskar eftir leyfi nefndar til að setja í nýja glugga - viðbót - á norðvesturhlið hússins. Skipulags- og umhverfisnefnd - 224 Lagðar fram teikningar ásamt umsókn um leyfi vegna útlitsbreytingar á húsi að Grundargötu 28. Um er að ræða ísetningu nýrra glugga á norðvesturhlið hússins, á miðhæð og efrihæð.


    Skipulags- og umhverfisnefnd óskar eftir að umrædd framkvæmd verði grenndarkynnt fyrir nærliggjandi lóðarhöfum þar sem breyting telst ekki óveruleg vegna innsýnar, sjá leiðbeiningarblað 8a gefið út af Skipulagsstofnun, sbr. 2.3.4. gr. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Einnig skuli liggja fyrir samþykki allra eigenda fjölbýlishússins fyrir umræddri breytingu sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

    Byggingarleyfi samþykkt að uppfylltum ofangreindum skilyrðum.
    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lögð fram umsókn um byggingarleyfi v/Fellabrekku 5 ásamt tillögu að teikningum að húsi. Skipulags- og umhverfisnefnd - 224 Valdimar Ásgeirsson og Rósa Guðmundsdóttir leggja fram teikningar af einbýlishúsi til byggingar á lóðinni Fellabrekku 5 ásamt umsókn um byggingarleyfi.

    Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að grenndarkynna fyrirhugaða byggingu á lóðinni til nærliggjandi lóðarhafa eða þeirra sem gætu átt hagsmuni að gæta sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Um er að ræða eigendur að Fellabrekku 3 og Hellnafell 2 og 4.
    Bókun fundar RG vék af fundi undir þessum lið.

    Til máls tóku JÓK, UÞS, GS og BÁ.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.

    RG tók aftur sæti sitt á fundinum.
  • Á fundi bæjarstjórnar þann 14. janúar sl. fól bæjarstjórn skipulags- og umhverfisnefnd að skoða gildandi deiliskipulag á iðnaðarsvæði.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 224 Í minnisblaði um stöðu efnis í efnisnámu í Lambakróarholti, dags. 14.01.2021, var fjallað um iðnaðarsvæðið (merkt I-1 í nýja aðalskipulaginu) og um Lambakróarholtsnámu (merkt E-3 í aðalskipulaginu nýja) og sagði m.a.:

    "Lagt er til að deiliskipulagið verði endurskoðað og það stækkað þannig að það nái yfir báða landnotkunarreitina í heild þ.e. I-1 og E-3. Þannig verður hægt að tryggja heildarsýn varðandi uppbyggingu til framtíðar, sveigjanlegt iðnaðarhúsnæði, gatna- og veitukerfi sem gengur upp og hagkvæma nýtingu þessa dýrmæta og vel staðsetta iðnaðarsvæðis.

    Um þetta bókaði bæjarstjórn að hún samþykkti að fela skipulags- og umhverfisnefnd að skoða skipulagið m.t.t. þessarar ábendingar.

    Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæði.

    Bókun fundar Bæjarstjórn þakkar skipulags- og umhverfisnefnd fyrir skoðunina. Forseti vísar til þess að á árinu 2021 sé verið að ljúka við breytingu á deiliskipulagi fyrir Ölkeldudal og að í fjárhagsáætlun ársins, A-hluta og B-hluta (hafnarsjóður) sé gert ráð fyrir fjármagni í vinnu við gerð deiliskipulags fyrir Framnes og hafnarsvæði austan Nesvegar. Hann leggur til að breytingar á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis verði skoðaðar á komandi hausti í vinnu við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2022 og staðan metin þá, nema að forsendur breytist frá því sem nú er varðandi iðnaðarsvæðið og námu.

    Samþykkt samhljóða.
  • Skipulags- og umhverfisnefnd frestaði málinu á 193. fundi sínum.
    Eftir nánari skoðun á breytingu á deiliskipulagi að Hálsi er ekki gerð athugasemd við afgreiðslu þess. Óskað er eftir samþykkt nefndar um að klára deiliskipulagið.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 224 Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að klára breytingu á deiliskipulagi.
    Bókun fundar Bæjarstjóri sagði frá því að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi leitað til Skipulagsstofnunar og skipulagsráðgjafa varðandi málsmeðferð. Að þeirri skoðun lokinni leggur skipulags- og byggingarfulltrúi til að tillaga að umræddri breytingu deiliskipulags verði auglýst sem óveruleg breyting, sbr. framlagt erindi skipulags- og byggingarfulltrúa í tölvupósti.

