Málsnúmer 2205021

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn - 262. fundur - 09.06.2022

Forseti lagði til að liðurinn "Störf bæjarstjórnar" verði fastur liður framarlega á dagskrá hvers bæjarstjórnarfundar, eins og gert var á síðasta kjörtímabili.

Samþykkt samhljóða.

Forseti lagði til að haldinn yrði sérstakur fræðslu- og kynningardagur, mjög fljótlega, fyrir kjörna fulltrúa í bæjarstjórn og nefndum, þar sem farið verði yfir helstu þætti í stjórnsýslu og starfsemi bæjarins og nefnda hans. Æskilegt væri að fá kynningu á helstu verkefnum sem nefndir síðasta kjörtímabils höfðu til meðferðar.
Með þessu verði reynt að tryggja sem skilvirkasta yfirfærslu á þekkingu og verkefnum, milli eldri og nýrra nefnda, að afloknum sveitarstjórnarkosningum.

Samþykkt samhljóða og bæjarstjóra falið að leggja upp drög að dagskrá og fyrirkomulagi og senda bæjarfulltrúum.

Bæjarstjórn - 263. fundur - 13.09.2022

Rætt um fundartíma bæjarstjórnar og bæjarráðs vegna fjárhagsáætlanagerðar.

Bæjarstjórn - 264. fundur - 20.10.2022

Forseti sagði frá þátttöku hans og bæjarstjóra á Landsþingi sambandsins sem haldið var á Akureyri. Hann sagði jafnframt frá fundum og ráðstefnum sem framundan eru, m.a. fundadagskrá bæjarráðs fram að næsta fundi bæjarstjórnar, en bæjarráð verður útvíkkað fram í desember.

Bæjarstjórn - 265. fundur - 24.11.2022

Forseti ræddi um orkuskipti í skóla- og íþróttamannvirkjum, en bærinn á inni styrki úr Orkusjóði og hefur beðið eftir tillögum/vinnu frá Eflu um valkosti og næstu skref. Hann lagði til að leitað yrði eftir fundi með sérfræðingunum, í samræmi við það sem fram kemur í framlögðum tölvupósti.

Forseti ræddi einnig um samvinnurýmið á Grundargötu 30, en framkvæmdir eru að fara af stað við næsta áfanga í breytingum skv. hönnun rýmisins sem bæjarstjórn samþykkti fyrr á árinu. Hann lagði til að starfshópur yrði settur á laggirnar til að taka ákvarðanir um það sem enn á eftir að ákveða varðandi uppbyggingu og þjónustu í rýminu.

Forseti sagði æskilegt að áframhaldandi vinna færi fram um lóð leikskólans. Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að fulltrúar starfsfólks, foreldra og bæjarstjórnar/skólanefndar komi saman og rýni tillögur starfshóps sem lagði fram tillögur um uppbyggingu skólalóðarinnar og geri tillögur ef óskað er breytinga.

Hann sagði jafnframt frá fundi sem bæjarfulltrúar áttu með starfsfólki Leikskólans Sólvalla í gær, 23. nóvember, og lagði til að slíkir fundir yrðu haldnir tvisvar á ári. Fundarmenn sögðu frá efni þessa fundar.

Einnig sagði forseti frá fundum nefnda og bæjarstjórnar framundan.

Bæjarstjórn - 266. fundur - 15.12.2022

Forseti sagði frá fundum nefnda og bæjarstjórnar framundan.

Hann lagði til að umbeðinn fundur með Skíðadeild UMFG, sbr. mál nr. 2211011, verði haldinn í janúar nk.

Lagt til að fulltrúar bæjarstjórnar/skólanefndar til að rýna tillögur um leikskólalóð séu Ágústa Einarsdóttir og Anna Rafnsdóttir.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 268. fundur - 12.01.2023

Bæjarstjóri upplýsti um ánægjulegar aflatölur á höfninni. Árið 2021 var landað 23.677 þús. tonnum í 1032 löndunum en árið 2022 var landað 27.112 þús. tonn í 1074 löndunum.

Forseti ræddi um lokun lögreglustöðvarinnar í Grundarfirði. Bæjarstjóri hefur leitað eftir skýringum, en ekki hafa fengist svör við því hvers vegna það var gert og lögreglan því án aðstöðu á staðnum.

