273. fundur 08. júní 2023 kl. 16:30 - 21:40 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Ágústa Einarsdóttir (ÁE) 1. varaforseti
  • Garðar Svansson (GS)
  • Davíð Magnússon (DM)
    Aðalmaður: Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS)
  • Loftur Árni Björgvinsson (LÁB)
  • Marta Magnúsdóttir (MM)
    Aðalmaður: Sigurður Gísli Guðjónsson (SGG)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Í fjarveru forseta stýrir Ágústa Einarsdóttir varaforseti fundinum.

Hún setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

Gengið var til dagskrár.

1.Minnispunktar bæjarstjóra frá 2022

Málsnúmer 2205020Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri lagði fram minnispunkta sína, sbr. framlagt skjal.

2.Störf bæjarstjórnar á kjörtímabilinu 2022-2026

Málsnúmer 2205021Vakta málsnúmer

Varaforseti lagði til að bæjarráð myndi í sumar fara í heimsókn á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól og skoða húsnæði og lóð, en framkvæmdir hafa staðið yfir síðustu misserin.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjóri sagði frá því að í dag hefði borist úrskurður frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna kæru á deiliskipulagi Ölkeldudals. Í úrskurðinum er hafnað kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar 24. nóvember sl. um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals.

GS sagði frá fundi stjórnar SSV sem haldinn var í Borgarnesi í gær og las m.a. upp bókun fundarins um ástand þjóðvega.

Bæjarstjórn áréttar fyrri ályktanir sínar um brýnar endurbætur þjóðvega á Snæfellsnesi. Bæjarstjórn tekur undir ályktun stjórnar SSV á fundi dags. 7. júní 2023 og skorar á yfirvöld samgöngumála að veita nú þegar fjármunum til þess að fara í viðhaldsverkefni við Snæfellsnesveg nr. 54. Viðhald vegarins á stórum köflum þolir enga bið. Ef ekki verður farið í endurbætur fljótlega á verstu köflunum telur bæjarstjórn að ráðast þurfi í aðgerðir eins og að draga úr umferðarhraða til þess að tryggja umferðaröryggi á veginum.

Samþykkt samhljóða.

3.Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga - Farsældarlög og innleiðing þeirra, kynning

Málsnúmer 2305008Vakta málsnúmer

Sigrún Ólafsdóttir og Ingveldur Eyþórsdóttir frá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga (FSS) sátu fundinn sem gestir undir þessum lið.

Fulltrúum í skólanefnd var einnig boðið að sitja þennan lið fundarins.
Sigrún og Ingveldur kynntu hvernig FSS vinnur að innleiðingu farsældarlaganna. Þær fóru yfir stöðu innleiðingar laganna.

Góðar umræður urðu, allir tóku til máls.

Sigrúnu og Ingveldi var þakkað fyrir komuna á fundinn.

Gestir

  • Ingveldur Eyþórsdóttir - mæting: 17:20
  • Sigrún Ólafsdóttir - mæting: 17:20

4.Bæjarráð - 605

Málsnúmer 2305004FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 605. fundar bæjarráðs.
  • Bæjarráð - 605 Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.
  • 4.2 2302010 Greitt útsvar 2023
    Bæjarráð - 605 Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-apríl 2023. Samkvæmt yfirlitinu hefur greitt útsvar hækkað um 11,4% miðað við sama tímabil í fyrra.
  • Bæjarráð - 605 Lagt fram rekstraryfirlit fyrir tímabilið janúar-mars 2023, ásamt málaflokkayfirliti. Skv. yfirlitinu er rekstrarniðurstaða fyrstu þriggja mánaða ársins 2,3 millj. kr. umfram áætlun tímabilsins (neikvæð niðurstaða). Ástæða frávikanna er fyrst og fremst aukin fjármagnsgjöld vegna hækkunar vísitölu neysluverðs. Flestir málaflokkar eru undir eða á pari við áætlun, en fjármagnskostnaður er talsvert yfir áætlun.
  • 4.4 2301007 Framkvæmdir 2023
    Bæjarráð - 605 Sif Hjaltdal Pálsdóttir, landslagsarkitekt hjá Landslagi, sat fundinn undir þessum lið á fjarfundi, þ.e. vegna umræðu um endurbætur í Hrannarstíg.

    Lögð fram vinnutillaga Sifjar/Landslags að útfærslu gangstíga á Hrannarstíg, frá Nesvegi og að Grundargötu. Rætt um fyrirkomulag í götu, efnisval og áfangaskiptingu verksins.

    Lagt til að farið verði í áfanga 1 og 2 á árinu. Áfangi 1 felur í sér endurbætur á gangsvæði meðfram bílaþvottaplani og leikskólalóð.

    Samþykkt samhljóða.

    Rætt um ástand á malbiki í götunni Fagurhól, við og útfrá kirkjunni, en malbikið er farið að láta á sjá. Samþykkt að óska eftir upplýsingum frá Veitum ohf. um ástand vatnslagnar á svæðinu, þannig að endurnýjun vatnslagnar og endurbætur á yfirlögn geti farið saman, þegar að því kemur.

    Bæjarráð ræddi almennt um ástand malbiks/malbiksviðgerða eftir framkvæmdir í götum á vegum ýmissa aðila. Bæjarráð vill skerpa á því verklagi að framkvæmdaaðilum sé gert að vanda frágang og viðgerðir þegar þurft hefur að framkvæma í götum.

    Samþykkt samhljóða.

    Einnig rætt um afmörkun malbikaða gangstígsins/stéttar í Sæbóli. Sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs falið að hrinda í framkvæmd afmörkun gangstígs/stéttar frá götu til bráðabirgða, á meðan endanlegum frágangi er ekki lokið.

    Samþykkt samhljóða.

