639. fundur 03. júlí 2025 kl. 08:30 - 12:26 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Sigurður Gísli Guðjónsson (SGG) formaður
  • Garðar Svansson (GS)
  • Davíð Magnússon (DM)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Lausafjárstaða 2025

Málsnúmer 2501016Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.

2.Greitt útsvar 2025

Málsnúmer 2502020Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-maí 2025.

Samkvæmt yfirlitinu hefur greitt útsvar í Grundarfirði hækkað um 12,8% miðað við sama tímabil í fyrra.

3.Skólanefnd - 182

Málsnúmer 2506003FVakta málsnúmer

Bæjarráð samþykkir samhljóða 182. fundargerð skólanefndar.
  • Lagðir fram minnispunktar leikskólastjóra fyrir fundinn.
    Skólanefnd - 182 Leikskólastjóri sagði frá starfinu.

    Vinna er langt komin við nýja skólanámskrá og felast í henni spennandi breytingar og skýrari áherslur fyrir næsta skólaár.

    Helstu áherslur eru m.a. "hæglátt skólastarf", áhersla á læsi og að auka ritmál í skólaumhverfinu, að vera öflugur útikennsluskóli með mikið starf utandyra, öðlast viðurkenningu sem Grænfánaskóli, halda áfram að vera heilsueflandi leikskóli, sérstök heilsustefna og að halda áfram að vinna með "Uppeldi til ábyrgðar".

    Einkunnarorð leikskólans Sólvalla hafa verið uppfærð og rædd. Þau eru gleði, virðing, samvinna og náttúra. Þessi orð endurspeglast í starfinu á margvíslegan hátt.

    Gæðaráð leikskólans hefur fundað reglulega í vetur og skýrsla um innra mat, fyrir skólaárið, er tilbúin. Á grunni innra mats er síðan útbúin "umbótaáætlun" sem segir í hvaða þáttum leikskólinn vilji sérstaklega vinna, til að gera enn betur.

    Í leikskólanum Sólvöllum er unnið með hópstjóra á öllum deildum. Þá er barnahópnum skipt upp í hópa og hver hópstjóri tekur að sér einn barnahóp og ber ábyrgð á starfi hópsins í samvinnu við deildarstjóra. Sólvellir eru fámennur leikskóli og býður það, ásamt stærð húsnæðis, upp á marga möguleika. Þó börnunum sé skipt niður á deildir og í hópa þá er virkt samstarf á milli allra árganga.

    Leikskólastjóri kynnti helstu niðurstöður kannana meðal foreldra og starfsfólks, hún fór yfir mönnun fyrir næsta skólaár, en enga starfsmenn vantar eins og staðan er núna. Slík staða getur þó breyst með litlum fyrirvara.

    Sjö börn fara af Sólvöllum á fimm ára leikskóladeildina Eldhamra, í ágúst nk., og eitt mun bætast við og verða þau því átta á Eldhömrum. Eins og staðan er núna, þá verða 33 börn í Leikskólanum Sólvöllum í ágúst nk. og er gert ráð fyrir að fjögur 12 mánaða börn bætist við í kringum áramót, eða um 37 börn alls um nk. áramót.

    Á næsta skólaári er stefnt að því að endurskoða fyrirkomulag sérkennslu og skoða verkferla enn betur, þegar nýr aðstoðarleikskólastjóri tekur til starfa að fullu. Hún mun m.a. fara á námskeið í TRAS, íslenska þroskalistanum og íslenska smábarnalistanum.

    Samstarf við grunnskóla hefur aukist, sem er ánægjulegt.

    Í minnispunktum leikskólastjóra er að finna frekari upplýsingar um starfið. Að auki segir í punktum leikskólastjóra:

    "Að lokum langar mig að koma því á framfæri að með þeim breytingum sem hafa verið gerðar á leikskólastiginu undanfarið, hefur stöðugleiki aukist mjög mikið í leikskólanum og við náum að hafa starf sem við erum stolt af.
    Helsta áskorun okkar núna er skólatungumálið okkar, að hér sér töluð íslenska. Í síðustu viku fóru starfsmenn sem hafa annað tungumál en íslensku sem móðurmál í stöðupróf hjá Símenntun Vesturlands og erum við að fara af stað í verkefni með þeim þar sem starfsfólk mun fá tækifæri til þess að æfa sig og læra íslensku."

