Lagt fram minnisblað vegna fundar með Andra Árnasyni hrl. frá 8. júní sl., þar sem farið er yfir helstu álitamál varðandi samskipti Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Grundarfjarðarbæjar. Jafnframt lagt fram bréf frá OR dags. 21. maí 2014. EG og ÞS gerðu grein fyrir stöðu mála. Allir tóku til máls.
Að umræðum loknum var samþykkt að fela bæjarstjóra í samráði við Andra Árnason lögmann að svara bréfi OR. Jafnframt var samþykkt að fá Hauk Jóhannesson jarðfræðing á fund við fyrstu hentugleika þar sem farið yrði nánar yfir þá möguleika sem fyrir hendi eru í öflun heits vatns fyrir Grundarfjarðarbæ, en hann vann greinargerð um málið fyrir Grundarfjarðarbæ í nóv. 2013.
Lögð fram drög að bréfi Grundarfjarðarbæjar til Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem kallað er eftir efndum Orkuveitunnar á samningi milli hennar og Grundarfjarðarbæjar frá 20. sept. 2005 varðandi hitaveitumál.
Bæjarráð samþykkir samhljóða að fela bæjarstjóra að senda bréfið til Orkuveitunnar.
Lagt fram bréf bæjarins dags. 10.07.2015 varðandi samning Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Grundarfjarðarbæjar um uppbyggingu og rekstur hitaveitu í Grundarfirði. Í bréfinu er þess ítrekað krafist að OR standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum og uppfylli ákvæði hans svo ekki þurfi að grípa til annarra ráða. Bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar falið að vinna áfram að málinu.
Lagt fram bréf Orkuveitu Reykjavík (OR) frá 18. ágúst sl. varðandi samning milli OR og Grundarfjarðarbæjar um hitaveituvæðingu bæjarins. Bréfið er svar við bréfi bæjarins frá 10. júlí sl., þar sem kallað er eftir efndum OR á samningi milli aðila.
Samþykkt samhljóða að fela bæjarstjóra í samráði við lögfræðing bæjarins að undirbúa viðræður við OR. Jafnframt að fá Hauk Jóhannesson, jarðfræðing til að mæta á fund bæjarstjórnar sem fyrst vegna mats hans á öflun heits vatns á svæðinu.
Gerð grein fyrir enn einum fundi fulltrúa bæjarstjórnar Grundarfjarðar með fulltrúum Orkuveitu Reykjavíkur/Veitum ohf., sem haldinn var í Ráðhúsi Grundarfjarðar þriðjudaginn 14. júní 2016. Tilefni fundarins var fyrst og fremst að kalla eftir efndum Orkuveitunnar (OR) á samningi við Grundarfjarðarbæ frá 20. sept. 2005 um kaup OR á Vatnsveitu Grundarfjarðar, ásamt uppbyggingu og rekstri á hitaveitu í Grundarfirði.
Grundarfjarðarbær afhenti Vatnsveitu Grundarfjarðar til OR frá og með 1. janúar 2006. Á móti skuldbatt OR sig til að hitaveituvæða Grundarfjarðarbæ. Grundarfjarðarbær hefur að fullu staðið við sinn hluta samningsins, en ekkert bólar á hitaveitu ennþá.
Á fundinum, líkt og á fyrri fundum, virtist ekki vera vilji af hálfu OR til að vinna að úrlausn þess að hitaveituvæða Grundarfjörð eins og samningurinn kveður á um.
Á grundvelli þess að OR virðist ekki ætla að standa við samninginn frá 2005 sér bæjarráð, sem nú starfar í umboði bæjarstjórnar, ekki aðrar leiðir færar en að fela bæjarstjóra að leita réttar bæjarins með aðstoð lögmanns.
Fyrir fundinum lá bréf Grundarfjarðarbæjar til Orkuveitunnar (OR) frá 20. júní sl., þar sem OR er tilkynnt að bæjaryfirvöld telji sig knúin til að leita réttar síns, með aðstoð lögmanns. Málið varðar efndir OR á samningi frá 20. sept. 2005, um kaup OR á Vatnsveitu Grundarfjarðar, ásamt uppbyggingu og rekstri á hitaveitu í Grundarfirði.