    Rætt um bílakaup fyrir áhaldahús, en í fjárhagsáætlun 2023 er gert ráð fyrir endurnýjun á Toyota Hiace bifreið árgerð 2006. Bæjarstjóri gerði grein fyrir valkostum í bílakaupamálum. Bæjarráð telur í ljósi þeirra valkosta sem standa til boða, að skynsamlegt sé að bæta við fjárheimild ársins til bílakaupa.
    Bæjarstjóra veitt umboð til bílakaupa í samræmi við umræður fundarins. Gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun vegna kostnaðarauka.
    Samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Til máls tóku ÁE, GS og BÁ.
  • Bæjarráð - 605 Lagðir fram minnispunktar frá fundi 23. maí sl. sem bæjarstjóri átti ásamt bæjarstjóra Snæfellsbæjar með Stefáni Gíslasyni hjá Environice ehf., en hann hefur veitt sveitarfélögunum ráðgjöf vegna breytinga í sorpmálum í samræmi við löggjöf þess efnis. Jafnframt lagður fram tölvupóstur Úrvinnslusjóðs og fleiri vinnugögn.

    Bæjarstjóri sagði frá rýni- og undirbúningsvinnu með Snæfellsbæ varðandi sorpmálin að undanförnu.

    Bæjarráð samþykkir að hefja undirbúning að útboði sorpmála með það fyrir augum að útboð fari fram á árinu. Bæjarstjóra og skrifstofustjóra veitt umboð til að vinna að undirbúningi opins útboðs á sorphirðu, rekstri gámastöðvar og tilheyrandi þjónustu, í heild eða hlutum, í samræmi við þá undirbúningsvinnu sem fram hefur farið. Útboð fari fram í samvinnu við Snæfellsbæ.

    Samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Bæjarstjórn staðfestir bókun bæjarráðs um útboð sorpmála og umboð til undirbúnings.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 605 Lögð fram gögn úr undirbúningsvinnu um fyrirkomulag og mögulegt útlit skilta í bænum.

    Unnið er með hliðsjón af "Vegrún", wwww.godarleidir.is, skiltahandbók um skilti í náttúru Íslands.

    Tillagan nær til skilta í þéttbýlinu og er lagt til að sett verði upp skilti, svokallaðir „vegprestar“ sem vísa á helstu þjónustu í Grundarfirði.
    Í næsta áfanga er endurnýjun tveggja skilta, sitt hvorum megin í bænum.

    Bæjarráð samþykkir ofangreindar tillögur og að bjóða þjónustuaðilum „plötu“ á skiltinu, á kostnaðarverði, þannig að merking í bænum væri samræmd.

    Samþykkt samhljóða.
    Bókun fundar Bæjarstjórn staðfestir bókun bæjarráðs um skiltastefnu.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 605 Lagt fram bréf Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Fellaskjóls, dags. 9. maí sl., með beiðni um merkingar á bílastæðum og malbikun á göngustíg á lóð heimilisins.

    Bæjarráð samþykkir styrk til Fellaskjóls sem felst í merkingum á bílastæðum á lóð heimilisins eftir að malbikun er lokið í sumar. Bæjarráð vísar beiðni Fellaskjóls um malbikun á göngustíg í lóð til fjárhagsáætlunarvinnu vegna ársins 2024.

    Samþykkt samhljóða.
  • Bæjarráð - 605 Lögð fram til kynningar bréf Stéttarfélagsins Kjalar um atkvæðagreiðslu félagsmanna um verkfall, þ.e. bréf dags. 14. maí sl., þar sem samþykkt var verkfall á Leikskólanum Sólvöllum dagana 30. maí til 1. júní og bréf dags. 19. maí sl., þar sem samþykkt var verkfall í leikskóla og bæjarskrifstofu frá 5. júní til 5. júlí nk. og verkfall í íþróttahúsi/sundlaug ótímabundið frá 5. júní nk.

    Af um 85 starfsmönnum bæjarins er 41 starfsmaður í BSRB (39 í starfi eins og er) og eru 17 af þeim á leið í verkfall skv. þessu eða um 20% starfsmanna bæjarins.

    Jafnframt lagður fram tölvupóstur Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 25. maí sl. um stöðuna í kjarasamningsviðræðum.

    Umboð Grundarfjarðarbæjar til kjarasamningsgerðarinnar liggur hjá Samninganefnd sveitarfélaganna og vonar bæjarráð að samningsaðilar nái samkomulagi hið fyrsta.
  • Bæjarráð - 605 Lagt fram til kynningar svarbréfi Kvenfélagsins Gleym-mér-ei við bréfi bæjarstjóra og ósk/tillögu um samstarf og samnýtingu á eldhús- og borðbúnaði í Samkomuhúsinu. Kvenfélagið sá sér ekki fært að verða við tillögu um samnýtingu á búnaðinum.

    Bæjarráð þakkar kvenfélaginu fyrir afgreiðslu erindisins.

    Unnið er að því að útbúa samkomuhúsið með borðbúnaði og áhöldum sem þarf, þannig að sem einfaldast og hagkvæmast verði að nýta húsið fyrir margvíslegar samkomur.
  • Bæjarráð - 605 Lagt fram til kynningar bréf Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga dags. 9. maí sl. um almennt eftirlit með fjármálum sveitarfélaga á árinu 2023.
  • Bæjarráð - 605 Lagður fram til kynningar ljósmyndasamningur 2023 við Tómas Frey Kristjánsson.
  • Bæjarráð - 605 Lagður fram til kynningar fánasamningur við Skátafélagið Örninn 2022-2023.
  • Bæjarráð - 605 Lagt fram til kynningar aðalfundarboð NýVest. Aðalfundurinn verður haldinn í Borgarnesi 6. júní nk.
  • Bæjarráð - 605 Lagt fram til kynningar bréf Vina íslenskrar náttúru til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 14. apríl sl., um skipulag skógræktar í landinu.
  • Bæjarráð - 605 Lagt fram til kynningar ársuppgjör Ungmennafélags Grundarfjarðar vegna ársins 2022.
  • Bæjarráð - 605 Lagt fram til kynningar ársuppgjör Listvinafélags Grundarfjarðarkirkju vegna ársins 2022.
  • Bæjarráð - 605 Lagður fram til kynningar ársreikningur Setbergssóknar vegna Grundarfjarðarkirkju árið 2022.
  • Bæjarráð - 605 Lagður fram til kynningar mál 497. frá nefnda- og greiningarsviði Alþingis, þar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á kosningalögum, nr. 112/2021 (lækkun kosningaaldurs).