    Góðar umræður urðu um starfsemi leikskólans og þá góðu áfanga sem náðst hafa með stefnumörkun, vinnu með skólaráðgjöfum og markvissum aðgerðum um breytingar.

    Skólanefnd lýsir ánægju með það sem áunnist hefur í starfsemi leikskólans og þakkar leikskólastjóra og starfsfólki fyrir góða vinnu, sem og fyrir góðar upplýsingar á þessum fundi.

    Hér viku Heiðdís og Sigurborg af fundi.
  • Lögð fram gögn og minnispunktar frá skólastjóra og aðstoðarskólastjóra vegna grunnskóla og Eldhamra;

    - Starfsáætlun 2024-25, metin
    - Skýrsla innra mats 2025
    - Minnispunktar skólastjórnenda
    Skólanefnd - 182 Anna Kristín fór yfir gögnin og yfir starfsemi grunnskóla og leikskóladeildarinnar Eldhamra.

    Rætt um gerð skólanámskrár, en leikskólinn Sólvellir og leikskóladeildin Eldhamrar hafa unnið saman að gerð skólanámskrár, með aðstoð Gunnþórs hjá Ásgarði, skólaráðgjöf.

    Nemendafjöldi á Eldhömrum verður átta börn í haust.

    Hér vék Anna Kristín af fundi og var henni þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar.

  • Sjá gögn og umræðu undir næsta lið á undan, málefni grunnskóla.
    Skólanefnd - 182
  • Á síðasta fundi nefndarinnar var rætt um starf tónlistarskólans og eru því ekki sérstakir punktar á þessum fundi um skólann. Skólanefnd - 182 Bæjarstjóri sagði frá því að kennaraskipti yrðu í gítarkennslu á komandi skólaári og er það í vinnslu hjá Lindu Maríu, aðstoðarskólastjóra.

4.Hafnarstjórn - 19

Málsnúmer 2506005FVakta málsnúmer

  • Hafnarstjóri fór yfir uppgjör hafnarsjóðs fyrir tímabilið 1. janúar til 24. júní 2025, og yfir byggingarkostnað viðbyggingar.

    Hafnarstjórn - 19 Landaður afli það sem af er árinu eru 9.986 tonn eða rúmlega 1.400 tonnum meira en á sama tíma árið 2024.

    Tekjur af komum skemmtiferðaskipa eru um 7 millj.kr. hærri nú, en á sama tíma fyrir ári.

    Tekjur hafnarsjóðs, þ.e. hafnargjöld og þjónustugjöld, eru um 19 millj.kr. hærri en þau voru á sama tíma í fyrra. Rekstrargjöld eru um 7 millj. kr. hærri en á sama tímabili árið 2024.

    Hafnarstjóri fór einnig yfir áfallinn kostnað við nýbyggingu þjónustuhúss, sem tekið var í notkun 24. maí sl. Um er að ræða viðbyggingu við hafnarhúsið. Mestallur kostnaður er til fallinn, en ekki þó alveg allur rukkaður.

    Hafnarstjórn samþykkir að leggja til við bæjarráð, að í viðauka við fjárhagsáætlun hafnarinnar 2025 verði gert ráð fyrir allt að 20 millj.kr. hærri heildarfjárfestingu og að breyting verði einnig gerð á rekstrarhluta hafnarsjóðs, m.a. um aukningu tekna, í samræmi við fjárhagsstöðu. Hafnarstjórn samþykkir að fela hafnarstjóra og formanni/bæjarstjóra að ganga frá tillögu að viðauka til bæjarráðs, í samræmi við þetta.
    Bókun fundar Bæjarráð samþykktir viðbótarfjárveitingu í viðaukagerð sem er í vinnslu. Fjárfesting og tekjur hækka, sbr. tillögu hafnarstjórnar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Farið yfir framkvæmdir við viðbyggingu við hafnarhúsið.

    Hafnarstjórn - 19 Byggingin fékk öryggisúttekt 22. maí 2025 og var tekin í notkun 24. maí sl., en lokaúttekt er fyrirhuguð.

    Almenningssalerni hafa verið flutt úr samkomuhúsinu í nýju viðbygginguna. Gjaldhliði samkomuhússins var komið fyrir við inngang við nýju salernin og gjaldtaka er hafin.

    Vísað í umræðu um byggingarkostnað í lið nr. 1.
  • Aðrar framkvæmdir.

