Áramótakveðja frá bæjarstjóra

Þegar árið 2009 er rétt um það bil að kveðja leitar hugurinn yfir atburði og starfsemi ársins.  Margs er að minnast á viðburðaríku ári og verða því e.t.v. gerð einhver skil síðar, en á þessari stundu vill bæjarstjóri koma eftirfarandi á framfæri:   Dugnaður og trúmennska starfsmanna bæjarins við þær aðstæður sem sköpuðust eftir efnahagshrunið er aðdáunarverð.  Bæjarstjóri sendir öllu samstarfsfólki hjá Grundarfjarðarbæ kveðjur og þakkir við þessi tímamót með ósk um að samstarfið verði gott og gefandi á nýju ári.   Bæjarstjóri þakkar bæjarstjórninni fyrir einstaklega góða samstöðu og samstarf við erfiðar aðsæður.   Ekki síst vill bæjarstjóri þakka íbúum Grundarfjarðar fyrir þolinmæði og gott samstarf við þær aðsæður að nauðsynlegt reyndist að þrengja að þjónustunni á ýmsum sviðum.  Með sömu samstöðu og samhug mun okkur takast að vinna bug á kreppunni.   Öllu samstarfsfólki á Snæfellsnesi og annars staðar eru sendar þakkir fyrir samstarfið og óskir um gott gengi á nýju ári.   Gleðilegt nýtt ár öllsömul og innilegar þakkir fyrir samstarfið á árinu 2009.   Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, bæjarstjóri.

Jólaball foreldrafélagsins

Jólaball verður þann 3. janúar 2010. Sjá nánar hér. 

Gamlárshlaup 2009

Það er tilvalið að kveðja gamla árið með hollri hreyfingu í góðum félagsskap og skora jafnvel á sjálfa(n) sig í leiðinni! Þess vegna er efnt til Gamlárshlaups 31. desember n.k. Sjá nánar hér 

Opnunartími á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar um áramótin

Skrifstofa Grundarfjarðarbæjar verður lokuð fimmtudaginn 31. desember og mánudaginn 4. janúar næstkomandi vegna áramótahátíðar og tiltektar.  Aðra virka daga verður opið eins og venjulega.

Lúðrasveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Kemur fólki í jólaskap með ljúfum jólatónum í Samkaupum klukkan 17:00 á morgun 23. desember Þorláksmessu. 

Brautskráð frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Frétt á vef Skessuhorns 22. desember 2009: Föstudaginn 18. desember brautskráði Fjölbrautaskóli Snæfellinga 12 nemendur, alla með stúdentspróf.  Af náttúrufræðibraut útskrifuðust þau Hafdís Guðrún Benediktsdóttir og Njáll Gunnarsson. Af félagsfræðabraut Ágúst Ingi Guðmundsson, Ása Gunnarsdóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Magnús Már Leifsson, Maria Joao de Jesus Neves, Ólöf Rut Halldórsdóttir, Steinunn Alva Lárusdóttur og Unnur Lára Ásgeirsdóttir. Tveir nemendur útskrifuðust með viðbótarnám til stúdentprófs; þau Edda Baldursdóttir og Tómas Freyr Kristjánsson. 

Pub Quiz nr 8 í kvöld

Í kvöld, þriðjudaginn 22. des. fer fram á Kaffi 59 Pub Quiz nr 8 og er þemað að þessu sinni Grundarfjörður.    Við hefjum leik kl. 21:00 og aðgangur er aðeins kr. 500 sem rennur óskiptur til Meistaraflokks karla í knattspyrnu.   Gummi Gísla og Gunni Kristjáns hafa verið sveittir undanfarna daga við að semja spurningar fyrir þennan stórfenglega viðburð.   Við hvetjum alla til að mæta með jólaskapið og lyfta sér upp svona rétt fyrir jólin.   Meistaraflokksráð.

Bæjarstjórn skorar á dómsmálaráðherra

Eftirfarandi ályktun var gerð föstudaginn 18. desember s.l.   "Bæjarstjórn Grundarfjarðar  lýsir þungum áhyggjum af boðuðum niðurskurði  hjá  Sýslumanni Snæfellinga.   Bæjarstjórnin  ítrekar fyrri ályktanir og mótmælir því að niðurskurður á þjónustu hins opinbera skuli fyrst og fremst verða á landsbyggðinni.   Bæjarstjórn Grundarfjarðar mótmælir harðlega ákvörðun um lokun umboðsskrifstofu sýslumannsembættisins í Grundarfirði  frá áramótum  og telur að ákvörðunin sé ekki byggð á faglegum forsendum heldur sé um tilviljanakennda ákvörðun að ræða. Dagleg opnun umboðsskrifstofunnar í Grundarfirði hefur mælst mjög vel fyrir og verið vel nýtt af íbúum í fjölbreyttum erindagjörðum. Lokun skrifstofunnar ýtir sparnaði embættisins yfir á almenna íbúa í Grundarfirði og eykur kostnað þeirra. Bæjarstjórnin skorar á sýslumann að endurskoða þessa ákvörðun með hliðsjón af þörfum og  þjónustu við íbúa. Boðuð fækkun í löggæsluliði yfir vetrartímann um 25% á þessu víðfeðma landsvæða minnkar öryggi íbúa svæðisins og lengir viðbragðstíma lögreglunnar verulega. Bæjarstjórnin telur að nú þegar sé allt of langt gengið  í niðurskurði á löggæslu á svæðinu.   Bæjarstjórn Grundarfjarðar skorar á dómsmálaráðherra  og fjárveitingavaldið að endurskoða fjárveitingar til embættis Sýslumanns Snæfellinga."

Tilkynning

Vegurinn í Kolgrafafirði er farinn í sundur sunnan við mótorkrossbrautina. Þeir sem eiga leið þar um eru beðnir að fara með gát. 

Jólatónleikar tónlistarskólans

Jólatónleikar tónlistarskólans verða haldir í kvöld í hátíðarsal FSN klukkan 19:30. Ljúfir tónar, ljúf stemning. Allir velkomnir.