5.Íþrótta- og tómstundanefnd - 109

Málsnúmer 2305005FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 109. fundar íþrótta- og tómstundanefndar.
  • Heimsókn til Skotfélags Snæfellsness og GVG, Golfklúbbsins Vestarr. Íþrótta- og tómstundanefnd - 109 Í samræmi við fyrri samþykkt nefndarinnar fóru nefndarmenn, aðal- og vara, í heimsókn til íþróttafélaga.

    Farið var inná Hrafnkelsstaðabotn og rætt við Jón Pétur Pétursson, formann Skotfélagsins og stjórnarmennina Dagnýju Rut Kjartansdóttur og Birgi Guðmundsson.

    Síðan var farið á Bárarvöll og rætt við Garðar Svansson, formann GVG.

    Á báðum stöðum var aðstaða félaganna skoðuð og rætt um starfsemi félaganna.



    Bókun fundar Til máls tóku ÁE, GS og BÁ.

6.Skólanefnd - 169

Málsnúmer 2305006FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 169. fundar skólanefndar.
  • 6.1 2207023 Skólastefna
    Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson ráðgjafi hjá Ásgarði var gestur fundarins.

    Skólanefnd - 169 Gunnþór sagði frá vinnu við mótun menntastefnu, einkum frá opnum íbúafundi sem haldinn var í síðustu viku, 24. maí sl., skv. auglýsingu.

    Í framhaldinu hefur verið gerð frétt á vef bæjarins og þar er auglýst að enn sé hægt að koma að hugmyndum og skilaboðum inní vinnuna, gegnum skjal með spurningum íbúafundarins og má rita beint inní skjalið á vefnum. Spurningarnar eru á 3 tungumálum.

    Í haust verður gerð spurningakönnun meðal íbúa um skólamál og Gunnþór mun heimsækja skólana og ræða við starfsfólk, foreldra og fleiri.

    Stefnt er að því að vinnu við nýja menntastefnu ljúki í haust.

    Eftir almennar umræður var Gunnþóri þakkað fyrir góðar upplýsingar og vék hann af fundinum.
    Bókun fundar Til máls tóku ÁE og LÁB.
  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri sat fundinn áfram undir þessum lið, ásamt fulltrúa foreldra nemenda í grunnskóla.

    Skólanefnd - 169 Tillaga skólastjóra um skóladagatal skólaárið 2023-2024 lögð fram til afgreiðslu. Skólaráð hefur farið yfir tillöguna á fundi sínum.

    Tillaga að skóladagatali lögð fram með þeim breytingum að nemendastýrð viðtöl, sem áttu að fara fram 25. janúar 2024, verði hefðbundinn skóladagur. Ennfremur að Öskudagur verði hefðbundinn skóladagur.

    Skólanefnd samþykkir framlagða tillögu að skóladagatali með framangreindri breytingu.

    ---

    Skólastjóri fór yfir helstu atriði úr skólastarfinu:

    Skólaslit verða á morgun, 1. júní. Athöfn verður fyrir 1.-7. bekk í íþróttahúsinu, en fyrir unglingastig, 8.-10. bekk, verður útskriftarathöfn í Grundarfjarðarkirkju. Sjö nemendur útskrifast úr 10. bekk.

    Skólastjóri sagði frá breytingum í starfsmannahópnum. Hallfríður Guðný Ragnarsdóttir og Elísabet Kristín Atladóttir færa sig úr leikskóladeildinni Eldhömrum, yfir í kennslu í grunnskólanum. Sigrún Hilmarsdóttir lætur af störfum sem kennari og Marta Magnúsdóttir verður ekki við kennslu á komandi vetri.

    Skólinn sótti um og fékk styrk í samvinnu við Grunnskóla Snæfellsbæjar fyrir verkefninu "Orð af orði", sem fer að stað á komandi skólaári. Þar verður unnið með orðaforða hjá nemendum.

    Í vetur var unnið eftir stefnu um heilsueflandi grunnskóla og auk þess stefnu Grænfánaverkefnisins, umsjónarkennarar á miðstigi sáu um innleiðinguna.

    Ætlunin er að stíga fleiri skref í átt að aukinni sjálfbærni skólans og er draumurinn að skólinn geti í framtíðinni eignast sitt eigið gróðurhús og jafnvel verið með hænur.

    Um 120 trjáplöntur fara á skólalóðina og í skóginn, eða ein planta fyrir hvern nemanda í grunnskólanum og á Eldhömrum.

    Undir áætlun ERASMUS KA2, fékkst styrkur sem nýttur verður til fjárfestingar í búnaði fyrir skapandi kennslu.

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri sat fundinn áfram undir þessum lið, ásamt Lindu Maríu Nielsen aðstoðarskólastjóra tónlistarskólans.

    Skólanefnd - 169 Tillaga um skóladagatal Tónlistarskólans skólaárið 2023-2024 lögð fram til afgreiðslu og fór Linda María yfir hana.

    Skólanefnd samþykkir framlagða tillögu að skóladagatali.

