"Algjör vitleysa" - árshátið 5. - 7. bekkjar

Í dag kl. 18.00 verður árshátíð 5.-7. bekkjar haldin í samkomuhúsinu. Þar verður boðið upp á fjölbreytt skemmtiatriði og lofað er miklu fjöri. Æfingar hafa staðið stíft að undanförnu og verður án efa hægt að njóta skemmtilegrar stundar með krökkunum. Bæjarbúar eru hvattir til að fjölmenna, en það kostar aðeins 500 kr. fyrir fullorðna og 200 kr. fyrir börn.   Til hamingju með daginn krakkar!

Á góðri stund í Grundarfirði.

Félag atvinnulifsins í Grundarfirði (FAG) er nú að hefja undirbúning að hátíðinni okkar og sem fyrr er stefnt að metnaðarfullri, menningarlegri og skemmtilegri dagskrá.   FAG óskar eftir góðum hugmyndum frá bæjarbúum um einstaka dagskrárliði og almennum atríðum sem þeir óska eftir að tekið verði tillit til við skipulagningu hátíðarinnar. Jafnframt er auglýst eftir einstaklingum, fyrirtækjum eða félagasamtökum sem vilja taka að sér einstaka liði í framkvæmd hátíðarinnar.   Hittumst á Krákunni í kvöld miðvikudaginn 26. mars kl. 20:30 og ræðum málin.   Einnig er hægt að senda tölvupóst með hugmyndum á tangi2@li.is  

Sjálfseignastofnun um sögumiðstöð

Í bæjardagbók þann 17. janúar var sagt frá stofnun áhugamannafélagsins Blöðruskalla. Félaginu er ætlað að vinna að undirbúningi sjálfseignarstofnunar sem ætlað er að taki til starfa og fari með forsvar fyrir Eyrbyggju – sögumiðstöð. Eins og fram kom í bæjardagbókinni var samið um kaup á húsnæði gömlu verslunarinnar Grundar undir starfsemi sögumiðstöðvar, en sögumiðstöð er fyrri áfangi í áætlun um að setja á stofn Eyrbyggju – sögumiðstöð og sögugarð skv. viðskiptaáætlun sem unnin var fyrir Grundarfjarðarbæ. Í síðari áfanga er gert ráð fyrir að gera skil merkri sögu Grundarfjarðar­kaupstaðar á Grundarkampi. En sá áfangi bíður betri tíma.  

Fundur í forvarnarhópi

Fundur var haldinn í forvarnahópi í dag, nokkurs konar framhaldsfundur frá fundinum sem var 4. mars (sjá bæjardagbók 6. mars). Rætt var um frekari útfærslur á þeim ákvörðunum sem teknar voru á síðasta fundi hópsins, þ.e. að halda málþing fyrir unglinga í Grundarfirði og að halda opinn fund fyrir foreldra og aðra áhugamenn um forvarnir í sveitarfélaginu. Munu sérstakar framkvæmdanefndir vinna að frekari skipulagningu á næstu vikum.   Ákveðið var að stefna að því að halda málþing unglinganna kl. 19.30 þann 9. apríl næstkomandi og opna fundinn fyrir foreldra og fleiri, þann 24. apríl kl. 17.00.  

Grundarfjörður eitt af fjórum rafrænum safmfélögum skv. forvali

Á vefnum www.mbl.is er að finna þessa frétt:   Fjögur byggðarlög hafa verið valintil að taka þátt í samkeppni um rafrænt samfélag sem Byggðastofnun stendur fyrir.   Alls sóttu 13 byggðarlög um þátttöku en valnefnd valdi   Aðaldælahrepp Húsavíkurbæ og Þingeyjarsveit, ­ Grundarfjarðarbæ, ­ Snæfellsbæ og ­ Sveitarfélögin Árborg, Hveragerði og Ölfus  

Hafnarfréttir

Landaður afli 2002   Á árinu 2002 var landaður afli í Grundarfjarðarhöfn samtals 14.844 tonn. Var það nokkur samdráttur í aflamagni frá árinu 2001 þegar 16.184 tonn bárust á land, sem var met. Árið 2000 var landaður afli tæp 15.511 tonn, árið 1999 var aflinn 15.236 tonn, árið 1998 voru tonnin 11.981 og árið 1997 voru þau 11.300.    

Þriggja ára áætlun - fjárhagsáætlun

Á fundi bæjarstjórnar í dag var samþykkt við síðari umræðu þriggja ára áætlun bæjarsjóðs og stofnana bæjarins.   Áætlunin er unnin í framhaldi af gerð fjárhagsáætlunar ársins 2003 sem samþykkt var á fundi bæjarsjórnar þann 16. janúar sl.   Í fjárhagsáætlun ársins 2003 er gert ráð fyrir að skatttekjur bæjarsjóðs verði 264,2 millj. kr. og þjónustu- og eignatekjur verði 42,9 millj. kr., samtals 307,1 millj. kr. í heildartekjur.  

Upplestrarkeppni og stærðfræðikeppni

Stóra upplestrarkeppnin var haldin í Grunnskólanum á Hellissandi mánudaginn 10. mars sl. Þar mættust 3 efstu keppendur úr 7. bekk frá  hverjum skóla á norðanverðu Snæfellsnesi og kepptu um efstu 3 sætin.  Keppnin var hátíðleg í alla staði, tónlist var flutt af nemendum Tónlistarskólans á Hellissandi og boðið var upp á veitingar fyrir keppendur og áhorfendur. Sigurvegarar fengu peningagjöf frá Sparisjóði Ólafsvíkur ásamt tösku og einnig fengu þeir bókaverðlaun sem afhent voru af fulltrúum dómnefndar. 

Fundur í kvöld um skemmtiferðaskip

  Fleiri skemmtiferðaskip í Grundarfjörð Fundur í kvöld Hafnarstjóri Grundarfjarðarhafnar boðar til opins fundar í kvöld, 12. mars, kl. 20.00 á Hótel Framnesi um áform hafnaryfirvalda um átak til að fá aukinn fjölda skemmtiferðaskipa í Grundarfjarðarhöfn.

Tilboð opnuð í þverun Kolgrafarfjarðar

Á heimasíðu Vegagerðarinnar (www.vegagerdin.is) er að finna frétt af opnun tilboða í þverun Kolgrafarfjarðar sem fram fór í dag.