Skilaboð frá byggingarfulltrúa

Öll losun úrgangs- eða byggingarefna í uppfyllingu austan við Soffanías Cecilsson hf. er stranglega bönnuð nema með samráði við verkstjóra áhaldahúss.                                       Talsvert hefur borið á losun úrgangs og byggingarefna á svæðinu.

Örnefnaskrá komin á vef Grundarfjarðarbæjar

Hollvinasamtök Grundarfjarðar réðust í það verkefni fyrir nokkrum árum að taka saman örnefnaskrár fyrir Eyrarsveit. Þessar skrár má nú nálgast á vef Grundarfjarðarbæjar hér.

Lausir tímar í íþróttahúsi

  Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á stundaskrá íþróttahúss til jóla. Nokkrir tímar eru lausir fyrir einstaklinga til leigu og má sjá þá hér.   Vinsamlegast talið við Svan, yfirmann íþróttahúss vegna tímanna ef áhugi er fyrir hendi. Sími íþróttahúss er 430-8564.

Bílstuldur í Grundarfirði

Það leiða atvik átti sér stað á mánudag að bíl var stolið á bílastæði Fjölbrautarskóla Snæfellinga. Af því tilefni er fólk er minnt á að loka bílum sínum og húsum.

Kveðjumessa Sr. Elínborgar Sturludóttur

Sunnudaginn 31. ágúst var síðasta messa Sr. Elínborgar Sturludóttur í Setbergsprestakalli. Margir mættu til að kveðja Elínborgu og fjölskyldu hennar í athöfn sem var hátíðleg og skemmtileg. Runólfur Guðmundsson formaður sóknarnefndar færði Elínborgu, og eiginmanni hennar Sr. Jóni Ásgeiri Sigurvinssyni,  að gjöf mynd af Grundarfirði sem tekin er ofan af Kirkjufelli. Einnig afhenti Guðmundur Ingi bæjarstjóri þeim hjónum aðra mynd af Kirkjufelli sem tekin er frá Kirkjufellsfossi að gjöf frá Grundarfjarðarbæ.  

Nýr organisti í Setbergsprestakalli

Tryggvi Hermannson, nýr organisti Setbergsprestakalls, tók formlega til starfa í gær. Hann starfar einnig  í Tónlistarskóla Grundarfjarðar. Tryggvi kemur frá Egilsstöðum þar sem hann kenndi við tónlistarskólann. Fyrir tveimur árum hóf hann nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og útskrifaðist nú í vor með organistapróf. Grundfirðingar bjóða hann velkominn.  

Þorri heldur á vit nýrra verkefna

Þorvarður Sigurðsson þjónustustjóri Kaupþings í Grundarfirði, betur þekktur sem Þorri, hefur tekið við starfi fyrirtækjafulltrúa í Árbæjarútibúi Kaupþings. Þorri flutti í Grundarfjörð árið 1973 og hóf störf við Samvinnubankann sem var til húsa þar sem nú er vídeóleigan Kósý. Í því húsi bjó hann einnig til að byrja með. Árið 1990 flutti hann sig yfir götuna í Búnaðarbankann. Þar stóð hann af sér samruna og ýmsar nafnabreytingar alveg til ársins í ár. Við Grundfirðingar óskum honum velfarnaðar og gæfu.