Málsnúmer 2509013

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 642. fundur - 25.09.2025

Lögð fram drög að fundadagskrá bæjarráðs vegna vinnu við fjárhagsáætlun 2026 ásamt forsenduspá.

Rætt um fjárhagsáætlunarvinnu framundan, minnisblað um forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga og drög að fundadagskrá bæjarráðs.

Skólanefnd - 183. fundur - 14.10.2025

Bæjarstjóri sagði frá helstu framkvæmdum sem verið hafa í gangi 2025 og fór yfir vinnuna við gerð fjárhagsáætlunar fyrir komandi ár.

Bæjarráð - 643. fundur - 15.10.2025

Farið í heimsóknir í stofnanir bæjarins.
Heimsókn í slökkvistöðina, Borgarbraut 16.

Valgeir Þ. Magnússon slökkviliðsstjóri tók á móti bæjarráðsfulltrúum í slökkvistöðinni. Hann sýndi húsnæðið, en aðstaða liðsins nær nú yfir alla neðri hæðina á Borgarbraut 16. Til stendur að bæta aðstöðu til að geyma búninga slökkviliðsmanna. Hirslur munu færast yfir í austurhluta hússins og verða þá ekki lengur í sama rými og slökkvibílarnir, einnig mun hver og einn fá sinn sérstaka skáp eða hólf.
Rætt um loftpressu sem þarf að endurnýja, um hvaða möguleikar séu fyrir hendi þegar kemur að því að velja og kaupa nýjan slökkvibíl, um samstarf slökkviliða o.fl.

Valgeiri var þakkað fyrir móttökurnar og haldið í næstu heimsókn.

---

Heimsókn í þjónustumiðstöð, Nesvegi 19, sem hýsir áhaldahús og eignaumsjón.

Þar tóku á móti bæjarráði þau Elvar Þór Gunnarsson, bæjarverkstjóri, Bergvin Sævar Guðmundsson, eignaumsjónarmaður og Halldóra Dögg Hjörleifsdóttir starfsmaður þjónustumiðstöðvar.

Rætt var um helstu verkefni, um tæki og tækjakaup og fleira. Ný Avant 860 vinnuvél var keypt á árinu, gamli Avant-inn er þó enn óseldur. Keypt voru rafmagnssláttuorf og ný sláttuvél sl. vor. Rætt var um umbætur á lóð áhaldahússins, en í sumar var plan norðan og austan við húsið malbikað.

Að lokum var starfsmönnum þjónustumiðstöðvar þakkað fyrir móttökurnar og samtalið.

---

Heimsókn í Leikskólann Sólvelli, Sólvöllum 1.

Þar tók á móti bæjarráði Heiðdís Lind Kristinsdóttir, skólastjóri Sólvalla.
Í leikskólanum eru nú 32 börn. Heiðdís sagði frá starfseminni og sýndi aðstöðuna, einkum þær breytingar sem orðið hafa á árinu.

Farið var í nýja gróðurhúsið sem kom í júní sl., þar er ýmislegt ræktað en einnig eru gróðurkassar úti. Einnig eru komnar fjórar hænur í hluta gróðurhússins og hafa þær sitt eigið útisvæði. Skoðaðar voru umbætur sem fóru fram á lóð leikskólans sl. sumar. Nýjar rólur voru settar upp, á nýjum stað, nýr sandkassi byggður á nýjum stað, lögð var malbikuð hjólabraut í stóra garðinn og málaðar á hana umferðarmerkingar, auk þess sem girðing og leiktæki voru máluð.

Að því búnu var farið inn í leikskólann og sýndi leikskólastjóri þær breytingar sem gerðar hafa verið á húsi og aðstöðu. Nefna má ný gólfefni í eldhúsi og inná drekadeild, ný föndurstofa útbúin á drekadeild, keypt voru og sett upp salerni í stærð/hæð barnanna á drekadeild, og skemmtilegar myndskreytingar gerðar á veggi. Síðar í október er von á nýjum gardínum og nýrri útihurð með sjálfvirkri opnun í aðalinngangi.

Verið er að skoða hvernig nýta megi anddyri og fatageymslu betur.

Heiðdísi var í lokin þakkað fyrir móttökuna og upplýsingar.

Bæjarráð - 644. fundur - 16.10.2025

Lögð fram drög að tekjuáætlun ársins 2026.

Farið yfir drög að tekjuáætlun og vinna við fjárhagsáætlun rædd.

Frekari vinnu vísað til næsta fundar bæjarráðs.

Bæjarráð - 646. fundur - 30.10.2025

Lögð fram drög að fjárhagsáætlun 2026, ásamt þriggja ára áætlun áranna 2027-2029. Lögð fram launaáætlun 2026, ásamt samanburði við árið 2025 niður á deildir. Jafnframt lagt fram yfirlit sem sýnir áætlun 2026 í samanburði við áætlun 2025 niður á málaflokka. Að auki var lagt fram yfirlit yfir kostnað við skólamat 2011-2025.

Farið yfir framangreind gögn og drög að fjárhagsáætlun 2026-2029. Drögunum vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Hinrik og Pálmi sátu fundinn undir umræðu um fjárfestingar hvað varðar þeirra stofnanir.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Hinrik Konráðsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi - mæting: 15:00
  • Pálmi Jóhannsson, forstöðumaður menningar- og markaðsmála - mæting: 15:20

Skólanefnd - 184. fundur - 03.11.2025

Farið yfir áherslur í fjárhagsáætlunargerð fyrir komandi ár, einkum fyrir fjárfestingu.



Skólanefnd mun fara í heimsókn í grunnskóla og íþróttahús fyrir jólin.