Bæjarstjórn lýsir yfir undrun sinni og óánægju með stöðuna.

Forseti sagði jafnframt frá fundum nefnda og bæjarstjórnar framundan.

Bæjarstjórn - 269. fundur - 09.02.2023

Forseti fór yfir fyrirhugaða fundardaga bæjarstjórnar, fram að sumarhléi, en þeir eru eftirfarandi:

9. mars
13. apríl, en þá fer m.a. fram fyrri umræða um ársreikning
11. maí, síðari umræða ársreiknings
8. júní

Forseti fór yfir aðra fundi sem fyrirhugaðir eru á næstunni, sjá einnig í framlögðum minnispunktum bæjarstjóra.

Forseti sagði frá því að stjórn SSV hefði samþykkt að stofna vinnuhóp um úttekt á samstarfsmöguleikum slökkviliða á Vesturlandi.
Í erindisbréfi sem samþykkt var fyrir hópinn kemur fram að hann skuli skipaður fimm fulltrúum, fjórum skv. tilnefningu frá sveitarfélögunum og einn sem SSV skipar og verður hann formaður; Ragnar Sæmundsson bæjarfulltrúi á Akranesi og fulltrúi í stjórn SSV.
Óskað hefur verið eftir því að Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær og Sveitarfélagið Stykkishólmur skipi sameiginlega einn fulltrúa í vinnuhópinn.
Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að koma á framfæri tillögu bæjarstjórnar um fulltrúa sem tilbúinn er til að taka þetta að sér, ef vilji sveitarfélaganna væri til þess, sbr. umræður fundarins.

Forseti sagði frá svari Vegagerðarinnar í tölvupósti í dag við fyrirspurn bæjarstjóra frá því í október sl. um frekari öryggisráðstafanir á vegi að og við áningarstaðinn við Kirkjufellsfoss, en afrit svars og fyrri samskipta liggur undir málinu. Öryggisteymi Vegagerðarinnar skoðaði aðstæður í október/nóvember á sl. ári og hefur nú kynnt afrakstur þeirrar skoðunar. Um er að ræða nokkrar aðgerðir, sem miða að auknu umferðaröryggi, bæði þeirra sem eiga leið að áningarstaðnum og þeirra sem framhjá fara. Slík framkvæmd krefst hönnunar og sérstaks fjármagns.
Hægt er að koma frekari tillögum á framfæri við Vegagerðina.

Bæjarstjórn þakkar fyrir þessa yfirferð og fagnar framkomnum hugmyndum/tillögum.
Bæjarstjórn hvetur til þess að skoðað verði hvort bæta megi úr vatnssöfnun sem verður í leysingum við þjóðveg 54, neðan Fellsenda, vestan þéttbýlisins. Slíkar aðstæður skapa hættu fyrir vegfarendur á svæðinu.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa þessum tillögum til kynningar og frekari umfjöllunar í skipulags- og umhverfisnefnd, sem fer með umferðarmál.

Bæjarstjórn - 270. fundur - 09.03.2023

Forseti sagði frá fundum og viðburðum sem fyrirhugaðir eru á næstunni:

20. mars og 15. maí: mennta- og barnamálaráðuneyti, fræðslufundur um úthlutun og ráðstöfun fjármuna í grunnskólum fyrir alla á Vesturlandi
21. mars eða síðar: skipulags- og umhverfisnefnd
22. mars: Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Starfsendurhæfingar Vesturlands, Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands, Heilbrigðisnefndar Vesturlands og Sorpurðunar Vesturlands. Fundirnir verða haldnir í Borgarnesi.
23. mars: Bæjarráðsfundur
23. mars: Fundur Eldvarnabandalagsins, bæjarstjóri verður með erindi um "Eigið eldvarnaeftirlit" sveitarfélagsins, Reykjavík.
24. mars: Bæring Cecilsson, 100 ár frá fæðingu - viðburður í Sögumiðstöðinni
24. mars: Boð í opnun nýrrar þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi
28. mars: Fundur með hagsmunaaðilum v/skemmtiferðaskipa, Áfangastaðastofa Vesturlands og sveitarfélögin á Snæfellsnesi.
31. mars: Aðalfundur SAF, bæjarstjóri með erindi um móttöku skemmtiferðaskipa/ skemmtiferðaskipaferðaþjónustu. Stykkishólmi.
31. mars: Landsþing Sambandsins, Reykjavík (Jósef og Björg)
13. apríl: Bæjarstjórnarfundur
Einnig er stefnt á fund með fulltrúum Skógræktarfélags Grundarfjarðar og Skógræktarfélags Íslands í byrjun apríl.

