Erum við tilbúin til þess að taka á móti sumrinu ??

Stórt er spurt og e.t.v. ekki alveg ljóst hvað spyrjandi á við.  Málefnið varðar tiltekt, fegrun og snyrtingu á umhverfi okkar.  Er byggðin öll komin í sumarbúning ?  Er allt í því horfi sem við viljum kynna sveitarfélagið okkar ?  Þegar talað er um umhverfi, er ekki eingöngu átt við opin svæði í náttúrunni, miklu frekar er átt við byggðina sjálfa.  Höfum við tekið til og hreinsað við húsin okkar ?  Eru athafnasvæði fyrirtækja í góðu lagi ?  Svörin eru örugglega jafn mörg og húsin og lóðirnar eru.  Margir eru til hreinnar fyrirmyndar og rækta sinn garð af mikilli umhyggjusemi og natni, en inn á milli þarf að bæta í.

1. maí baráttudagur verkalýðsins

Eins og venjulega standa Verkalýðsfélag Snæfellinga og starfsmannafélag Dala- og Snæfellsness S.D.S fyrir dagskrá á 1. maí. Dagskráin verður í samkomuhúsinu og hefst kl.14.30.   Lúðrasveit tónlistaskólans leikur ásamt fleiri atriðum tónlistaskólans. Ávarp. Dóri Palla kemur í heimsókn. Kaffiveitningar. Félagar og aðrir velunnarar launaþega velkomnir.

Komdu í land

Fundur áhugafólks um væntanlegan handverks- og íslenskan framleiðslumarkað verður haldinn 4. maí kl. 20.00 í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði. Allir velkomnir.

Fundur um fuglaskoðunarferðaþjónustu

Fimmtudaginn 30. apríl kl. 20:00 verður fundur í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði. Þar munu valinkunnir aðilar kynna möguleika í fuglaskoðunarferðamennsku.

Vorsýning í leikskólanum Sólvöllum.

Vorsýning og kaffisala foreldrafélagsins verður í leikskólanum í dag milli klukkan 16 og 17:30. Og eru allir velkomnir.

Vinnuskólinn sumarið 2009

Vinnuskólinn mun hefja starfsemi miðvikudaginn 3. júní 2009. Vinnuskólinn starfar í tveimur tímabilum, fyrra tímabilið verður frá 3. júní til 7. júlí að báðum dögum meðtöldum. Seinna tímabilið verður frá 30. júní til 30. júlí að báðum dögum meðtöldum. Þátttakendum verður skipt niður á tímabil eftir að skráningu lýkur. Unnið verður mánudaga til fimmtudaga kl. 08:30-12:00. Vinnuskólinn er fyrir börn fædd árin 1993, 1994 og 1995.   Klæðnaður skal hæfa veðráttu og eðli vinnunnar. Helstu verkefni verða fegrun umhverfisins og vinna tengd gróðri.   Skráning fer fram á bæjarskrifstofunni, Grundargötu 30 og lýkur þann 22. maí.   Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá umsjónarmanni í síma 695 2198.   Vinnuskóli Grundarfjarðarbæjar.

Svæðisútvarp Vesturlands og Vestfjarða

Þriðjudaginn 5. maí n.k. hefjast útsendingar Svæðisútvarps Vesturlands og Vestfjarða á vegum Ríkisútvarpsins. Um langt skeið hefur verið haldið úti öflugum svæðisútsendingum á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum. Ítrekað hafa komið fram óskir frá íbúum Vesturlands að njóta sömu þjónustu. Nú hefur verið ákveðið að verða við þessum óskum og koma á sameiginlegum svæðisútsendingum fyrir hluta Vesturlands og Vestfirði. Í fyrsta áfanga ná útsendingarnar yfir norðanvert Snæfellsnes, þar með talið þéttbýlisstaðina Rif, Hellissand, Ólafsvík, Grundarfjörð og Stykkishólm, og alla Dalasýslu. Í framhaldinu verður hugað að því að breyta útvarpssendum þannig að útsendingin náist á sunnanverðu Snæfellsnesi og í Borgarfirði.  

Tilvera styrkir danskennslu í Grundarfirði

Í mars var boðið upp á danskennslu fyrir alla árganga í Grunnskóla Grundarfjarðar og tókst hún mjög vel í alla staði . Tilvera  styrkti verkefnið að hluta en fyrir allnokkrum árum tóku nokkrir foreldrar í bænum sig saman og stofnuðu hóp sem sem hafði það verkefni að styrkja fræðslu og forvarnir fyrir unglinga í Grundarfirði.  Fjölmargir aðilar komu að þessu verkefni með góðum árangri og má þar nefna, sálfræðinga, lækna, þjóna, hjúkrunarfræðinga, lögreglu, hársnyrta og snyrtifræðinga, danskennara, félags- og námsráðgjafa og forvarnarfulltrúa.  Foreldra unnu ötullega og voru vakandi yfir velferð unglinganna okkar. Fór svo að  hópurinn fékk foreldraverðlaun Heimilis og skóla. 

Opnunartími sundlaugar

Sundlaugin verður opin fyrst um sinn þannig:  Mánudaga til föstudaga verður opið á morgnana frá kl. 07 til kl. 08.  Síðdegis verður opið frá kl. 16 til kl. 20.  Laugardaga og sunnudaga og á frídögum verður opið frá kl. 13 til kl. 17. 

Kosið verður í Grunnskóla Grundarfjarðar

Alþingiskosningar verða laugardaginn 25. apríl n.k. eins og kunnugt er.  Að þessu sinni fer kosningin fram í Grunnskóla Grundarfjarðar.  Kjörfundur hefst kl. 10.00 og stendur til kl. 22.00.  Kjósendur þurfa að muna eftir að hafa skilríki með því þeir geta búist við því að verða krafðir um þau í kjördeildinni.   Þeir sem ekki verða heima á kjördag geta kosið utankjörfundar hjá embætti sýslumanns Snæfellinga á opnunartíma skrifstofunnar í Grundarfirði.  Einnig er hægt að kjósa á skrifstofu sýslumanns í Stykkishólmi og víðar.