Málsnúmer 2205021

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 262. fundur - 09.06.2022

Forseti lagði til að liðurinn "Störf bæjarstjórnar" verði fastur liður framarlega á dagskrá hvers bæjarstjórnarfundar, eins og gert var á síðasta kjörtímabili.

Samþykkt samhljóða.

Forseti lagði til að haldinn yrði sérstakur fræðslu- og kynningardagur, mjög fljótlega, fyrir kjörna fulltrúa í bæjarstjórn og nefndum, þar sem farið verði yfir helstu þætti í stjórnsýslu og starfsemi bæjarins og nefnda hans. Æskilegt væri að fá kynningu á helstu verkefnum sem nefndir síðasta kjörtímabils höfðu til meðferðar.
Með þessu verði reynt að tryggja sem skilvirkasta yfirfærslu á þekkingu og verkefnum, milli eldri og nýrra nefnda, að afloknum sveitarstjórnarkosningum.

Samþykkt samhljóða og bæjarstjóra falið að leggja upp drög að dagskrá og fyrirkomulagi og senda bæjarfulltrúum.

Bæjarstjórn - 263. fundur - 13.09.2022

Rætt um fundartíma bæjarstjórnar og bæjarráðs vegna fjárhagsáætlanagerðar.

Bæjarstjórn - 264. fundur - 20.10.2022

Forseti sagði frá þátttöku hans og bæjarstjóra á Landsþingi sambandsins sem haldið var á Akureyri. Hann sagði jafnframt frá fundum og ráðstefnum sem framundan eru, m.a. fundadagskrá bæjarráðs fram að næsta fundi bæjarstjórnar, en bæjarráð verður útvíkkað fram í desember.

Bæjarstjórn - 265. fundur - 24.11.2022

Forseti ræddi um orkuskipti í skóla- og íþróttamannvirkjum, en bærinn á inni styrki úr Orkusjóði og hefur beðið eftir tillögum/vinnu frá Eflu um valkosti og næstu skref. Hann lagði til að leitað yrði eftir fundi með sérfræðingunum, í samræmi við það sem fram kemur í framlögðum tölvupósti.

Forseti ræddi einnig um samvinnurýmið á Grundargötu 30, en framkvæmdir eru að fara af stað við næsta áfanga í breytingum skv. hönnun rýmisins sem bæjarstjórn samþykkti fyrr á árinu. Hann lagði til að starfshópur yrði settur á laggirnar til að taka ákvarðanir um það sem enn á eftir að ákveða varðandi uppbyggingu og þjónustu í rýminu.

Forseti sagði æskilegt að áframhaldandi vinna færi fram um lóð leikskólans. Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að fulltrúar starfsfólks, foreldra og bæjarstjórnar/skólanefndar komi saman og rýni tillögur starfshóps sem lagði fram tillögur um uppbyggingu skólalóðarinnar og geri tillögur ef óskað er breytinga.

Hann sagði jafnframt frá fundi sem bæjarfulltrúar áttu með starfsfólki Leikskólans Sólvalla í gær, 23. nóvember, og lagði til að slíkir fundir yrðu haldnir tvisvar á ári. Fundarmenn sögðu frá efni þessa fundar.

Einnig sagði forseti frá fundum nefnda og bæjarstjórnar framundan.

Bæjarstjórn - 266. fundur - 15.12.2022

Forseti sagði frá fundum nefnda og bæjarstjórnar framundan.

Hann lagði til að umbeðinn fundur með Skíðadeild UMFG, sbr. mál nr. 2211011, verði haldinn í janúar nk.

Lagt til að fulltrúar bæjarstjórnar/skólanefndar til að rýna tillögur um leikskólalóð séu Ágústa Einarsdóttir og Anna Rafnsdóttir.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 268. fundur - 12.01.2023

Bæjarstjóri upplýsti um ánægjulegar aflatölur á höfninni. Árið 2021 var landað 23.677 þús. tonnum í 1032 löndunum en árið 2022 var landað 27.112 þús. tonn í 1074 löndunum.

Forseti ræddi um lokun lögreglustöðvarinnar í Grundarfirði. Bæjarstjóri hefur leitað eftir skýringum, en ekki hafa fengist svör við því hvers vegna það var gert og lögreglan því án aðstöðu á staðnum.

Bæjarstjórn lýsir yfir undrun sinni og óánægju með stöðuna.

Forseti sagði jafnframt frá fundum nefnda og bæjarstjórnar framundan.

Bæjarstjórn - 269. fundur - 09.02.2023

Forseti fór yfir fyrirhugaða fundardaga bæjarstjórnar, fram að sumarhléi, en þeir eru eftirfarandi:

9. mars
13. apríl, en þá fer m.a. fram fyrri umræða um ársreikning
11. maí, síðari umræða ársreiknings
8. júní

Forseti fór yfir aðra fundi sem fyrirhugaðir eru á næstunni, sjá einnig í framlögðum minnispunktum bæjarstjóra.