    Forseti ber upp þá viðbótartillögu.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar með þeirri útfærslu sem skipulags- og byggingarfulltrúi leggur til.

  • 6.5 1801048 Sögumiðstöðin
    Lagt fram til kynningar uppkast að breytingum innanhúss í Sögumiðstöðinni.

    Bæjarstjóri fól skipulags- og byggingarfulltrúa að rýna gögnin og gefa leiðbeiningar um leyfisskyldu og kröfur um teikningar.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 224 Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í framlagðar hugmyndir að breytingu á Sögumiðstöð og hugmynd Inga Hans að samfélagsmiðstöð. Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur óskað eftir teikningum og verða þær lagðar fram fyrir nefnd þegar þær berast.
  • Óskað er eftir stofnun lóða í landi Hallbjarnareyrar, breytingu á nöfnum eldri lóða ásamt uppfærslu á stærðum og mörkum í landeignaskrá / Þjóðskrá. Skipulags- og umhverfisnefnd - 224 Lagt fram til kynningar.
  • Skipulagsstofnun óskaði eftir umsögn um tillögu að viðauka við landsskipulagsstefnu 2015-2026 sem auglýst var til kynningar ásamt umhverfismati í samræmi við lög nr. 123/2010.
    Umsögn lögð fram eins og hún var send, eftir umsögn nefndarmanna í byrjun janúar.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 224 Lagt fram til kynningar.
  • Lagðar fram til kynningar, ábendingar frá HMS um ábyrgð byggingarstjóra og heimild fyrirtækja til að starfa sem slíkir. Skipulags- og umhverfisnefnd - 224 Lagt fram til kynningar.

7.Sorpurðun Vesturlands hf. - Fundargerð og skýrsla starfshóps um stöðu og stefnu úrgangsmála á Vesturlandi

Málsnúmer 2011034Vakta málsnúmer

Lögð fram skýrsla starfshóps um stefnumótun Sorpurðunar Vesturlands hf. (SV) ásamt fundargerð eigendafundar SV sem haldinn var 1. febrúar sl.

Til máls tóku JÓK, UÞS og RG.

Bæjarstjórn þakkar fyrir vinnu hópsins og fellst fyrir sitt leyti á þær tillögur og framtíðarsýn sem fram koma í skýrslu starfshópsins.

Samþykkt samhljóða.

8.Grundarfjarðarbær - Reglur um tölvupóst- og tölvunotkun

Málsnúmer 2102014Vakta málsnúmer

Lagðar fram til samþykktar reglur um tölvupóst- og tölvunotkun hjá Grundarfjarðarbæ, sem unnar eru af persónuverndarfulltrúa bæjarins.

Til máls tóku JÓK, GS, UÞS, BÁ og RG.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða framlagðar reglur og felur bæjarstjóra að kynna reglurnar forstöðumönnum til áframhaldandi kynningar til starfsfólks.

9.Nefndasvið Alþingis - 419. mál til umsagnar, fiskveiðar (veiðistjórn grásleppu o.fl.)

Málsnúmer 2102010Vakta málsnúmer

Atvinnuveganefnd Alþingis sendi sveitarfélögum landsins til umsagnar frumvarp um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu, sandkola og hryggleysingja), 419. mál. Jafnframt liggur fyrir 418. mál, breyting á lögum um stjórn fiskveiða (atvinnu- og byggðakvótar o.fl.)

Umsagnarfrestur er til 10. febrúar. Samkvæmt beiðni bæjarstjóra veitti nefndasvið Alþingis bæjarstjórn frest til 12. febrúar að skila umsögn, þar sem bæjarstjórn tekur málið fyrir á fundi sínum 11. febrúar.