GS sagði frá því að ferð sveitarstjórnarfólks á vegum SSV verði 28. ágúst til 1. sept. 2023. Farið verður til Skotlands.

Bæjarstjórn - 271. fundur - 13.04.2023

Umræða um starfsmannamál.

Forseti leggur til að skipulagsfulltrúa sé veitt umboð til að gera ráðstafanir um mönnun byggingafulltrúaembættis, út frá þeirri stöðu sem það er í.

Samþykkt samhljóða.

Varðandi yfirferð á starfslýsingu forstöðumanns bókasafns hefur bæjarráð lagt til að skipaðir verði tveir fulltrúar menningarnefndar og tveir fulltrúar bæjarstjórnar til að yfirfara starfslýsingu og undirbúa auglýsingu starfs.

Lagt til að Ágústa Einarsdóttir verði annar fulltrúi bæjarstjórnar. Oddvita L-listans er veitt umboð til að tilnefna annan fulltrúa.

Samþykkt samhljóða.

Forseti vakti jafnframt athygli bæjarfulltrúa á námskeiði Endurmenntunar um lestur ársreikninga sveitarfélaga.

Bæjarstjórn - 272. fundur - 11.05.2023

Forseti fór yfir tímasetningar helstu funda og viðburða á næstunni. Rætt var um fyrirhugaða kynnisferð SSV fyrir sveitarstjórnarfólk til Skotlands í haust. GS sagði frá fundi sem hann sótti um hagnýtingu vindorku.

Bæjarstjórn - 273. fundur - 08.06.2023

Varaforseti lagði til að bæjarráð myndi í sumar fara í heimsókn á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól og skoða húsnæði og lóð, en framkvæmdir hafa staðið yfir síðustu misserin.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjóri sagði frá því að í dag hefði borist úrskurður frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna kæru á deiliskipulagi Ölkeldudals. Í úrskurðinum er hafnað kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar 24. nóvember sl. um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals.

GS sagði frá fundi stjórnar SSV sem haldinn var í Borgarnesi í gær og las m.a. upp bókun fundarins um ástand þjóðvega.

Bæjarstjórn áréttar fyrri ályktanir sínar um brýnar endurbætur þjóðvega á Snæfellsnesi. Bæjarstjórn tekur undir ályktun stjórnar SSV á fundi dags. 7. júní 2023 og skorar á yfirvöld samgöngumála að veita nú þegar fjármunum til þess að fara í viðhaldsverkefni við Snæfellsnesveg nr. 54. Viðhald vegarins á stórum köflum þolir enga bið. Ef ekki verður farið í endurbætur fljótlega á verstu köflunum telur bæjarstjórn að ráðast þurfi í aðgerðir eins og að draga úr umferðarhraða til þess að tryggja umferðaröryggi á veginum.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 274. fundur - 14.09.2023

Rætt um fundi og ráðstefnur framundan. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga verður haldin 21.-22. september nk., fundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verður 20. september, fundur Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum verður 22. september og haustfundur SSV verður haldinn 4. október nk.

Bæjarstjóri sagði frá afmælisfögnuði sem haldinn verður 28. september nk. í tilefni 100 ára afmælis bókasafnsins.

Bæjarstjórn - 275. fundur - 12.10.2023

Forseti sagði frá haustfundi SSV sem haldinn var í Reykholti 4. október sl. Samþykktur var fjöldi ályktana eftir undirbúning fyrir fundinn og starf þingnefnda. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra var með erindi á fundinum um verkefni á hans málefnasviði og pallborðsumræður voru um skólamál. Fundargerð SSV af fundinum mun berast á næstunni.

