Ostaskólinn á Rökkurdögum

Um árabil hefur sérvöruverslunin Búrið í Nóatúni rekið ostaskóla við gífurlegar vinsældir. Nú ætlar ostaskólinn í fyrsta sinn að leggja land undir fót og heimsækja okkur íbúa Grundarfjarðar. Sælkerinn Eirný Sigurðardóttir mun leiða okkur inn í heim ostanna af sinni alkunnu snilld. Hún mun einnig fræða okkur um vín og samspil þessara tveggja afurða á bragðlaukanna. Þemað er Frakkland og því eingöngu franskir ostar og vín á boðstólum. Nemendur fá að smakka á allmörgum tegundum osta og má segja að námskeiðið jafngildi heilli máltíð. Skráning fer fram á bæjarskrifstofunni eða á netfangið alda@grundarfjordur.is Rétt er að taka það fram að takmarkaður fjöldi kemst að í þessum skemmtilega skóla og því um að gera að skrá sig sem fyrst. Skólagjaldið er 4.900 krónur. Fimmtudagur 7. nóvember kl 19.30 í Samkomuhúsi.     

Jól í skókassa

„Jól í skókassa“ felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Allar gjafirnar fara til barna í Úkraníu.   Móttaka á skókössum 2013 verður Í Safnaðarheimili Grundarfjarðarkirkju   Þriðjudaginn 5. nóvember frá kl. 16:00 – 18:00  

Bæjarstjórnarfundur

163. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðar verður haldinn í samkomuhúsinu fimmtudaginn 31. október 2013, kl. 16:30.   Dagskrá fundarins: 

Rökkurdagar 2013

Nú er sá árstími að renna upp þar sem Grundfirðingar fagna Rökkurdögum. Að þessu sinni nær dagskráin frá 6. – 14. nóvember. Rökkurdagar í ár verða með nokkuð hefðbundnu móti en þó er eitthvað um nýjungar í dagskránni. Í ár var sú ákvörðun tekin af hafa Rökkurdagana með frönsku þema, það var ákveðið í kjölfar tónleika fransk-íslensku sinfóníuhljómsveitarinnar í september. Dagskráin er sniðin með það í huga að allir bæjarbúar finni eitthvað við sitt hæfi. Sem dæmi um áhugaverða atburði má nefna eftirfarandi dagskrárliði: Harmonikkuball, Góa og baunagrasið og Friðrik Dór. Í ár sem fyrri ár hvetjum við bæjarbúa til að láta loga á útikertum á kvöldin yfir hátíðina.    

Leikstjórar framtíðarinnar í Grundarfirði 15. - 17. nóvember

91 stuttmynd voru valdar til sýningar á Alþjóðlegu stuttmyndahátíðinni Nothern Wave í ár sem verður haldin í fyrsta sinn í nóvember að þessu sinni en síðustu fimm árin hefur hátíðin farið fram í mars. Ástæðan er mikil fjölgun ferðamanna á svæðinu á vormánuðum sökum háhyrninga sem hafa gert sig heimakæra í firðinum á þessum tíma. Engir hvalir ættu að vera sýnilegir þann 15. nóvember næstkomandi en í staðinn verða sýndar fjölþjóðlegar stuttmyndir í samkomuhúsi Grundarfjarðar sem ættu að laða að annars konar ferðamenn. Hátíðin í ár bíður í raun upp á heimsreisu þar sem myndirnar verða flokkaðar eftir heimshlutum en aldrei fyrr hefur verið jafn fjölbreitt úrval þjóðerna með mynd á hátíðinni. Myndirnar eru margar hverjar hápólítiskar og ágætis speglun á ástandið í hverju landi fyrir sig. Töluvert er um kvenleikstjóra á hátíðinni í ár og áhugavert að sjá hvert stefnir en stuttmyndaformið er byrjunarreitur leikstjóra framtíðarinnar og má því segja að myndirnar gefi vísbendingu um það sem koma skal. Fjöldi verðlaunamynda er á hátíðinni m.a. tvær stuttmyndir sem sýndar voru á Cannes í ár, hin íslenska Hvalfjörður og hin íranska “More than two hours” sem fjallar um þá erfiðleika sem ungt og ógift par stendur frammi fyrir þegar að það þarf læknisaðstoð upp á líf og dauða.  