Bæjarstjórn tók fyrst fyrir þingmál 419.

a) Erindi Kristins Ólafssonar og Andra Ottós Kristinssonar dags. 27. janúar 2021 og fylgigögn, með ósk um að bæjarstjórn veiti jákvæða umsögn um frumvarpið (kvótasetning grásleppu).

b) Erindi Bergvins Sævars Guðmundssonar, Kristjáns E. Kristjánssonar, Runólfs Jóhanns Kristjánssonar og Kristjáns Guðmundssonar, mótt. 4. febrúar 2021, með ósk um að Grundarfjarðarbær standi gegn kvótasetningu á grásleppu með umsögn um frumvarpið.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn þakkar bréfriturum fyrir erindin. Eins og erindin bera með sér er augljós þörf á að breyta núverandi fyrirkomulagi við veiðar á grásleppu. Bæjarstjórn tekur undir það með bréfriturum. Hins vegar eru skiptar skoðanir um með hvaða hætti framtíðarfyrirkomulag veiðanna verður best fyrir komið, bæði meðal hagsmunaaðila og meðal bæjarfulltrúa, eins og umræður leiddu í ljós.

Í því ljósi mun bæjarstjórn ekki veita umsögn um frumvarpið.

Samþykkt samhljóða.

Þá tók bæjarstjórn fyrir þingmál 418.

SÞ vék af fundi undir þessum hluta.

Erindi mótt. 8. febrúar 2021, frá Bergvin Sævari Guðmundssyni, Kristjáni Kristjánssyni, Runólfi J. Kristjánssyni, Kristjáni Guðmundssyni, Einari Guðmundssyni, Ágústi Jónssyni, Valdimar Elíssyni og Magnúsi Jónssyni.

Þeir óska eftir að bæjarstjórn veiti umsögn um þingmál 418, frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða (atvinnu- og byggðakvótar o.fl.), þar sem hafnað verði breytingum frumvarpsins á fyrirkomulagi strandveiða og hvatt til þess að settar verði nægar aflaheimildir inn í kerfið svo þær tryggi öllum strandveiðibátum 48 daga á hverju sumri.

Þeir skora á bæjarstjórn að breyta úthlutunarreglum sveitarfélagsins á byggðakvóta þannig að smábátar fái einhvern lágmarks kvóta.

Jafnframt leggja þeir til við bæjarstjórn að hún veiti umsögn um efni frumvarpsins um línuívilnun, á þann veg að þær aflaheimildir sem ekki nýtast á hverju þriggja mánaða tímabili færist inn á næsta þriggja mánaða tímabil og skapi þannig möguleika til að hægt verði að hækka línuívilnunarprósentuna.

Allir tóku til máls.

Bæjarstjórn þakkar bréfriturum fyrir erindið. Bæjarstjórn leggur til að fyrirkomulag strandveiða, þ.e. án svæðaskiptingar, verði óbreytt.

Að öðru leiti tekur bæjarstjórn ekki afstöðu til frumvarpsins.

Samþykkt samhljóða.

SÞ tók aftur sæti sitt á fundinum.

10.Sýslumaðurinn á Vesturlandi - Umsagnarb. rek.G.II Kirkjufell Guesthous, Grund 2

Málsnúmer 2009038Vakta málsnúmer


Lögð fram beiðni Sýslumannsins á Vesturlandi um umsögn við umsókn Eyrarsveitar ehf. v/Kirkjufells Guesthouse - Grund 2 um breytingu á rekstrarleyfi í flokki II, vegna viðbótar við nýbyggingu.

Fyrir liggja jákvæðar umsagnir slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa.

Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við að umbeðin breyting á rekstrarleyfi verði gerð, enda liggja fyrir jákvæðar umsagnir annarra umsagnaraðila.

Samþykkt samhljóða.

11.Veitur ohf. - efni samráðsfundar 13. janúar 2021 með Grundarfjarðarbæ

Málsnúmer 2101020Vakta málsnúmer

Lagðir fram til kynningar minnispunktar Veitna ohf. um málefni vatnsveitu, í framhaldi af fundi 13. janúar sl.

Í minnisblaðinu er að finna yfirlit yfir helstu framkvæmdir á vegum Veitna við vatnsveituna í Grundarfirði, frá 2005, sem unnar hafa verið til þess að styrkja og bæta rekstur veitunnar. Fram kemur að reksturinn hafi almennt gengið vel, lítið sé um bilanir eða önnur frávik í rekstrinum sem valdið geti viðskiptavinum óþægindum.

