Styrkir til forvarnamála frá félagsmálanefnd

Í fjárhagsáætlun Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga fyrir árið 2008 er gert ráð fyrir því að félagsmálanefnd Snæfellinga geti varið allt að einni milljón króna til forvarnarmála.  Meðal annars er gert ráð fyrir vinnu við samræmda forvarnarstefnu fyrir börn og ungmenni á starfssvæði Félags- og skólaþjónustunnar.  Áhersla er lögð á fræðslu um heilbrigt líferni og forvarnir gegn vímuefnanotkun barna og ungmenna.  Rétt er fyrir alla sem starfa að æskulýðsmálum að gefa þessu framtaki félagsmálanefndarinnar gaum og kanna möguleika á styrkjum til góðra verka.   Hér má sjá fréttatilkynningu vegna forvarnarmála frá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga.

Bætingarmót HSH

 Bætingarmót HSH í frjálsum íþróttum var haldið í Grundarfirði laugardaginn 23. febrúar.  Keppendur voru á aldrinum 11 ára og eldri og mættu keppendur frá UMFG, Snæfelli og Staðarsveit.   

Eldri borgarar

Við minnum á söngæfingu í dag miðvikudaginn 27.febrúar kl.17:15. 

Frumkvöðull ársins 2007

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi óskar eftir tilnefningum um einstaklinga sem eru þess verðir að hljóta sæmdarheitið frumkvöðull ársins 2007 á Vesturlandi og skara fram úr í þróun nýrrar vöru, þjónustu eða viðburða. Sjá nánar hér. 

Upplestrarkeppni grunnskólans

    Upplestrarkeppni 7. bekkjar grunnskólans fór fram fimmtudaginn 21. febrúar sl. Krakkarnir stóðu sig öll með prýði og höfðu mikinn metnað til að standa sig vel. Seinna í vetur mun síðan fara fram upplestrarkeppni milli allra skólanna á Snæfellsnesinu.  

Tónvest 2008 í Grundarfirði

      Í ár kemur það í hlut Tónlistarskólans í Grundarfirði að halda Tónvest tónleika sem er árlegt samstarfsverkefni tónlistarskóla á Vesturlandi. Snið tónleikanna/verkefnisins er þó svolítið frábrugðið því sem verið hefur undanfarin ár en í þetta sinn er það styrkt að hluta af Menningarráði Vesturlands.      

Foreldrafélag leikskólans auglýsir bíósýningar í Sögumiðstöðinni

Bíósýningar í Sögumiðstöðinni sunnudaginn 2. mars. Sýning fyrir krakkana á Músadeild hefst  kl. 15:00 í Sögumiðstöðinni (Skoppa og Skrítla). Sýning fyrir krakkana á Drekadeild hefst kl. 16:00 í Sögumiðstöðinni (Benedikt búálfur). Aðgangur ókeypis, popp og svali í boði foreldrafélagsins.  

Félagsgjöld foreldrafélags leikskólans

Kæru foreldrar, Nú er komið að því að innheimta félagsgjöld foreldrafélagsins vegna skólaársins 2007-2008. Félagsgjöldin eru 3000 kr á barn. Þann 1. apríl verða félagsgjöldin sett í innheimtu, við hvetjum foreldra til að greiða gjaldið beint inn á reikning foreldrafélagsins fyrir þann tíma og losna þar með við að greiða seðilgjald, sem er 250 kr. Gjaldið er 3.000 kr. á fyrir barn. Ef einhverjir foreldrar eru með fleiri en tvö börn á leikskólanum þá munu þeir eingöngu borga fyrir tvö. Reikningsnúmerið á reikningi foreldrafélagsins er:             RNR: 0191-05-70221             Kennitala: 431094-2669 Ógreidd félagsgjöld þann 31.mars verða send í innheimtu 1. apríl hjá Landsbanka Íslands. Stjórn foreldrafélagsins Þórdís Anna, Guðrún Jóna, Jóhanna, Sólberg og Inga Rut

Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni "Northern Wave" lokið

Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni "Northern Wave" lauk síðdegis í dag með verðlaunaveitingum.  Stuttmyndin "Maidday Cowboy" eftir Alberto Blanco hlaut fyrstu verðlaun.  Dómnefndin sagðist hafa átt erfitt með að gera upp hug sinn þar sem svo margar frábærar myndir hefðu keppt.  Í flokki tónlistarmyndbanda varð myndin "Pink Freud" hlutskörpust og fékk fyrstu verðlaun.  Mark Berger Oscarsverðlaunahafi færði Dögg Mósesdóttur þakkir fyrir þetta sérstaka framtak að efna til alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Grundarfirði og óskaði henni og hátíðinni velfarnaðar.  Fjölmargir erlendir og innlendir gestir sóttu hátíðina, þar á meðal allmargir kvikmyndagerðarmenn sem áttu myndir á hátíðinni.  Vonast er til þess að hátíðin verði árlegur viðburður hér eftir. Hér má sjá nokkrar myndir sem Gunnar Kristjánsson tók á hátíðinni.   Hér er slóð inn á frétt um hátíðina á vef Skessuhorns: http://www.skessuhorn.is/Default.asp?sid_id=24845&tId=99&Tre_Rod=001|002|&fre_id=68512&meira=1

Alþjóðleg kvikmyndahátíð hófst í Grundarfirði í dag

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin "Northern Wave" hófst með stuttri athöfn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði í dag.  Þórey Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar, bauð gesti velkomna og rakti í stuttu máli aðdraganda hátíðarinnar og færði Dögg Mósesdóttur þakkir fyrir frumkvæðið hennar, framtakið og dugnaðinn við að koma hátíðinni á.  Sömuleiðis færði Þórey erlendum gestum þakkir fyrir að koma um langan veg til hátíðarinnar sem og öðrum gestum og dómurum.  Veitt verða verðlaun í nokkrum flokkum stuttmynda.  Hátíðin hófst með sýningu á stuttmyndinni "La Tierra Yerma" eftir Alfredo Vera.  Á morgun, laugardaginn 23. febrúar, mæta nokkrir erlendir höfundar stuttmynda á hátíðina og kynna verk sín.  Fyrir utan kvikmyndir verða tónleikar, "Masterclass" með Mark Berger og spjall kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi.  Á hátíðinni eru nokkrir flokkar kvikmmynda og má sem dæmi nefna; dramatískar myndir, tónlistarmyndbönd, grínmyndir, vestri, hryllingsmyndir, tilraunamyndir, hreyfimyndir og dramatískar stuttmyndir.  Kvikmyndirnar eru bæði eftir innlenda og erlenda höfunda.  Allir finna eitthvað við sitt hæfi.  Kvikmyndasýningar hefjast kl. 13 á laugardag og sunnudag.  Hátíðinni lýkur með verðlaunaveitingum sunnudaginn 24. febrúar kl. 16.00.