    Lögð fram tillaga Vegagerðarinnar dags. 28.04.2025 um landfyllingu við krika.

    Hafnarstjórn - 19 Rætt um framkvæmdir við landfyllingu í "krika" uppvið Norðurgarð og samþykkt að fela hafnarstjóra að hefja undirbúning útboðs á framkvæmdum, sem færu fram 2026, á grunni heimildar í samgönguáætlun, með fyrirvara um endanlega heimild í fjárhagsáætlun hafnarsjóðs 2026.


    Í sumar verður Malbikun Akureyrar með malbikunarstöð á Snæfellsnesi og verður hún ekki sett upp aftur fyrr en 2027.

    Rætt um mögulega malbikun á hafnarsvæðinu við Suðurgarð og farið yfir staðsetningu þess á loftmynd/korti.

    Samþykkt að stefna að því að malbika ca. 1000-1200 fermetra svæði, upp af smábátabryggjum við Suðurgarð í ár. Hafnarstjóra og bæjarstjóra falið að gera nánari tillögu um yfirlagningu malbiks og mörk hennar.

    Einnig rætt um umferðarfyrirkomulag á hafnarsvæði-suður. Hafnarstjóra og bæjarstjóra falið að skoða þá hugmynd sem skipulagsfulltrúa, að aðkoma að smábátabryggju verði sunnan megin, en ekki með gegnumakstri frá vestari innkomu á svæðið.

    Bókun fundar Bæjarráð samþykkir áform hafnarstjórnar skv. þessum lið og með tilliti til komandi fjárhagsáætlunar í trausti þess að hlutur ríkissjóðs í framkvæmd við Norðurgarð standi.
  • Hafnarstjóri og bæjarstjóri fóru yfir stöðuna í skipakomum og móttöku gesta, sem og yfir markaðssetningu og ferðir.

    Hafnarstjórn - 19 Fyrir árið í ár, 2025, eru skipabókanir alls 78. Fyrir árið 2026 eru bókanir xx og fyrir árið 2027 eru bókaðar xx komur.

    Bæjarstjóri sagði frá Seatrade Cruise Global, sem hún tók þátt í fyrir hönd hafnarinnar, í Miami í 7.-10. apríl sl.

    Lagt fram erindi bæjarstjóra, sent til þingmanna kjördæmisins með tölvupósti 9. apríl 2025, um áhrif innviðagjalds á hafnir.

    Hafnarstjóri og bæjarstjóri sögðu frá opnum fundi sem haldinn var 11. júní sl. í samkomuhúsinu, um ferðaþjónustu og skemmtiferðaskip. Lögð fram auglýsing um fundinn.

    Einnig sögðu þau frá góðri heimsókn frá CLIA og Cruise Iceland 12. júní sl. til Grundarfjarðar, sjá einnig meðfylgjandi frétt.


    Hafnarstjóri fer til Hamborgar á Seatrade Europe 10.-12. september nk.

    ---

    Rætt um aðstöðu á hafnarsvæðinu fyrir þjónustu- og söluaðila vegna skemmtiferðaskipa.

    Höfnin hefur verið að þróa og byggja upp starfsemi og móttöku skemmtiferðaskipa í yfir 20 ár. Eftir lengingu Norðurgarðs og eftir Covid hefur verið mikil aukning skipa og gesta. Höfnin hefur tekist á við þennan vöxt og tilheyrandi breytingar, með bættri aðstöðu, með nýbyggingu nú í vor, með skipulagsvinnu og rannsóknum (hafnarsvæði, grjót, hafsbotn, efnistaka v. framtíðaruppbyggingar), með hagsmunagæslu eins og varðandi innviðagjöld ofl., og með umtalsverðri vinnu við halda í þessa viðskiptavini, í þágu hafnar og þjónustuaðila í bænum.

    Stefna hafnarstjórnar hefur verið að reyna að koma fyrir öllum þjónustuaðilum sem þess þurfa/óska, innan hafnarsvæðis, en með hliðsjón af umferðarleiðum og öryggi gesta. Einnig hefur það verið stefna hafnarstjórnar að krefja þjónustuaðila ekki um gjald fyrir aðstöðu eða auglýsingar, enn sem komið er. Þetta mun án efa breytast síðar, haldi þessi viðskipti við skemmtiferðaskip, á vegum hafnarinnar, áfram að aukast.
  • Farið yfir það helsta sem verið hefur í gangi við skipulagsvinnu fyrir suðursvæði hafnar.