Málþing um handverk

Á síðasta ári var haldið málþing um handverk í Búðardal sem tókst sérlega vel. Um 60 manns sóttu málþingið af Vesturlandi öllu og þó nokkrir af Norðurlandi vestra. Nú er búið að skipuleggja hugarflug um handverk í húsmæðraskólanum á Blönduós, laugardaginn 2. nóvember. Nánari upplýsingar hér.  

Húsnæði til leigu

Grundarfjarðarbær hefur til leigu íbúðarhúsnæði sem er laust nú þegar. Um er að ræða 3ja herbergja 90 ferm. íbúð í parhúsi. Nánari upplýsingar eru veittar á bæjarskrifstofu í síma 430 8500 eða með því að senda tölvupóst á netfangið grundarfjordur@grundarfjordur.is   Umsóknarfrestur er til 4. nóvember 2013.  

Maritafræðslan í grunnskólanum

  Magnús Stefánsson frá Maritafræðslunni kom í skólann í vikunni með fræðslu fyrir mið- og unglingastig um ýmislegt sem tengist forvörnum, samskiptum og netnotkun.  Hjá unglingum var fyrst og fremst lögð áhersla á skaðsem vímugjafa ýmis konar og afleiðingar þeirra en síðan var nemendum í 4.-6 bekk ásamt foreldrum boðið á fyrirlestur um samskipti, heilbrigði og hollustu og netnotkun barna.  Ljóst er að margt í gangi á netinu , miður æskilegt fyrir börn og unglinga og nauðsynlegt fyrir foreldra að vera á varðbergi og fylgjast vel með.  Hægt er að fá upplýsingar á síðu Maritafræðslunnar um ofangreinda þætti og einnig má benda á saft.is en þar eru ýmsar gagnlegar ábendingar um netnotkun barna.  Síðdegis var foreldrum boðið upp á fræðslu og var ánægjulegt að sjá hversu margir sáu sér fært að mæta.  

Ræstingastarf – tvö störf

Grundarfjarðarbær óskar eftir að ráða sem fyrst starfsmenn til að sinna ræstingu á tveimur af húseignum bæjarins. Um er að ræða 20 klst. á mánuði í hvorri húseign. Vinnutími er sveigjanlegur. Sami einstaklingur getur sinnt báðum störfunum.   Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsness (SDS).   Nánari upplýsingar eru veittar á bæjarskrifstofu í síma 430 8500 eða á netfangi grundarfjordur@grundarfjordur.is   Umsóknarfrestur er til 29. október nk.   Sækja um ræstingastarf  

Áhyggjur vegna hægagangs stjórnvalda við mögulegum síldardauða

Bæjarráð Grundarfjarðar samþykkti bókun á fundi sínum þann 17. október sl. þar sem lýst var yfir áhyggjum vegna hægagangs stjórnvalda varðandi viðbrögð við mögulegum síldardauða í Kolgrafafirði. Bókunin er svohljóðandi:   „Bæjarráð Grundarfjarðar lýsir yfir áhyggjum vegna hægagangs stjórnvalda varðandi viðbrögð við mögulegum síldardauða í Kolgrafafirði. Á meðan nálgast síldin og bendir allt til þess að ekki verði minna um síld á svæðinu en verið hefur undanfarna vetur.    Á vegum umhverfisráðuneytis er unnið að gerð viðbragðsáætlunar um aðgerðir ef síld drepst í firðinum. Skynsamlegast er að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst. Tilraunir til að fæla síld frá því að ganga inn í fjörðinn, t.d. með ljósum eða hljóðum hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Eina leiðin til að tryggja að síld gangi ekki inn í Kolgrafafjörð er því að loka firðinum og koma þannig í veg fyrir mögulegt tjón sem gæti numið milljörðum króna fyrir þjóðarbúið.   Bæjarráð Grundarfjarðar skorar á ráðherra umhverfismála, sem jafnframt er sjávarútvegsráðherra að leyfa lokun fjarðarins strax. Kannað verði hversu langan tíma Vegagerðin þarf til framkvæmda sem nægja til að halda síld utan brúar. Um tímabundnar aðgerðir gæti verið að ræða, ef það er tæknilega mögulegt.   Mælingum sem nú fara fram er ætlað að varpa ljósi á áhrif þverunar fjarðarins á síldardauðann. Niðurstöður þeirra munu að líkindum ekki liggja fyrir fyrr en haustið 2014. Þá gæti stefnt í þriðja árið þar sem er hætta á síldardauða í Kolgrafafirði. Hér þarf að hafa hraðar hendur, enda var síldardauðinn síðastliðinn vetur skilgreindur sem náttúruhamfarir.“