Gjaldskrá fyrir skólamáltíðir.

Á fundi bæjarráðs, þann 26. ágúst 2008, var samþykkt ný gjaldskrá fyrir skólamáltíðir skólaárið 2008-2009. Samþykkt var að lækka verð til nemenda fyrir skólamáltíðir. Helstu rök fyrir því eru neikvæð áhrif efnahagsþróunar á heimili, hækkandi skuldabyrði heimilanna og til að hvetja til þess að börn geti notið skólamáltíða innan veggja skólans á skólatíma. Verð fyrir hverja máltíð nemanda er 350 kr. Hér má sjá gjaldskrána. Hér má sjá fundargerð bæjarráðs.

Grunnskólinn kominn í gang

Grunnskóli Grundarfjarðar var settur mánudaginn 25. ágúst.  Nemendur eru nú 126 og hefur fækkað verulega síðustu ár.  Samkennsla hefur aukist vegna þessa og er nú samkennt í nokkrum fögum í yngstu árgöngum og í íþróttum.

Frá Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Kennsla hefst skv. stundaskrám mánudaginn 1.september. Nýr kennari hefur bæst í hópinn en það er Tryggvi Hermannsson sem einnig hefur verið ráðinn organisti hér við Setbergsprestakall. Tryggvi mun sjá um forskólann, ásamt tónfræði-og píanókennslu, en sérstök áhersla verður lögð á eflingu söngstarfs m.a. í samstarfi við grunnskólann.  

Ársfundur Vestnorræna ráðsins í Grundarfirði

Ársfundur Vestnorræna ráðsins verður haldinn í Grundarfirði og hefst í dag, 25. ágúst og stendur fram á miðvikudag. Alls verða gestir um 40 frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Karl V. Matthíasson hefur gengt formennsku í ráðinu síðastliðið ár og er hann einnig formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Jafnframt verður haldinn þemadagur um sameiginlega sögu og menningu Vestur-Norðurlanda í Sögumiðstöðinni.

Ísland – Frakkland á Kaffi 59

Á sunnudagsmorgun keppir íslenska landsliðið í handbolta um ólympíugullið. Áhugasamir Grundfirðingar ætla að koma saman á Kaffi 59 og fylgjast með leiknum. Húsið opnar klukkan 7:30 og leikur hefst 15 mínútum síðar. Þeir sem vakna of seint til að fá sér morgunverð geta pantað sér egg og beikon á staðnum. Þess má geta að í vinabæ okkar í Paimpol eru menn líklega álíka spenntir. Það má búast við því að þessi leikur eigi eftir að styrkja vináttuböndin enn frekar hver svo sem úrslitin verða.   Áfram Ísland!  

Glæsileg frönsk seglskúta í Grundarfjarðarhöfn

Seglskútan Notre Dame des Flots liggur nú við bryggju. Skútan er smíðuð um 1940 og 8 manna áhöfn hennar skipa tvær fjölskyldur. Hún lagði af stað frá Frakklandi, Miðjarðarhafsmegin, 17. September 2007 og sigldi niður með Spánarströnd. Fór svo yfir Atlandshafið til Mexíkó. Þá tók við tími í karabíska hafinu og þau stoppuðu á Kúbu um tíma. Þvínæst var siglt í norður, upp austurströnd Norður-Ameríku til Kanada. Þaðan var haldið til Íslands, svo Færeyja, Íslands og Orkneyja. Þá var snúið við, komið við í Færeyjum og nú eru þau hér í Grundarfirði. Skipstjórinn segir að ekki sé enn ákveðið hvert skuli halda næst. Fyrir þá sem vilja fræðast frekar um þessa glæsilegu skútu eru upplýsingar og myndir hér.  

Síðustu skemmtiferðaskipin koma um helgina

Tvö síðustu skemmtiferðaskip sumarsins heimsækja Grundarfjörð um helgina. Það eru skipin MV Funchal í sinni annarri heimsókn og svo MV Alexander Von Humboldt sem er að koma til okkar í fyrsta skipti.   Funchal er löngu orðið vel þekkt í Grundarfirði og hér finnast frekari upplýsinga um skipið. Þess má geta að því miður fellur hefðbundinn knattspyrnuleikur niður vegna veðurs.   Von Humboldt er 15.343 tonn og 152,5 metrar á lengd. Hann tekur 475 farþega.  Skipið er á vegum Phoenix Reisen og er skráð á Bahama eyjum. Það var tekið í notkun undir þessu nafni í maí 2008 en hefur áður siglt undir nöfnunum Crown Monarch og Jules Verne. Flestir farþegarnir í þessari ferð eru þýskir.    

Opnunartími sundlaugarinnar

Mánudaginn 25. ágúst hefst haustopnunartími sundlaugarinnar. Þá verður opið frá 7-8 og frá 16-21 á virkum dögum. Um helgar verður opið frá 10-16.   Starfsfólk.

Nýr prestur í Setbergsprestakalli

Valnefnd í Setbergsprestakalli, Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi, ákvað á fundi sínum þann 18. ágúst síðastliðinn að leggja til að Aðalsteinn Þorvaldsson, cand. theol., verði ráðinn sóknarprestur í Setbergsprestakalli. Sex umsækjendur voru um embættið.   Embættið veitist frá 1. september næstkomandi. Biskup Íslands skipar í embættið til fimm ára að fenginni umsögn valnefndar. Valnefnd skipuðu níu manns úr prestakallinu ásamt prófasti Snæfellsness- og Dalaprófsstsdæmis.   Aðalsteinn Þorvaldsson lauk guðfræðiprófi frá HÍ 2001. Hann hefur starfað mikið innan skátahreyfingarinnar og gegnt stöðu félagsmálastjóra Bandalags íslenskra skáta frá 2006.    Frétt af kirkjan.is

Framlengdur umsóknarfrestur vegna úthlutunar byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2007/2008

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur ákveðið að umsóknarfrestur um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2007/2008 skuli framlengdur fyrir neðangreind byggðarlög. Athuga ber að umsóknarfrestur er til og með 1. september 2008, og vakin er athygli á að áður sendar umsóknir gilda áfram. Sveitarfélagið Árborg (Eyrarbakki) Sveitarfélagið Ölfus (Þorlákshöfn) Sveitarfélagið Gerðahreppur (Garður) Snæfellsbær (Rif og Ólafsvík) Grundarfjarðarbær (Grundarfjörður) Stykkishólmsbær