Samkeppni um rafrænt samfélag

Samkeppni um rafrænt samfélag er lokið. Tvö verkefni hafa verið valin til þátttöku í þróunarverkefni, sem mun standa í þrjú ár. Að þessum verkefnum standa annars vegar sveitarfélögin Árborg, Hveragerði og Ölfus, undir verkefnaheitinu "Sunnan 3", og hins vegar sveitarfélögin Aðaldælahreppur, Húsavíkurbær og Þingeyjasveit, undir verkefnaheitinu "Virkjum alla."   Tvö önnur verkefni voru í samkeppninni; ,,Tæknibærinn – Grundarfjörður” og verkefni frá Snæfellsbæ.   Sjá nánar fréttatilkynningu frá Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu  

Snæfellnes - vottaður umhverfisvænn áfangastaður

Í síðast liðinni viku voru tekin fyrstu skrefin í undirbúningsferli því sem liggur að baki vottun á Snæfellsnesi sem umhverfisvænum áfangastað í ferðaþjónustu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.   Stýrihópur verkefnisins hélt kynningu fyrir sveitarstjórnarmönnum í hverju sveitarfélagi, embættismönnum og fólki úr atvinnulífinu dagana 15., 16. og 17. september 2003.  Þau eru Reg. Easy, forstjóri vottunarsviðs Green Globe 21; Kym Norman framkvæmdastjóri Ethos ráðgjafafyrirtækisins sem veitir ráðgjöf varðandi umhverfismál, markaðssetningu og viðskipti; Guðrún G. Bergmann, ferðamálafræðingur og ráðgjafi og Guðlaugur Bergmann, verkefnisstjóri og ráðgjafi.  

Göngur og réttir

Réttað verður í Eyrarsveit n.k. laugardag 20. september, að þessu sinni að Mýrum og Hömrum. Aðrar göngur fara fram laugardaginn 4. október n.k. og réttað sama dag.

Fjölbrautaskóli Snæfellingar

Fjölbrautaskóli Snæfellinga mun taka til starfa haustið 2004 og verður skólabyggingin staðsett við Grundargötu í Grundarfirði,  samkvæmt samkomulagi sveitarfélaganna á norðanverðu Snæfellsnesi.  Skólanum er ætlað að vera leiðandi í breyttum námsháttum með notkun upplýsingatækninnar.  Er áætlað að nemendur verði alls um 170 talsins, fyrstu tvö skólaárin verði í boði haustið 2004, þriðja árið bætist við haustið 2005 og það fjórða 2006.   

Kostnaðaþátttaka vegna tónlistarskólanema á framhaldsskólastigi

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 11. sept. s.l. að taka þátt í kostnaði vegna nemenda í tónlistarnámi á framhaldsskólastigi í Reykjavík.   Grundarfjarðarbær tekur þátt í greiðslu kostnaðar við tónlistarnám í Reykjavík að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:          a)  Nemandi eigi lögheimili í Grundarfirði.         b)  Nemandi stundi nám í tónlistarskóla á framhaldsskólastigi þ.e. 6.–8. stigi.2.  Grundarfjarðarbær greiðir ekki niður skólagjöld.  Grundarfjarðarbær tekur þátt í greiðslu á hluta sveitarfélagsins í skólakostnaði og greiðir með hverjum nemanda, að hámarki, upphæð sem svarar meðaltalsframlagi til Tónlistarskóla Grundarfjarðar fyrir hvern nemenda.3.  Reglur þessar gilda til næstu áramóta og verða þá teknar til endurskoðunar.   

Veðurmælingar

Veðurstofan er búin að setja upp veðurmælinn í Grafarlandi sem sagt var frá í bæjardagbókinni 10. sept. sl.. Hægt verður að fylgjast með hitastigi, vindhraða og úrkomu í Grundarfirði á vedur.is.  

Brúum bilið, samstarf Leikskólans Sólvalla og Grunnskóla Grundarfjarðar

Í 5. tölublaði , Skólavörðunnar, blaðs Kennarasambands Íslands birtist grein rituð af Sigríði Herdísi Pálsdóttur, leikskólastjóra og Matthildi Guðmundsdóttur, aðstoðarleikskólastjóra um reynslu þeirra af samstarfi leikskóla og grunnskóla í Grundarfirði.  

Afmæli bæjardagbókarinnar

29. ágúst sl. var eitt ár liðið síðan fyrsta grein bæjardagbókarinnar birtist á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar. Á því ári sem liðið er hafa birst 184 fréttir.   Senn mun ný heimasíða leysa  núverandi heimasíðu af hólmi. Samið hefur verið við Nepal hugbúnað ehf. í Borgarnesi um hönnun og uppsetningu síðunnar.

Útboð á endurnýjun grjótvarnar milli litlu- og stórubryggju

Hafnarstjórn Grundarfjarðarhafnar og Siglingastofnun munu auglýsa nú um helgina útboð á endurnýjun grjótvarnar milli litlu og stórubryggju. Verkið fellst m.a. í að fjarlægja núverandi grjótvörn, sprengja eða fleyga stallinn fram við núverandi grjótvörn, endurraða grjótvörn og bæta nýju grjóti utan á eldri grjótvörn. Verklok skal verða eigi síðar en 1. desember n.k.  

Veðurathugunarstöð í Grundarfirði

Fyrir nokkrum dögum komu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands til Grundarfjarðar til þess að kanna mögulega staðsetningu á sjálfvirkri veðurathugunarstöð til vind- og úrkomumælinga.  Skoðuðu þeir nokkra staði og telja hentugastu staðsetninguna vera á túninu við Grafarbæina.   Fyrirhugað er að stöðin verði sett upp á næstu mánuðum.