Forseti vísaði í upplýsingar um vinnu starfshóps umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem er þessa dagana að kynna niðurstöður sínar, hugmyndir um sameiningu heilbrigðiseftirlits í landinu og að eftirlitið færist frá sveitarfélögum til ríkis. Hann vísaði í tvær tölvupóstsendingar framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, þar sem málið er reifað, en gögnin eru framlögð. Forseti væntir þess að málið verði sent sveitarfélögunum formlega og að heilbrigðisnefnd muni fara yfir málið á næstunni.

Forseti vísaði í minnispunkta Garðars Svanssonar, bæjarfulltrúa, af fundi með Vegagerðinni sem hann og Valgeir Magnússon, verkstjóri áhaldahúss, sóttu í Stykkishólmi þann 6. október sl. Á fundinum var leitað samráðs um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar á starfssvæði okkar.

Lögð fram gögn um kvennaverkfall sem fyrirhugað er þann 24. október nk., ákall stéttarfélaga um að vinnuveitendur geri konum og kvárum kleift að taka þátt í deginum. Einnig lagður fram upplýsingapóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá 11. okt. sl.

Bæjarstjórn - 276. fundur - 23.11.2023

Rætt um fund um sameiningar sveitarfélaga sem haldinn var 6. nóvember sl. og bæjarfulltrúar sóttu. Í fundinum tóku þátt fulltrúar sveitarfélaga á Snæfellsnesi og í Dalabyggð. Vífill Karlsson frá SSV stýrði fundi. Á fundinum var ákveðið að sveitarfélögin tilnefndu fulltrúa til að draga fram hugmyndir að þeim valkostum í sameiningarmálum sem líklegir eru í stöðunni.

Allir tóku til máls.

Forseti fór yfir fundi og vinnu framundan:

27. nóvember: Vinnufundur um skipulagsmál, lóðir, framtíðarverkefni og tækifæri, m.a. í ljósi þeirra skipulagsverkefna sem nú er unnið að og þeirra sem fyrirhuguð eru.
Bæjarstjórn og skipulags- og umhverfisnefnd taka þátt. Í janúar nk. verður svo aftur framhaldsfundur.

27. nóvember: Fulltrúar sveitarfélaga á Vesturlandi boðaðir til fundar um verkefnið Gott að eldast, en Vesturland var á meðal þeirra svæða sem valið var inn í verkefnið. Verkefnið snýst um samþættingu á öldrunarþjónustu. Á fundinum verður rætt um áfangaskiptingu verkefnisins og verklag. Ingveldur Eyþórsdóttir er fulltrúi Snæfellinga í vinnuhópi um verkefnið. Bæjarstjóri um sitja fundinn.

Í næstu viku er stefnt að bæjarráðsfundi.

14. desember: Bæjarstjórnarfundur

Bæjarstjórn - 277. fundur - 14.12.2023

Forseti sagði frá því að hann hefði sótt óformlegan fund á Breiðabliki í vikunni. Um var að ræða fund fulltrúa sveitarfélaga á Snæfellsnesi og Dölum, í umsjón Vífils Karlssonar, en skipaðir voru fulltrúar frá hverju sveitarfélagi til að leggja upp þá valkosti um sameiningar sem fyrir hendi eru. Er þetta í framhaldi af fundi sem haldinn var til umræðu um sameiningar þann 6.nóv. sl. í Laugagerðisskóla.

Fundur í skipulags- og umhverfisnefnd er fyrirhugaður milli jóla og nýárs.

Næsti fundur bæjarstjórnar verður haldinn 11. janúar 2024.

Forseti ber upp tillögu um að bæjarstjóra sé veitt umboð til að tilnefna tímabundið skipulagsfulltrúa, til Skipulagsstofnunar, við starfslok Kristínar Þorleifsdóttur, en starfið er í auglýsingarferli.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn - 279. fundur - 11.01.2024

Forseti fór yfir fundi og viðburði sem framundan eru.

