Lögð er fram tillaga að nýju deiliskipulagi iðnaðarsvæðisins vestan Kvernár, til auglýsingar skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Sameiginleg lýsing fyrir endurskoðun deiliskipulagsins og breytingu á aðalskipulagi var kynnt almenningi og umsagnaraðilum í samræmi við 30. og 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 20.11. til 27.12.2023.
Tillaga að deiliskipulagi var kynnt á vinnslustigi, skv. 40. gr skipulagslaga nr. 123/2010 10.06. til 01.07.2024. Umsagnir og athugasemdir sem bárust voru hafðar til hliðsjónar við mótun auglýstrar tillögu. Athugasemdir sem bárust við auglýsingu á breytingu á aðalskipulagi fyrir iðnaðarsvæðið vestan Kvernár skv. 31. gr. skipulagslaga hafa einnig verið hafðar til hliðsjónar við hönnun deiliskipulagsins.
Markmið með gerð deiliskipulagsins
Markmiðið með gerð þessa deiliskipulags er að auka framboð á lóðum fyrir iðnaðarstarfsemi í Grundarfjarðarbæ til framtíðar og tryggja hagkvæma nýtingu á landi, innviðum og jarðefnum. Aukin eftirspurn er eftir iðnaðarlóðum, sem nauðsynlegt er að verða við, fyrir þróun og uppbyggingu í sveitarfélaginu. Skipulag og uppbygging iðnaðarsvæðisins er mikilvægur þáttur til að styrkja undirliggjandi grunnþjónustu og fjölbreytni í atvinnusköpun og nýta vel auðlindir sem felast í notkun efnis af svæðinu til grjótnáms, áður en það er byggt upp. Þetta er eina iðnaðarsvæði Grundarfjarðarbæjar og því mikilvægt að nýta svæðið vel.
Helstu breytingar með deiliskipulaginu
- Deiliskipulagssvæðið stækkar úr 4,1 ha í 11,5 ha.
- Lóðum fjölgar úr 15 í 28.
-Óbyggðar lóðir við norðanvert Hjallatún stækka til norðurs inn á núverandi veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar.
- Lóðarstærðir breytast á nokkrum lóðum sbr. töflu 1.1.
- Byggingarreitir eru stækkaðir til þess að auka sveigjanleika í uppbyggingu.
- Hámarksnýtingarhlutfall lóða hækkar úr 0,3 í 0,4.
- Tvær akstursleiðir liggja inn á iðnaðarsvæðið. Sú vestari er færð vestar. Með því fæst betri nýting á vesturhluta svæðisins, gatnagerð innan svæðis minnkar, lóðir verða hæfilega djúpar og gott aðgengi að þeim tryggt.
- Tvær nýjar götur verða á svæðinu, Innratún og Grafartún, en nöfn þeirra vísa í örnefni á svæðinu.
- Skilmálar í eldra deiliskipulagi eru felldir úr gildi og nýir skilmálar settir í þeirra stað.
- Gert er ráð fyrir samgöngu- og útivistarstíg meðfram Snæfellsnesvegi, norðan við deiliskipulagssvæðið.
- Setja skal upp mön á vestasta hluta iðnaðarsvæðisins þar sem það liggur að íbúðarreit.
- Iðnaðarsvæðið er almennt lækkað frá þeirri hæð sem nú er, til að bæta lóðir og götur. Verðmætt steinefni sem til fellur við þá landmótun verður nýtt til uppbyggingar í sveitarfélaginu.
- Settir eru skilmálar um lágmarkshæð á landi á nýjum lóðum og lágmarkshæð á gólfkótum.
"Lagt er til að deiliskipulagið verði endurskoðað og það stækkað þannig að það nái yfir báða landnotkunarreitina í heild þ.e. I-1 og E-3. Þannig verður hægt að tryggja heildarsýn varðandi uppbyggingu til framtíðar, sveigjanlegt iðnaðarhúsnæði, gatna- og veitukerfi sem gengur upp og hagkvæma nýtingu þessa dýrmæta og vel staðsetta iðnaðarsvæðis.
Um þetta bókaði bæjarstjórn að hún samþykkti að fela skipulags- og umhverfisnefnd að skoða skipulagið m.t.t. þessarar ábendingar.
Skipulags- og umhverfisnefnd tekur vel í erindið og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæði.