Menningarverðlaunin Helgrindur veitt í annað sinn

Hin árlegu verðlaun fræðslu- og menningarmálanefndar, Helgrindur,  voru veitt um síðustu helgi. Verðlaunin eru veitt fyrir óeigingjarnt starf í þágu menningar í Grundarfirði. Að þessu sinni hlaut starfsfólk tónlistarskólans verðlaunin.   Við tónlistarskólann starfa Þórður Guðmundsson skólastjóri, Ari Einarsson, Baldur Orri Rafnsson og Alexandra Suhkova, og hafa þau starfað við skólann frá 2005.   Nemendur við skólann eru nú rúmlega 100. Fyrir utan hefðbundna kennslu eru árlega haldnir tónleikar á vegum skólans, jólatónleikar og vortónleikar. Á fyrstu tónleikanna mættu 30 áhorfendur en á þá síðustu 260 áhorfendur þannig að starfið hefur farið vaxandi jafnt og þétt.   Í skólanum er lögð mikil áhersla á samspil nemenda sem og kennara og við skólann eru starfandi tvær skólahljómsveitir og lúðrasveit sem stofnuð var í janúar á þessu ári. Þórður er stjórnandi eldri skólahljómsveitar, Alexandra er stjórnandi yngri skólahljómsveitar og Baldur er stjórnandi lúðrasveitar.   Nú í vetur var hafið samstarf við framhaldsskólann um Tónsmiðju sem var áfangi í framhaldsskólanum og Ari var kennari við þann áfanga.   Einnig er samstarfsverkefni milli Tónlistarskólanna í Grundarfirði og Stykkishólmi sem er Trommusveit Snæfellsness og þar eru Baldur Orri og Martin Markvoll stjórnendur en sveitin æfir skrúðgöngutakta meðal annars.   Þess má einnig geta að Þórður og Baldur tóku sig til árið 2007 og gáfu út disk í tengslum við bæjarhátíðina Á góðri stund og fengu til liðs við sig unga og aldna Grundfirðinga. Ágóðinn af sölu disksins rann til Krabbameinsfélags Snæfellsness. Félagarnir sömdu einnig hátíðarlagið Á góðri stund.   Starfsfólk tónlistarskólans er því í góðri sveiflu og stefnir að enn stærri hlutum á komandi árum. Nú á dögunum var ráðinn til starfa fimmti kennarinn við tónlistarskólann og gaman verður að sjá hvernig stækkun skólans verður á komandi skólaári.  

Mikil fjölgun gesta í Sögumiðstöðina

Sögumiðstöðin heldur allnákvæma skráningu um komur ferðamanna í miðstöðina. Gestastofa miðstöðvarinnar veitir ferðamönnum ýmsa þjónustu svo sem almennar ferðaupplýsinga og upplýsingar um þjónustufyrirtæki í Grundarfirði og nágrenni. Þá er þar einnig almenningssími og aðgangur að interneti. Talsverð aukning er á milli ára í þá tvo mánuði sem miðstöðin hefur verið opin í sumar. Í júní og júlí í fyrra komu 981 íslenskir ferðamenn en 1460 í sumar. Þetta er aukning upp á 49%. Erlendir ferðamenn á sama tíma í fyrra voru 1274 en í ár eru þeir orðnir 2350. þetta er aukning upp á rúm 84%. Koma heimamanna stendur í stað og er um 700 heimsóknir bæði tímabilin. Þá hefur safngestum fjölgað að sama skapi enda hefur Sögumiðstöðin vakið mikla athygli og fengið góða umfjöllun í mörgum fjölmiðlum að undanförnu. Safngestir eru ákaflega ánægðir með sýningar safnsins og í gestabók má m.a. lesa. “Þakkir fyrir frábært safn og stórkostlega leiðsögn” og ýmislegt fleira í þeim dúr. Einnig má lesa séstakar þakkir fyrir góða þjónustu og leiðbeiningar og fullyrðingar á borð við “Besta upplýsingamiðstöð á Íslandi”. Fyrir starfsfólk Sögumiðstöðvar eru svona orð mikil hvatning 

Sumarfrí í í frjálsum og sundi

Þar sem verslunarmannahelgin er að bresta á með tilheyrandi ferðalögum og flakki þá verður frí í frjálsum og sundi frá miðvikudag 30. júlí til 11. ágúst en æfingar hefjast þá aftur fram að skóla.  KH.