Jafnframt lagður fram tölvupóstur frá lögmanni bæjarins, Andra Árnasyni, hjá Juris um stöðu undirbúnings málsins og hvernig lögmenn Juris telja heppilegast að undirbúa málið til þess að knýja fram efndir OR á samningnum.
Bæjarráð samþykkir að fela lögmönnum bæjarins að vinna áfram að undirbúningi málsins í samræmi við umræður á fundinum. Leitast verði við að hraða undirbúningi eins og frekast er kostur.
Lagt fram minnisblað frá Juris slf., dags. 28. sept. sl., varðandi samning milli Grundarfjarðarbæjar og Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um kaup OR á Vatnsveitu Grundarfjarðar, ásamt uppbyggingu og rekstri á hitaveitu í Grundarfirði.
Málinu vísað til nánari umfjöllunar í bæjarstjórn.
Fjallað um samskipti Grundarfjarðarbæjar og Orkuveitunnar um framgang mála varðandi samninga um hitaveituvæðingu í Grundarfirði. Lögfræðingur bæjarins hefur óskað eftir viðræðum við Orkuveituna og hefur verið tekið jákvætt í slíkar viðræður. Til máls tóku EG, EBB og ÞS
Lagður fram tölvupóstur frá Andra Árnasyni, lögmanni bæjarins, þar sem hann gerir grein fyrir viðræðum sínum við forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) varðandi samning bæjarins og OR frá árinu 2005.
Jafnframt lagt fram yfirlit um tekjur og gjöld OR af Vatnsveitu Grundarfjarðar og kostnað við fjárfestingar í vatnsveitu og hitaveitu á árabilinu 2005-2017.
Allir tóku til máls.
Bæjarstjórn felur bæjarstjóra og forseta bæjarstjórnar, í samvinnu við lögmann bæjarins, að kalla eftir betri lúkningu mála til samræmis við samningsdrög sem áður hafa verið kynnt, og ná þannig farsælli lausn mála. Að öðrum kosti verði farið í málaferli.
Kynnt samningsdrög milli Grundarfjarðarbæjar og Orkuveitunnar (OR), vegna samnings aðila frá 20. sept. 2005 um hitaveituvæðingu í Grundarfirði. Samningsdrögin hafa áður verið til umfjöllunar í bæjarstjórn.
Jafnframt lagt fram minnisblað lögmanns bæjarins frá 7. des. sl., varðandi málið.
Allir tóku til máls.
Bæjarstjórn vill á grundvelli samningsdraganna að gengið verði til samninga við OR um yfirtöku bæjarins á Vatnsveitu Grundarfjarðar, ásamt öllum réttindum um hitaveitu og vatnsréttindi í sveitarfélaginu, sem OR hefur á hendi. Bæjarstjórn er einhuga um það að ekki komi til greina að samþykkja slit samnings frá 2005 án þess að til komi greiðslur í formi skaðabóta.
Lögð fram eldri gögn og þau síðustu vegna samskipta við Orkuveitu Reykjavíkur vegna samnings við Grundarfjarðarbæ frá árinu 2005.
Fram kom á bæjarstjórnarfundi þann 26. nóvember sl. að forseti bæjarstjórnar og bæjarstjóri hefðu rætt við lögmann bæjarins vegna málsins. Farið yfir stöðu og næstu skref.
EG og ÞS gerðu grein fyrir stöðu mála. Allir tóku til máls.
Að umræðum loknum var samþykkt að fela bæjarstjóra í samráði við Andra Árnason lögmann að svara bréfi OR. Jafnframt var samþykkt að fá Hauk Jóhannesson jarðfræðing á fund við fyrstu hentugleika þar sem farið yrði nánar yfir þá möguleika sem fyrir hendi eru í öflun heits vatns fyrir Grundarfjarðarbæ, en hann vann greinargerð um málið fyrir Grundarfjarðarbæ í nóv. 2013.
Málsmeðferð þessi samþykkt samhljóða.