    Hafnarstjórn - 19 Hafnarstjóri sagði frá nýlegum fundi um skipulag og umferðarmál, í tengslum við deiliskipulagsvinnu á suðursvæðinu, en hann og skipulagsfulltrúi sátu þann vinnufund ásamt skipulagsráðgjöfum og umferðaröryggissérfræðingi.

    Bæjarstjóri og skipulagsfulltrúi funduðu síðan með Vegagerðinni í sl. viku og var þá m.a. rætt um skipulagsvinnuna og um óskir um neðanbyggðarveg í tengslum við það.

    Málið er í vinnslu.
  • Lagt fram til afgreiðslu erindi sóknarnefndar.

    Hafnarstjórn - 19 Óskað er eftir fjárstyrk úr hafnarsjóði, svo hægt sé að hafa mannaða opnun í Grundarfjarðarkirkju á skipadögum.

    Bæjarstjóri og forstöðumaður menningar- og markaðsmála hittu tvo fulltrúa sóknarnefndar í vikunni, til að fara yfir erindið og möguleika á útfærslu og samstarfi bæjar/hafnar, við kirkjuna.

    Hafnstjórn ræddi um hlutverk sitt, í samhengi við erindið. Hafnarsjóður hefur hingað til ekki veitt fjárstyrki, nema eins og nýlega með þátttöku í söfnun fyrir kaupum á nýja björgunarskipinu Björgu, fyrir Breiðafjarðarsvæðið, og var sú afgreiðsla gerð að tilhlutan bæjarstjórnar, í samstarfi við aðrar bæjarstjórnir á norðanverðu Snæfellsnesi.

    Hafnarstjórn skilur fjárhagsvanda sóknarnefndar, en telur að aðrar útfærslur væru heppilegri m.t.t. hlutverks hafnarsjóðs og annarra aðila, og m.t.t. þeirra fjármuna sem samfélagið hefur úr að spila, sbr. þau sjónarmið sem rædd voru við fulltrúa sóknarnefndarinnar.

    Hafnarstjórn hefur varið farþegagjöldum, sem innheimt eru af skemmtiferðaskipum, til uppbyggingar á aðstöðu hafnarinnar fyrir gesti skipanna og til að bæta öryggi þeirra. Sú fjárfesting, sem hafnarsjóður hefur nú í ár lagt í til að bæta aðstöðu skipagesta og þjónustu við þá, nemur margfalt þeim farþegagjöldum sem innheimt hafa verið.

    Hafnarstjórn er reiðubúin til þátttöku í að þróa aðra leið, sem getur komið á móts við markmið sóknarnefndar og þá góðu hugmynd sem sóknarnefnd setur fram í erindi sínu, um gestamóttöku og að segja sögu kirkjunnar. Hafnarstjórn leggur til að það verði gert með aðkomu bæjarins og hennar starfsmanna, í samræmi við umræður fundarins að öðru leyti og þær hugmyndir sem ræddar voru í samtali bæjarstjóra og forstöðumanns menningar- og markaðsmála við fulltrúa sóknarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Bæjarráð tekur undir með hafnarstjórn og samþykkir að leggja sóknarnefnd til aðstoð við að finna leiðir til að útfæra frekar þessa góðu hugmynd sem fram kemur í erindi sóknarnefndar.

    Samþykkt samhljóða.
  • Lögð fram drög hafnarstjóra að óskum hafnarstjórnar vegna samgönguáætlunar 2026-2030, fyrir hafnarmannvirki. Um er að ræða framlög vegna hafnarframkvæmda annars vegar og sjóvarna hinsvegar.
    Hafnarstjórn - 19 Hafnarstjórn fór yfir þær hafnarframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru og samþykkti tillögu um óskir í tengslum við gerð samgönguáætlunar.

    Hafnarstjórn vísar tillögum um sjóvarnir til bæjarráðs til endanlegrar afgreiðslu.

    Samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Bæjarráð samþykkir tillögur hafnarstjórnar að hafnarframkvæmdum inní samgönguáætlun vegna áranna 2026-2030 og einnig vegna sjóvarna fyrir sama tímabil. Möguleiki er að kalla eftir og bæta við fleiri verkefnum í sjóvörnum.
  • 4.8 2501010 Reglur um skilti
    Málinu var vísað til hafnarstjórnar af bæjarstjórn á 297. fundi 11. apríl sl.