Rædd var tillaga um að setja af stað stýrihópa sem styðji við stærstu skipulagsverkefnin sem í vinnslu eru á vegum bæjarins og séu til stuðnings skipulagsfulltrúa í starfi með skipulagsráðgjöfum. Gert er ráð fyrir að tveir fulltrúar, frá bæjarstjórn og skipulagsnefnd, séu með hverju verkefni. Þau verkefni sem sérstaklega verði studd eru þrjú;
Framnes - deiliskipulagsgerð
iðnaðarsvæði við Kverná - deiliskipulag og breyting á aðalskipulags
nýtt verkefni sem er Ölkeldudalur - breytingar á deiliskipulagi og aðalskipulagi.

GS sagði frá skoðunarferð til Brunavarna Árnessýslu, sem farin var nýlega á Selfoss. Ferðin var á vegum starfshóps SSV um samstarf slökkviliða á Vesturlandi og með í för voru slökkliðsstjórar af Vesturlandi.

GS ræddi jafnframt um Skíðasvæði Snæfellsness.

Bæjarstjórn - 280. fundur - 08.02.2024

Forseti sagði frá fundum sem haldnir hafa verið og fundum framundan.

Fundir bæjarstjórnar fram að sumarleyfi verða haldnir eftirfarandi daga:
þriðjudaginn 12. mars
fimmtudaginn 11. apríl
þriðjudaginn 7. maí
fimmtudaginn 13. júní

Stefnt er að því að bjóða ungmennaráði á fund bæjarstjórnar í mars eða júní.

Aðalfundur SSV verður haldinn 20. mars á Hótel Hamri.

Bæjarstjórn - 283. fundur - 12.03.2024

Forseti fór yfir fundi og viðburði.

28. febrúar sl. komu þingmenn Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi í heimsókn og funduðu með bæjarfulltrúum og bæjarstjóra. Farið var yfir helstu hagsmunamál.

29. febrúar sl. sat forseti sat fund með starfshópi sem skoðar sameiningarkosti á Snæfellsnesi.

1. mars fóru fulltrúar úr bæjarstjórn og skipulags- og umhverfisnefnd, auk bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa í heimsókn til að kynna sér skipulagsmál og uppbyggingarverkefni. Farið var til Orra Hlöðverssonar, fv. bæjarstjóra í Hveragerði sem sagði frá uppbyggingu þjónustuhúss í Hveragerði, farið í Suðurnesjabæ þar sem Magnús Stefánsson bæjarstjóri og Árni Gísli Árnason sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs tóku á móti hópnum. Magnús kynnti verkefni sveitarfélagsins og Sigurður Valur skipulagsfulltrúi og fyrrverandi bæjarstjóri í Sandgerði var með leiðsögn um Sandgerði og Garð. Að lokum var heimsókn og umræður um miðbæ og þróun hjá Alta í Ármúla.

Í gær, 11. mars, funduðu fjórir fulltrúar bæjarstjórnar, þ.e. forseti, Sigurður Gísli formaður bæjarráðs, Loftur Árni bæjarfulltrúi og Pálmi varabæjarfulltrúi með stjórn Golfklúbbsins Vestarrs, skv. beiðni klúbbsins.

Í gær sat bæjarstjóri fund á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og Fjórðungssambands Vestfirðinga í Stykkishólmi um framtíðarmöguleika Breiðafjarðar. Kynnt var vinna stýrihóps sem hófst árið 2022 með forsendugreiningu fyrir verndun Breiðafjarðar með tilliti til byggðaþróunar og sjálfbærrar nýtingar. Dregin voru fram sjónarmið íbúa og hagaðila, stýrihópi verkefnisins til upplýsinga, en hópurinn mun síðan gera tillögur til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Fyrir bæjarstjórnarfundinn í dag 12. mars kom formaður Viðreisnar í heimsókn, þar sem farið var yfir helstu hagsmunamál.

Framundan eru eftirtaldir fundir:

- 14. mars: Landsþing Sambandsins, Reykjavík, þar sem forseti fer með atkvæðisrétt bæjarstjórnar.
- 15. mars: Ráðstefna Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum undir yfirskriftinni "Er íslensk orka til heimabrúks?"
- 20. mars: Vorfundur SSV, aðalfundur Sorpurðunar Vesturlands hf., Símenntunar, Heilbrigðiseftirlits og Starfsendurhæfingar Vesturlands.
- 21. mars: Bæjarstjóri með erindi um skemmtiferðaskip, á ársfundi náttúruverndarnefnda, Ísafirði.