Búið að bora 300 metra

Borun vinnsluholu fyrir hitaveitu við Berserkseyri gengur vel. Í dag, 1. apríl, er búið að bora liðlega 300 m og styttist í að borinn hitti á fyrri æðina, sem er talin liggja á 340 m dýpi. Holan hefur verið fóðruð í 174 metrum. Enn hefur ekkert vatn komið inn í holuna og er því frekar þungt að ná svarfinu upp en þrátt fyrir það gengur verkið vel að sögn bormanns á svæðinu. Rétt í þessu er verið að hallamæla holuna.

Ölkeldudalur lýstur upp

Starfsmenn RARIK vinna nú að því að setja upp ljósastaura fyrir Grundarfjarðarbæ, en staðið hefur til í nokkurn tíma að fá þessa lýsingu upp á hinum nýja Ölkelduvegi. Settir verða upp 14 ljósastaurar á Ölkelduvegi, 1 efst á Hrannarstíg og 3 staurar efst á Borgarbraut gegnt Grunnskóla og íþróttahúsi. Ennfremur verða setter upp 3 minni staurar við göngustíg á milli Grundarfjarðarkirkju og Dvalarheimilis og íbúða eldri borgara, til að bæta lýsingu á því svæði.  

Húðsjúkdómalæknir á Snæfellsnesi

Gísli Ingvarsson húðsjúkdómalæknir mun frá og með apríl mánuði verða með móttöku á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar. Hann gerir ráð fyrir að koma með reglulegu millibili næstu mánuði, en fyrsta móttakan verður föstudaginn 8. apríl nk. Tekið er á móti  tímapöntunum á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar í síma: 438-6682. 

Harðbakur í Grundarfjarðarhöfn á 30 ára afmælisdeginum

Harðbakur EA-3 landaði í dag rúmum 100 tonnum af karfa til vinnslu hjá Guðmundi Runólfssyni. Skipið kemur hér í höfn á þeim degi er 30 ár eru liðin frá því að hann kom fyrst til landsins, þá í eigu ÚA. Harðbakur EA er 68 metra langt stálskip, smíðað á Spáni.   Skipverjar fengu tertu í tilefni dagsins, en það er útgerðarfyrirtækið Brim hf. sem á skipið í dag.  

Greiðsluseðlar fasteignagjalda

Þau mistök urðu að greiðsluseðlar vegna 2. gjalddaga fasteignagjalda voru sendir út bæði af Grundarfjarðarbæ sem og KB banka. Greiðendur eru beðnir velvirðingar og að sjálfsögðu þarf ekki að greiða nema annan seðilinn. Það er Grundarfjarðarbær sem sér um innheimtuna í ár og sendir út seðlana.    

Breyting á sveitarstjórnarlögum – atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga

Alþingi samþykkti þann 22. mars sl. ný lög um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Lögin fela það í sér að atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga fer fram laugardaginn 8. október 2005, í stað 23. apríl nk., eins og áður hafði verið gert ráð fyrir í svstjl. Kosið verður um tillögur sameiningarnefndar sem skipuð var af félagsmálaráðherra og með fulltrúum tilnefndum af Sambandi ísl. Sveitarfélaga, en nefndin lagði m.a. til að kosið yrði um sameiningu Eyja- og Miklaholtshrepps, Snæfellsbæjar, Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar.    

Tölfræði um íbúafjölda í Grundarfirði

  Á síðustu fimmtán árum, frá 1990, hefur íbúum í Grundarfirði fjölgað úr 817 í 938, eða um 14,8%. Íbúar voru flestir 967 talsins árið 2002.   Hlutfall íbúa fimmtán ára og yngri í Grundarfirði er með því sem hæst gerist í sveitarfélögum landsins og það hæsta af stærstu sveitarfélögunum á Vesturlandi, en 28% íbúa í Grundarfirði eru 15 ára og yngri.   Íbúum 67 ára og eldri hefur fjölgað úr 34 í 69, eða úr 4% í 7% af heildaríbúafjölda á 14 árum.

Páskamót Hesteigendafélags Grundarfjarðar

Þátttakendur í barnahring: Aftari röð: Svana Björk, Sandra Rut, Rakel Mirra, Harpa Lilja og  Fanney. Fremri röð: Helena Líf, Brynja Gná, Arna Jara og Freyja Líf. Á myndina vantar Sigurð Heiðar.  Árlegt páskamót Hesteigendafélag Grundarfjarðar var haldið í gær, annan dag páska. Mjög góð mæting var á mótið og var húsfyllir í Fákaseli! Á myndinni hér að ofan má sjá yngstu knapa mótsins sem stóðu sig með prýði í „barnahring“. Í barnahring er ýmist er teymt undir börnunum eða þau tvímenna með foreldrum sínum. Níu stelpur og einn strákur tóku þátt í hringnum að þessu sinni og fengu þau páskaegg fyrir þátttökuna.   Verðlaun á mótinu voru í boði Sjóvá - Almennra hf.

Hlýindi á páskum

Hlýindi hafa einkennt Páskaveðrið í Grundarfirði, eins og víðar um land. Hiti hefur verið um 8-12°C síðustu daga, en nokkur úrkoma. Margir hafa notað frídagana til útivistar, vinsælt er að ganga eftir reiðveginum sem teygir sig alla leið frá hesthúsahverfi vestan þéttbýlisins og út fyrir Kverná, austan byggðarinnar. Kirkjugestir tóku Páskadaginn snemma því messað var í Grundarfjarðarkirkju kl. 9 og minnst upprisu Jesú. Messað var í Setbergskirkju Föstudaginn langa og sameiginleg athöfn var með Ólsurum og Grundfirðingum í Ólafsvíkurkirkju á Skírdagskvöldi.

Bæjarstjórn Grundarfjarðar

Meirihlutasamstarfi Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Grundarfjarðar hefur verið slitið, en samstarf hefur verið með flokkunum í um ellefu ár. Þreifingar eru hafnar um myndun nýs meirihluta. Sjálfstæðismenn eiga þrjá fulltrúa í bæjarstjórninni, Framsóknarmenn tvo, listi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og óflokksbundinna í Grundarfirði  á einn fulltrúa og J-listi óháðra í Grundarfirði á einn fulltrúa.