    Hafnarstjórn - 19 Hafnarstjórn fór yfir innihald nýrra reglna, einkum 8. gr. sem snýr af hafnarstjórn og hafnarsvæði.

    Hafnarstjórn gerir ekki athugasemdir fyrir sitt leyti, en vekur athygli á að þarna er gert ráð fyrir heimild til frekar stórra skilta, eingöngu á hafnarsvæðinu skv. þessu.

  • Lögð fram ýmis gögn frá Cruise Iceland.
    Hafnarstjórn - 19
  • Lagt fram til kynningar bréf hafnarstjóra og framkvæmdastjóra nokkurra sveitarfélaga til þingmanna og ráðherra, 16. júní 2025, um innviðagjöld og móttöku skemmtiferðaskipa.
    Hafnarstjórn - 19
  • Lagður fram tölvupóstur Samgöngustofu, 10. júní 2025, um innra eftirlit hafna með föstum bryggjum og flotbryggjum.
    Hafnarstjórn - 19
  • Lagður fram tölvupóstur 28. apríl 2025, um hafnafund Hafnasambands Íslands, sem haldinn verður í Ólafsvík 23. október nk.

    Hafnarstjórn - 19
  • Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Hafnasambands Íslands af fundum nr. 468, 469, 470, 471, 472 og 473, sem haldnir voru á tímabilinu frá 6. desember 2024 til 22. maí 2025.

    Einnig lögð fram drög að ársreikningi Hafnasambands Íslands 2024, og tölvupóstur sem fylgdi, dags. 6. maí 2025.
    Hafnarstjórn - 19
  • Lögð fram til kynningar breyting á reglugerð nr. 745/2016 um vigtun og skráningu sjávarafla.

    Hafnarstjórn - 19 Hafnarstjóri vakti athygli á framkvæmd í kjölfar þessarar breytingar á reglugerðinni. Hafnarstjóri sagði að framkvæmdin á vigtun á pallavog hafi verið góð, en að skv. upplýsingum frá Fiskmarkaði Íslands hafi meðferð fiskafla verið verri, þar sem mun minna ísmagn er í afla. Þar af leiðandi eru gæði fisksins lakari.

    Hafnarstjórn telur mikilvægt að koma upplýsingum sem þessum, um framkvæmd vigtunar í kjölfar reglugerðarbreytingarinnar, á framfæri við atvinnuvegaráðherra og felur formanni að koma þessari bókun á framfæri við ráðherrann og atvinnuvegaráðuneytið.

5.Fjárhagsáætlun 2025 - Viðauki 3

Málsnúmer 2409008Vakta málsnúmer



Fram kom að viðauki 3 við fjárhagsáætlun 2025 er í vinnslu og verður lagður fyrir bæjarráð að loknum sumarleyfum.

6.Gjaldskrár 2025

Málsnúmer 2409014Vakta málsnúmer

Heiðdís leikskólastjóri var boðin velkomin á fundinn.



Lagður fram samanburður á gjaldskrám leikskóla nokkurra sveitarfélaga.

Rætt um fyrirkomulag á starfsemi leikskólans, eftir þær breytingar sem gerðar voru á starfsdögum, fyrirkomulagi á föstudögum (milli 14-16) og sem leiddu af 36 tíma vinnuviku, sem tók gildi 1. nóvember sl.

Rætt um útfærslur á gjaldskrá fyrir leikskólann, í samhengi við þessar breytingar.

Gera þarf ráð fyrir því í gjaldskrá hvernig eigi að mæta skráningardögum í Dymbilviku.
Auk þess var rætt um hvort breyta eigi gjaldtöku fyrir föstudagstímana, frá 14-16, en í dag eru 14 börn af 33 að nýta skráningartíma frá 14-16 á föstudögum.

Bæjarráð tekur þetta til skoðunar við breytingu á gjaldskrá, sem ákveðin verður síðar.

Leikskólastjóra var þakkað fyrir komuna.