    ---

    Linda María gerði grein fyrir helstu atriðum úr starfi tónlistarskólans, sem hún hafði tekið saman eins og hér segir:

    Í vetur var tekið inn nýtt rafrænt skólakerfi, Viska, og hefur það gengið vel.

    Skólaárið hófst á starfsdögum og einn þeirra var sameiginlegur með tónlistarskólanum í Stykkishólmi og í Ólafsvík. Var farið til Reykjavíkur og Tónstofa Valgerðar var heimsótt, með fræðslu um kennslu nemenda með ýmsar fatlanir. Einnig var Össur skólastjóri í skólahljómsveit Kópavogs heimsóttur, nýtt og glæsilegt húsnæði þeirra skoðað.

    Í september var stór tónlistarskólaráðstefna í Hörpu, sem var mjög fróðleg og mörg áhugaverð erindi.

    Aðstoðarskólastjóri sótti góða haustráðstefnu STS á Höfn og var gott að hitta aðra stjórnendur í tónlistarskólum.

    Nemendur komu fram á aðventudegi Kvenfélagsins í samkomuhúsinu í byrjun desember sl.

    Jólatónleikarnir voru 7. desember í kirkjunni, mjög hátíðlegir og flottir.

    Farið var á Fellaskjól í desember með tónlistarflutning og á Þorláksmessu sungu nemendur við Græna kompaníið.

    Í janúar voru foreldraviðtöl.

    Fimm ára nemendur leikskóladeildarinnar Eldhamra sóttu tónlistartíma hjá Alexöndru í vetur.

    Sú nýjung var tekin upp að bjóða raftónlist í vali á unglingastigi í grunnskólanum, í umsjón Valbjörns. Gekk áfanginn vel og áhuginn var mikill. Síðustu vikur nýttu strákarnir sér frímínútur, hádegishlé og verkefnatíma til að vinna að sínu eigin lagi.

    Í febrúar sáu nemendur tónlistarskólans um tónlist í æskulýðsmessu sem tekin var upp fyrir RÚV og henni útvarpað sunnudaginn 5. mars sl. Fengu nemendur og allir sem tóku þátt í þessari messu mikið lof fyrir.

    Nemendur komu fram á 1. maí skemmtun í samkomuhúsinu.

    Nemendatónleikar voru á vegum hvers kennara í maí. Tókust þeir allir mjög vel og voru vel sóttir. Skólaslit og vortónleikar voru svo 17.maí í kirkjunni.

    Landsmót skólalúðrasveita sem átti að vera í Vestamannaeyjum í maí var frestað og verður skoðað með að halda mótið snemma í haust. Í staðinn var sameiginlegur æfingadagur í Stykkishólmi og fóru fimm nemendur frá Grundarfirði. Þar var mjög gaman og mikill lærdómur fyrir alla nemendur.

    Einn nemandi spilaði í fermingarmessunni sinni á Hvítasunnudag.

    Innritun fyrir næsta skólaár hófst þriðjud 23. maí og stendur til 1. júní. Nú er sótt um í gegnum skólakerfið Visku.

    Undirbúningur fyrir næsta skólaár gengur vel, umsóknir eru að koma inn.
    Í ágúst liggur fyrir hvernig árið verður, m.t.t. vals í grunnskólanum þar sem verið er að bjóða upp á raftónlistarbraut. En undirbúningur fyrir raftónlistarbraut er vel á veg kominn.

    Að loknum umræðum var Lindu Maríu þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar.
  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri sat fundinn áfram undir þessum lið.
    Skólanefnd - 169 Tillaga skólastjóra um skóladagatal leikskóladeildarinnar Eldhamra lögð fram til afgreiðslu.

    Dagatalið er samþykkt af skólanefnd með fyrirvara um dagana þrjá í Dymbilviku, þ.e. 25., 26. og 27. mars. Tillagan gerir ráð fyrir að lokað verði á Eldhömrum þessa daga og er það lagt fram af skólastjóra sem leið til að mæta hluta af styttingardögum starfsfólks Eldhamra.

    Skólanefnd mun taka fyrirkomulag þessara þriggja daga til nánari skoðunar og úrlausnar í samvinnu við skólastjórnendur og afgreiða fyrir lok október nk., m.a. samhliða umræðu um mótun nýrrar menntastefnu.

    --
    Skólastjóri sagði frá starfsemi Eldhamra, en á þessu ári bættust við, fyrr en venjulega og í áföngum, nemendur sem verða fimm ára á árinu. Aðlögun þeirra gekk vel. Skoða verður þarfir þeirra m.t.t. aðstöðu á skólalóð, en þann 11. febrúar sl. fauk geymsluskúr leikfanga þeirra í ofsaroki og á eftir að leysa þau mál fyrir komandi vetur.
  • Margrét Sif Sævarsdóttir leikskólastjóri og Katrín Elísdóttir fulltrúi foreldra sátu fundinn undir þessum lið.

    Skólanefnd - 169 Tillaga leikskólastjóra um skóladagatal 2023-2024 lögð fram til afgreiðslu.
    Foreldraráð hefur jafnframt fengið tillöguna til yfirferðar.

    Dagatalið er samþykkt af skólanefnd en þó með fyrirvara um dagana þrjá í Dymbilviku, þ.e. 25., 26. og 27. mars. Tillagan gerir ráð fyrir að leikskólinn verði lokaður þessa daga og er það lagt fram af skólastjóra sem leið til að mæta hluta af styttingardögum starfsfólks, á sama hátt og lagt er til vegna Eldhamra.

    Skólanefnd mun taka fyrirkomulag þessara þriggja daga til nánari skoðunar og úrlausnar í samvinnu við skólastjórnendur og afgreiða fyrir lok október nk., m.a. samhliða umræðu um mótun nýrrar menntastefnu.

