Útskrift frá Leikskólanum Sólvöllum

Útskriftarnemendur á leið í skrúðgöngu í veðurblíðunni í gær.Í gær, Þriðjudaginn 31. maí, var útskrift í Leikskólanum Sólvöllum. Í ár voru útskrifaðir 13. nemendur. Athöfnin fór fram í samkomuhúsinu þar sem útskriftanemendur mættur ásamt foreldrum sínum og öðrum ættingjum. Þau settu upp hatta sem þau höfðu búið til, foreldrafélagið gaf þeim rós og þeim var afhent ferlimappa. Eftir athöfnina í samkomuhúsinu var farið í skrúðgöngu út í Kaffi 59 þar sem krakkanna beið pizzuveisla.

Skólaslit

Skólaslit Grunnskóla Grundarfjarðar og Tónlistarskóla Grundarfjarðar verða í íþróttahúsinu fimmtudaginn 2. júní nk. kl. 18:00. Opið hús verður í skólanum frá kl. 16:00 þar sem verk nemenda verða til sýnis og foreldrafélagið verður með kaffisölu. Sýningin og kaffisalan verður opin fram að skólaslitum og aftur eftir þau.   Foreldrar og aðrir velunnarar skólans velkomnir!Skólastjóri 

Frá Norska Húsinu í Stykkishólmi

Laugardaginn 4. júní nk. kl. 15.00 opnar Ástþór Jóhannsson sýningu á vatnslitamyndum af forystusauðum og ber sýningin heitið “Horfnir veðurvitar”. Þar verða sýnd 40 verk sem unnin eru upp úr lýsingum af forystufénaði úr safni Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp. Á opnunardaginn leikur Sigurður Halldórsson sellóleikari verk eftir íslensk tónskáld. Sýningin stendur til 26. júní n.k.

Heimsókn stórmeistara í skák í Grunnskóla Grundarfjarðar

Á dögunum stóð Hrókurinn fyrir heimsókn í Grunnskóla Grundarfjarðar. Stórmeistarinn danski, Henrik Danielsen, kom og tefldi fjöltefli við nemendur í 3. - 9. bekk. Gríðarlegur áhugi var hjá nemendum og tefldi Henrik við rúmlega 70 nemendur. Engum tókst að sigra stórmeistarann en nokkrir náðu jafntefli - taka ber fram að það jafntefli bauð stórmeistarinn vegna tímaskorts og þeir sem þáðu gerðu það fyrir kurteisissakir.

Sumartími á bókasafninu

Frá 1. júní til 17. ágúst verður bókasafnið opið á fimmtudögum frá kl. 13 til 18. Foreldrar! Nú er skólinn að verða búinn. Verið dugleg að hjálpa börnunum að finna bækur sem á að skila. Hægt er að skila bókum í kassa í andyri bókasafnsins í júní meðan starfsfólk er við vinnu.

Mikið um að vera í Leikskólanum Sólvöllum undanfarið

Lögregluheimsókn Gísli að fræða börnin um notkun öryggisbelta og hjólahjálma Gísli Guðmundsson, lögregluþjónn í Grundarfirði, kom í heimsókn í leikskólann föstudaginn 27. maí sl. Hann sagði nemendum leikskólans frá mikilvægi þess að nota öryggisbelti í bíl og hjálma þegar hjólað væri. Einnig benti hann þeim á það að þau ættu ekki að hjóla á götunni. Að lokum fengu börnin að skoða löggubílinn og heyra í sírenunni.

Ársskýrsla Framkvæmdaráðs Snæfellsness 2005

Ársskýrsla Framkvæmdaráðs Snæfellsness fyrir árið 2005 er komin út. Skýrsluna má sjá í heild sinni hér. 

Sundlaugin lokuð

Vegna námskeiðs starfsmanna sundlaugar verður hún lokuð í dag, 29. maí. Beðist er velvirðingar á að lokunin var ekki tilkynnt fyrr.    

Fáni Green Globe, Frakklandsferð og fleira

Nokkrir punktar tengdir starfsemi bæjarins: Fána Green Globe 21 verður flaggað í sveitarfélögum á Snæfellsnesi í sumar. Sveitarfélögin eru þátttakendur í verkefni og stefnumótun um sjálfbæra þróun og er verkefnið vottað af samtökunum Green Globe 21.  

Ný hafnarvog í Grundarfjarðarhöfn

Ný hafnarvog er væntanleg í Grundarfjarðarhöfn og er verið að undirbúa komu hennar þessa dagana. Búið er að fjarlægja gömlu vogina og í dag var steypt yfir planið þar sem hún var staðsett. Nýja vigtin verður sett niður á sama stað og sú eldri var en hún er ofanáliggjandi, en ekki niðurgrafin eins og sú gamla. Nýja vigtin kemur ofan við og meðfram húsi hafnarvogar.