Flutningar

Samkvæmt samantekt skrifstofustjóra skiptu rétt rúmlega þrjátíu fasteignir í Grundarfjarðarbæ um eigendur á árinu 2002, þ.e. við kaup og sölu. Er það töluvert meira heldur en verið hafði um nokkurt skeið.  

Þorrablót

Í kvöld er komið að einum af hápunktunum í menningarlífi Grundfirðinga þegar þorrablót hjónaklúbbsins verður haldið í allri sinni árlegu dýrð, með tilheyrandi heimatilbúinni skemmtidagskrá.

Tvö útköll slökkviliðsins kl. 21:01

Slökkvilið Grundarfjarðar var kallað út tvisvar sinnum í dag, í fyrra skiptið kl. 9.01 að morgni og í seinna skiptið kl. 9.01 að kvöldi (eða kl. 21.01).  

Grunnskólinn; Olweus og annarpróf

Nú er að hefjast vinna hjá starfsfólki grunnskólans í nýju verkefni sem nefnist Olweuskerfið gegn einelti. Verkefnið er kennt við sænskan sálfræðing, Dan Olweus að nafni, sem starfað hefur í Noregi en þaðan er þetta verkefni komið. Megininntak verkefnisins er að skapa jákvæðan skólabrag og þannig umhverfi að einelti þrífist ekki.  

Íþróttadagur 8. - 10. bekkjar Grunnskólans

Nemendur 8. – 10. bekkjar Grunnskóla Grundarfjarðar höfðu það skemmtilegt í dag, þegar haldinn var í Stykkishólmi íþróttadagur unglingadeilda grunnskóla á Snæfellsnesi.  

Rafrænt samfélag

Byggðastofnun hefur sent út til allra sveitarfélaga á landsbyggðinni verkefnislýsingu um framkvæmd og skipulag á samkeppni undir yfirskriftinni ,,Rafrænt samfélag”. Í inngangi lýsingarinnar segir m.a.;   ,,Á komandi árum mun þróun búsetu og atvinnulífs á landsbyggðinni að hluta byggjast á því hvernig einstaklingum og fyrirtækjum tekst að hagnýta sér þá möguleika sem felast í upplýsinga- og fjarskiptatækni. .... Meginhugmynd verkefnisins er að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum aðgerðum sem hafa það að markmiði að auka nýsköpun í atvinnulífi og bæta afkomu íbúanna, auka menntun og menningarstarfsemi, bæta heilsugæslu og félagslegar aðstæður og efla lýðræðið...”  

Leikskólinn - Þorrablót

Það er þorrablót í leikskólanum í dag. Fyrst verður skemmtun þar sem börnin sýna leikrit og syngja og síðan verður boðið upp á þorramat. Auk foreldra leikskólabarna, er fyrsta bekk úr Grunnskólanum boðið á þorrablót leikskólans.  

Atvinnuráðgjöf Vesturlands í heimsóknum

Atvinnuráðgjöf Vesturlands er með kynningu í Grundarfirði í dag. Allir fjórir atvinnuráðgjafarnir verða á ferðinni og heimsækja fyrirtæki á staðnum og í kvöld verður opinn fundur á Hótel Framnesi um atvinnu- og byggðamál. Fundurinn hefst kl. 20.30 og mun Atvinnuráðgjöfin kynna starfsemi sína. 

Sjávarútvegsnefnd Alþingis - skelveiðar

Í morgun kl. 8.15 hélt sjávarútvegsnefnd Alþingis fund í Reykjavík um stöðu skelfiskveiða í Breiðafirði og rannsóknir á skelfiski.   Til upprifjunar má nefna eftirfarandi. Á fiskveiðiárinu 2000-2001 var úthlutað tæplega 1715 tonnum af hörpuskel til fyrirtækja/útgerða í Grundarfirði. Árið 2001-2002 var úthlutunin rúm 1393 tonn og árið 2002-2003 var úthlutunin komin niður í 857,4 tonn. Skerðingin á tveimur árum er skv. þessu 50%.  

Fundir sorpnefndar - íbúðir eldri borgara

Þessa dagana er fundað nokkuð stíft í sorpnefnd Grundarfjarðarbæjar, en það er sérstök starfsnefnd sem bæjarstjórn skipaði til að fjalla um breytingar í sorpmálum og rekstur málaflokksins.   Nefndin hefur verið að vinna að hönnun og fyrirkomulagi á sorpmóttökustöð en Erla Bryndís landslagsarkitekt hafði hannað stöðina og umhverfi hennar. Einnig hefur nefndin verið að leggja mikla vinnu í að undirbúa útboðsgögn og ræða tilhögun sorpútboðs sem ætlunin er að fram fari með vorinu. Sú vinna verður lögð fyrir bæjarstjórn til endanlegrar afgreiðslu þegar þar að kemur.