    Umræða varð um hugmyndafræði styttingar ("Betri vinnutími") og útfærslu hennar, eins og hún birtist í skólastarfi, ekki síst í leikskóla, þar sem stytting í skólastarfinu er veruleg áskorun.

  • Lögð fram til kynningar fundargerð starfshóps sem rýnir nú framkvæmdaáætlun um leikskólalóð. Fundurinn var haldinn 3. maí sl.

    Skólanefnd - 169 Áhersla starfshópsins er ekki síst á að endurnýjaðar verði mottur undir leiktækjum á skólalóð.
  • Fundargerðir og ástandsgreining sem unnin var á lóð skóla og íþróttahúss lögð fram til kynningar.
    Skólanefnd - 169 Skólastjóri sagði frá vinnu við rýni skólalóðar. Hópurinn lagði til að í sumar yrði gerður boltavöllur á skólalóð, með sérstöku yfirborðsefni/málningu.

  • Lagður fram til kynningar samstarfssamningur við Samtökin 78, sem gerður var í mars sl., um fræðslu til starfsfólks og nemenda.
    Skólanefnd - 169
  • Lagt fram til kynningar erindi Samtakanna 22, dags. 11. apríl 2023.

    Skólanefnd - 169 Í erindinu fara samtökin fram á það, á grundvelli upplýsingalaga, að fá að sjá samstarfssamning sveitarfélaga við Samtökin 78, sem og kennsluefni og fyrirlestra þeirra.

    Bæjarstjóri mun senda Samtökunum upplýsingar um samstarfssamning þann sem gerður var við Samtökin 78.
  • Lagt fram kynningarefni/samantekt mennta- og barnamálaráðuneytis frá því í mars 2023; "Farsæld á fyrsta ári - Innleiðing laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna árið 2022".

    Skólanefnd - 169
  • Lagt fram yfirlit Sambands íslenskra sveitarfélaga um úthlutun stjórnar Námsleyfasjóðs úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla árið 2023.

    Skólanefnd - 169
  • Lagt fram til kynningar frumvarp sem felur í sér breytingu á ýmsum lögum í þágu barna (samþætting þjónustu o.fl.), 922. mál.

    Skólanefnd - 169

7.Skipulags- og umhverfisnefnd - 249

Málsnúmer 2306001FVakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerð 249. fundar skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lögð fram til afgreiðslu tillaga að deiliskipulagi fyrir norðurhluta hafnarsvæðis í samræmi við 1. og 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Forsaga:
    Skipulagslýsing vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi, nýju deiliskipulagi fyrir Framnes og norðurhluta hafnarsvæðis var auglýst 30. nóvember sl. í samræmi við 1. og 3. mgr. 40. gr. Lýsingin var jafnframt send til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun og öðrum umsagnaraðilum eins og lög gera ráð fyrir. Skipulagslýsingin var kynnt á opnu húsi 13. desember 2022 en auk þess var lóðarhöfum boðið til sérstakra samráðsfunda. Athugasemdafrestur var til og með 21. desember. Umsagnir bárust frá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Vesturlands, Breiðafjarðarnefnd, Siglingadeild Vegagerðarinnar og Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og Olíudreifingu. Engar skriflegar athugasemdir bárust við skipulagslýsinguna en samtöl/fundir með hagsmunaaðilum fóru fram á vinnslutíma.

    Þann 11. maí sl. samþykkti bæjarstjórn að kynna deiliskipulagstillöguna á vinnslustigi. Athugasemdafrestur var til og með 26. maí 2023. Opið hús var haldið 24. maí í ráðhúsi Grundarfjarðar. Skrifleg athugasemd barst frá lóðarhafa Sólvalla 8 vegna tillögu að nýjum vegi milli Sólvalla og Nesvegar. Umsögn barst frá Vegagerðinni og hefur hún hefur verið yfirfarin. Jafnframt voru umræður á opnu húsi um fyrirkomulag á hafnarsvæðinu.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 249 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að fela skipulagsfulltrúa að uppfæra framlagða tillögu Eflu dags. 28.05.2023 með eftirfarandi breytingum og auglýsa í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 án frekari aðkomu nefndarinnar, að fenginni staðfestingu í bæjarstjórn.

    1. Í texta greinargerðar og/eða deiliskipulagsuppdrætti komi fram að stærð og lögun landfyllingar, sem bætt hefur verið við vinnslutillögu, sé leiðbeinandi og að þar sé gert ráð fyrir rútustæðum. Nefndin felur skipulagsfulltrúa að skoða nánar aksturstengingu á milli rútustæða og biðstæða og þörf fyrir byggingarreit þjónustuhúss á landfyllingunni og aðlaga landfyllinguna með tilliti til þess og að höfðu samráði við Siglingadeild Vegagerðarinnar. Jafnframt skal bæta við greinargerð að framkvæmd landfyllinga skuli vera í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

    2. Nýr vegur sem liggur í framhaldi af Bergþórugötu austan Nesvegar fái heitið Norðurgarður og heiti lóða verði breytt í samræmi við það, þannig:
    Norðurgarður A verði Norðurgarður 2,
    Norðurgarður B = Norðurgarður 4,
    Norðurgarður C = Norðurgarður 6 og
    Norðurgarður D = Norðurgarður 8.
    Óbyggð lóð gegnt lóð E verði Norðurgarður 1,
    Nesvegur 4A (Netagerð G.Run) verði Norðurgarður 3,
    óbyggð lóð við Nesveg 6B verði Norðurgarður 5,
    óbyggð lóð við Nesveg 8 verði Norðurgarður 7
    og Nesvegur 10 verði Norðurgarður 9.