Höldum götunum flottum

Nú eru flestar götur bæjarins nýmalbikaðar og ásýnd bæjarins öll önnur. Það hefur nokkuð borið á því að möl berist af innkeyrslum út á malbikið og er það bæði ljótt að sjá og einnig þrýstist grjótið niður í malbikið og styttir líftíma þess. Því eru þeir sem eru með innkeyrslur vinsamlegast beðnir um að sópa mölinni aftur í innkeyrslurnar þar sem það á við. Hjálpumst að við að halda bænum fínum.  

Vinnuskóla lokið

Unglingarnir í vinnuskólanum hafa lokið störfum þetta sumarið. Ingibjörg Sigurðardóttir (Bibba) sem hefur verið með þeim í sumar, segir að þau hafi verið sérstaklega dugleg og það hafi verið mjög skemmtilegt að starfa með þeim. Síðasti vinnudagurinn var nýttur í grillveislu til að fagna þessum degi. Landsbankinn og Kaupþing færðu krökkunum gjafir og er þeim færðar þakkir fyrir.

Á góðri stund gekk vel

Hverfin í öllum sínum skrúða   Elleftu bæjarhátíð Grundarfjarðar er nú lokið. Mikill mannfjöldi var samankomin í bænum til að eiga skemmtilegar stundir saman um helgina og var hver einasti grasblettur nýttur í bænum. Vikuna fyrir hátíðina leit ekki vel út með veður en það rættist heldur betur úr því því veðurblíðan var með eindæmum. Það var boðið upp á fjölbreytilega dagskrá og gátu allir fundið eitthvað sér til hæfis og var mikil þáttaka í öllum dagskrárliðum. Allt fór mjög vel fram og sköpuðust lítil eða engin vandamál.

Opið golfmót Soffanías Cecilssonar hf.

Opna golfmót Soffanías Cecilsson hf var spilað á sunnudag í mjög góðu veðri og voru 69 keppendur sem tóku þátt.Viljum við þakka Soffanías Cecilssyni hf fyrir stuðninginn við mótið.Starfsfólki mótsins færum við bestu þakkir fyrir vel unnin störf. Úrslit urðu þessi:

Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2007/2008

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um byggðakvóta til fiskiskipa fyrir eftirtalin byggðarlög, samkvæmt reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa nr. 605, 24. júní 2008 , auk sérstakra úthlutunarreglna í hlutaðeigandi byggðalögum sbr. auglýsingu nr. 731/2008 í Stjórnartíðindum. Grundarfjarðarbær ( Grundarfjörður)Stykkishólmsbær (Stykkishólmur)Húnaþing vestra (Hvammstangi)Dalvíkurbyggð ( Hauganes og Árskógssandur)Akureyrarbær (Hrísey) Umsóknum skal skilað til Fiskistofu á eyðublaði sem er að finna hér. Umsóknarfrestur er til og með 8. ágúst 2008. Auglýsing af vef Fiskistofu. 

Bilun í skrúfubúnaði breytir áætlun Queen Elizabeth II.

Þær leiðu fregnir bárust í dag að Queen Elizabeth II. treysti sér ekki til þess að sigla inn á Grundarfjörð vegna bilunar í hliðarskrúfu.  Þetta átti að verða í fyrsta og síðasta sinn sem skipið hefði viðkomu í Grundarfirði svo það eru mikil vonbrigði að svona skildi fara.  Að mati skipstjórans er ekki öruggt að sigla skipi af þessari stærð inn á fjörðinn nema að allur búnaður þess sé í lagi.  Von var á skipinu til Grundarfjarðar þ. 4. ágúst n.k. en af því verður sem sagt ekki.

MV Funchal heimsækir Grundarfjörð

Skemmtiferðaskipið MV Funchal leggur að bryggju í Grundarfirði klukkan sjö að morgni miðvikudagsins 30. júlí. Skipið er 153,5 metrar að lengd og 9.563 tonn.  Í áhöfn eru 155 og farþegar 524, en skipið tekur mest 582 farþega. Flestir farþeganna eru frá Frakklandi og Þýskalandi.                                       Skipið er smíðað í Danmörku árið 1961 og sigldi í upphafi með póst og farþega en var síðan breytt í skemmtiferðaskip árið 1972. Á sér langa og spennandi sögu en þar ber hæst að hafa verið nýtt sem forsetasnekkja í Portúgal við heimsóknir. Andrúmsloftið um borð er þægilegt og vingjarnlegt og áhöfnin samstillt.   Sýning móttökuhóps Grundarfjarðarhafnar hefst á planinu við Sögumiðstöðina klukkan 15:00.   MV Funchal hefur heimsótt Grundarfjörð oft í gegnum tíðina og er komin hefð fyrir því að áhöfnin keppi við heimamenn í fótbolta. Hefst leikurinn klukkan 16:00. Allir á völlinn!