Málsnúmer 2101038

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 224. fundur - 27.01.2021

Á fundi bæjarstjórnar þann 14. janúar sl. fól bæjarstjórn skipulags- og umhverfisnefnd að skoða gildandi deiliskipulag á iðnaðarsvæði.
Í minnisblaði um stöðu efnis í efnisnámu í Lambakróarholti, dags. 14.01.2021, var fjallað um iðnaðarsvæðið (merkt I-1 í nýja aðalskipulaginu) og um Lambakróarholtsnámu (merkt E-3 í aðalskipulaginu nýja) og sagði m.a.:

"Lagt er til að deiliskipulagið verði endurskoðað og það stækkað þannig að það nái yfir báða landnotkunarreitina í heild þ.e. I-1 og E-3. Þannig verður hægt að tryggja heildarsýn varðandi uppbyggingu til framtíðar, sveigjanlegt iðnaðarhúsnæði, gatna- og veitukerfi sem gengur upp og hagkvæma nýtingu þessa dýrmæta og vel staðsetta iðnaðarsvæðis.

Um þetta bókaði bæjarstjórn að hún samþykkti að fela skipulags- og umhverfisnefnd að skoða skipulagið m.t.t. þessarar ábendingar.

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæði.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 235. fundur - 12.04.2022

Vegna aukinnar eftirspurnar eftir lóðum á iðnaðar- og athafnasvæðinu vestan Kvernár, leggur skipulagsfulltrúi til að skipulag og lóðamöguleikar á svæðinu verði teknir til áframhaldandi skoðunar og forvinnu. Deiliskipulag svæðisins er frá 1999 með síðari breytingum frá 2006 (Ártún 1-6), 2015 (Ártún 1) og 2020 (Ártún 3). Mikilvægt er að lóðirnar sem skipulagið gerir ráð fyrir séu tiltækar og mæti þörfum dagsins í dag.

Forsaga málsins:
Þann 14. janúar 2021, fól bæjarstjórn skipulags- og umhverfisnefnd að skoða gildandi deiliskipulag á iðnaðarsvæðinu með tilliti til ábendingar sem fram kom í minnisblaði um efnistökumál/efnisnámu í Lambakróarholti, dags. 14.01.2021 þar sem fjallað er um iðnaðarsvæðið (merkt I-1 í nýja aðalskipulaginu) og Lambakróarholtsnámu (merkt E-3 í aðalskipulaginu nýja).

Á 224. fundi sínum þann 27. janúar 2021, tók skipulags- og umhverfisnefnd vel í erindið og fól skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæðið.

Í fundargerð frá fundi ráðgjafarfyrirtækisins Alta með skipulags- og byggingarfulltrúa þann 2. febrúar 2021, var gerð grein fyrir forsendum frekari breytingar á deiliskipulaginu ásamt umræðupunktum og er fundargerðin lögð hér fram til grundvallar áframhaldandi vinnu við deiliskipulagsbreytinguna.

Ekki voru áætlaðir fjármunir í vinnu vegna breytingar á deiliskipulaginu á þessu ári. Engu að síður telur skipulagsfulltrúi að mikilvægt sé að hefja endurskoðun á deiliskipulaginu sem fyrst.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir með skipulagsfulltrúa að nauðsynlegt sé að fara tafarlaust í deiliskipulagsbreytingu fyrir iðnaðarsvæðið.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 239. fundur - 30.08.2022

EE kemur aftur inn á fund
Lagt fram til kynningar minnisblað frá ráðgjafarfyrirtækinu Alta frá 22. ágúst 2022 um endurskoðun á deiliskipulagi hluta iðnaðar- og athafnasvæðis vestan Kvernár.

Framlagt minnisblað var unnið að beiðni umhverfis- og skipulagsviðs í framhaldi af umræðu í nefndinni 12. apríl s.l. og samþykkt bæjarstjórnar þann 3. maí s.l. þar sem samþykkt var að fela nefndinni og skipulagsfulltrúa að hefja undirbúning að endurskoðun deiliskipulags fyrir svæðið. Bæjarstjórn óskaði eftir tillögu um umfang, tímaramma og kostnað.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur fyrir sitt leyti vel í tillögu að verk- og kostnaðaráætlun hvað varðar breytingu á deiliskipulagi fyrir iðnaðar- og athafnasvæðið vestan Kvernár. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að unnið verði að endurskoðun deiliskipulagsins á þessum grunni og miðað við að verklok verði eigi síðar en vorið 2023.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 242. fundur - 15.11.2022

Á fundinum kynntu skipulagsráðgjafar frá Alta stöðuna í verkefninu sem er þrískipt og felst í óverulegri deiliskipulagsbreytingu vegna Ártúns 4, verulegri breytingu vegna metralóða við Hjallatún og breytingu á heildarskipulagi svæðisins.

Forsaga:
Á 263. fundi sínum þann 13. september 2022 samþykkti bæjarstjórn að hefja vinnu við endurskoðun deiliskipulags fyrir iðnaðar- og athafnasvæðið vestan Kvernár á grunni verk- og kostnaðaráætlunar ráðgjafarfyrirtækisins Alta.
Farið var yfir stöðu verkefna og helstu viðfangsefni skipulagsbreytinganna.