    3. Tillagan verði kynnt fyrir FISK Seafood (lóðarhafa Borgarbrautar 1, Nesvegar 4 (gamla hraðfrystihús), Nesvegar 4C/Norðurgarðs 1 (óbyggð lóð) og Nesvegar 1 (kaupfélagshús)). Minniháttar breytingar á tillögunni verði heimilaðar án frekari aðkomu nefndarinnar.

    4. Samráð verði haft við Olíudreifingu og Veitur til þess að taka endanlega ákvörðun um lagnaleið fyrir olíu og kalt vatn áður en tillagan verður auglýst. Breytingar á lagnaleið verði heimilaðar án frekari aðkomu nefndarinnar.

    5. Tillögunni fylgi skýringarmynd sem sýni bráðabirgðalausn varðandi umferð og rútustæði, sem byggir á tillögu hafnarstjóra og Siglingadeildar Vegagerðarinnar dags. 30.05.2023. Skýringarmyndin sýni lágmarksfyllingu í suðurkrika Miðgarðs til þess að koma þar fyrir rútustæðum til bráðabirgða. Sýna skal umferðarflæði á skýringarmyndinni.

    6. Nefndin leggur til að bætt verði við skýringarmynd sem sýni umferðarflæði á deiliskipulagssvæðinu.

    Nefndin tók til umræðu skriflega athugasemd sem barst við vinnslutillöguna á kynningartíma hennar og varðar tillögu að nýrri götu sem tengir Sólvelli og Nesveg norðan við Sólvelli 8. Nefndin telur nýju götuna mikilvæga í deiliskipulaginu og felur skipulagsfulltrúa að skýra/bæta inn umfjöllun um hana í skipulagsbreytingunni.
    Bókun fundar Til máls tóku ÁE og BÁ.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.

    Í ljósi upplýsinga frá skipulagsfulltrúa er tillagan áfram til vinnslu og kemur síðar til endanlegrar afgreiðslu bæjarstjórnar/bæjarráðs, og ef þörf krefur verður hún lögð aftur fyrir skipulags- og umhverfisnefnd.
  • Lögð er fram til afgreiðslu tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, að lokinni kynningu á vinnslustigi í samræmi við 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Forsaga:
    Bæjarstjórn samþykkti þann 24. nóvember sl. skipulagslýsingu vegna tillögu að breytingu á aðalskipulagi í tengslum við tillögur að breytingum á deiliskipulagi hafnarsvæðis (H-1) og nýju deiliskipulagi fyrir Framnes (AT-1 og OP-2) í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með vísan í 1. mgr. 36. gr. laganna.

    Skipulagslýsingin var auglýst 30. nóvember sl., kynnt á opnu húsi 13. desember og send til Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila eins og lög gera ráð fyrir. Athugasemdafrestur var til og með 21. desember.
    Umsagnir bárust frá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Vesturlands, Breiðafjarðarnefnd, Siglingadeild Vegagerðarinnar og Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og Olíudreifingu.
    Engar skriflegar athugasemdir bárust við skipulagslýsinguna en samtölum/fundum með hagsmunaaðilum hefur verið haldið áfram á vinnslustigi tillögunnar.

    Þann 11. maí sl. samþykkti bæjarstjórn að kynna vinnslutillögu aðalskipulagsbreytingarinnar í samræmi við 2. mgr. 30 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin er í samræmi við rammahluta aðalskipulags. Vinnslutillagan var auglýst á vef sveitarfélagsins 12. maí sl. og tölvupóstur sendur til lóðarhafa á svæðinu. Opinn kynningarfundur ("opið hús") var haldinn 24. maí. Frestur til að gera athugasemdir var til og með 26. maí. Athugasemdir vegna aðalskipulagsbreytingarinnar (vinnslutillögu) bárust frá lóðarhafa Sólvalla 8. Umræður á kynningarfundi lutu að deiliskipulagi hafnarsvæðis og var ekki fylgt eftir með skriflegri athugasemd.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 249 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að senda tillögu að breytingu á aðalskipulagi til athugunar Skipulagsstofnunar í samræmi við 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Nefndin tók til umræðu athugasemd sem barst við vinnslutillöguna á kynningartíma hennar og varðar tillögu að nýrri götu sem tengir Sólvelli og Nesveg norðan við Sólvelli 8. Nefndin telur nýju götuna mikilvæga í deiliskipulaginu og felur skipulagsfulltrúa að bæta inn umfjöllun um hana í skipulagsbreytingunni.

    Að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar og að því gefnu að stofnunin geri ekki athugasemdir við hana, samþykkir skipulagsnefnd fyrir sitt leyti að tillagan verði auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Bókun fundar Lögð er fram uppfærð tillaga Eflu, dags. 7. júní 2023 í samræmi við ábendingar og afgreiðslu á 249. fundi skipulags- og umhverfisnefndar.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og hina uppfærðu tillögu.
  • Lagðir eru fram til kynningar fullbúnir uppdrættir fyrir iðnaðarhúsnæði við Sólvelli 5.

    Á 241. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 17. október sl. var erindið fyrst tekið fyrir og lagðar fram teikningar af fyrirhuguðu húsnæði. Teikningarnar, sem voru drög að útliti húss, voru grenndarkynntar með bréfi dags. 2. nóvember 2022 til lóðarhafa við Sólvelli 2, 3, 6, 7, 8 og 13, Eyrarveg 7 og 12 og Sæból 1-3. Á fundinum bókaði nefndin einnig að bærust engar athugasemdir væri byggingarfulltrúa falið að óska eftir fullbúnum aðal- og séruppdráttum og gefa út byggingarleyfi að öllum skilyrðum uppfylltum.

