Foreldramót.

Foreldrafótbolti ! Árlegt foreldramót í fótbolta verður í kvöld kl 18:00.  Foreldrar mæta á svæðið greiða 500 kr sem rennur í sjóð sem krakkarnir eiga. Dregið er í lið og byrjað að spila. Ekki er nauðsynlegt að hafa spilað fótbolta áður. Krakkarnir sjá svo um dómgæslu og eru einnig þjálfarar liðana. Liðunum eru gefin nöfn og eru þetta ekkert smá lið sem eru mætt á Grundarfjarðarvöll því undanfarin ár hafa þetta verið landslið Brasilíu og Englands auk nokkurra enskra félagsliða eins og Liverpool, Man.united og Arsenal. Það er spennandi að fylgjast með því hvort að stuðningsmenn Liverpool þurfi kannski að spila fyrir lið Man. united. Amma, afi og allir hinir velkomnir. Mikið gaman og mikið fjör.    

Héraðsmet á Steinþórsmóti.

Geiri,Heiðar og Garðar verðlaunahafar í kúluvarpi.                                           Heiðar Geirmundsson Grundfirðingurinn sterki lét sig ekki muna um að setja tvö héraðsmet á hinu árlega Steinþórsmóti UMFG sem haldið var á Grundarfjarðarvelli, mánudaginn 29. ágúst. Í kúluvarpi bætti hann met afabróður síns Jóns Péturssonar sem sett var árið 1968. Heiðar kastaði 16,14 metra en gamla metið var 15,98.  Í sleggjukasti hefur Heiðar keppt að því um hríð að bæta þriggja ára gamalt met föður síns Geirmundar Vilhjálmssonar það hefur hann gert tvívegis í sumar, fyrst á Héraðsmóti í Stykkishólmi miðvikudaginn 24. ágúst en þá kastaði hann 43,70 m og  bætti síðan um betur á Steinþórsmótinu er hann kastaði 45,55 m. Þess má geta að þegar Geirmundur setti metið fyrir þremur árum var hann að bæta 30 ára gamalt met sem Jón Pétursson átti einnig.

Jules Verne og leyndadómar Snæfellsjökuls

Haldið verður málþing í tilefni aldarminningu Jules Verne og leyndardóma Snæfellsjökuls.   Málþingið verður haldið sunnudaginn 4. september í Fjölbrataskóla Snæfellinga, Grundarfirði. Máþingnið er öllum opin og er skráning hafin hér á grundarfjordur.is og á snaefellsnes.com

Dælu komið fyrir í borholu við Berserkseyri

Á næstu dögum verður dælu komið fyrir í vinnsluholunni fyrir hitaveitu við Berserkseyri. Hún verður staðsett djúpt ofaní holunni og mun dæla upp vatni næstu mánuði. Þessi dæling er tilraun til þess að fá úr því skorið hversu miklu holan afkastar í sekúndulítrum. Rarik er um þessar mundir að leggja lokahönd á lögn rafstrengs niður að borholusvæðinu og verður hitaveitudælunni komið fyrir í framhaldi af því.  

Orðsending frá Tónlistarskólanum

Enn hefur ekki tekist að manna allar stöður í tónlistarskólanum, en sú staða kom upp að allir kennarar skólans létu af störfum sl. vor og í sumar. Skólastjóri er í eins árs námsleyfi. Af þeim sökum verður ekki unnt að hefja kennslu strax, en vonir standa til að þess verði ekki langt að bíða. Unnið er hörðum höndum að lausn þessara mála og línur skýrast að vonum allra næstu daga.  Nýr skólastjóri verður í vetur Þórður Guðmundsson og er hann boðinn velkominn til starfa. Þórður mun hafa samband við nemendur og foreldra um leið og ljóst verður hvenær unnt verður að hefja kennslu.  

Námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðsjúkdóma

Haldið verður námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðskjúkdóma 2. - 3. september n.k í Grunnskólanum i Borgarnesi.   Dagskráin hefst kl. 18:00 föstudaginn 2. sept og lýkur kl. 16:00 laugardag.Þátttaka er ókeypis en vinsamlegast skráið þátttöku fyrir 30. ágúst í s.438 6862 og 864 6755, netfang: vesturland@redcross.is.

Nýjasta tölublað Þeys á netið að nýju.

Vegna tæknilegra örðugleika hefur ekki verið unnt að uppfæra vefsíðu blaðsins sem skildi í sumar. Nú hara verið gerðar bráðabirgðaviðgerðir á síðunni og næstu vikur verður hægt að sjá blað vikunnar undir nýjasta tölublaðið. Ekki verður hægt að skoða nema tölublöð upp að 25. að svo stöddu. Unnið er að nýrri, einfaldari og aðgengilegri síðu á næstu vikum. Beðist er velvirðingar á þessum óþægindum. Ritstjóri Vikublaðsins Þey.  

Húsaskoðun vegna hitaveituframkvæmda í Grundarfirði

Grundarfjarðarbær hefur ráðið Eyþór Garðarsson til að gera svokallaða húsaskoðun vegna fyrirhugaðra hitaveituframkvæmda í Grundarfirði og er ætlunin að þessi skoðun fari fram á næstu dögum og vikum.  Tilgangurinn er að kanna ýmsar aðstæður í hverju og einu húsi og lóð m.t.t. aðgengis almennt.

Viltu skipuleggja hátíð?

Fræðslu- og menningarmálanefnd leitar eftir skipuleggjanda fyrir menningarhátíðina Rökkurdaga, sem haldin verður í annað sinn í október-nóvember n.k. Leitað er að einstaklingi til að sjóða saman dagskrá hátíðarinnar, skipuleggja og kynna menningarviðburði, eiga samskipti við listamenn, staðarhaldara/veitingahús, o.fl. Lögð er áhersla á að virkja íbúa til þátttöku og undirbúnings. Áhugasamir hafi samband við Björgu Ágústsdóttur bæjarstjóra (sími 430 8500 eða bjorg@grundarfjordur.is) í síðasta lagi 4. september n.k.   Bæjarstjóri

Íbúð eldri borgara

Grundarfjarðarbær auglýsir lausa til umsóknar kaupleiguíbúð (íbúð eldri borgara) að Hrannarstíg 18. Íbúðin er 57,5 m2 að stærð og verður laus til innflutnings í október. Um er að ræða kaupleigufyrirkomulag, þar sem búseti/leigutaki greiðir eignarhlut í íbúðinni og fasta leigu á mánuði. Umsóknarfrestur er til mánudagsins 12. september n.k. og liggja eyðublöð frammi á bæjarskrifstofu. Hægt er að fá eyðublöð send í pósti eða tölvupósti.