Nefndin þakkar Halldóru og Þóru hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta fyrir mjög góða yfirferð.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta - mæting: 16:30
  • Þóra Kjarval, Alta - mæting: 16:30

Skipulags- og umhverfisnefnd - 244. fundur - 12.12.2022

Lögð eru fram til umræðu drög að deiliskipulagsbreytingu á athafna- og iðnaðarsvæðinu vestan Kvernár.

Forsaga:
Í gildi er deiliskipulag frá 1999 með síðari breytingum frá 2008 (Ártún 1, 2, 3 og 5), 2015 (Ártún 1), 2021 (Ártún 3) og 2022 (Ártún 4 - tekur gildi í desember 2022).

Á 263. fundi sínum þann 13. september sl. samþykkti bæjarstjórn að hefja vinnu við endurskoðun deiliskipulags fyrir iðnaðar- og athafnasvæðið vestan Kvernár á grunni verk- og kostnaðaráætlunar ráðgjafarfyrirtækisins Alta.

Á 242. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 15. nóvember sl. kynntu skipulagsráðgjafar frá Alta stöðuna í verkefninu sem er þrískipt og felst í óverulegri deiliskipulagsbreytingu vegna Ártúns 4 (tekur gildi í desember 2022), verulegri breytingu vegna metralóða við Hjallatún og breytingu á heildarskipulagi svæðisins.

Deiliskipulagsbreyting þessi tekur til þess hluta skipulagssvæðisins sem í dag er að mestu byggður. Markmiðið með deiliskipulagsbreytingunni er að auka nýtingu á svæðinu með því að hliðra til lóðarmörkum, breyta hluta metralóða við Hjallatún í 1-2 lóðir, bæta við lóð við Ártún 8, laga göturnar Ártún og Hjallatún betur að raunnotkun og að finna hentuga staðsetningu fyrir útivistarstíg í gegnum eða framhjá iðnaðarsvæðinu.

Skipulagsfulltrúi fór yfir framlögð drög að tillögu vegna breytingar á deiliskipulagi iðnaðar- og athafnasvæðis vestan Kvernár.

Nefndinni líst vel á framlögð drög og felur skipulagsfulltrúa að vinna áfram með skipulagsráðgjöfum að mótun tillögunnar.

Göngustígur er til áframhaldandi skoðunar og telur nefndin að huga þurfi sérstaklega að leiðbeinandi legu útivistarstígs meðfram Kverná austan við deiliskipulagssvæðið.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 247. fundur - 04.04.2023

Þóra Kjarval, Alta, sat fundinn undir þessum lið og kynnti tillöguna.
Lögð fram til afgreiðslu tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir iðnaðar- og athafnasvæðið vestan Kvernár í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundinum mun Þóra Kjarval hjá ráðgjafafyrirtækinu Alta kynna tillöguna.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi iðnaðar- og athafnasvæðis vestan Kvernár í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan er í samræmi við aðalskipulag og er því fallið frá kynningu á vinnslustigi sbr. 4. mgr. 40. gr. laganna.

Bæjarráð - 604. fundur - 28.04.2023

Lögð fram gögn frá vinnufundi bæjarstjórnar um deiliskipulag iðnaðarhverfisins, sem haldinn var þann 25. apríl sl.
Rætt um framgang deiliskipulagsverkefnisins og um lóðafyrirkomulag.

Vegna fyrirspurna um lóðir á iðnaðarsvæðinu var rætt um mögulegar frekari breytingar á deiliskipulagi svæðisins og að þær breytingar verði hluti af deiluskipulagsbreytingum í yfirstandandi áfanga.

Sviðsstjóra falið umboð til að láta gera nauðsynlega útreikninga í tengslum við gatnagerð á svæðinu, sbr. umræður á fundinum og vinnufundi bæjarstjórnar með skipulagsráðgjöfum fyrr í vikunni.

Samþykkt samhljóða.

Kristínu var þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar.


Gestir

  • Kristín Þorleifsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs - mæting: 10:15

Skipulags- og umhverfisnefnd - 250. fundur - 26.06.2023

Lögð fram til afgreiðslu samantekt umsagna sem bárust á auglýsingartíma tillögunnar ásamt tillögu að svörum í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Tillagan felur í sér um 1800 m2 stækkun á deiliskipulagssvæðinu til suðurs og breytingar á og við götuna Hjallatún, þ.m.t. breytingar á breidd götunnar, lóðastærðum, lóðanúmerum, byggingarreitum og gönguleiðum.

Tillagan var samþykkt í bæjarstjórn þann 13. apríl 2023 í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hún var auglýst 10. maí 2023 með athugasemdafresti til og með 23. júní 2023. Kynningarfundur var haldinn þann 8. júní sl.

Engar athugasemdir bárust við tillöguna. Umsagnir bárust frá: Mílu, Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, Minjastofnun, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni og RARIK. Umsagnir bárust ekki frá Veitum og Slökkviliði Grundarfjarðar.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti framlagða samantekt umsagna og felur skipulagsfulltrúa að senda breytingartillöguna til yfirferðar Skipulagsstofnunar í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.