Gestir

  • Heiðdís Lind Kristinsdóttir, leikskólastjóri - mæting: 10:00

7.Ályktun um viðhald þjóðvega á Snæfellsnesi

Málsnúmer 2009014Vakta málsnúmer

Enn eru til umræðu á vettvangi bæjarstjórnar og bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar samgöngumál og ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar, þar sem ástandið hefur aldrei verið verra. Á það ekki síst við í næsta nágrenni Grundarfjarðar, á Snæfellsnesi og langleiðina suður í Borgarnes.

Bæjarstjórn hefur margsinnis gert athugasemdir við hættulegt ástand þjóðvegarins. Fyrr á þessu ári sendu sveitarstjórnir á Vesturlandi ákall til forsætisráðherra og innviðaráðherra um að brýn þörf væri til að bregðast strax við bágbornu ástandi tiltekinna vegarkafla, með neyðarfjárveitingu í allra brýnustu viðgerðirnar, til að tryggja íbúum, atvinnulífi og ferðafólki lágmarks öryggi á vegunum.

Bæjarráð þakkar ráðherrunum fyrir að hafa brugðist hratt við ákalli sveitarstjórnarfólks á Vesturlandi og boðið til fundar 10. mars sl. þar sem tækifæri gafst til þess að ræða þessi mál.

Nú þegar árið er hálfnað, þá hafa boðaðar aukafjárveitingar til samgöngumála ekki skilað sér til Vegagerðarinnar í formi samþykktra fjárheimilda til svæðisbundinna stofnana Vegagerðarinnar, en krafa er um skýra fjárheimild þegar farið er af stað í undirbúning og framkvæmdir samgöngumannvirkja. Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar lýsir vonbrigðum sínum með það.

Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar vísar í fjölmargar bókanir bæjarstjórnar um ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar.

Bæjarráð lýsir enn og aftur yfir þungum áhyggjum af síversnandi og hættulegu ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi, ástandi sem er að stórum hluta til komið vegna skorts á viðhlítandi viðhaldi.

Ástand þjóðveganna hefur sjaldan verið eins slæmt og nú. Hættan sem leiðir af ástandi veganna er algjörlega óviðunandi fyrir notendurna. Á það jafnt við um íbúa, gesti, atvinnubílstjóra og neyðarflutninga. Jarðsig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, slitlag er gróft og bútakennt eftir áralangar holufyllingar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og víða eru vegir of mjóir. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál.

Verulega aukin umferð, þar á meðal stórauknir þungaflutningar á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til vegagerðar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega. Í þeim liggja mikil verðmæti sem fara forgörðum, sé viðhaldi þeirra ekki sinnt.

Í febrúar sl. þurfti Vegagerðin að moka tjöru af „blæðandi“ þjóðvegum á Snæfellsnesi. Fjölmargir akandi vegfarendur urðu fyrir óþægindum og tjóni á ökutækjum sínum, vegna ástands þjóðveganna, þegar þykk tjara lagðist á hjólbarða og aðra fleti bifreiða. Slíkt er ekki einungis hvimleitt, heldur er umferðaröryggi stórlega ógnað í slíku ástandi, auk þess sem það veldur eigendum ökutækja fjárhagstjóni. Viðbúið er að slíkt ástand geti skapast aftur eins og ástand umræddra vega er.

Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar ítrekar fyrri óskir um stóraukna fjármuni til nauðsynlegra viðgerða og viðhaldsframkvæmda á þjóðvegi 54.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjóri sagði frá því að hún hefði óskað eftir því að hluti þjóðvegar 54, annars vegar frá Grundargötu 4 og að bæjarmörkum í austri, og hins vegar frá Hellnafelli að Kirkjufellsbrekku, yrði malbikaður, en nú standa einmitt yfir framkvæmdir við endurbyggingu síðarnefnda vegarkaflans. Bæjarráð tekur undir þessar óskir og telur umferðarþunga á þessum köflum gefa tilefni til að styrkja vegina enn frekar með malbiksyfirlögn.

8.Framkvæmdir 2025

Málsnúmer 2501025Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri gerði grein fyrir helstu framkvæmdum.
Farið yfir helstu framkvæmdir, einkum:

- Sögumiðstöð, en þar fer að ljúka framkvæmdum sem leggja þurfti í vegna slæms ástands hluta hússins
- Tengigangur íþróttahúss verður klæddur og gengið frá rennum og lögnum
- Gatnaframkvæmdir, gangstéttar og malbik

Lögð fram fundargerð af opnunarfundi í verðkönnun um steyptar gangstéttar o.fl., sem og verksamningar um gangstéttarframkvæmdir.