Fram kemur m.a. að til að tryggja sem best gæði vatnsins verði tvö lýsingartæki tekin í notkun á þessu ári á vatnstökusvæðinu á Grund. Lýsing sé nýtt til þess að tryggja gæði vatns með því að koma í veg fyrir að fjöldi örvera í neysluvatni verði of mikill. Örverur, eins og jarðvegsgerlar, geta náð ofan í grunnvatnið við sérstakar veður- og umhverfisaðstæður og borist þaðan í neysluvatnsborholur. Í minnisblaðinu segir að lýsing sé ekki hreinsiaðferð heldur einungis aðferð sem hafi áhrif á kjarnsýrur örvera og geri þær óvirkar. Eiginleikar vatns breytist ekki við lýsingu. Lýsing vatns sé mikið notuð um víða veröld og hjá íslenskum vatnsveitum. Veitur hafi lýst vatn úr opnum vatnsbólum lengi, m.a. á Akranesi, Reykholti, Stykkishólmi og í Borgarnesi og hluti neysluvatns Reykvíkinga er lýstur.

Til máls tóku JÓK, RG, SÞ og BÁ.

12.FSS - Fundargerð 111. fundar stjórnar

Málsnúmer 2012006Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 111. fundar stjórnar Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga (FSS) sem haldinn var 5. og 23. nóvember 2020.

Til máls tóku JÓK, BÁ, RG og SÞ.

13.FSS - Fundargerð 112. fundar stjórnar

Málsnúmer 2101044Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 112. fundar stjórnar Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga (FSS) sem haldinn var 26. janúar sl.

14.Félagsmálanefnd Snæfellinga - Fundargerð 190

Málsnúmer 2102013Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 190. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga sem haldinn var 2. febrúar sl.

15.Breiðafjarðarnefnd - Fundargerðir

Málsnúmer 2101034Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fimm fundargerðir Breiðafjarðarnefndar; 181. fundur haldinn 7. júlí 2020, 182. fundur haldinn 18. ágúst 2020, 183. fundur haldinn 13. nóvember 2020, 184. fundur haldinn 9. desember 2020 og 185. fundur haldinn 21. desember 2020.

Til máls tóku JÓK, SÞ, UÞS, RG, GS og BÁ.

16.Samband íslenskra sveitarfélaga - Boðun XXXVI. landsþings sambandsins

Málsnúmer 2102003Vakta málsnúmer


Lögð fram til kynningar boðun XXXVI. landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið verður 26. mars. 2021. Þingið verður staðfundur ef aðstæður leyfa, annars fjarfundur.

17.Samband íslenskra sveitarfélaga - Fundargerð 894. fundar stjórnar sambandsins

Málsnúmer 2102009Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 894. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 29. janúar sl.

18.Samband íslenskra sveitarfélaga - Til upplýsinga - Helstu mál á vettvangi ESB árið 2021

Málsnúmer 2102001Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar rafrænt rit frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um helstu mál á vettvangi ESB árið 2021, sjá slóð hér: https://www.samband.is/verkefnin/althjodamal/brussel-skrifstofan/helstu-mal-a-vettvangi-esb-arid-2021/

Sambandið er með einn starfsmann á sveitarfélagaskrifstofu í Brussel.

Í ritinu er að finna yfirlit yfir helstu mál á vettvangi ESB árið 2021 sem varða íslensk sveitarfélög.

Þar er að finna kynningu á starfsáætlun Framkvæmdastjórnar ESB fyrir árið 2021, sem byggir á sex forgangsmálum sem ætlað er leggja línurnar fyrir fimm ára stefnumörkun núverandi framkvæmdastjóra. Einnig er í ritinu fjallað um helstu aðgerðir ESB í tengslum við COVID-19 faraldurinn, um samstarfsáætlanir ESB og um málefni sveitarfélaga sem tengjast EES-EFTA samstarfinu.

Til máls tóku JÓK og RG.

19.Samband íslenskra sveitarfélaga - Drög að umsögn - breytingar á úrgangslöggjöf

Málsnúmer 2102011Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar drög að umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga að breytingu á lögum vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis, S-11/2021. Samband íslenskra sveitarfélaga vann ítarlega og vandaða umsögn um málið.

20.HMS - Opnað fyrir umsóknir um stofnframlög ríkisins

Málsnúmer 2102012Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) þar sem fram kemur að opnað hafi verið fyrir umsóknir um stofnframlag ríkisins vegna bygginga eða kaupa á húsnæði á vegum sveitarfélaga. Umsóknarfrestur er til og með 22. febrúar nk.

Til máls tóku JÓK, RG og GS.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 20:01.