Forseti ræddi um haustfund SSV, sem haldinn verður á Akranesi 24. september nk. Gefin verða út kjörbréf til fulltrúa bæjarstjórnar, sem sækja fundinn.
Bæjarstjórn samþykkir að verði forföll á fundinn, þannig að aðal- og varafulltrúar komist ekki, þá hafi bæjarstjóri umboð og atkvæðisrétt til vara, til þátttöku í fundinum.
Samþykkt samhljóða.
Rætt um fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldin verður 2.-3. október nk.
Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum og aðalfundur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga verða miðvikudaginn 1. okt. og ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sama dag og er það bæjarstjóri sem sækir þann fund.
Næsti bæjarstjórnarfundur er 9. október og verður hann haldinn kl. 14.
Bæjarstjóri ber upp tillögu, í samráði við hafnarstjóra og fulltrúa í hafnarstjórn, um að Grundarfjarðarhöfn sæki um aðild að samtökunum Cruise Europe. Bæjarstjórn samþykkir samhljóða þá ráðstöfun að höfnin sæki um aðild að samtökunum og greiði þá það árgjald sem aðild fylgir.
Samþykkt samhljóða.
Forseti lagði til að haldinn yrði sérstakur fræðslu- og kynningardagur, mjög fljótlega, fyrir kjörna fulltrúa í bæjarstjórn og nefndum, þar sem farið verði yfir helstu þætti í stjórnsýslu og starfsemi bæjarins og nefnda hans. Æskilegt væri að fá kynningu á helstu verkefnum sem nefndir síðasta kjörtímabils höfðu til meðferðar.
Með þessu verði reynt að tryggja sem skilvirkasta yfirfærslu á þekkingu og verkefnum, milli eldri og nýrra nefnda, að afloknum sveitarstjórnarkosningum.
Samþykkt samhljóða og bæjarstjóra falið að leggja upp drög að dagskrá og fyrirkomulagi og senda bæjarfulltrúum.