Farið yfir áform um malbikun og stíga.

9.Breiðafjarðarnefnd - Beiðni um tilnefningar 2025-2029

Málsnúmer 2506024Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, dags. 12. júní sl., þar sem óskað er eftir tilnefningu eins fulltrúa fjögurra sveitarfélaga á Snæfellsnesi í Breiðafjarðarnefnd.

Samkvæmt lögum um vernd Breiðafjarðar nr. 54/1995 er Breiðafjarðarnefnd ráðherra til ráðgjafar um allt það er lýtur að framkvæmd laganna. Í nefndinni eiga sæti sjö menn, sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Í lögunum segir að sveitarfélög sem liggja að Breiðafirði tilnefni fjóra fulltrúa á þann hátt sem ráðherra ákveður í reglugerð. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Reglugerð hefur ekki verið sett, en sveitarfélögin fjögur á norðanverðu Snæfellsnesi hafa sameinast um einn fulltrúa og annan til vara.

Lagt til að formanni bæjarráðs og bæjarstjóra verði veitt umboð til að ganga frá tilnefningu sameiginlegs fulltrúa í samráði við fulltrúa annarra sveitarfélaga á norðanverðu Snæfellsnesi, sem og í samráði við önnur sveitarfélög við Breiðafjörð.

Samþykkt samhljóða.

10.HMS - Opið fyrir umsóknir um stofnframlög

Málsnúmer 2506019Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur HMS, dags. 20. júní sl., þar sem kynnt er að opið sé fyrir umsóknir um stofnframlög. Umsóknarfrestur er til og með 11. júlí nk.



Rætt um stofnframlög og fyrirkomulag við það úrræði.

11.Lítil Þúfa fta. - beiðni um fjárstyrk

Málsnúmer 2506023Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf frá almannaheillafélaginu Lítil Þúfa fta., sem er áfangaheimili fyrir konur sem lokið hafa meðferð vegna vímuefnaröskunar, dags. 11. júní sl., þar sem óskað er eftir styrk til starfseminnar. Einnig lagður fram ársreikningur 2023.

Bæjarráð getur því miður ekki orðið við erindinu og bendir á að sækja þarf um styrki að hausti, vegna fjárhagsáætlunar komandi árs.

Samþykkt samhljóða.

12.Gerum það núna ehf - Eftirsóknarverður Grundarfjörður

Málsnúmer 2506001Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur Einars Sveins Ólafssonar f.h. Gerum það núna ehf., 2. júní 2025, þar sem vakin er athygli á pósti áhrifavalds á Tik Tok ásamt hvatningu um aukna kynningu á Grundarfirði sem ferðamannastað.

Bæjarstjóri kynnti jafnframt erindi Einars Sveins, sbr. nokkra tölvupósta hans frá í síðustu og þessari viku, þar sem m.a. kemur fram ósk hans um að Grundarfjarðarbær gangist fyrir fundum og samtali við aðila í ferðaþjónustu, sem hann lýsir jafnframt yfir áhuga á að taka þátt í.

Bæjarráð þakkar fyrir erindin.

13.Orkuskipti, ýmislegt

Málsnúmer 2506034Vakta málsnúmer

Lögð fram gögn úr prófunum sem gerðar voru 19. júní sl. á tveimur borholum vegna orkuskipta fyrir íþróttahús, sundlaug og grunnskóla og niðurstöðum þeirra, sem liggja fyrir í minnisblaði Hagvarma ehf., frá því í gær.



Einnig lögð fram fyrirspurn bæjarstjóra út af styrkveitingum úr tilteknu sjóðakerfi og svar við því.



Unnið verður úr þeim niðurstöðum sem fyrir liggja, í samvinnu við pípulagningameistara verksins.

14.Úttekt SSV á tekjum og fjárhagsþáttum Grundarfjarðarbæjar

Málsnúmer 1810022Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur bæjarstjóra til Skattsins, 23. júní 2025, með beiðni um upplýsingar og greiningu gagna, í framhaldi af umræðu bæjarstjórnar á fundi sínum 8. maí sl., þar sem farið var yfir greiningu útsvarstekna bæjarins aftur í tímann.



15.Heilbrigðiseftirlit Vesturlands - Eftirlitsskýrsla 5.5.2025 vegna opins leiksvæðis á Hjaltalínsholti

Málsnúmer 2506022Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar eftirlitsskýrsla HeV dags. 5. maí 2025 um leiksvæði á Hjaltalínsholti.