Forseti sagði frá því að stjórn SSV hefði samþykkt að stofna vinnuhóp um úttekt á samstarfsmöguleikum slökkviliða á Vesturlandi.
Í erindisbréfi sem samþykkt var fyrir hópinn kemur fram að hann skuli skipaður fimm fulltrúum, fjórum skv. tilnefningu frá sveitarfélögunum og einn sem SSV skipar og verður hann formaður; Ragnar Sæmundsson bæjarfulltrúi á Akranesi og fulltrúi í stjórn SSV.
Óskað hefur verið eftir því að Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær og Sveitarfélagið Stykkishólmur skipi sameiginlega einn fulltrúa í vinnuhópinn.
Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að koma á framfæri tillögu bæjarstjórnar um fulltrúa sem tilbúinn er til að taka þetta að sér, ef vilji sveitarfélaganna væri til þess, sbr. umræður fundarins.

Forseti sagði frá svari Vegagerðarinnar í tölvupósti í dag við fyrirspurn bæjarstjóra frá því í október sl. um frekari öryggisráðstafanir á vegi að og við áningarstaðinn við Kirkjufellsfoss, en afrit svars og fyrri samskipta liggur undir málinu. Öryggisteymi Vegagerðarinnar skoðaði aðstæður í október/nóvember á sl. ári og hefur nú kynnt afrakstur þeirrar skoðunar. Um er að ræða nokkrar aðgerðir, sem miða að auknu umferðaröryggi, bæði þeirra sem eiga leið að áningarstaðnum og þeirra sem framhjá fara. Slík framkvæmd krefst hönnunar og sérstaks fjármagns.
Hægt er að koma frekari tillögum á framfæri við Vegagerðina.

Bæjarstjórn þakkar fyrir þessa yfirferð og fagnar framkomnum hugmyndum/tillögum.
Bæjarstjórn hvetur til þess að skoðað verði hvort bæta megi úr vatnssöfnun sem verður í leysingum við þjóðveg 54, neðan Fellsenda, vestan þéttbýlisins. Slíkar aðstæður skapa hættu fyrir vegfarendur á svæðinu.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa þessum tillögum til kynningar og frekari umfjöllunar í skipulags- og umhverfisnefnd, sem fer með umferðarmál.

Bæjarstjórn - 270. fundur - 09.03.2023

Forseti sagði frá fundum og viðburðum sem fyrirhugaðir eru á næstunni:

20. mars og 15. maí: mennta- og barnamálaráðuneyti, fræðslufundur um úthlutun og ráðstöfun fjármuna í grunnskólum fyrir alla á Vesturlandi
21. mars eða síðar: skipulags- og umhverfisnefnd
22. mars: Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Starfsendurhæfingar Vesturlands, Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands, Heilbrigðisnefndar Vesturlands og Sorpurðunar Vesturlands. Fundirnir verða haldnir í Borgarnesi.
23. mars: Bæjarráðsfundur
23. mars: Fundur Eldvarnabandalagsins, bæjarstjóri verður með erindi um "Eigið eldvarnaeftirlit" sveitarfélagsins, Reykjavík.
24. mars: Bæring Cecilsson, 100 ár frá fæðingu - viðburður í Sögumiðstöðinni
24. mars: Boð í opnun nýrrar þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi
28. mars: Fundur með hagsmunaaðilum v/skemmtiferðaskipa, Áfangastaðastofa Vesturlands og sveitarfélögin á Snæfellsnesi.
31. mars: Aðalfundur SAF, bæjarstjóri með erindi um móttöku skemmtiferðaskipa/ skemmtiferðaskipaferðaþjónustu. Stykkishólmi.
31. mars: Landsþing Sambandsins, Reykjavík (Jósef og Björg)
13. apríl: Bæjarstjórnarfundur
Einnig er stefnt á fund með fulltrúum Skógræktarfélags Grundarfjarðar og Skógræktarfélags Íslands í byrjun apríl.

GS sagði frá því að ferð sveitarstjórnarfólks á vegum SSV verði 28. ágúst til 1. sept. 2023. Farið verður til Skotlands.

Bæjarstjórn - 271. fundur - 13.04.2023

Umræða um starfsmannamál.

Forseti leggur til að skipulagsfulltrúa sé veitt umboð til að gera ráðstafanir um mönnun byggingafulltrúaembættis, út frá þeirri stöðu sem það er í.

Samþykkt samhljóða.

Varðandi yfirferð á starfslýsingu forstöðumanns bókasafns hefur bæjarráð lagt til að skipaðir verði tveir fulltrúar menningarnefndar og tveir fulltrúar bæjarstjórnar til að yfirfara starfslýsingu og undirbúa auglýsingu starfs.

Lagt til að Ágústa Einarsdóttir verði annar fulltrúi bæjarstjórnar. Oddvita L-listans er veitt umboð til að tilnefna annan fulltrúa.

Samþykkt samhljóða.

Forseti vakti jafnframt athygli bæjarfulltrúa á námskeiði Endurmenntunar um lestur ársreikninga sveitarfélaga.

Bæjarstjórn - 272. fundur - 11.05.2023

Forseti fór yfir tímasetningar helstu funda og viðburða á næstunni. Rætt var um fyrirhugaða kynnisferð SSV fyrir sveitarstjórnarfólk til Skotlands í haust. GS sagði frá fundi sem hann sótti um hagnýtingu vindorku.