    Engar athugasemdir bárust á grenndarkynningartímanum. Nýjar teikningar sem nú eru lagðar fram sýna breytingar, m.a. á útliti húss. Er það mat byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa að grenndarkynna þurfi hina breyttu tillögu.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 249 Skipulags- og umhverfisnefnd felur byggingarfulltrúa að óska eftir afstöðumynd sem sýnir skipulag lóðar, þ.m.t. aðkomuleiðir og bílastæði, sem og afstöðu til nærliggjandi húsa.

    Að þeim skilyrðum uppfylltum, felur nefndin skipulagsfulltrúa að grenndarkynna breytta tillögu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga fyrir sömu lóðarhöfum og síðast, þ.e. við Sólvelli 2, 3, 6, 7, 8 og 13, Eyrarveg 7 og 12 og Sæból 1-3. Berist engar athugasemdir úr grenndarkynningu felur nefndin byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að öllum skilyrðum byggingarreglugerðar uppfylltum.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Kamski ehf. sækir um endurnýjun á stöðuleyfi fyrir gám sem stendur á bak við Hótel Framnes við Nesveg 6. Sótt er um stöðuleyfi frá 1. júní 2023 til 1. júní 2024, en stöðuleyfi til eins árs var veitt árið 2022.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 249 Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að veita stöðuleyfi fyrir gáminn til eins árs eða til 1. júní 2024.

    Bókun fundar Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Lögð fram til kynningar vinnslutillaga Landslags vegna hönnunar Hrannarstígs frá Grundargötu að Nesvegi.

    Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 26. maí sl. og var m.a. rætt um fyrirkomulag í götu, efnisval og áfangaskiptingu verksins. Lagt var til að farið verði í áfanga 1 og 2 á árinu en í fyrsta áfanga verður farið í endurbætur á gangsvæði meðfram bílaþvottaplani og leikskólalóð.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 249
  • Lagt er fram til kynningar áskorun frá Eyja- og Miklaholtshreppi vegna sauðfjárveikivarna. Skipulags- og umhverfisnefnd - 249 Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir áhyggjur hreppsnefndar Eyja- og Miklaholtshrepps og áskorun til viðeigandi aðila um að koma sauðfjárveikivarnagirðingum í betra horf.

    Bókun fundar Til máls tóku ÁE, BS og GS.

    Bæjarstjórn hefur málið til afgreiðslu síðar á þessum fundi, en tekur undir bókun skipulags- og umhverfisnefndar.

8.Kosning forseta og varaforseta til eins árs

Málsnúmer 2205023Vakta málsnúmer

Til máls tóku ÁE, GS, LÁB og BÁ.

Varaforseti lagði fram þá tillögu að Jósef Ó. Kjartansson yrði forseti bæjarstjórnar til eins árs. Jafnframt var Garðari Svanssyni boðið að vera varaforseti bæjarstjórnar til eins árs.

GS lagði fram breytingatillögu um að Garðar Svansson yrði forseti bæjarstjórnar til eins árs.

Varaforseti bar breytingatillöguna upp til samþykktar.

Tillagan felld með fjórum atkvæðum (ÁE, BS, DM og MM) gegn þremur (GS, SG, LÁB).

Varaforseti bar upp upphafstillöguna um að Jósef Kjartansson yrði forseti bæjarstjórnar til eins árs.

Tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum (ÁE, BS, DM og MM), þrír sátu hjá (GS, SG, LÁB).

Varaforseti bar upp þá tillögu að Garðar Svansson yrði varaforseti bæjarstjórnar til eins árs. GS tók til máls og hafnaði boðinu að sinni.

Þá lagði varaforseti til að Ágústa Einarsdóttir yrði varaforseti bæjarstjórnar til eins árs.

Tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum (ÁE, BS, DM og MM), þrír sátu hjá (GS, SG, LÁB).

9.Kosning bæjarráðs, aðal- og varamenn

Málsnúmer 2205024Vakta málsnúmer

GS óskaði eftir stuttu fundarhléi, sem var tekið.

Kosin voru í bæjarráð til eins árs:

Aðalmenn: D - Ágústa Einarsdóttir, L - Signý Gunnarsdóttir, D - Sigurður Gísli Guðjónsson

Varamenn: D - Bjarni Sigurbjörnsson, L - Garðar Svansson, D - Jósef Ó. Kjartansson

Samþykkt samhljóða.

10.Kosning formanns og varaformanns bæjarráðs

Málsnúmer 2205025Vakta málsnúmer

Fram fór kosning formanns og varaformanns bæjarráðs í samræmi við 2. mgr. 27. gr. samþykktar um stjórn Grundarfjarðarbæjar.

Varaforseti bar fram þá tillögu að Sigurður Gísli Guðjónsson verði formaður bæjarráðs.

Samþykkt með fjórum atkvæðum (ÁE, BS, DM og MM), þrír sátu hjá (GS, SG og LÁB).

LÁB kom þeirri skoðun sinni á framfæri að hann teldi ekki siðferðilega rétt að stjórnandi stofnunar hjá Grundarfjarðarbæ sé jafnframt formaður bæjarráðs eða forseti bæjarstjórnar.

BÁ vísaði í ákvæði sveitarstjórnarlaga um kjörgengi íbúa til sveitarstjórna og að starfsfólk sveitarfélaga hefði ekki lakari rétt en aðrir til að taka sæti í sveitarstjórnum, nefndum og ráðum. Einnig væri það skylda hvers sveitarstjórnarmanns skv. lögunum að inna af hendi þau störf sem sveitarstjórn felur honum. Hins vegar gildi skýr ákvæði sveitarstjórnarlaga o.fl. laga um hæfi sveitarstjórnarmanna til að taka þátt í afgreiðslu mála, t.d. þegar mál varða þá stofnun sem þeir stýra.

Varaforseti bar fram þá tillögu að Ágústa Einarsdóttir verði varaformaður bæjarráðs.