Bæjarráð - 647. fundur - 06.11.2025

Lögð fram ýmis gögn vegna fjárhagsáætlunar 2026; uppfærð launaáætlun 2026 ásamt samanburði við áætlun 2025 með stöðugildum á hverja launadeild, áætluð stöðugildi grunnskólastofnana og leikskóla, skjal sem sýnir skiptingu kostnaðar foreldra og bæjarins í skólum, uppfært skjal með kostnaði við skólamat og drög að fjárfestingaáætlun 2026.

Farið yfir gögnin.

Umræða fór fram um skólamötuneyti og kostnað við rekstur tveggja mötuneyta fyrir litlar einingar, leikskóla annars vegar og grunnskóla hins vegar. Fram kom að kostnaður hefur aukist verulega. Bæjarstjóri leggur til frekari skoðun málsins.

Bæjarráð stefnir á að fara í heimsóknir í stofnanir bæjarins.

GS yfirgaf fundinn kl. 14:48.

Bæjarstjórn - 303. fundur - 13.11.2025

Lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun ársins 2026 ásamt þriggja ára áætlun áranna 2027-2029, sem innifelur rekstraryfirlit, málaflokkayfirlit, efnahagsyfirlit og sjóðsstreymi. Einnig lögð fram fjárfestingaáætlun fyrir 2026 til fyrri umræðu.

Allir tóku til máls.

Farið yfir yfirlitin.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun áranna 2027-2029 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

Hafnarstjórn - 24. fundur - 25.11.2025

Lögð fram drög að fjárhagsáætlun hafnarinnar 2026:

- Tillaga hafnarstjóra að rekstraráætlun 2026 (tekjur og gjöld).

- Tillaga hafnarstjóra og bæjarstjóra um fjárfestingar/framkvæmdir og helstu verkefni 2026.



Hafnarstjóri fór yfir tillögu að áætlun fyrir rekstur og fjárfestingar 2025.

Farið yfir áætlunina, einkum áætluð fjárfestingarverkefni 2026.

Tekjur (hafnargjöld, þjónustugjöld og tekjur af almenningssalernum) eru áætlaðar samtals 210 millj. kr. og útgjöld eru áætluð 138,15 millj. kr. fyrir afskriftir. Rekstrarafgangur er áætlaður tæpar 79 millj. kr. árið 2026.
Samtals er gert ráð fyrir fjárfestingum uppá 60,1 millj. kr. á árinu 2026.

Hafnarstjórn samþykkir rekstrar- og fjárfestingaráætlun 2026 fyrir sitt leyti og vísar henni til endanlegrar samþykktar bæjarstjórnar.

Hafnarstjórn gerir þó fyrirvara um framkvæmdir, vegna framlaga ríkisins til nokkurra fjárfestingarliða, en óvissa er enn um efni og afgreiðslu nýrrar samgönguáætlunar sem beðið er eftir.

Bæjarráð - 648. fundur - 28.11.2025

Lögð fram heildargögn, m.a. rekstraryfirlit með samanburði á deildum milli áætlana 2025 og 2026, sem og breytingum frá fyrri umræðu.



Einnig lagt fram yfirlit með greiningum á ýmsum þáttum í rekstri bæjarins (kennitölur) yfir langt tímabil.

Farið yfir drög að áætlun og greiningagögn.

Síðari umræða um fjárhagsáætlun fer fram í bæjarstjórn 11. desember nk.

Í tengslum við umræðu undir lið 9, um framkvæmdir í Hrannarstíg, fór Nanna Vilborg yfir forgangsröðun helstu framkvæmda í götum og við gangstéttar. Ákveðnar áherslur ræddar í bæjarráði, sem færast yfir í fjárfestingaáætlun 2026.

Gestir

  • Nanna Vilborg Harðardóttir verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála

Bæjarstjórn - 304. fundur - 11.12.2025

Lögð fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun 2026-2029 ásamt uppfærðri fjárfestingaáætlun, samanburðaryfirliti og greinargerð með fjárhagsáætlun.

Fjárhagsáætlun ársins 2026 kynnt við síðari umræðu í bæjarstjórn. Farið yfir áætlaðan rekstur, efnahag og sjóðsstreymi, auk útlistunar á breytingum sem hafa orðið milli umræðna.

Jafnframt farið yfir þriggja ára áætlun fyrir árin 2027-2029.

Skv. rekstraryfirliti fjárhagsáætlunar 2026 fyrir A- og B-hluta eru heildartekjur áætlaðar 2.162 millj. kr. Áætlaður launakostnaður er 1.100 millj. kr., önnur rekstrargjöld 707,5 millj. kr. og afskriftir 98,0 millj. kr. Fyrir fjármagnsliði er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma verði 214,9 millj. kr. Gert er ráð fyrir 119,0 millj. kr. fjármagnsgjöldum. Áætlun 2026 gerir ráð fyrir 137,7 millj. kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu (A- og B-hluta).

Skv. sjóðsstreymisyfirliti áætlunarinnar er veltufé frá rekstri 321,1 millj. kr. þegar leiðrétt hefur verið fyrir afskriftum og áföllnum en ógreiddum verðbótum og gengismun, auk annarra breytinga á skuldbindingum. Þessi fjárhæð nýtist síðan til afborgana lána og nauðsynlegra fjárfestinga sem brýnt er að ráðast í á árinu 2026. Ráðgert er að fjárfestingar verði 391,2 millj. kr., afborganir lána 175,3 millj. kr. og að tekin verði ný lán að fjárhæð 250 millj. kr. Miðað við þær forsendur er breyting á handbæru fé 4,5 millj. kr. Handbært fé í árslok ársins 2026 er því áætlað 69,6 millj. kr. gangi fjárhagsáætlun ársins 2026 fram eins og ráðgert er.

Allir tóku til máls.

Fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029 samþykkt samhljóða.