16.Áningarstaður við Kirkjufellsfoss sumar 2025 - framkvæmdaleyfi og gögn

Málsnúmer 2506013Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar afrit af leyfisbréfi skipulagsfulltrúa, dags. 16. júní sl., um veitt framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við áningarstað við Kirkjufellsfoss.



Jafnframt lagðar fram fundargerðir þriggja verkfunda um verkefnið.



17.Styrkvegaumsókn 2025

Málsnúmer 2502013Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar gögn vegna umsóknar Grundarfjarðarbæjar í Styrkvegasjóð Vegagerðarinnar.



Grundarfjarðarbær fær 2,5 millj. kr. skv. bráðabirgðasvari sem borist hefur, en ekki er komið formlegt svar eða skipting á þá liði sem sótt var um.



18.Golfklúbburinn Vestarr Grundarfirði - Boðsbréf í afmæli

Málsnúmer 2507003Vakta málsnúmer

Lagt fram boðsbréf GVG um golfmót og afmæliskaffi 27. júlí nk. en þá verður klúbburinn 30 ára.

Fylgiskjöl:

19.Félag atvinnurekenda - Erindi til sveitarstjórna

Málsnúmer 2506030Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla Félags atvinnurekenda um endurskoðun á grunni álagningar á fasteignir.

20.Alþingi - Breyting á lögum um veiðigjald

Málsnúmer 2504001Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur nefndasviðs Alþingis, dags. 13. maí sl., varðandi umsagnir um frumvarp til laga um veiðigjald.



Einnig umsögn SSV um frumvarpið/framsaga VK hjá SSV á fundi atvinnuveganefndar 30. maí sl., en bæjarstjóri tók einnig þátt í þeim fundi.



Bæjarstjóri kynnti drög að samantekt fyrir bæinn um áhrif hækkunar veiðigjalda á bæjarsjóð.

21.Þórunn Kristinsdóttir - Samningur um afnot af hundagerði 2025

Málsnúmer 2506014Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar samningur við Þórunni Kristinsdóttur um afnot af landsvæði fyrir hundagerði í landi Háls, fyrir apríl-des. 2025.



Samningurinn er gerður í þágu hundaleyfishafa í Grundarfirði, sem fá aðgang að hundagerði þriðja árið í röð.



22.Cruise Iceland - Follow up from the Parliamentary Breakfast hosted by CLIA on June 11th

Málsnúmer 2506021Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar ýmis gögn frá Cruise Iceland.

23.Mennta- og barnamálaráðuneyti - Samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaga um ábyrgð á rekstri og kostnaði vegna búsetu barna með fjölþættan vanda sem vistuð eru utan heimilis.

Málsnúmer 2506020Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda ásamt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga og fleiri gögnum.



Bæjarstjóri sat fjarfund 27. júní sl. til kynningar á samkomulaginu.

24.Eyrbyggjasögufélagið - Ársreikningur 2024

Málsnúmer 2506017Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar ársreikningur Eyrbyggjusögufélagsins vegna ársins 2024.

25.Innviðaráðuneytið - Innviðaþing 28. ágúst

Málsnúmer 2507001Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Innviðaráðuneytisins, dags. 23. júní sl., um innviðaþing sem haldið verður 28. ágúst nk.

26.Breiðafjarðarnefnd - Fundargerðir 2025

Málsnúmer 2503005Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir Breiðafjarðarnefndar; fundargerð 232. fundar sem haldinn var 9. apríl sl. og fundargerð 233. fundar sem haldinn var 23. maí sl.

27.Samtök sjávarútvegssveitarfélaga - Ársreikningur 2024

Málsnúmer 2506018Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar ársreikningur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga vegna ársins 2024.

28.Samtök sjávarútvegssveitarfélaga - Fundargerðir 2025

Málsnúmer 2505002Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 90. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem haldinn var 19. júní sl.

29.Samtök sjávarútvegssveitarfélaga - Eftirfylgni með hækkun veiðigjalda

Málsnúmer 2507002Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, dags. 27. júní sl., um eftirfylgni með hækkun veiðigjalda.

30.Samband íslenskra sveitarfélaga - Fundargerðir 2025

Málsnúmer 2502011Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 981. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 13. júní sl.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 12:26.