Samþykkt með fjórum atkvæðum (ÁE, BS, DM og MM), þrír sátu hjá (GS, SG og LÁB).

11.Erindisbréf öldungaráðs

Málsnúmer 2305044Vakta málsnúmer




Lagt fram erindisbréf öldungaráðs, sem uppfært hefur verið í samræmi við lagabreytingar um ráðið.

Erindisbréf öldungaráðs samþykkt samhljóða.

12.Þjónustugjöld o.fl. vegna áhrifa verkfalls

Málsnúmer 2306004Vakta málsnúmer

Þrátt fyrir að leikskólagjöld séu niðurgreidd um rúmlega 90% þá er ljóst að yfirstandandi verkfall hefur áhrif á hagi fjölskyldna leikskólabarna

Í því ljósi lagði varaforseti til að þjónustugjöld (skóla- og fæðisgjöld) verði felld niður vegna skerðingar á vistun barna í Leikskólanum Sólvöllum á meðan yfirstandandi verkfall varir.

Leiðrétting á gjöldum verði reiknuð út og gerð upp með fyrsta greiðsluseðli sem gefinn verður út eftir að verkfalli lýkur.

Samþykkt samhljóða.

13.Fasteignamat 2023

Málsnúmer 2306006Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar ýmis gögn vegna breytinga á fasteignamati milli áranna 2023-2024, en í síðustu viku var kynnt mat ársins 2023, sem er grunnur álagningar ársins 2024.

Sjá nánar:
https://skra.is/um-okkur/frettir/frett/2022/05/31/Fasteignamat-2023-er-komid-ut/
https://fasteignaskra.is/fasteignir/fasteignamat/2024/

Skrifstofustjóri fór yfir samantekin gögn, yfirlit yfir þróun fasteignamats og gjaldflokka, ásamt ætluðum tekjum miðað við sömu álagningarforsendur ársins 2023.

Ljóst er að fasteignamat í Grundarfjarðarbæ breytist lítið frá fyrra ári og er undir almennum verðlagsbreytingum tímabilsins.

Bæjarstjórn vísar málinu til frekari skoðunar í bæjarráði.

Samþykkt samhljóða.

14.Bréf til bæjarstjórnar frá starfsfólki leikskóla í stéttarfélaginu Kili

Málsnúmer 2306005Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf frá starfsfólki Leikskólans Sólvalla sem eru í stéttarfélaginu Kili til bæjarstjórnar vegna stöðu kjarasamningsviðræðna.

Allir tóku til máls.

Umboð Grundarfjarðarbæjar til kjarasamningsgerðarinnar liggur hjá Samninganefnd sveitarfélaganna.

Bæjarstjórn lýsir yfir áhyggjum af stöðunni og vonar að samningsaðilar nái samkomulagi hið fyrsta.

15.Jeratún - Fundargerð hluthafafundar

Málsnúmer 2306001Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð aðalfundar Jeratúns ehf. sem haldinn var 24. maí sl.

16.Eyja- og Miklaholtshreppur - Áskorun vegna sauðfjárveikivarna

Málsnúmer 2306003Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar áskorun Eyja- og Miklaholtshrepps vegna sauðfjárveikivarna, sem einnig var lögð fyrir 249. fund skipulags- og umhverfisnefndar.

Bæjarstjórn tekur undir áskorun Eyja- og Miklaholtshrepps og lýsir yfir áhyggjum af ástandi sauðfjárveikivarnagirðinga sem tryggja eiga einangrun og heilbrigði sauðfjár í Snæfellsneshólfi. Veruleg þörf er á endurnýjun og endurbótum girðingarinnar.

Í ljósi þess að Snæfellsneshólf gegnir mikilvægu hlutverki sem líflambasölusvæði, m.a. í fjárskiptum, er brýnt að halda hólfinu hreinu og er girðingin lykilþáttur í því.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar skorar á matvælaráðuneytið og MAST að axla ábyrgð á hlutverki sínu í þessum málum og krefst frekara fjármagns í málaflokkinn sem fyrst í ljósi aðstæðna í t.d. Miðfjarðarhólfi.

Bæjarstjóra falið að koma bókun bæjarstjórnar á framfæri við matvælaráðuneytið, MAST, fjármála- og efnahagsráðuneytið, aðliggjandi sveitarstjórnir og þingmenn NV-kjördæmis.

Samþykkt samhljóða.

17.FSS - fundargerð aðalfundar 2. maí 2023

Málsnúmer 2306007Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð aðalfundar FSS sem haldinn var 2. maí sl.

18.Breiðafjarðarnefnd - Fundargerðir 2023

Málsnúmer 2302013Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir Breiðafjarðarnefndar, fundargerð 213. fundar sem haldinn var 14. mars sl. og fundargerð 214. fundar sem haldinn var 25. apríl sl.

19.Strandveiðifélag Íslands - ósk um áskorun frá sveitarfélaginu vegna strandveiða

Málsnúmer 2306008Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi Friðjóns Guðmundssonar, félaga í Strandveiðifélagi Íslands, vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (svæðaskipting strandveiða).

20.Umboð bæjarráðs í sumarleyfi bæjarstjórnar

Málsnúmer 2205034Vakta málsnúmer

Lögð fram svohljóðandi tillaga:

Bæjarstjórn samþykkir að fella niður bæjarstjórnarfundi í júlí og ágúst nk. skv. heimild í 4. mgr. 8. gr. samþykktar um stjórn Grundarfjarðarbæjar. Næsti fundur bæjarstjórnar verður 14. september 2023. Í sumarleyfi bæjarstjórnar fer bæjarráð með sömu heimildir og bæjarstjórn hefur ella skv. heimild í 4. mgr. 32. gr. samþykktanna.

Samþykkt samhljóða.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 21:40.